Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Við erum öll í sama liðinu hvort sem okkur líkar betur eða verr
Mynd / smh
Skoðun 26. september 2019

Við erum öll í sama liðinu hvort sem okkur líkar betur eða verr

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir formaður Bændasamtaka Íslands - gst@bondi.is

Þrátt fyrir vitundarvakningu um umhverfis- og loftslagsmál og vanda­málin sem mannkyn stendur frammi fyrir vegna vaxandi losunar gróðurhúsalofttegunda heldur útblástur þeirra áfram að aukast. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO)

Aukningin hefur verið meiri síðastliðin fimm ár en sama árafjölda þar á undan. Þrátt fyrir að við vitum betur virðist erfitt að ná utan um viðfangsefnið. Hérlendis er þetta sambærilegt, loftslagsmálin eru mikið í umræðunni þar sem rætt er um mikilvægi þess að grípa til aðgerða á meðan að útblástur eykst.

Vandinn stækkar

Í losunarbókhaldi gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands, sem mæld eru í hitunargildum (CO2 -ígilda) eftir atvinnugreinum á árabilinu 1996 til 2018, eru birtar losunartölur meðal annars frá matvælaiðnaði, heimilum og flutningum í lofti og láði. Athyglisvert er að sjá samanburðinn og hvar losun eykst og hvar hún dregst saman.

Það er alveg ljóst að ef mannkynið tekst ekki á við þessar breytingar þá verður vandinn stærri og stærri. Það verður ekki á færi eins lands, einnar ríkisstjórnar, einstakrar atvinnugreinar, eins heimilis eða einstaklings að breyta um stefnu. Kannski er það mikilvægasta að viðurkenna að við þurfum öll að takast á við þessa áskorun hvert í okkar atvinnugrein, á okkar heimili í okkar lífi. Lönd og ríkisstjórnir verða að vinna saman að sameiginlegu markmiði. Við megum ekki við því að reyna að finna aðra sökudólga til að geta firrt sjálf okkur ábyrgð. Fjöldamargar ráðstefnur hafa verið haldnar, yfirlýsingar hafa verið birtar og áætlanir um minnkun losunar gefnar út. En við þurfum aðgerðir. Aðgerðir í öllum krókum og kimum samfélagsins þar sem hver og einn maður, hver og ein atvinnugrein og hvert og eitt heimili leggur sitt af mörkum. Við getum ekki beðið lengur.

Bændur geta minnkað losun

Í íslenskum landbúnaði eru tækifæri til að minnka losun og bæta nýtingu líkt og í öðrum greinum. Þar þarf sameiginlegt átak bænda, ríkisstjórnar, fyrirtækja og stofnana sem og fræðasamfélagsins til að ná alvöru árangri. Nú þegar eru verkefni í vinnslu sem stuðla að því að minnka metanmyndun í meltingarvegi dýra en það er einn þáttur sem veldur losun. Bætt nýting búfjáráburðar og hagkvæmari áburðarnýting er ein leið sem minnkar loftslagsáhrif landbúnaðar líkt og bætt nýting lífmassa. Margt er hægt að telja til og víða liggja tækifæri til að gera betur. Tækifæri verða þó ekki að neinu nema þau séu nýtt.

Eftir hverju erum við að bíða?

Mikið af þekkingunni er til, verkþekking er að talsverðu leyti til en hvað er það þá sem hamlar? Við vitum öll að breytingar eru á næsta leiti. Hvort sem við tökum frumkvæði og tökumst sameiginlega á við vandann eða neitum að horfast í augu hann þá líður tíminn og við losum meira sem heild. Loftslagsváin er svolítið eins og tíminn, staldrar ekki við og bíður meðan við erum að hugsa. Hún nálgast meir og meir hvort sem við erum tilbúin eða ekki.

Spurningin er: „Hvað erum við að gera og hvað ætlum við að gera?“ Þegar við höfum ákveðið það getum við sett upp plan um það hvernig við ætlum okkur að takast á við framtíðina. Við þurfum þekkingu, rannsóknir og þverfaglega sýn til framtíðar. Við vitum að það verður erfitt að forgangsraða en við verðum að taka sameiginlega ábyrgð með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Skilgreinum saman hvað við viljum gera og finnum leiðina þangað. Við sköpum samfélögin sem við viljum búa í með nútíðina og framtíðina í huga en lærum af fortíðinni. Togstreita milli atvinnugreina, samfélags og stjórnmála skilar okkur engu til frambúðar. Það er sama hvernig á það er litið – við erum öll í sama liðinu hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Matvælastefna er nauðsyn

Í þessu samhengi er veruleg þörf á því að við Íslendingar náum samkomulagi um það hvernig landbúnað við viljum sjá á Íslandi og hvernig við ætlum að haga honum. Viljum við vera sjálfum okkur nóg um framleiðslu matvæla og hvaða skilyrði eigum við að búa matvælaframleiðslu svo hún verði íbúum þessa lands til heilla? Landbúnaðurinn er mikilvægur hluti innlendrar matvælaframleiðslu og verður það áfram. Hins vegar eru margir áhrifaþættir sem geta skorið úr um hvernig atvinnugreinin þróast á komandi árum.

Meðal þeirra er sá stuðningur sem bændur fá til þess að framleiða matvæli og tollaumhverfi sem atvinnugreinin býr við. Við sem búum á Íslandi njótum í raun forréttinda þegar við horfum á okkar matvælaauðlindir. Við verðum hins vegar að marka okkur stefnu hvert við viljum fara og hvernig við ætlum að nýta þær. Það skiptir ekki svo miklu máli hvaða leið við veljum ef við vitum ekki hvert förinni er heitið.

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...