Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
„Við sem að útgáfunni stöndum lítum svo á að þetta sé samfélags- og menningarverkefni og erum stolt af því að hafa látið verða af þessu,“ segir Óskar Þór Halldórsson, sem að stórum hluta skrifaði bókina Svarfdælasýsl sem út kemur um miðjan október.
„Við sem að útgáfunni stöndum lítum svo á að þetta sé samfélags- og menningarverkefni og erum stolt af því að hafa látið verða af þessu,“ segir Óskar Þór Halldórsson, sem að stórum hluta skrifaði bókina Svarfdælasýsl sem út kemur um miðjan október.
Líf&Starf 13. október 2017

Kvöldgrúskið vatt upp á sig og varð að heilmikilli bók með svarfdælsku þema

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Þetta litla kvöldgrúsk mitt vatt heldur betur upp á sig,“ segir Óskar Þór Halldórsson, sem ásamt systkinum sínum, ættuðum frá Jarðbrú í Svarfaðardal, gefur út bókina Svarfdælasýsl nú um miðjan október. 
 
Óskar Þór er höfundur bókarinnar að stórum hluta, en bróðir hans, Atli Rúnar, er einnig höfundur efnis í tveimur köflum. Félag í eigu systkinanna frá Jarðbrú, þeirra Atla Rúnars, Jóns Baldvins, Helga Más, Óskars Þórs, Jóhanns Ólafs og Ingu Dóru Ingibjargar- og Halldórsbarna gefur bókina út, en það hlaut nafnið Svarfdælasýsl forlag sf.
 
Bókin er 560 blaðsíður og ljósmyndir eru um 500 talsins, fæstar þeirra hafa áður sést opinberlega og margar raunar komið fyrir fárra manna augu þar til nú.  Bókin verður kynnt á þremur stöðum í næstu og þarnæstu viku, á Dalvík, Akureyri og í Kópavogi.
 
Sögur af Jonna á Sigurhæðum urðu kveikjan að bókinni
 
Óskar Þór segir að hann hafi fyrir fáum árum farið að safna saman sögum sem sagðar voru af ömmubróður sínum, Jóni Sigurðssyni, Jonna á Sigurhæðum eins og hann var iðulega kallaður. Hann var fæddur og uppalinn á Göngustöðum í Svarfaðardal, einn sjö systkina sem við bæinn eru kennd.
 
„Það eru margar sögur til af Jonna, hann var mikill húmoristi og ýmis tilsvör hans eru enn höfð á hraðbergi. Ég var farinn að heyra ýmsar útgáfur af þessum sögum og tilsvörum og fór að kanna hvaða útgáfa væri rétt í þeim tilgangi að skrá sögurnar réttar í skjal til varðveislu í tölvunni minni. Lengra átti þetta nú ekki að fara,“ segir Óskar Þór. Sögur bættust í sarpinn eftir því sem hringt var í fleira fólk og margar sem hann hafði aldrei áður heyrt. „Áður en ég vissi af sat ég löngum stundum á síðkvöldum og skráði sögur af öllum Göngustaðasystkinunum. Og var kominn með dágott safn af sögum af þeim öllum.“
 
Sýndi kvölddundið og teningunum var kastað
 
Það var svo haustið 2015 sem efnt var til samkomu á Dalvík þar sem þess var minnst að 60 ár voru liðin frá tveimur mannskæðum snjóflóðum sem urðu í Skíðadal. Helgi Aðalsteinsson, bóndi á Másstöðum, fórst 3. nóvember 1955 og Sigtryggur Guðjón Steingrímsson, bóndi á Hjaltastöðum, fórst á Þorláksmessu sama ár. Báðir voru við leit að kindum er þeir urðu fyrir snjóflóðum sem kostuðu þá lífið.  
 
Þann 24. nóvember 2016 hittist samstarfsfólk úr Landi og sonum og fannst ekki leiðinlegt að rifja upp ýmislegt í tengslum við tökur á myndinni sumarið 1979. Frá vinstri: Ágúst Guðmundsson leikstjóri, Sigurður Sigurjónsson (Einar), Guðný Ragnarsdóttir (Margrét), Jón Sigurbjörnsson (Tómas), Friðrik Stefánsson hljóðmaður og Jón Baldvin Halldórsson, sem vann við gerð leikmyndar. Mynd: Atli Rúnar Halldórsson
 
Fátt eitt hafði verið ritað um þessi mannskæðu slys þar til Atli Rúnar tók sig til og skráði söguna en frásögn hans er að finna á vef hans; svarfdaelasysl.com.
 
„Í framhaldi af þessari minningarsamkomu greindi ég systkinum mínum frá því að ég hefði um skeið dundað mér við að skrá sögur af Göngustaðasystkinum og leyfði þeim að lesa þær. Það þótti öllum ástæða til að fleiri fengju að sjá, því þarna væri margt athyglisvert að finna og eigingirni að halda þessu bara fyrir mig. 
 
Við veltum í sameiningu fyrir okkur næstu skrefum og úr varð að við myndum standa að því saman, Jarðbrúarsystkinin, að gefa sögurnar út á bók ásamt því að víkka verkefnið út og bæta við köflum. Við héldum okkur við heimaslóðirnar, Svarfaðardalinn, og niðurstaðan var sú að ég tók til við að skrifa sögu Húsabakkaskóla, með dyggri hjálp Atla, skólans sem var hjartað í hinu svarfdælska samfélagi þann tíma sem hann starfaði,“ segir Óskar Þór. 
 
Þriðja kaflann skrifuðu Óskar Þór og Atli Rúnar en í honum er rakin sagan á bak við gerð kvikmyndarinnar Land og synir sem tekin var upp í Svarfaðardal sumarið 1979.
 
Göngustaðasystkinin sjö, goðsagnir í lifanda lífi
 
Göngustaðasystkinin sjö, sem sum urðu goðsagnir í lifanda lífi, eru í öndvegi í fyrsta kafla bókarinnar en Óskar Þór segir þau öll hafa verið mikla karaktera og af þeim séu enn sagðar sögur og vitnað í tilsvör sem enn lifa. Systkinin voru þau Nunna á Göngustöðum/í Dröfn á Dalvík, Jonni smiður á Sigurhæðum á Dalvík, Engilráð á Bakka, Rannveig á Jarðbrú, Davíð, smiður og harmonikuleikari á Dalvík, Páll málari í Laxamýri á Dalvík og Jóhann smiður á Akureyri. 
 
„Ég hugsa að margt sem þarna er skrifað eigi eftir að koma á óvart. Þetta er saga um birtu og rökkur í tilverunni, gleði og sorgir, velgengni og basl, en kannski fyrst og fremst saga um áhugavert fólk sem setti sterkan svip á mannlífið og markaði spor í byggðarlaginu,“ segir hann. 
 
Húsabakkaskóli í hálfa öld
 
Skóla- og menningarstarfið í kringum Húsabakkaskóla var nokkuð friðsælt og farsælt í þá hálfu öld sem skólinn starfaði, frá 1955 til 2005. Þó voru skiptar skoðanir í upphafi um staðsetningu hans, þ.e. hvort hann skyldi reistur á Húsabakka í landi Laugahlíðar og Tjarnar eða honum fundinn staður framar í dalnum, á Tungunum. Þá gekk sömuleiðis mikið á þegar ákveðið var að leggja skólastarfið niður á Húsabakka og urðu deilur á stundum harkalegar. 
 
Sjónum er einnig beint að nemendalífinu, birt skrá yfir alla nemendur í Húsabakkaskóla á starfstíma hans, sem og starfsmanna og aðalfulltrúa í skólanefnd Svarfaðardalshrepps. Fjöldi mynda úr skólastarfinu prýðir þennan kafla.
 
Horft heim til Göngustaða í Svarfaðardal. Málverk sem Jóhann Sigurðsson málaði, líklega í kringum 1930. 
 
Kvikmyndagerðin létti lundina á óþurrkasumri
 
Þriðja kafla bókarinnar skrifa Óskar Þór og Atli Rúnar og fjalla þar um kvikmyndina Land og syni, sem að mestu var tekin upp í Svarfaðardal sumarið og um haustið 1979. Rakin er sagan á bak við myndina, en í henni bregður fyrir mörgum leikurum og áhugaleikurum sem fallnir eru frá, auk þess sem myndin er ákveðin heimild um Þinghúsið Grund sem varð eldi að bráð.
 
„Það var gríðarleg lyftistöng fyrir okkur heimamenn að fá kvikmyndafólkið í dalinn okkar á þessu kalda og blauta sumri, lífið og fjörið í kringum kvikmyndagerðina má segja að hafi bjargað sálarheill okkar og létt  lundina á sumri þegar aldrei kom þurrkur,“ segir Óskar Þór og bætir við að í íslenskri kvikmyndasögu sé myndin merkileg því oft sé talað um hana sem upphaf hins íslenska kvikmyndavors. 
 
Fyrir tilviljun hefðu þeir bræður haft spurnir af dýrmætum ljósmyndum sem leikstjórinn Ágúst Guðmundsson og Sigurður Sverrir Pálsson kvikmyndatökumaður ættu í sínum fórum og margar ekki áður komið fyrir almannasjónir. Við vinnslu bókarinnar hafi síðan fjölmargar aðrar áhugaverðar myndir tengdar kvikmyndagerðinni komið í leitirnar. 
 
Samfélags- og menningarverkefni
 
„Við sem að útgáfunni stöndum lítum svo á að þetta sé samfélags- og menningarverkefni og erum stolt af því að hafa látið verða af þessu. Við erum, ef svo má segja, að gefa okkar gamla byggðarlagi til baka, í Svarfaðardal ólumst við öll upp og eigum þaðan góðar minningar,“ segir Óskar Þór.
 
Vinnsla bókarinnar hefur staðið yfir undanfarin þrjú ár og er vandað til útgáfunnar, bókin er innbundin og á bókarkápu er ljósmynd af Svarfaðardalsmálverki eftir Kristin G. Jóhannsson, myndlistarmann af Göngustaðaætt. Þorleifur Rúnar Örnólfsson braut bókina um og bjó til prentunar.
 
Bókin verður kynnt og seld á þremur samkomum, í Bergi á Dalvík fimmtudaginn 12. október kl. 20.30, í Norðurslóðasetrinu á Akureyri föstudaginn 13. október kl. 17 og í Salnum (anddyri) í Kópavogi laugardaginn 21. október kl. 16. Einnig verður hægt að nálgast bókina hjá Jarðbrúarsystkinum og stefnt að því að hún verði síðar seld í bókabúðum, en eins verður hægt að panta bókina á vefnum svarfdaelasysl.com. 
 
Göngustaðasystkinin sjö. Aftari röð frá vinstri: Ingibjörg Engilráð, Rannveig Anna og Steinunn Guðbjörg. Fremri röð frá vinstri: Davíð Skarphéðinn, Arngrímur Jóhann, Páll og Jón. Myndina tók Ingi Þór Jóhannsson á tröppunum á Göngustöðum.
Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...