Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Fékk innblástur um leið og fór að gjósa á Fimmvörðuhálsi
Líf&Starf 23. júlí 2014

Fékk innblástur um leið og fór að gjósa á Fimmvörðuhálsi

Höfundur: MÞÞ

Birna K. Friðriksdóttir textílhönnuður var með formlega opnun á vinnustofu sinni og verslun í verslunarkjarnanum Sunnumörk í Hveragerði í liðnum mánuði og hafa viðtökur verið góðar. Opnunin var í tilefni þess að hún, í samvinnu við Pál Jökul Pétursson ljósmyndara, hefur innréttað vinnustofuna með myndum af íslenskri náttúru. Fjöldi gesta hefur litið við og lokið lofsorði á framleiðsluvörur hennar, sem gerðar eru með merkinu Volcap.
Um er að ræða fatnað úr íslenskri ull og er hann skreyttur með sérstakri nálaþæfingartækni. „Ég sæki mynstrin sem sett eru á fatnaðinn í íslenska náttúru, svo sem hraunrennsli, norðurljós, mosa, frostrósir og skófir,“ segir Birna.

Ég gaus líka

Birna er frá Grenivík og bjó í Grýtubakkahreppi allt þar til í ágúst í fyrra þegar hún flutti ásamt fjölskyldu sinni suður á land og kom sér fyrir í Hveragerði. Hún er menntaður textílkennari og hefur starfað bæði í grunn- og leikskólum en lærði einnig textílhönnun Danmörku. „Ég var lengi upptekin við barnauppeldi og ekki sérlega innblásin á þeim tíma, en það má segja að um leið og gos hófust á Fimmvörðuhálsi hafi ég gosið líka,“ segir hún. „Ég var lengi að leita að einhverju sem ég gæti skapað og framleitt, en vandamálið við handverk er hvað það er tímafrekt og sjaldnast hægt að verðleggja vöruna þannig að viðunandi tímakaup náist.“

Birna segir að um leið og gosið hófst og allir fjölmiðlar voru uppfullir af myndum af því hafi hún fundið hjá sér hvöt til að túlka það á myndrænan hátt í sínum verkum. Lendingin var sú að hún notaði sérstaka nálaþæfingartækni, þæfði með nál í fatnaðinn ýmsar myndir sem túlkuðu gosið, grunnurinn er svört prjónavoð og í hana er svo þæfð gosrönd.

Hætti í föstu starfi og sinnir eigin framleiðslu

„Ég var í óða önn að undirbúa mig fyrir Handverkssýninguna á Hrafnagili sumarið 2012 þegar fyrsta peysan varð til , en fram að því hafði ég einkum verið að vinna með húfur. Þetta vatt svo upp á sig og varð til þess að ég minnkaði við mig vinnu, fór í hálft starf við kennslu á móti minni eigin framleiðslu. Um páskana í fyrra hætti ég svo alveg í fastri vinnu og hef eingöngu sinnt minni vöruþróun og framleiðslu síðan,“ segir Birna.

Fljótlega eftir að Birna flutti suður á land kom hún sér upp vinnustofu í Sunnumörk í Hveragerði, um 60 fermetra húsnæði sem hentar henni vel að sögn. Rýmið er opið, fremst er verslun en inn af henni vinnuaðstaða Birnu og geta viðskiptavinir fylgst með henni að störfum. Í vetur og vor vann hún að því að innrétta húsnæði sitt að nýju og hefur nú tekið það í notkun nýtt og endurbætt.

Sumarið lofar góðu

„Það koma mjög margir hér við, erlendir ferðamenn t.d. í miklum mæli og þeim þykir gaman að fylgjast með mér og eru ánægðir að sjá að þessi fatnaður sem ég framleiði sé alveg íslenskur, þ.e. íslensk hönnun, úr íslensku hráefni og greinilega unninn á staðnum. Viðtökur hafa verið mjög góðar og ég er bjartsýn á framhaldið, það hefur gengið mjög vel í sumar en það má segja að þetta sumar sé eins konar prófsteinn á hvort starfsemi af þessu tagi standi undir sér,“ segir Birna. Vörur hennar eru einnig til sölu á helstu ferðamannastöðum á landinu. „Það gefur mér byr undir báða vængi að fólki líkar þetta vel þannig að ég er bjartsýn á að vel muni ganga.“ 

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...