Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Líf&Starf 20. mars 2018
Efnahagshrunið var kveikjan að framleiðslu á íslensku sinnepi
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Svava Hrönn Guðmundsdóttir er upprunnin frá Akureyri, en amma hennar átti heima á Árskógsströnd. Hún er lyfjafræðingur að mennt og starfaði við þá grein bæði í Svíþjóð og hér heima þar til hún missti vinnuna í hruninu. Þá sneri hún við blaðinu og fór í skóla og hóf að framleiða sinnep.
Svava sýndi vörur sínar undir nafninu Sælkerasinnep Svövu, ásamt mörgum öðrum matvælaframleiðendum og bændum á matarmarkaði Búrsins í Hörpu um helgina. En hver skyldi hafa verið kveikjan að því að íslenskur lyfjafræðingur ákveður að hefja framleiðslu á sinnepi sem sækir bragð í íslenska náttúru?
„Ég bjó í Svíþjóð í mörg ár þar sem mikil hefð er fyrir að borða sinnep af ýmsum toga með öllu mögulegu. Þegar ég flutti heim vantaði mig sinnep, sem Svíarnir kalla Skánskt sinnep, til að glassera hamborgarhrygginn og sænsku jólaskinkuna. Þá var ekki um annað að ræða en Dijon sinnep eða SS sinnep. Þar sem ég var búin með birgðirnar frá Svíþjóð sagði bóndinn við mig, „getur þú ekki bara gert þetta sjálf?“
Nú, ég vann sem lyfjafræðingur í apóteki í Svíþjóð og þar var búið til sinnep fyrir jólin. Ég fór því að fikta og endaði með eina gerð af sinnepi sem er nú grunnurinn hjá mér. Þetta sinnep framleiddi ég í meira en 25 ár, einungis fyrir fjölskylduna mína. Þetta hlóð utan á sig og brátt var þetta stórfjölskyldan, sem og vinir, kunningjar og þeirra vinir.“
Missti vinnuna, fór í Hólaskóla og gerðist sinnepsframleiðandi
„Svo gerðist það að ég missti vinnuna í upphafi efnahagshrunsins. Þá var ég orðin svo gömul að það var ekki hlaupið að því að fá aðra vinnu. Ég ákvað því að fara í skóla og tók viðburðastjórnun í fjarnámi á Hólum. Þar gerði ég fyrstu rekstraráætlunina. Ég fór svo bara af stað með þessa framleiðslu á einni tegund 2014 og byrjaði að selja hana á jólamarkaðnum í Hörpu. Síðan fór ég að prófa mig áfram og reyna að gera sinnepið meira íslenskt, eins og að bæta við aðalbláberjum sem ég fæ af Vestfjörðum og blóðbergi. Bjór, sem ég nota í sinnepið, er Kaldi lager af Árskógssandi. Núna er ég svo komin með sinnep sem er með Flóka gini.
Þá er ég að gera sinneps-pestó. Þar skipti ég út parmesan ostinum og set sinnep í staðinn. Þeir sem einungis borða veganfæði geta því einnig borðað þetta pestó. Þess ber að geta að ég nota í þetta repjuolíuna frá þeim á Vallarnesi. Það var reyndar ekki fyrr en ég fór að nota hana að þetta small almennilega saman.“
Takmarkið að gera sænska hefð að íslenskri
„Mitt takmark er að nota alltaf í mínar vörur íblöndunarefni, kryddjurtir og annað sem ekki eru keypt af stóru fyrirtækjunum, heldur fengin frá heimafólki úr héraði vítt og breitt um landið. Það má eiginlega segja að ég taki sænska hefð með það að takmarki að gera hana íslenska. Um leið er ég að kenna Íslendingum að það er hægt að borða sinnep með ýmsu öðru en pylsum. Það er nefnilega hægt að borða sinnep nánast með öllu.“
Svava selur sínar vörur m.a. í Búrinu, hjá Frú Laugu, Melabúðinni, Hverfisbúðinni í Grafarvogi og Fiskkompaníinu á Akureyri. Hún segist ekki vera að selja sínar vörur á netinu sem stendur. Þar hafi hún prófað að selja í gegnum Reko en það virtist ekki virka.
Skilar ekki háum launum en er skemmtilegt
„Þetta hefur bara gengið bærilega,“ segir Svava. „Fyrirtækið borgar svo sem ekkert sérstaklega hátt kaup, þegar maður fær laun á annað borð. Þetta er hins vegar skemmtilegt, annars væri ég ekki að þessu. Til að láta þetta ganga upp vinn ég svo aðeins með þessu sem lyfjafræðingur, dag og dag eða viku og viku í apótekinu í Costco,“ segir Svava Hrönn Guðmundsdóttir.