Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ostrusveppir eru úrvalsfæða, að sögn Magnúsar, sem getur gert hversdagsmat að hátíðarmat.
Ostrusveppir eru úrvalsfæða, að sögn Magnúsar, sem getur gert hversdagsmat að hátíðarmat.
Mynd / Úr einkasafni
Líf&Starf 21. nóvember 2017

Ostrusvepparæktun í endurunnum kaffikorgi

Höfundur: smh
Ostrusveppir þykja mikið lostæti og það er lítið mál að rækta þá til heimabrúks. Það sem meira er, þá getur þú endurnýtt kaffikorginn þinn og notað sem jarðveg fyrir ræktunina.
 
Magnús Magnússon sameinar áhuga sinn á endurnýtingu hráefna og svepparækt í ostrusvepparæktuninni. Hann er með umboð fyrir ostrusveppagró – sem notuð er í korginn – og kaupir það inn frá Hollandi og Belgíu.
 
Emmson sveppir
 
„Ég fékk áhuga á endurnýtingu hráefna fyrir nokkrum árum – sérstaklega þeirra sem hafa lent í urðun. Mér hefur líka fundist svepparækt sérstaklega áhugaverð og því má segja að þetta tvennt sameinist í ostrusvepparæktuninni. Ég hef sótt námskeið hjá RotterZwam í Hollandi en þeir eru upphafsmenn í því að nýta kaffikorginn í svepparækt inni á heimilunum. Ég hef líka sótt þekkingu til Grocycle í Englandi og tekið þátt í Mushroom learning network í Danmörku en það er hreyfing fólks í Evrópu sem hefur endurnýtingu að hugsjón,“ segir Magnús, sem markaðssetur vöru sína sem Emmson sveppi. 
 
„Þessi vistvæna svepparæktun hefur rutt sér mjög til rúms í borgarsamfélögum bæði austan hafs og vestan og það er ekki óalgengt að ræktunin fari fram inni í miðri borg þar sem kaffi- og tenotkun er mest,“ segir Magnús. 
 
„Þess má geta að framleiðsla á þessari hollustuvöru hefur gert það að verkum að sveppaframleiðsla er orðin jafnoki kaffiframleiðslunnar í heiminum hvað verðmæti varðar. Hún mun svo halda áfram að aukast með meiri vitneskju um efnainnihald þessara sveppa og áhrifum framleiðslunnar á líf fólks og áhrifa á umhverfið allt. Úrgangur frá ræktuninni er lyktarlaus og laus við mengun og einhver allra besta gróðurmold sem völ er á. Erlendis er moldin notuð til lífrænnar ræktunar.“
 
Bændur geta notað hálminn
 
Magnús býður fólki, sem fyrr segir, upp á tilbúinn pakka sem dugar til að hefja ostrusvepparæktunina – en kaffikorgurinn kemur frá heimilinu sjálfu eða úr nærumhverfinu, til dæmis frá veitingahúsum eða vinum. Hann bendir bændum líka á möguleikann að nota hálm. „Það er mjög gott að rækta ostrusveppi í hálmi og tilvalið fyrir bændur sem hafa góða aðstöðu til slíkrar ræktunar að framleiða ostrusveppi fyrir sjálfa sig og ef til vill til sölu á næsta hóteli eða veitingahúsi. Með því að framleiða þetta þannig á hverjum stað minnkar allur flutningur – og þar með vistsporið. Til að framleiða úr hálmi þarf bara að kaupa ræktunarílát, leiðbeiningar og sveppaþræði. 
 
Tilgangurinn með þessari ræktun og þróunarstarfi í svepparækt er meðal annars að minnka vistsporið og aðstoða fólk við að hefja sjálft sína ræktun. Á þriðja þúsund tonn af kaffi er flutt til Íslands um langan veg með tilheyrandi áhrifum á umhverfið. Við gerð kaffidrykkjar notast minna en eitt prósent af kaffiduftinu. Svepparæktunin felst í því að safna kaffikorgi og svo er blanda búin til úr honum, kalki og hálmi. Ostrusveppirnir vaxa í þessum massa og eru mjög næringarríkir af vítamínum og próteini – og sagðir styrkja ónæmiskerfi mannsins. Þetta er framleiðsla sem mengar ekki og það þarf ekki að auka ræktarland. 
Hún getur farið fram í ónotuðum byggingum innan borga og bæja, ef ætlunin er að rækta mikið magn. Ræktunin þarf þó að fara fram við eins hreinar aðstæður og mögulegt er. Komist önnur sveppagró inn í ræktunina utan frá er hún ónýt í það skiptið. Við uppáhellingu sótthreinsum við kaffikorginn, en önnur efni eins og hálm til dæmis – sem hægt er að nota líka – þarf að sótthreinsa við um 62 gráðu hita í um eina og hálfa klukkustund. Ræktunin fer fram í endurunnu plasti, sem sérstaklega er framleitt fyrir þessa notkun,“ útskýrir Magnús.
 
Bera engin gró
 
Hráefnið til framleiðslunnar eru sem fyrr segir gró frá sveppum sem Magnús segir að komi frá Hollandi og/eða Belgíu, með leyfi Matvælastofnunar. „Þetta kemur frá tveimur stærstu rannsóknarstofum í heiminum sem framleiða sveppaþræði. 
 
Ég hef svo sett saman pakka með búnaði og leiðbeiningum þannig að fólk getur ræktað sína ostrusveppi úr kaffikorgi sem fellur til á heimilinu. Þetta er bæði lærdómsríkt og skemmtilegt. Latínuheiti sveppanna er „Pleurotus Ostreatus“ (grár ostrusveppur). Sveppirnir eru ræktaðir þannig að þeir bera engin gró (fræ) þannig að það er engin hætta á smiti út í andrúmsloftið. Dósirnar eru seldar hjá Innigörðum ehf. í Hraunbæ 117 og ég hef einnig sent þær eftir pöntunum út á land.“
 
Gerir hversdagsmat að hátíðarmat
 
„Ég sé svepparæktun sem möguleika fyrir bændur og aðra sem eru í ferðaþjónustu til þess að geta ræktað sína eigin ostrusveppi úr kaffikorgi og/eða hálmi og boðið upp á þessa úrvalsfæðu sem gerir hversdagsmat að hátíðarmat,“ segir Magnús og hvetur þá sem hafa áhuga að setja sig í sambandi við sig í gegnum netfangið emmson@emmson.tv. Hann bendir áhugasömum einnig á Facebook-síðuna Sveppasamfélagið.  
 
Emmson ræktunarsettið
 
Tilgangurinn með ræktunarsettinu er að geta breytt notuðum kaffikorg í úrvals matvöru í stað þess að setja hann beint í ruslið eða moltugerð.
 
Með þessari ræktunaraðferð er hægt að nota kaffikorginn sem fellur til í eldhúsinu. Svo er bara bætt í ræktunarfötuna þegar kaffikorgur fellur til í þínu eldhúsi. Ef áhugi er á meiri framleiðslu þá má nálgast kaffikorg víða; á vinnustað eða næsta kaffihúsi. Það er hægt að nota margt fleira sem fellur til, eins og hálm, bylgjupappa og fleira. 
 
Notkunin á kaffikorginum er áhugaverð að því leyti að hann er aukaafurð af kaffiframleiðslunni og það þarf enga umfram orku þegar hann er notaður fljótlega eftir uppáhellingu. Við það ferli sótthreinsast hann, en önnur efni eins og hálm þarf að sótthreinsa við um 62 gráðu hita í um eina og hálfa klukkustund. 
 
Ræktunarsettið er búið til úr endurunnu plasti og álímdar prentaðar upplýsingar á endurunninn pappír. Hægt er að nota ræktunarfötuna aftur og aftur – í raun í mörg ár. Ef annað efni en plast væri notað undir ræktunina myndi sveppurinn éta það.

 

Skylt efni: ostrusveppir | svepparæktun

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....