Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hvammsvirkjun. Öll hestu virkjunarmannvirki eru undanþegin fasteignaskatti.
Hvammsvirkjun. Öll hestu virkjunarmannvirki eru undanþegin fasteignaskatti.
Mynd / Aðsendar
Í deiglunni 24. febrúar 2023

Lög um orkuvinnslu hamla atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í nýlegri bókun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir að orkuvinnsla í sveitarfélaginu þjóni ekki hagsmunum þess. Haraldur Þór Jónsson oddviti segir að sveitarfélögin fái lítið sem ekkert fyrir orkuframleiðslu og allur ávinningurinn verði þar sem orkan er notuð. Óvíst er hvort stjórn sveitarfélagsins samþyggi framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun.

Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

„Orkuvinnsla á landsbyggðinni er að skapa tekjur á þéttbýlisstöðum þar sem orkan er notuð og hálaunastörf á höfuðborgarsvæðinu en skilur lítið eftir í sveitarfélaginu þar sem hún verður til. Sé horft til þess að virkjanir skapa ekki mörg störf í héraði eftir að búið er að reisa þær og að um 94% orkumannvirkja eru undanþegin fasteignaskatti á Íslandi verður ekki mikið eftir fyrir sveitarfélagið.

Að mínu mati og annarra verður að taka þessi mál til endurskoðunar þar sem staðan eins og hún er í dag hamlar uppbyggingu á landsbyggðinni en réttmæt skipting orkuauðlindarinnar mun umbylta búsetuskilyrðum og auka atvinnuuppbyggingu.“

Orkuvinnsla skilar litlu til sveitarfélaga

Haraldur segir að ef teknar séu saman tekjur allra sveitarfélaga á Íslandi og þær bornar saman við veltu allra fyrirtækja á landinu, þá skili sér rúm 8% af veltu fyrirtækjanna sem tekjur til sveitarfélaganna.

„Sveitarfélögin eru að heimila uppbyggingu á atvinnustarfsemi í sínu nærumhverfi til að skapa verðmæti sem skila að meðaltali rúmum 8% af veltu sinni til sveitarfélaganna. Þær tekjur notum við til að reka og byggja upp samfélagið sem við búum í.

Ef ég skoða hvernig þetta lítur út í mínu sveitarfélagi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þá er orkuframleiðslan sem á sér stað hér að skila að hámarki 0,4% af verðmætunum sem verða til hjá okkur niður í beint fjárhagslegt tap sem getur gerst sökum laga um jöfnunarsjóð.

Til að sátt skapist um orkuvinnsluna þarf að skila sambærilegum verðmætum til nærsamfélagsins eins og öll önnur atvinnustarfsemi skilar, eða í kringum 8% af verðmætunum. Með þeim hætti verður til sanngjörn skipting auðlindarinnar frá þeim stað sem orkan verður til og þeirra sem njóta efnahagslega ávinningsins af því að nota hana.“

Lykillinn að orkuskiptum er á landsbyggðinni

Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að full orkuskipti eigi að hafa náðst árið 2040 og Haraldur bendir á að lykillinn að þeim orkuskiptum sé á landsbyggðinni.

„Það er staðreynd að lagaleg umgjörð orkuvinnslu á Íslandi hefur komið í veg fyrir að dreifbýli njóti sambærilegs ávinnings af orku- vinnslunni og þéttbýlið. Við sem búum í dreifbýli erum áratugum á eftir í uppbyggingu innviða og þjónustu. Þess vegna þarf að breyta lögum um orkuvinnslu og tryggja að dreifbýlið njóti sambærilegs ávinnings og að allir greiði sama verð fyrir orkuna, hvort sem fólk býr í dreifbýli eða þéttbýli. Ég lít svo á að ef ekki næst sátt um breyttar leikreglur þá verði engin orkuskipti.“

Háifoss. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að full orkuskipti eigi að hafa náðst árið 2040. Mynd / Einar Bjarnason

Hallar á landsbyggðina

Haraldur segir að á Íslandi ríki hagsæld. „Við stöndum framarlega í flestum alþjóðlegum mælikvörðum. Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík og bjó þar fyrstu 35 ár ævinnar og upplifði þá gríðarlegu uppbyggingu sem átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu og öðrum öflugum þéttbýliskjörnum á landinu. Sterkir innviðir og gott aðgengi að fjölbreyttri þjónustu og afþreyingu eru lífsgæði sem við teljum sjálfsögð.“

Árið 2014 flutti Haraldur og fjölskylda hans úr borginni og keyptu litla jörð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Markmiðið var að byggja upp ferðaþjónustu sem hefur gengið vel.

Haraldur segir að eftir að hafa búið í Reykjavík stóran hluta ævinnar og flutt í lítið samfélag úti á landi hafi hann upplifað vel á eigin skinni hversu mikið hallar á landsbyggðina.

„Innviðir, aðgengi að þjónustu og öðru sem er sjálfsagt í þéttbýli er oft fjarlægur draumur í litlum samfélögum úti á landi.“

Orkan verður til á landsbyggðinni

Að sögn Haraldar er ótrúlegt til þess að hugsa að undirstaða verðmætasköpunar á Íslandi eigi sér stað úti á landi en að allur ávinningurinn verði til í þéttbýliskjörnum tugum og hundruðum kílómetra í burtu.

„Orkan verður til á landsbyggðinni, ferðamenn koma til að skoða náttúruna úti á landi en þrátt fyrir það tekst okkur ekki að skapa sambærileg búsetuskilyrði á fjölmörgum stöðum þar sem verðmætin verða til og það er fyrst og fremst vegna þess að leikreglurnar eru ósanngjarnar. Ferðaþjónustan hefur skapað fjölda starfa um land allt og þar eru störfin og verðmætin sannarlega eftir í nærumhverfi starfseminnar.

Þegar kemur að framleiðslu orku, þá hefur verið byggt upp lagalegt umhverfi sem gerir það að verkum að nánast ekkert verður eftir í samfélögunum þar sem orkan verður til og allur efnahagslegur ábati verður þar sem orkan er notuð. Orka er undirstaða lífs okkar og án orku gerist ekkert.“

35% af rafmagni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Frá upphafi raforkuframleiðslu Landsvirkjunar hefur um það bil 35% af öllu rafmagni sem fyrirtækið hefur framleitt komið frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í dag er þetta hlutfall í kringum 27% af þeirri orku sem er framleidd daglega.

„Ég stóð í þeirri trú að þessi gríðarlega framleiðsla á rafmagni í sveitarfélaginu skilaði miklum ábata til nærsamfélagsins. Þannig hefur umræðan ávallt verið. Hver þekkir ekki tröllasögur um gríðarlega há fasteignagjöld sem gerir sveitarfélögin sem hafa stöðvarhús vatnsaflsvirkjana í sínu nærsamfélagi moldrík.

Það kom mér því verulega á óvart að sjá að raunveruleikinn er allt annar og í sumum tilfellum er beint fjárhagslegt tap sveitarfélaga af starfsemi Landsvirkjunar.

Þrátt fyrir öll þau verðmæti sem verða til í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þá er sveitarfélagið eitt af fáum á landinu sem er ekki með íþróttahús og hvað þá ýmsa aðra innviði til að bæta lífskjör íbúanna.

Þegar kemur að samgöngum þá eru vegir innan sveitarfélagsins í töluvert lakara ástandi en í mörgum af nágrannasveitarfélögunum. Einnig er það þannig að helstu ferðamannastaðir eru með aðgengi um gamla slóða sem eru skilgreindir sem 4x4 vegir, enda hefur uppgangur ferðaþjónustu í sveitarfélaginu verið langt á eftir öðrum, að hluta til sökum lélegra samgangna.“

Lítill ávinningur af orkuvinnslunni

Haraldur tók við sem sveitarstjóri 1. júní 2022 og segist þá hafa verið sannfærður um að hann væri að taka við sveitarfélagi sem hefði mikinn hag af starfsemi Landsvirkjunar og þeirri raforkuframleiðslu sem þar ætti sér stað.

„Síðan hefur stór hluti vinnu minnar farið í verkefni tengt orkuframleiðslu og að greina áhrif hennar á nærsamfélagið. Miðað við þau gríðarlegu verðmæti sem verða til með allri orkuöflun í sveitarfélaginu mætti ætla að búsetuskilyrði hér ættu að vera á við það besta sem þekkist á landinu. Raunveruleikinn er allt annar þar sem lítill sem enginn ávinningur skilar sér til sveitarfélaganna vegna orkuframleiðslunnar.

Stærstur hluti allra mannvirkja sem þarf til orkuframleiðslu og flutnings raforkunnar eru undanþegin fasteignaskatti. Orkumannvirkin eru meira og minna mannlausar stöðvar sem er fjarstýrt frá höfuðborginni. Höfuðstöðvar Landsvirkjunar eru í Reykjavík og einnig bróðurpartur allra beinna starfa innan hennar og sérstaklega verðmætustu störfin. Afleiddu störfin af uppbyggingu orkumannvirkja, verkfræðingarnir, lögfræðingarnir og aðrir sérfræðingar sem þjónusta Landsvirkjun, eru einnig að mestu leyti staðsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Tekjur sveitarfélaganna sem hafa orkumannvirkin og orkuvinnsluna í sínu nærumhverfi í gegnum útsvar og fasteignagjöld eru því sáralitlar í samanburði við aðra atvinnustarfsemi.“

Ekkert fjallað um áhrif Hvammsvirkjunar á íbúana

Skeiða- og Gnúpverjahreppur er með til umfjöllunar framkvæmdaleyfisbeiðni til byggingar Hvammsvirkjunar sem er fyrsta stórvirkjunin í byggð á Íslandi.
Haraldur segir sérstaklega áhugavert að horfa til þess að þrátt fyrir 20 ára undirbúningstíma þá er hvergi fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á íbúana sem búa í nærumhverfi virkjunarinnar.

„Ég velti fyrir mér hvernig framkvæmd sem hefur jafn gríðarleg áhrif á nærumhverfið, þar sem verið er að breyta dreifbýli í byggð yfir í virkjanasvæði, skuli vera komin svo langt í ferlinu að við séum að skoða að veita framkvæmdaleyfi án þess að neitt hafi verið fjallað um íbúana og hvernig mótvægisaðgerðir séu nauðsynlegar þeim til hagsbóta. Hluti af andstöðu við virkjanaframkvæmdina kristallast í því hvernig umgjörð starfseminnar hefur verið sett fram.

Megnið af mannvirkjunum er undanþegið fasteignaskatti og framkvæmdirnar fjölga verðmætum störfum á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið á landsbyggðinni sem býr með orkumannvirki í sínu samfélagi finnur vel á eigin skinni að lítill ábati mu skila sér til sveitarfélagsins.

Spurningin er því: Til hvers á það þá að samþykkja frekari uppbyggingu orkumannvirkja?“

33% hærra verð fyrir dreifingu í dreifbýli

Hann heldur áfram. „Þegar horft er til þess hvers vegna ekki er meiri uppbygging í atvinnustarfsemi í nágrenni uppsprettu orkunnar er það nánast bundið í lög að atvinnustarfsemi sem þarf mikla orku mun aldrei raungerast í dreifbýli á Íslandi.

Í raforkulögum er heimild um að rukka megi 33% hærra verð fyrir dreifingu á rafmagni í dreifbýli en í þéttbýli. Það er ótrúleg staðreynd að orka verður til á landsbyggðinni en það er ódýrara að kaupa hana í þéttbýliskjörnum hundruðum kílómetra í burtu frá uppruna hennar og að við sem búum við hliðina á orkumannvirkjunum þurfum svo að greiða hærra verð fyrir raforku.“

Haraldur segir að þessu verði að breyta. „Það er enginn sveitarstjórnarfulltrúi á landsbyggðinni sem er reiðubúinn til að skrifa upp á framkvæmd sem á að knýja samgöngur landsins í framtíðinni á sama tíma og fólkið í dreifbýli þarf að borga meira fyrir orkuna.“

Skylt efni: hvammsvirkjun

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....