Heilsuefni úr greniberki
Líftækni notast við lífverur eða hluta þeirra til að framleiða afurðir eða til að hraða eða breyta náttúrlegum ferlum. Tæknin snýst um að hagnýta þekkingu í líffræði og lífefnafræði til framleiðslu meðal annars í matvælaiðnað og til framleiðslu á fæðubótarefnum, snyrti- og heilsuvörum.
Hannes Þór Hafsteinsson garðyrkju- og náttúrufræðingur og nemi í matvælafræði við Háskóla Íslands vinnur að meistaraverkefni á sviði líftækni sem felst í að skoða hvort mögulegt og fýsilegt sé að framleiða andoxunarefnið resveratról úr íslenskum greniberki.
Náttúrlegt fjölfenól
Resveratról er náttúrulegt fjölfenól sem finnst í ýmsum plöntum, meðal annars í fræjum og skinni vínberja, rótum japanssúru og í litlu magni í bláberjum. Fjölfenól eru andoxunarefni sem gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr oxun í frumum. Margar jurtir framleiða resveratról ef þær sýkjast af völdum baktería eða sveppa. Efnið er enn nánast eingöngu framleitt úr rótum japanssúru.
Finnst greni hér á landi
Hannes segir tiltölulega stutt síðan menn komust að því að resveratról er að finna í greni-, lerki- og furutrjám. „Eins og gefur að skilja er helst að finna efni í sýktum plöntum. Meðan sýkingar voru algengar í vínviðarplöntum var hlutfall efnisins um 30 milligrömm í hverjum lítra af rauðvíni en í dag fer það sjaldan yfir 3 til 4 milligrömm. Úr einu kílói af þurrkaðri rót japanssúru fást um 187 milligrömm af resveratróli en úr einu kílói af þurrkuðum greniberki má fá allt að 460 milligrömm. Grenitegundir sem gefa mest magn af efninu eru einmitt þær sem helst eru ræktaðar á Íslandi eins og til dæmis sitkagreni.
Efnið finnst aðallega í innri berki trjánna og bestu trén til framleiðslu resveratróls eru óheilbrigð tré sem ekki henta til timburframleiðslu. Vinnsla resveratróls þarf því ekki að skarast við viðarframleiðslu úr íslenskum skógum.“
Talsvert vantar upp á að áhrif resveratróls á heilsu manna séu nægilega rannsökuð að sögn Hannesar. „Ekki hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að efnið veiti vörn gegn sjúkdómum en vísbendingar í þá átt hafa fengist á rannsóknarstofum og með tilraunum á dýrum. Ýmislegt bendir til að efnið hamli öldrun, styrki hjarta og blóðrásarkerfið, vinni gegn krabbameini, auki frjósemi karla, verndi húðina, vinni gegn heilarýrnun og veiti vörn gegn sykursýki og offitu. Ekki er en búið að gera klínískar tilraunir á mönnum og því hvorki hægt að segja neitt um skammtímaáhrif né langtímaáhrif efnisins á fólk.“
Resveratról í rauðvíni
„Resveratról var fyrst einangrað árið 1939 en efnið vakti litla athygli í fyrstu og ekki fyrr en árið 1992 þegar talið var að resveratról í rauðvíni hefði hjartabætandi áhrif. Rannsóknir hafa sýnt að rauðvínsdrykkja verndar hjartað betur samanborið við aðra áfenga drykki og er það tengt fjölfenólum í vínberjum og þá aðallega resveratróli. Hvítvín hefur til dæmis ekki þessi áhrif en í hvítvíni er ekki notuð vínberjaskinn en þau eru sá hluti vínberjanna sem inniheldur mest af resveratróli,“ segir Hannes.
Notað í fæðubótaefni og heilsufæði
Í iðnaði er resveratról notað í fæðubótarefni og heilsufæði, í húð- og snyrtivörur, gæludýravörur og í fyllingu tímans gæti það nýst í lyfjaiðnaði.
Í verkefninu mun Hannes mæla resveratról innihald í berki nokkurra grenitegunda hér á landi. „Ég mun mæla bæði heilbrigð og sýkt tré á öllum árstímum og í öllum landshlutum.
Resveratról er unnið úr greniberki þannig að börkurinn er fyrst hreinsaður og þurrkaður. Vinnsluferlið getur verið mismunandi og fer hreinleiki efnisins eftir því og resveratról sem selt er til iðnaðar hefur hreinleika frá 2% og upp í 99%. Til að fá 99% hreinleika er beitt flóknu vinnsluferli sem er í 36 þrepum.
Markmiðið er að framleiða einkaleyfishæfa vöru en ég hef fengið til liðs við mig tvo menn, annar er viðskiptafræðingur og hinn er verkfræðingur og munum við meta hagkvæmni hugsanlegrar framleiðslu á resveratróli hér á landi. Innflutningsverð á kílói af hágæða resveratróli frá Bandaríkjunum er um 200.000 krónur og því eftir talsverðu að slægjast,“ segir Hannes Þór Hafsteinsson.