Við verðum að nota þessa tækni
Umræðan um kynbætur með aðstoð erfðatækni er hitamál. Sumir segja reynsluna af tækninni of takmarkaða og að það verði að fara varlega í að leyfa hana. Aðrir segja að andstaða við tæknina byggi á misskilningi og vanþekkingu.
Árni Bragason, landgræðslustjóri og sérfræðingur í jurtaerfðafræði og plöntulífeðlisfræði, starfaði sem forstjóri fyrir NorGen eða samnorræna genabankann.
„Í starfi mínu hjá NordGen komu kynbætur, erfðatækni og erfðabreyttar lífverur oft til tals enda hlutverk stofnunarinnar meðal annars að fást við slíkt.“
Hvað eru erfðabreytingar?
„Maðurinn hefur alltaf haft áhrif á erfðir á einn eða annan hátt. Skýrasta dæmið og nærtækast í okkar daglega lífi eru væntanlega hundar, enda búið að breyta hundinum gríðarlega mikið. Það er búið að velja út alls konar vanskapninga til áframræktunar og í sumum tilfellum skelfilegt að sjá útkomuna. Þessum vansköpuðu dýrum er svo haldið saman og úr verður undirtegund sem í sumum tilfellum samanstendur af einstaklingum sem eiga erfitt með að anda og geta ekki lifað án umönnunar manna. Í sumum tilfellum, að mínu mati, ætti að banna þessa ræktun þar sem hún er í raun ekkert annað en dýraníð.
Svipað val á sér stað í jurtakynbótum þegar plöntur með ákveðin útlitseinkenni eru valin til áframræktunar eins og gert er í skrautblóma- og matjurtarækt.
Við jurtakynbætur með erfðatækni er einnig víxlað saman erfðavísum plantna af sömu tegund og í sumum tilfellum erfðavísum ólíkra tegunda til að ná fram ákveðnum einkennum, hvort sem þau eru útlitsleg, aukin uppskera eða þol gegn sjúkdómum og skordýraplágum.
Þegar talað eru um erfðabreyttar lífverur er því átt við lífverur sem eru aldar eða ræktaðar vegna stökkbreytinga eða erfðabreytinga sem hafa gert þær á einhvern hátt öðruvísi hvort sem það hefur átt sér stað í náttúrunni eða með vísindalegum aðferðum.“
Stökkbreytt og erfðabreytt
Þrátt fyrir að í dag séu bakteríur oft notaðar til að ferja gen milli plantna og koma því inn í erfðaefni þeirra þá eru hefðbundnar kynbætur með víxlunum langmest notaðar enn í dag við jurtakynbætur.
Stökkbreyting er hvers kyns arfgeng breyting á röð gena í erfðaefni lífveru, hvort sem hún er komin til vegna geislunar, efnabreytingar, veira, stökkla eða vegna villna við afritun þess.
Erfðabreyttar lífverur eru lífverur þar sem menn hafa flutt erfðaefnið milli lífvera á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og eða við náttúrulega endurröðun.
„Gallinn við geislun er að það er ekki nokkur leið að gera sér grein fyrir útkomunni fyrirfram og það þarf að rækta upp plöntur af öllum fræjunum sem meðhöndluð hafa verið til að skoða útkomuna. Útkoman er oftast drasl því aðferðin er ekkert annað en happa og glappa og veldur dauðlegum skaða á erfðaefni og efnaferlum í fræinu. Við megum þó ekki gleyma því að það hefur komið ýmislegt gott út úr þannig rannsóknum og meðal annars yrkið Mari sem er fljótvaxið og með stutt strá og undirstaðan í byggkynbótum og byggræktun á Íslandi í dag.
„Nýja tæknin, sem er reyndar orðin hátt í fjörutíu ára gömul, felst í því að nota til dæmis bakteríur til að flytja gen milli plantna og það er sú tækni sem margir eru enn hræddir við. Löggjöfin í Evrópu í kringum tæknina, sem Ísland hefur tekið upp, er orðin þrjátíu ára gömul og sett þegar lítið var vitað um möguleika og kosti tækninnar og því löngu úrelt. Stjórnvöld í Evrópu hafa verið, og eru enn, mjög íhaldssöm þegar kemur að breytingum á löggjöfinni og að mínu viti er hluti vandans hræðsla og vanþekking á tækninni.“
Árni segir að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og ásetning hagsmunaaðila hafi ekki enn verið hægt að sýna fram á skaða vegna erfðabreyttra lífvera með vísindalegum rökum.
Roundup-þolnar lífverur
Stórhluti umræðunnar um erfðabreyttar lífverur snýst um það sem kallað er Roundupready eða Roundup-þolnar lífverur. Með því er átt við yrki af plöntum eins og maís eða soja sem eru ónæm fyrir illgresiseitrinu glyphosat sem er virka efnið í Round-Up og fleiri plöntueitrum. Ónæmið gerir að verkum að hægt er að halda illgresi niðri með því að úða glyphosati yfir maís- eða sojaakra án þess að drepa nytjajurtirnar.
Andstæðingar þess að rækta glyphosat-þolnar plöntur segja að notkun á illgresiseitri í landbúnaði hafi aukist í kjölfar ræktunar á þeim þar sem plöntur sem eitrið á að drepa hafi myndað aukið þol gegn því.
Árni segir að þetta sé rétt og að andstaða gegn notkun eiturefna sé skiljanleg en að með þessu sé fólk að blanda saman tveimur ólíkum málum og að leggjast gegn tækni þegar það er í raun að leggjast gegn notkun á eiturefni.
„Að mínu mati verður að útskýra þetta mun betur fyrir fólki en gert hefur verið til þessa. Þegar við borðum eitthvað úr dýra- og plönturíkinu í sömu máltíð erum við að setja í okkur mjög óskyldar lífverur og erfðaefnissúpan sem við innbyrðum er mun fjölbreyttari en til dæmis í erfðabreyttu soja eða maís.
Munur á erfðabreyttu soja og óerfðabreyttu er mjög lítill og mikið minni en öll genasúpan sem við neytum á hverjum degi í fæðu. Og þetta á fólk oft erfitt með að skilja.“
Gen flutt milli tegunda
Annað sem er gagnrýnt í tengslum við erfðabreytingar á lífverum er að stundum eru gen flutt milli óskyldra tegunda og úr verður lífvera sem ekki gæti orðið til við náttúrulegar aðstæður.
„Til að lífvera, hvort sem hún er erfðabreytt eða ekki, lifi þarf hún að vera þannig samansett að allt fari saman. Ef gerð er breyting á þessu grundvallaratriði lífeðlisfræðinnar, eins og stundum vill verða við kynbætur eða stökkbreytingar, drepst viðkomandi einstaklingur. Í sumum tilfellum, eins og með sum hundakyn, er hægt að halda einstaklingum lifandi með hjálp manna en um leið og hætt er að hugsa um hundana drepast þeir. Sama gildir með flestar erfðabreyttar plöntur og þær deyja út á tveimur til þremur árum eftir að afskiptum manna af þeim er hætt.
Valdi breytingin sem gerð er því að viðkomandi einstaklingur fái eitthvað jákvætt og fram yfir aðra í samkeppninni eru allar líkur á því, að minnsta kosti fræðilega, að sú breyting hefði geta átt sér stað við náttúrulega aðstæður.“
Fimm fyrirtæki atkvæðamest í kynbótum
Í dag eru fimm fyrirtæki atkvæðamest á sviði kynbóta í heiminum. Eitt af þessum fyrirtækjum heitir Mosanto og oft notað sem samnefnari um allt slæmt sem tengist kynbótum og rannsóknum á erfðatækni. „Þrátt allt illt umtal um fyrirtækið sýnir það samfélagslega ábyrgð á ýmsum sviðum og styrkir víða góð málefni. Í umræðunni einblína menn á glyphosat-þolnu yrkin og svo að fyrirtækið skuli eiga „höfundarétt“ á fræjum. Sé fyrirtækið aftur á móti greint ofan í kjölinn sést að það er að gera heilmargt gott.
Monsanto er til dæmis mjög framarlega í hefðbundnum kynbótum og þær líklega stærsti hlutinn af kynbótastarfsemi þess.“
Tækni til að brauðfæða heiminn
Árni bindur miklar vonir við erfðatæknina og að notkun á henni verði heimiluð í Evrópu í auknum mæli. „Mannkyninu er að fjölga og ef við ætlum að brauðfæða heiminn í framtíðinni verðum við að notfæra okkur þessa tækni. Gera má ráð fyrir að á næstu fimmtíu árum þurfi að auka matvælaframleiðslu í heiminum um 70% og til að geta það verðum við einfaldlega að nota allt það góða sem erfðatæknin hefur upp á að bjóða. Með erfðatækni er hægt að stytta allt kynbótaferlið, auka uppskeru og þol gegn sjúkdómum, og ná árangri mun hraðar en með hefðbundnum kynbótum.
Erfðatækni getur einnig nýst vel á sviði lífrænnar ræktunar og hrein firra að banna tæknina í tengslum við hana. Að mínu mati er það reyndar fyrst og fremst þar sem erfðatæknin gæti komið fljótt að verulegu gagni.“
Árni segir að þrátt fyrir að ræktun á erfðabreyttum matvælum hafi ekki skilað þeim árangri sem bundin var við hana í fyrstu sé árangurinn samt mikill. „Menn dreymdi stóra drauma í árdaga tækninnar. Upp úr 1980 sáu menn fyrir sér nýja landbúnaðarbyltingu og ofuruppskerur og hægt yrði að brauðfæða heiminn innan nokkurra ára. Menn sáu fyrir sér fjölært hveiti sem gæfi uppskeru ár eftir ár eða að hægt væri að víxla saman melgresi og hveiti og búa þannig til harðgert hveiti.
Vissulega hafa draumarnir ekki ræst en vonin sem bundin var við tæknina var einfaldlega óraunhæf eins og oft vill verða með nýja tækni. Þegar öllu er á botninn hvolft er það lífveran sjálf sem stjórnar ferðinni.“
Evrópa missir af lestinni
„Afstaða stjórnvalda í Evrópu og bann á ræktun á erfðabreyttum lífverum hefur orðið þess valdandi að kynbótafyrirtæki í Bandaríkjunum og Asíu standa kollegum sínum í Evrópu mun framar. Bandarísku og asísku fyrirtækin mega selja erfðabreytt fræ og hagnast vel á því. Undanfarin ár hafa því stór bandarísk kynbótafyrirtæki keypt fjölda evrópskra fræ- og kynbótafyrirtækja og þannig náð undirtökunum á fræmarkið í heiminum.
Slíkt er í sjálfu sér ekki gott og leiðir til þess að örfá fyrirtæki einoka markaðinn. Menn eru að rækta fáar sortir og hætta jafnvel að rækta ákveðin yrki sem verða fyrir vikið ekki lengur fáanleg og slíkt er alls ekki gott fyrir fæðuöryggi heimsins.
Undirstöðufæðutegundum í heiminum er alltaf að fækka og reyndin sú að þrjár plöntutegundir, hrísgrjón, hveiti og maís, standa undir 60% af öllum þeim hitaeiningum sem mannkynið neytir í dag. Og það sem meira er, yrkjunum í ræktun af þessum þremur tegundum er einnig að fækka og erfðagrunnurinn sem fæðuframleiðslan heimsins byggir á að þrengjast.“
Lítill áhugi á jaðarsvæðum
Að sögn Árna hefur þessi þróun mála í Evrópu leitt til þess að fyrirtækjum, sem stunda kynbætur og erfðarannsóknir, hefur fækkað í álfunni.
„Fræmarkaður í heiminum er markaðsvæddur og fyrirtækin sem starfa á þeim markaði hafa lítinn áhuga á að stunda rannsóknir eða kynbætur sem einungis nýtast á jarðsvæðum eins og víða eru í Skandinavíu eða á Íslandi. Við verðum því að standa undir þeim kynbótum sjálf ef við ætlum að viðhalda öflugum landbúnaði á norðurslóðum og þar mun erfðatæknin koma að verulegum notum,“ segir Árni Bragason, landgræðslustjóri og sérfræðingur í jurtaerfðafræði og plöntulífeðlisfræði, að lokum.