Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Austurbærinn í Skálholti um aldamótin 1900, klæddur tjörupappa eins og getið er um í úttektum. Lengst til vinstri glittir í hús Skúla Árnasonar læknis sem er í byggingu. Til hægri sést í Skálholtskirkju.
Austurbærinn í Skálholti um aldamótin 1900, klæddur tjörupappa eins og getið er um í úttektum. Lengst til vinstri glittir í hús Skúla Árnasonar læknis sem er í byggingu. Til hægri sést í Skálholtskirkju.
Líf&Starf 9. desember 2014

Þar sem nýjungar áttu ekkert erindi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í Króníku úr Biskupstungum eftir Bjarna Harðarson segir meðal annars af stöndugum heimilum Bræðratungu á 19. öld. Í Vesturbænum bjuggu um miðja 19. öld hjónin Halldór yngri Þórðarson hreppstjóri og Margrét eldri Halldórsdóttir frá Vatnsleysu.

Á heimilinu eru alnafnar beggja hjóna í vinnumennsku, þau Halldór eldri Þórðarson vinnumaður og Margrét yngri Halldórsdóttir vinnukona. Í janúar 1860 gengur umgangspest um sveitina sem leggur Margréti húsfreyju í gröfina, 44 ára gamla. Hún lætur eftir sig sex syni, 6 til 15 ára að aldri.

Nútímasamfélagið verður til

Króníkan færir okkur magnaða mynd af því hvernig nútímasamfélag verður til og hvernig þeir íhaldssömu í gamla samfélaginu leiða byltingu nýrra tíma. Lifandi saga af ástum og örlögum forvera okkar í landinu.Bókin er 160 blaðsíður í stóru broti. Útgefandi er Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi.

Bókin er þrælskemmtileg aflestrar og góð lýsing á íslensku sveitasamfélagi. Frásagnir af fólki draga ekkert undan og tilvitnanir í blöð sýna að á sínum tíma var sjálfsagt að fjalla um sjálfsvíg og geðsjúkdóma á mjög hispurslausan hátt.

Eftirfarandi kaflabrot segir frá seinni konu Halldórs hreppstjóra og hinu merka og íhaldssama Vesturbæjarheimili í Bræðratungu, sem sagt síðasta vígi aldagamalla lífshátta þar sem nýjungar áttu ekkert erindi.

Holgóma og lítilsigld

Þegar Margrét eldri deyr er systir hennar og nafna vinnukona á bænum. Hún þótti heldur lítilsigld eins og segir í snilldarlegri minningargrein sem skrifuð var um konu þessa. Margrét yngri var holgóma sem vitaskuld hefur mótað sjálfsmynd hennar og merkt allt hennar líf. Framan af ævi var hún vinnukona hjá föður sínum og stjúpu en þegar faðir hennar deyr fer hún til systur sinnar í Bræðratungu.

Það kemur mörgum á óvart þegar Halldór Þórðarson velur sér þessa konu að brúði, liðlega ári eftir andlát Margrétar eldri. Í kirkjubók 11. júní 1862 segir um giftingu þeirra: „... helmingafjárlag verði lífserfingja auðið en deyi hún barnlaus þá er hans allt.“ Morgungjöf er 50 ríkisdalir. Svaramenn eru Magnús bróðir hennar, bóndi í Miðhúsum, og Þorleifur bróðir hans, bóndi í Austurbænum í Bræðratungu.

Bræðratungubóndinn passar upp á sitt og vill ekki að hluti af því sem hann hefur nurlað saman fari til mága hans í Ytri-Tungunni. En þessi skipan bendir líka til þess að Margrét hafi komið eignalaus í Bræðratungu þrátt fyrir að hafa þá unnið ævilangt sem vinnukona á stöndugu heimili.

Góðar voru samfarir þeirra hjóna, en ólíkt var þeim farið: Hann mikill vexti, fríður sýnum og fyrirmannlegur, harðger og einbeittur, skörungur hvar sem hann hlutaðist til, hvort sem var um sveitarmálefni eða heimilis, skapaður til að ráða fyrir, enda veitti hann heimili forstöðu frá því er hann missti föður sinn, 17 ára gamall, til þess er hann andaðist 83 ára, og hafði þó verið blindur 20 síðustu árin. Hún þar á móti fremur lítilsigld að sjá, hæglát í framgöngu og hógvær í lund, engin yfirburðakona að hæfileikum, enda engrar mentunar notið umfram það, sem títt var um almúga­stúlkur á uppvaxtarárum hennar. Ekki var trútt um, að sumir ætluðu henni það ofrausn, er hún tókst á hendur húsfreyjustöðuna í Bræðratungu. En þess var eigi langt að bíða, að hún áynni sér hylli heimamanna sinna, skyldra og vandalausra, og annarra út í frá, með alúð sinni, ósérhlífni og hjartagæsku, og stóð hún með fullri sæmd og almannahylli við hlið bónda síns, meðan hann lifði.

Hér er vitnað í fyrrnefnda minningargrein sem birtist að Margréti látinni, sennilegast skrifuð af stjúp­syni hennar, fyrrnefndum Halldóri Halldórssyni í Hrosshaga. Hún er merkt með fangamarkinu HH og höfundur er gerkunnugur heimili Margrétar. Hann er líka berorðari um meinta vankanta sem menn töldu á hinni látnu heldur en hægt er að ætla að nokkur utan fjölskyldu hefði leyft sér.

En það var ekki bara að menn vantreystu Margréti yngri til að taka við húsfreyjustöðu sem hún síðan gegndi með sóma. Konu þessari var heldur ekki ætlað langlífi en varð svo allra kerlinga elst, hún lést eins og fyrr sagði nokkrum mánuðum miður en hundrað ára sumarið 1925.

Fáum þeim, er sáu þessa konu fyrir 40 árum, mundi hafa komið til hugar, að henni entist svo aldur sem raun varð á, þá þegar virtist heilsa hennar og þróttur mjög á förum. Þó vann hún enn baki brotnu eftir það fram undir áttrætt. Þannig hafði hún unnið alla daga, frá því er hún mátti sín nokkuð, fyrst hjá föður sínum og stjúpu, síðan fyrir búi sínu og manns síns. Þar var jafnan eitt fjölmennasta heimili sveitarinnar. Þar uxu upp synir hennar og stjúpsynir og fjögur fósturbörn að auki. Búið var og eitt hið stærsta og gagnsamasta; var þar oft sannkallaður bjargarbær, er í harðbakka sló, enda var það gamalt máltæki þar í sveit: „Aldrei er sultur í Bræðratungu.“

Margrét eignaðist tvo syni með manni sínum og 1909 lét hún bú sitt í Bræðratungu í hendur Marel yngri syni sínum en sá eldri, Þórður, bjó þá með konu sinni, Kristínu Pálsdóttur, á Stóra-Fljóti. Eftir það dvaldist þessi aldraða kona til skiptis á heimilum sona sinna.

Hvíldartími hennar byrjaði fyrst þá, er tengdadætur hennar léttu af henni umsvifum og búsáhyggjum. Heilsan batnaði við hvíldina, þó að hún væri þá meir en áttræð. Lifði hún síðan í góðri elli glöð og ánægð til æviloka og skemti sér þá löngum við bóklestur. Til þess hafði hún aldrei fyrr átt frjálsa stund. Sjónin var svo góð, að hún sá á bók, jafnvel gleraugnalaust fram á síðustu dagana. Þrjú síðustu árin hafði hún ekki ferlivist en fullt ráð og rænu fram á dánardægur og andaðist án þess að hún virtist kenna banasóttar.

Það er óneitanlega stórfengleg mynd sem hér er dregin upp af aldargamalli holgóma sveitakonu sem er talin allra kvenna vesælust fertug en kemst þó til þeirra mannvirðinga að verða húsfreyja á glæstu og sögufrægu höfuðbóli. Hún er talin útslitið kerlingarskar um sextugt en bregður ekki búi fyrr en hún er komin á níræðisaldur og verður eftir það hamingjuhrólfur sem skemmtir sér við bóklestur, ýmist heima í Bræðratunguhverfinu eða á Stóra-Fljóti.

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...