Ísbúðin Ísleifur heppni kætir bragðlauka landans
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Ísbúðin Ísleifur heppni hefur vakið mikla athygli fyrir gott og ferskt bragð hvar sem ísinn hefur verið í boði.
Þar sem eitthvað sérstakt er um að vera má alveg eins búast við því að félagarnir frá Ísbúðinni Ísleifi heppna séu á staðnum. Þannig var það líka á Matarmarkaði Búrsins í Hörpu um síðustu helgi. Þar sýndu aðstandendur Ísleifs listir sínar og buðu gestum og gangandi að smakka ís sem er engum öðrum líkur.
Á bak við Ísleif heppna standa feðgarnir Einar Ólafsson arkitekt, sem var á árum áður þekktur skíðakappi frá Ísafirði, og matreiðslumaðurinn Gunnar Logi Malmquist Einarsson.
Þegar tíðindamann Bændablaðsins bar að garði á Matarmarkaði Búrsins sl. sunnudag voru Gunnar Logi og Aron Garðar Másson að gefa gestum ís að smakka.
Búðin er annars með aðsetur í Hlemmi – Mathöll og hafa eigendur einnig verið með eins konar „popup“ á hinum ýmsu viðburðum. Þannig mátti sjá þá félaga á opnun á nýjum sýningarsal Bílasölu Benna fyrir skömmu og hafa þeir víða troðið upp með sín tæki og tól.