Bleikjueldi í sveitinni
Að Hallkelshólum í Grímsnesi er rekið bleikjueldi þar sem eru framleidd seiði og matfiskur. Í stöðinni eru framleidd 250 til 400 þúsund seiði og um 100 tonn af matfiski á ári.
„Upphaflega stóð til að hér yrðu framleidd laxaseiði fyrir laxeldisstöðvar í Noregi, segir Guðmundur Adolfsson, sem á og rekur Fjallableikju til hálfs á móti Jónasi Stefánssyni. „Gísli Hendriksson bóndi á Hallgerðishólum átti 51% í stöðinni á móti 49% hlut norskra aðila. Stöðin var byggð 1986 með það í huga að framleiða 1,5 milljón laxaseiði á ári sem átti að flytja til Noregs til áframeldis.
Framleiðslan gekk vel, búið var að framleiða 1,3 milljónir laxaseiða og skip var 70 mílur frá landi á leiðinni hingað til að flytja þau út þegar Norðmenn breyttu lögum þannig að ekki mátti flytja laxaseiðin þangað lengur. Skellurinn var því rosalegur og Fjallalax, eins og stöðin hét þá, fór á hausinn.“
Matfiskur og seiði
Tilraun var gerð til að endurreisa reksturinn en hann fór aftur í þrot nokkrum árum seinna. Stofnfiskur var með seiðaeldi á Hallkelsstöðum um tíma en síðan stóð stöðin tóm í tvö ár. Guðmundur og Jónas hófu bleikjueldi í húsnæðinu árið 2009 undir heitinu Fjallableikja.
Í dag ræktar Fjallableikja matfisk og seiði fyrir aðrar eldisstöðvar. „Stærstur hluti framleiðslunnar er matfiskur sem er blóðgaður og ísaður hér en unninn á höfuðborgarsvæðinu eins og er.“
Hundrað tonn af matfiski á þessu ári
Halldór Arinbjarnar, fiskeldisfræðingur og stöðvarstjóri, segir að framleiðsla á matfiski verði um hundrað tonn á þessu ári en hafi verið um áttatíu tonn á því síðasta. „Auk matfisks framleiðum við seiði fyrir eldisstöðvar vestur á fjörðum og Klausturbleikju, svo dæmi séu tekin. Þrátt fyrir að framleiðslan sé milli 250 til 400 þúsund seiði á ári er seiðaeldi einungis 10–20% af starfseminni.“
Afurðir matfiskframleiðslunnar eru seldar bæði innanlands og utan. „Á síðasta ári seldist rúmur helmingur afurðanna innan lands en annað var flutt út.
Guðmundur segir að útflutningurinn sé í gegnum þrjá söluaðila og mestur til Þýskalands, Frakklands og Hollands. Eitthvað fari á markað í Noregi enda sé stefna fyrirtækisins að vera á blönduðum markaði. Stærstur hluti framleiðslunnar er sendur út frosinn, annaðhvort sem heill fiskur eða flök. Útflutningur á ferskri bleikju með flugi kemur einnig fyrir.
Að sögn Halldórs eru hundrað tonn af matfiski ágæt tala en að sjálfsögðu væri hann til í að framleiða meira enda hafi þeir aðstöðu til þess. „Stefna hjá okkur er aftur á móti að framleiða líka seiði.“
Seiðin ekki geymd uppi í hillu
„Vandamálið við seiðaframleiðsluna er oft að fá kaupendur til að standa við gerða samninga. Menn panta hjá okkur seiði og leysa þau svo ekki út eða taka ekki við sendingum. Við höfum lent í því að pöntum upp á 100 þúsund fiska hafi ekki verið leyst út og þetta er ekki vara sem hægt er að geyma uppi í hillu.
Það er merkilega erfitt í sumum tilfellum að fá menn til að taka þátt í kostnaðinum við að ala seiðin og hreinlega standa við gerða samninga. Ef slíkt gerist fara seiðin í refafóður,“ segir Guðmundur.
Lausir við sníkjudýr
Fjallableikja fær hrogn frá kynbótastöðinni á Hólum og klekur þau út í seiðasal stöðvarinnar. Á Hólum er unnið mikið kynbótastarf á bleikju og Halldór segir það undirstöðu þess hversu góður eldisfiskur bleikja er.
„Eftir klak eru seiðin flutt yfir í eldissalinn og að lokum í eldisker utandyra. Hrognin berast okkur í janúar eða febrúar og seiðin eru orðin um fimm grömm í ágúst eða september, en sölustærðin á þeim er frá tveimur og upp í 100 grömm. Hitastig vatnsins sem við höfum aðgang að er 6–8 °C og því fremur kalt og ekki hægt að hraða framleiðslunni með því að hækka hitann, sem væri kostur á meðan á seiðaeldisstiginu stendur.“
Halldór segir að Fjallableikja sé einstök stöð að því leyti í seiðaeldi að ekki sé notað formalín, þar sem stöðin sé laus við sníkjudýr. „Við notum eingöngu borholuvatn eða vatn sem kemur sjálfrennandi undan yfirborðinu en ekki yfirborðsvatn.“
Bleikja þolir vel kalt vatn
„Eldi í köldu vatni er ákveðinn kostur vegna minni sýkingarhættu. Bleikja þolir kalt vatn mun betur en lax og vex ótrúlega hratt þrátt fyrir lágt hitastig. Þegar stöðin var byggð var meira af heitu vatni en er í dag. Í dag fer mest af heita vatninu í önnur hús hér í nágrenninu,“ segir Halldór.
Guðmundur segir að frá því að framleiðsla á matbleikju hófst hjá Fjallableikju hafi aldrei borist kvörtun vegna afurðanna. „Dýralæknisembættið hefur nokkrum sinnum tekið stöðina út og við höfum alltaf fegið mjög góða umsögn. Ég tel því að við séum að sinna eldinu vel og að fagmennsku.
Auk þess að vera laus við sníkjudýr er stöðin laus við alla sjúkdóma og við höfum aldrei þurft að nota sýklalyf eða önnur lyf. Fyrsta seiðasendingin sem við fengum 2009 var að vísu sótthreinsuð í formalíni en það er líka í fyrsta og eina skiptið sem við höfum notað það. Þetta er að sjálfsögðu mikill kostur bæði hvað varðar kostnað við framleiðsluna og ekki síst orðspor okkar út á við.“
Guðmundur vill ekki gefa upp hver velta Fjallableikju sé en segir að talsverð upphæð hafi verið lögð í að fjárfesta í tækjum og búnaði undanfarinn ár.
Vinnslan á hrakhólum
„Helsta vandamál fyrirtækisins í dag snýr að vinnslunni og við höfum nánast verið á hrakhólum með flökunina frá upphafi. Það er góðæri í fiskvinnslu og þar sem handflökun á bleikju er seinunnin taka fáir hana að sér. Vinnslan var um tíma í Keflavík, svo í Sandgerði og síðan í Njarðvíkum og er því á talsverðum þvælingi. Í dag erum við komnir á höfuðborgarsvæðið.“
Af þessum sökum erum við komnir með okkar eigin flökunarvél og annan búnað í vinnslu sem við útvegum vinnsluaðila á höfuðborgarsvæðinu. Draumurinn er samt að komast með vinnsluna í húsnæði sem við eigum á Steinhellu í Hafnarfirði en er skilgreint sem iðnaðarsvæði. Húsnæði er innan núverandi þynningasvæðis álversins sem var sett upp vegna skepnuhalds árið 1966 og staði til að breyta í mörg ár,“ segir Guðmundur.
Uppgangur í bleikjueldi
Talsverður uppgangur er í bleikjueldi í dag og framleiðslan á Íslandi sú mesta í heimi. Guðmundur áætlar að heildarframleiðsla á bleikju í heiminum sé um 6.000 tonn og að Íslendingar framleiði um 60% af því með Íslandsbleikju í broddi fylkingar og hátt í helming heimsframleiðslunnar.
Halldór segir bleikju góðan fisk í eldi og mun auðveldari en lax. „Bleikja þolir mun meiri þéttleika en lax og er mun þægilegri í umgengni. Lax er ofvirkur en bleikja er ofurróleg og hæg. Það fer til dæmis ekki allt á annan endann þótt rafmagnið fari af því að bleikja leggst bara á botninn en laxinn fer allur af stað og með talsverðum afföllum.“
Góð aukabúgrein
„Bleikja er kjörinn eldisfiskur,“ segir Guðmundur, „fyrir bændur sem hafa aðgang að góðu vatni og ég hvet þá endilega til að prófa sem aukabúgrein. Ég sé líka fyrir mér að bændur með veitingasölu eða sem selja beint frá býli gætu alið sinn eigin silung. Eldið er enginn galdur og nóg að byrja með eitt eða tvö lítil ker og láta vatn renna í gegnum þau. Í Hala í Suðursveit er til dæmis einvörðungu seld heimaalin bleikja á Þórbergssetrinu.
Við sköffum landeiganda í nágrenni stöðvarinnar nokkur hundruð bleikjur á ári sem sleppt er í vatn hér skammt frá og sumarhúsaeigendur geta rennt fyrir fisk þar. Ég sé fyrir mér að bændur víða um land gætu gert eitthvað svipað og selt veiðileyfi.“
Góður aðgangur að vatni
Fjallableikja hefur gott aðgengi að vatni, hátt í 300 sekúndulítra við bestu skilyrði, og nægt húsnæði og gæti því aukið framleiðsluna talsvert. „Við reynum að fylgja þörfum markaðarins og að okkar mati er sígandi lukka besta leiðin til að ná árangri en ekki að hegða sér eins og svín í hveiti og yfirkeyra sig,“ segir Guðmundur.