Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Múra múra er einkennisorð Madagaskar og merkir slappaðu af.
Múra múra er einkennisorð Madagaskar og merkir slappaðu af.
Líf&Starf 13. júní 2019

Madagaskar – Áttunda heimsálfan

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í Indlandshafi út af austurströnd Afríku er fjórða stærsta eyja í heimi og kallast hún Madagaskar. Ríkið Madagaskar nær yfir eyjuna og fjölda minni nærliggjandi eyja. Sérstaða eyjunnar er það mikil að með réttu mætti kalla hana áttundu heimsálfuna. Sannkölluð ævintýraeyja sem gaman er að heimsækja.

Madagaskar og nærliggjandi eyja voru í eina tíð hluti af Indlandsskaga en klofnaði frá honum þegar meginlandið Gonvana brotnaði upp fyrir milljónum ára. Eyjan er um 400 kílómetra út af Mósambík á austurströnd Afríku og er um 600 ferkílómetrar að stærð, 1.600 kílómetra löng og 575 kílómetra breið, og stærri en Frakkland.

Einstakt lífríki

Vegna einangrunar eyjunnar þróaðist þar einstakt og um leið sérstakt dýra- og plöntulíf sem hvergi er að finna annars staðar í heiminum. Á eyjunni er að finna 5% allra plöntu- og dýrategunda í heiminum og líffræðileg fjölbreytni þar hvað mest í veröldinni.

Talið er að Madagaskar hafi að mestu verið skógi vaxin þegar fyrstu menn fundu eyna, en síðan hefur smám saman gengið á þann gróður. Nú er svo komið að aðeins 15% lands eru vaxnir skógi og þar sem skóginum hefur verið eytt hefur umhverfið og lífríkið orðið mun einhæfara. 

Vegna þessa er náttúra eyjunnar viðkvæm og flóra hennar er til dæmis undir smásjá og í gjörgæslu grasagarðsins í Kew. Fjöldi dýra, eins og risalemúrar, fílafuglar og Madagaskarflóðhestar, hefur dáið út eftir að menn settust að á eyjunni.

Landbúnaður og túrismi eru helstu atvinnuvegir Madagaskar og talsvert er ræktað af vanillu og negul sem eru helstu útflutningsvörur eyjunnar.

Indris-lemúrar eru stærstir af þeim 100 tegundum sem tilheyra 15 ættkvíslum lemúra á Madagaskar.

Afdrep fyrir sjóræningja

Minjar benda til að menn hafi fyrst komið til eyjarinnar um 2000 fyrir Krist en að föst búseta þar hefjist ekki fyrr en 1500 árum seinna. Í dag eru þjóðflokkar í landinu fjölmargir og halda flestir enn í sínar siðvenjur og menningararf. Merínar er sá fjölmennasti.

Skömmu eftir að menn settust að á Madagaskar var eyjan mikilvæg höfn við Indlandshaf og Arabar settu á fót verslun á vesturströnd hennar. Á átjándu og byrjun nítjándu aldar var Madagaskar þekkt sem höfn sjóræningja og þrælakaupmanna.

Marco Polo er sagður vera fyrsti Evrópumaðurinn sem minnist á Madagaskar í riti. Fyrsti Evrópumaðurinn sem vitað er að hafi stigið fæti á Madagaskar var portúgalskur strandaglópur á 17. öld. Það var svo ekki fyrr en 1777 að Evrópumaður komst alla leið upp á hálendi eyjunnar og sneri heim aftur með sögur af sérkennilegum þjóðflokki, Merínum, sem hann komst í kynni við.

Talið er að Merínar séu afkom­endur malanískra og indó­nesísk­ra innflytjenda sem settust að í hálendinu um miðbik eyjunnar. Madagaskar var þar til seint á 18. öld skipt í yfirráðasvæði margra ættbálka. Snemma á 19. öld náði konungsríki Merína að leggja alla eyjuna undir sig og stofna konungsríkið Madagaskar.

Frakka hernámu hluta Madagaskar á 17. öld en það var ekki fyrr en seint á 19. öld að eyjan var fullkönnuð og Frakkar ná fullum yfirráðum. Madagaskar varð frönsk nýlenda árið 1897 en aftur sjálfstætt ríki 196

Fallegt fólk á leið til kirkju.

Innfæddir segja að nýlenduherrarnir hafi gengið illa um gæði eyjunnar og lítið gert annað en að láta greipar sópa um landið og segja þeir að enn í dag séu áhrif Frakka mikil á Madagaskar. Talsvert róstur var á eyjunni fyrir um áratug enda misskipting gæða þar mikil og landið flokkað með minnst þróuðu og fátækustu löndum heims, þrátt fyrir að búa yfir talsvert miklum gæðum frá náttúrunnar hendi.

Höfuðborg og jafnframt stærsta borg landsins heitir Antananarívó en er í daglegu máli kölluð Tana. Borgin er staðsett á hálendinu nærri miðju eyjarinnar og var stofnuð snemma á sautjándu öld sem vígi Andrianjaka, konungs Merína.

Þegar Frakkar tóku völd í eyjunni ákváðu þeir að setja nýlendustjórnina niður í borginni og borgin var áfram höfuðborg eftir að Madagaskar fékk sjálfstæði. Árið 2017 voru íbúar borgarinnar tæplega 4 milljónir en ríflega 25,5 milljónir Malagasa búa í landinu.

Múra múra

Þrátt fyrir misjöfn kjör eru íbúar Madagaskar brosmilt fólk og ekki er mikið um alvarlega glæpi í landinu þótt það komi fyrir að túristar séu rændir.

Flestir íbúar tala Malagasí og frönsku og margir ensku. Malagasí er nánast skáldlegt tungumál og fallegt og til dæmis er algengt að sólin sé nefnd dagsauga og býfluga hunangsmóðir. Einkennisorð þjóðarinnar mun þó vera múra múra, eða slappaðu af.

Madagaskar-fararnir. Vilmundur Hansen, Guðrún Sigurðardóttir, Halldór Björnsson, Ásmundur Gíslason, Helgi Benediktsson, Kristín Fenger, Skarphéðinn Þórisson og Ragnhildur Indriðadóttir. Mynd / Úr einkasafni GS


VOIMMA-garðurinn og Indrislemúrar

Fyrir náttúruunnendur er Mada­gaskar sannkölluð ævintýraeyja og þar er feikilega margt að skoða. Í 130 kílómetra fjarlægð austur af höfuðborginni er VOIMMA-garðurinn sem er rekinn af heimamönnum. Í garðinum er lögð áhersla á að viðhalda innlendum gróðri og innlendu dýralífi.

Hópurinn sem ég ferðaðist með um miðbik Madagaskar í apríl síðastliðnum fór í eins konar næturgöngu um garðinn með leiðsögn og skoðuðum við næturlífið. Þar sáum við meðal annars Indris-lemúra, sem eru með langt skott og gráhvítan og svartan feld. Indris-lemúrarnir eru stærstir af þeim 100 tegundum sem tilheyra 15 ættkvíslum lemúra á eyjunni. Lemúrar eru sértegund prímata sem þróuðust á Madagaskar og eins konar einkennisdýr eyjunnar. Þeir eru flokkaðir sem hálfapar. Hringhalar, eins og lemúrar eru stundum kallaðir, eru ólíkir að lit á feldinn og fremur smávaxnir og ekki nema 45 grömm til 10 kíló að þyngd. Þeir eru hópdýr sem að mestu lifa á laufi, ávöxtum og blómum og halda sig aðallega í trjákrónum og geta verið allt að þrjátíu saman í hóp. Til að auka klifurgetu lemúra í trjánum er stóratá þeirra tvöfalt lengri en aðrar tær. Orðið lemúr þýðir draugur og er það skiljanlegt eftir að hafa séð stóru augun á þeim uppi í trjánum endurspeglast í ljósinu frá vasaljósunum.

Þær voru ekki háar í loftinu, gengil­beinurnar á þessum bar.

Í myrkrinu, með hjálp ljóss, mátti einnig sjá margs konar eðlur, snáka, froska og ef vel var að gáð gekkó, sem kenndur er við Satan en líkist einna helst sölnuðu laufblaði.

Fosa er lemúrum skeinuhætt

Á Madagaskar er að finna kjötæturándýr sem kallast fosa og líkist stórum ketti en er skyldari mongús eða þefköttum en kattardýrum. Dýrið er á ferðinni á degi sem nóttu og eru lemúrar og önnur minni spendýr ofarlega á matseðli þess. Fosa er lipurt við að klifra í trjám og eina villta rándýrið, að manninum undanskildum, sem er ógn við stóra lemúra á eyjunni.

Hrísgrjón og forfeðradýrkun

Í ferðinni var meðal annars gengið um frjósöm ræktunarlönd þar sem mátti sjá hrísgrjónarakra, maís, baunaplöntur, melónur og avokadótré. Zebú, indverskum nautgripum með hnúð á bakinu, er beitt á akrana til að halda niðri illgresi og að bæta áburði í jarðveginn. 

Hrísgrjón þurrkuð á grafhýsi.

Heimamenn nýta hvaða hentugt svæði sem er til að þurrka hrísgrjónin og þar á meðal grafhýsi forfeðranna. Í framhaldi af umræðu um hrís-grjónin og grafhýsin sagði stórgóður leið-sögumaðurinn okkar, Avotra Rabearisoa, að margir íbúar landsins aðhylltust blöndu af kristni og afrískri andatrú. Andar forfeðranna eru í hávegum hafðir enda eru þeir alls staðar nálægir, yfir og allt um kring og öllum fyrir bestu að styggja þá ekki.

Á landsbyggðinni er víða enn til siðs að stunda forfeðradýrkun sem felst í því að grafa upp eða opna grafhýsi forfeðranna og bjóða þeim til veislu ásamt vinum og vandamönnum fjölskyldunnar. Leifar hinna látnu eru bornir í skrúðgöngu, klæddar í ný föt og síðan lagðar í gröf sína á ný að hátíðinni lokinni. Miklu skiptir fyrir heiður fjölskyldunnar að gera vel við alla gesti í veislunni og helst þarf að slátra að minnsta kosti einum zebú-nautgrip.

Svarti dauði sprettur alltaf annað slagið upp á eyjunni og er talið að það kunni að tengjast þeim sið að grafa hina látnu upp.

Auk anda forfeðranna búa nátt­úru­andar í dýrum, trjám, steinum og vötnum. Andar náttúrunnar eru eins konar hliðarguðir sem hægt er að leita og biðja til.

 

Götumynd frá Antananarívó, höfuðborg Madagaskar.

Zebú-nautgripir skipa ríkan sess í menningu landsbyggðarfólks og sá fjöldi zebú sem karlmenn eiga segir til um ríkidæmi þeirra. Ungir menn á landsbyggðinni sem biðja sér konu þurfa að leggja fjölskyldu til að minnsta kosti einn zebú sem greiðslu fyrir konuna. Sé biðillinn og fjölskylda hans of fátæk til að leggja til nautgrip en brúðkaupið að öðru leyti talið gott, er í mörgum tilfellum gert samkomulag í þorpinu þar sem biðlinum er gert kleift að stela gömlum zebú og nota hann sem greiðslu. Gripnum er síðan slátrað fyrir brúðkaupsveisluna og öllum þorpsbúum boðið til að gera sér glaðan dag.

Í höfuðborginni er þessu ekki ólíkt farið því að sögn staðarleiðsögumannsins skiptir þar mestu fyrir unga menn að eiga mótorhjól vilji þeir vekja athygli ungra kvenna.

Yfir miðhálendið til Morondova

Til að komast til borgarinnar Morondova á vesturströnd Madagaskar og skoða baobab-risana við Baobab-breiðstræti var ekið yfir miðhálendi eyjunnar. Aksturinn tók heilan dag með stoppum og gaman var að horfa á grösugt landslagið, þorpin og mannlífið sem leið hjá.

Kerlingin sem seldi mér stinningargrösin.

Tólf þúsund tegundir plantna

Flóra Madagaskar er alveg sér á báti og ólík flóru allra annarra landa í heimi og reyndar svo ólík að þar finnast um 12.000 tegundir plantna og um 83% þeirra eiga sér náttúruleg heimkynni á eyjunni og finnast ekki villtar annars staðar.

Á Madagaskar finnast yfir 900 tegundir brönugrasa og um 200 tegundir pálma sem er ríflega hundrað tegundum meira en eru upprunalegar á meginlandi Afríku.

Ferðamannapálmi.

Ferðamannapálminn er einstakur vegna blævængslaga blaðbyggingar en nafnið er tilkomið vegna þess að ferðamenn svöluðu þorsta sínum á vatni sem safnaðist fyrir í pollum í blaðöxlum plöntunnar. Þrátt fyrir heitið er ferðamannapálmi ekki pálmi samkvæmt skilgreiningu grasafræðinnar. Plantan er tvíkímblöðungur en ekki einkím­blöðungur eins og pálmar og náskyld og blómstrar sams konar blómi og planta sem margir þekkja sem blóm paradísarfuglsins. Innann plöntu ættkvíslarinnar Ravenala er einungis ein tegund, eða ferðamannapálmi, sem er upprunnin á Madagaskar. Ferðamannapálmi er lógó Air Madagascar.

Baobab-furðuplantan

Af öllum þessum fjölda ólíkra plantna eru baobab-þykk­blöðungar líklega þeir furðulegustu og þekktustu. Sex af átta eða níu tegundum baobab eru upprunnar á Madagaskar. Stærð og útlit baobab er ólíkt eftir tegundum og sum þeirra ógnarstór. Hæð þeirra er frá 5 og upp í 40 metrar og breidd stofnsins getur náð allt af 47 metrum að ummáli. Baobab vex yfirleitt stakt og setja plönturnar sterkan svip á umhverfið þar sem þær gnæfa yfir eins og risar.

Baobab-breiðstræti dregur nafn sitt af því að moldarþjóðvegur liggur í gegnum svæði með um 25 stórvaxin baobab á báðar hliðar.

Þar sem baobab skilja ekki eftir sig árhringi er erfitt að segja til um aldur plantnanna en annars konar aldursgreiningar benda til að baobab geti náð allt að 2.500 ára aldri. Yfirleitt eru elstu baobab-plöntur í dag taldar vera milli 1.400 og 1.800 ára gamlar og þar með elstu dulfrævingar sem vitað er um.

Morgun við Baobab-breiðstræti.

Líf og fjör í Morondova

Daginn sem við vorum í Morondova var mikið líf og fjör í borginni enda einhvers konar hátíð. Búið var að setja upp fjölda lítilla veitingaborða sem bæði seldu mat og drykki. Mikið bar á borðum þar sem hægt var að spila og snúa lukkuhjólum fyrir verðlaun. Búið var að koma upp tívolí þar sem börn á öllum aldri fóru í hringekjur og önnur leiktæki og hávaðinn var nánast ærandi en allir skemmtu sér vel og brostu út að eyrum.

Frá því ég var barn að skoða landakort var Madagaskar staðurinn sem mig langaði til að heimsækja. Eyja sem var eitthvað svo langt í burtu og dularfull. Núna hefur draumurinn ræst og vitið þið hvað, mig langar til að skoða meira. Madagaskar er æði.

Líkur sækir líkan.

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....