Vætutíð er okkur hagkvæm
Lágt birtustig allan sólarhringinn
Halldór segir hrognin koma frá Hólum í janúar eða febrúar á þroskastigi sem kallist augnhrogn. „Hrognin klekjast sem kviðpokaseiði í mars, en einum til tveimur mánuði síðar förum við að gefa þeim fóður reglulega.
Fyrstu vikurnar eru seiðin alin í hrognabökkum sem vatn rennur í gegnum. Kviðpokaseiðin eru ljósfælin og því er höfð plata yfir bökkunum og þau alin í myrkri. Annars erum við með lágt birtustig í eldishúsinu allan sólarhringinn vegna þess að það fælir fiskinn að vera sífellt að slökkva og kveikja ljósin. Ef rafmagnið fer tekur við varabatterí í ljósunum sem halda 20% af vanalegu birtustigi.
Til að framleiða 100 tonn af matbleikju þarf um 120 tonn af fóðri, eða 1,2 kíló af fóðri á móti hverju kílói af fiski. Af því er tæpur helmingur fiskimjöl og svo jurtaolía og maís. Grófleiki fóðursins er frá örfínu ryki startseiðafóðursins, um 1,6 millimetrar og upp í 6 millimetra fóður fyrir matfiskinn.
Seiði sem við ölum áfram í matfisk eru á bilinu 10 til 20 grömm að þyngd þegar við flytjum þau í eldissalinn.“
Slátra einu sinni til þrisvar í viku
Guðmundur segir að þeir slátri einu til einu og hálfu tonni af bleikju tvisvar til þrisvar í viku. „Hér eru tveir starfsmenn sem sinna daglegum störfum í stöðinni en svo bætast tveir við, eigendurnir, þegar er verið að flokka eða slátra. Það má því segja að hér séu tveir fastir starfsmenn og tveir lausamenn.
Fiskurinn er um 400 grömm þegar við flytjum hann í útiker og 600 til 1.500 grömm þegar honum er slátrað og hefur þá verið í eldi í eitt og hálft til tvö ár.“
Mikið vatn í rigningartíð
Guðmundur segir að þrátt fyrir að hafa góðan aðgang að vatni hafi þeir gert tilraunir með endurnýtingu í einu keri og að það hafi gengið þokkalega. „Vatnið sem kemur úr hlíðunum hér fyrir ofan er gríðarlega mikið í rigningartíð eins og í ár og því engin ástæða til að endurnýta það. Vætutíð eins og núna er okkur mjög hagkvæm. Við viljum samt skoða þann möguleika að geta endurnýtt vatnið og geta gert það gerist þess þörf.“