Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Missti mig algerlega í áhugamálinu
Líf&Starf 29. ágúst 2014

Missti mig algerlega í áhugamálinu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Nytjar á villigróðri hafa fylgt Íslendingum frá landnámi og án efa haldið tórunni í fólki í harðærum. Saga gróðurnytja á Íslandi hefur enn sem komið er ekki mikið verið skoðuð. Guðrún Bjarnadóttir skilaði í vor meistaraprófsritgerð þar sem hún fjallar um grasnytjar á Íslandi og ber þær saman við nytja í Noregi og víðar.

„Meðal heimilda um grasnytjar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eru gamlar lögbækur eins og Grágás og Búalög ásamt Íslendingasögunum. Eftir það er gloppa í heimildum fram að upplýsingaöldinni, þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson skrifa Ferðabók sína. Frá og með þeim tíma eru til góðar heimildir um grasnytjar á Íslandi.


Fyrr á tímum var ritun heimilda í höndum menntamanna, presta, sýslumanna og annarra höfðingja en grasnytjarnar voru að langmestu í höndum kvenna. Því gæti misræmis gætt í raunverulegum nytjum og frásögnum af nytjunum fyrr á öldum.“

Í ritgerðinni fjallar Guðrún um mikilvægustu þætti grasnytja eins og nytjar á hvönn, fjallagrösum og melgresi auk þess sem hún segir frá umfangsminni nytjum á öðrum plöntum.

Amma kenndi mér plöntunöfnin

Guðrún er alin upp í Reykjavík og Bretlandseyjum og segir að áhugi hennar á grasnytjum hafi vaknað þegar hún starfaði sem landvörður. „Amma hafði verið dugleg að kenna mér nöfnin á plöntum þegar ég var barn og horfa ekki bara upp í loftið og ég bjó að því þegar ég fékk áhuga á plöntum fyrir alvöru. Þegar ég var við landvörslu var hluti af starfinu fræðsla og ég varð fljótlega vör við að fólk sýndi plöntunum meiri áhuga ef ég sagði frá nytjunum á þeim í stað þess að romsa uppúr mér latneskum heitum.“

Útsendingastjórn og dýrahjúkrun

„Í kjölfar aukins áhuga á grasnytjum fór ég að viða að mér efni um þær og var búin að safna mikið af skráðum heimildum um þær áður en ég ákvað að skrifa ritgerðina.“

Guðrún starfaði lengi sem við útsendingu frétta, fyrst hjá Ríkissjónvarpinu í fimm ár sem skrifta og svo á Stöð 2 sem útsendingarstjóri. Hún er menntuð sem dýrahjúkrunarfræðingur frá Bandaríkjunum og hefur lokið BS-prófi í búvísindum frá Hvanneyri.

Hespa og jurtalitun

Í framhaldi af almennum áhuga á grasnytjum fékk Guðrún fljótlega áhuga á litun með jurtum og í dag rekur hún jurtalitunarvinnustofuna Hespuhúsið í Borgarfirði. „Á meðan ég var að skrifa ritgerðina fann ég heimildir um jurtalitum og þannig vinna fellur vel að áhuga mínum á handverki og ull. Allt grautaðist þetta svo saman í höfðinu á mér og ég fór að prófa mig áfram með jurtalitun og svo endaði með að ég missti stjórn á áhugamálinu.

Fyrstu tilraunirnar gerði ég í eldhúsinu heima og smá saman safnaðist upp band þar sem ég komst ekki yfir að prjóna úr því öllu sjálf. Ég fór því á sveitamarkað með bandið og það seldist vel. Í framhaldi af því fór fólk að hafa samband við mig og vildi fá að fræðast meira um litunina og kíkja í pottana hjá mér. Uppfrá því fór ég að taka á móti hópum heim, fræða um jurtalitum og selja band. Starfsemin vatt upp á sig og í dag er ég með opna vinnustofu skammt frá Andakílsvirkjun sem heitir Hespuhúsið. Þar er gestum velkomið að koma og kíkja í pottana. Það er opið á sumrin frá 12 til18 en utan þess tíma er best að hringja á undan sér.“

Árið 2011 hlaut Guðrún viðurkenninguna Handverksmaður ársins á Handverkshátíðinni að Hrafnagili. „Það kom skemmtilega á óvart og var góð hvatning til að halda áfram á sömu braut.“

Í ár hlaut bás Hespuhússins viðurkenninguna Sölubás ársins á hátíðinni en í umsögn dómnefndar segir að í básnum sé margbreytileiki og látleysi sem skapi fallega heild.“

Guðrún segir mikið að gera í kringum Hespuhúsið og að hún myndi gjarnan vilja hafa meiri tíma til að gera tilraunir með jurtalitun. „Mig langar mikið að prófa að nota sveppi og skófir til litunar sem ekki er hefð fyrir hér á landi en þekkist meðal annars frá Bretlandi og á Norðurlöndunum.“

Takmarkaðir litir í boði

„Íslensk flóra er fremur fátæk af tegundum um 430 á móti rúmlega 1320 í Noregi og að sjálfsögðu dregur það úr möguleikum til að nýta gróðurinn. Ef við lítum á möguleika til litunnar þá er takmarkað hvaða liti við getum búið til úr íslenskum plöntum. Rautt og blátt eru til dæmis litir sem við getum ekki fengið af neinu viti úr íslenskri náttúru.

Heimildir segja á rætur á gul-, hvít-, og krossmöðru hafi verið notaðar til að búa til rauðan eða öllu heldur laxableikan lit en ræturnar eru svo litlar að ég hef ekki náð að safna þeim í stóra suðu enn. Kúahlandsrauður litur er þekktur eftir suðu með fjallagrösum en síðan var bandið var látið liggja í kúahlandi í nokkrar vikur. Sá litur upplitaðist fljótt, lyktaði skelfilega og þótti ekki fallegur.

Í Íslendingasögunum er talað um blá klæði víkinga en það eru að öllum líkindum klæði sem eru lituð erlendis úr jurtalitum og purpurarauði gæti verið úr sniglum. Líklegasta plantan til að gefa bláan lit hér er blágresi en hugsanlega gefur hún bara grátt,“ segir Guðrún.

Grasnytjar verk kvenna, barna og gamalmenna

„Fram til þessa hefur áhugi á grasnytjum hér á landi aðallega beinst að lækningajurtum. Ég lagði ekki mikla áherslu á þær í ritgerðinni en læt upplýsingar um þær stundum fylgja með.

Helstu og stærstu gróðurnytjar fyrr á öldum voru á hvönn, fjallagrösum, melgresi og berjum. Nytja á söl voru einnig miklar en ég tók þær ekki með.“ Smærri nytjar má telja litunarskófir til litunar, fífur fyrir kveiki, lyfjagras til að hleypa mjólk til skyrgerðar og fleira.

Guðrún segir að smærri nytjar á gróðri hafi að stærstum hluta verið verk kvenna og því ekki skráðar. Það voru karlar sem skrifuðu söguna og þeir sögðu frá stærri verkum eins og hvanntekju og grasaferðum en það voru konur, gamalmenni og börn sem tíndu grösin og mururæturnar.“

Kolvetni úr söl og fjallagrösum

„Í ritgerðinni ber ég saman nytjar hér á landi og á Norðurlöndunum og þá sérstaklega í Noregi og Færeyjum. Nytjar á Íslandi og Noregi voru á margan hátt svipaðar en um leið ólíkar. Norðmenn fengu kolvetni úr korni en eftir að ræktun þess lagðist niður hér vegna kulda fengu Íslendingar það úr söl og fjallagrösum.

Það kom mér talsvert á óvart hvað nytjar á fjallagrösum voru ólíkar hér og í Noregi og hvað Íslendingar neyttu mikils af þeim. Í fyrstu datt mér í hug að beiskjan í íslenskum fjallagrösum væri minni en þeim norsku. Sú er þó ekki raunin því ef eitthvað er þá eru íslensk fjallagrös eilítið beiskari en þau norsku. Hér á landi er samt sem áður til fjallagrasastofn með engri beiskju og hugsanlegt að þau hafi blandast við önnur og beiskjan þannig jafnast út. Ég tel einnig að Íslendingar hafi náð betri tökum á matreiðslu fjallagrasa vegna þess að þeir hreinlega urðu að borða þau. Norðmenn notuðu þau aftur á móti eingöngu í neyð og sem fæðu fyrir sjúklinga og grísi.“

Ísland og Bretlandseyjar

„Ég skoðaði lítillega grasnytja á Bretlandseyjum í tengslum við skrif á ritgerðinni en lagðist ekki djúpt í þá vinnu. Nýjar rannsóknir benda til að á landnámsöld hafi karlmenn komið til Íslands frá Noregi en tekið sér konur og þræla frá Bretlandseyjum. Sé þetta rétt og minni grasnytjar hafi verið verk kvenna og vinnuhjúa má leiða að því líkur að nytjar á Ísland og Bretlandseyjum hafi verið svipaðar á plöntum sem finnast á báðum stöðum.“

Blóðberg læknar timburmenn

Guðrún segir að ritgerðin sé öllum aðgengileg á netinu og hún vonast til að áhugafólk um grasnytjar lesi og notfæri sér hana. „Sjálf kenni ég grasafræði við Landbúnaðarháskólann og nota upplýsingar um grasnytjar til að lífga upp á kennsluna og gera plöntur áhugaverðar. Ég sé til dæmis augun á nemendum opnast og áhugann á blóðbergi aukast þegar ég segi þeim að það lækni timburmenn.“

Að sögn Guðrúnar hefur hún ekki ákveðið hvort hún ætlar að skrifa doktorsritgerð um grasnytjar. „Þessa stundina segi ég nei enda tekur vinnan við Hespuhúsið allan minn tíma en hver veit nema ég geri það einhvern tíma í framtíðinni.“

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...