Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Guðrún Björt Yngvadóttir, alheimsforseti Lionshreyfingarinnar klippir á borða við opnun nýrrar drykkjarvatnsstöðvar í barnaskóla í Tansaníu.
Guðrún Björt Yngvadóttir, alheimsforseti Lionshreyfingarinnar klippir á borða við opnun nýrrar drykkjarvatnsstöðvar í barnaskóla í Tansaníu.
Líf&Starf 14. nóvember 2018

„Lions hefur marga snertifleti við landbúnað“

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Fyrsti kvenkyns alþjóðaforseti Lions-hreyfingarinnar tók til starfa fyrr á þessu ári og svo skemmtilega vill til að það er Garðbæingurinn Guðrún Björt Yngvadóttir. Hún segir það mikinn heiður og traust sem henni var sýnt með kosningunni og tóku við krefjandi tímar hjá Guðrúnu sem ferðast nú heimshorna á milli til að halda merkjum Lions á lofti og gera heiminn um leið að betri stað til að búa á.
 
„Ég hef verið 26 ár í Lions en mér var boðin þátttaka í skemmtilegum Lionsklúbbi á þeim tíma og ákvað að slá til. Ég þekkti Lions vel því maðurinn minn er búinn að vera félagi lengi og margir okkar bestu vina voru og eru í Lions. Mér fannst þetta spennandi félagsskapur, með merkileg markmið. Það er gefandi og gaman að vera félagi í stærstu samtökum í heimi sem sinna mannúðar- og menningarmálum,“ segir Guðrún Björt Yngvadóttir, fyrsti kvenkyns alþjóðaforseti Lions-hreyfingarinnar. 
 
Þjóðarleiðtogar og stjórstjörnur
 
Fyrr á þessu ári var Guðrún Björt valin til að sinna forsæti í alheimssamtökum Lions og var hún fyrst kvenna valin til starfans. Frá því að hún tók við hefur lífið einkennst af miklum ferðalögum og fundum við fólk alls staðar að úr heiminum. 
 
„Þetta er mikill heiður og traust að vera valin sem alþjóðaforseti Lions en sömuleiðis mikil ábyrgð og vinna. Fyrir mig persónulega er þetta spennandi áskorun og ég er sannfærð um að ég geti komið góðu til leiðar,“ útskýrir Guðrún og segir jafnframt:
 
„Það að vera fyrsta konan til að gegna þessu embætti í 100 ára sögu Lions er alveg ótrúlega magnað. Í því felast mörg tækifæri, vegna þess hve mikla athygli það vekur. Það hefur opnað margar dyr fyrir Lions og ég hef fengið mörg tækifæri sem fyrirrennarar mínir fengu ekki, eins og til dæmis að hitta mjög upptekna þjóðarleiðtoga og stórstjörnur sem ég hef getað fengið með okkur til að leggja Lions lið.“
 
„Ísland er ótrúlega stórt land“
 
Það er einnig markvert að fyrsti kvenkyns forseti Lions komi frá Íslandi og segir Guðrún það víða hafa vakið athygli þar sem hún kemur.
 
„Það er spennandi að fyrsta konan sem er forseti samtakanna skuli koma frá Íslandi, það hefur vakið svo skemmtilega mikla athygli á landinu að mér finnst stundum að ég sé komin í ferðabransann eða orðin sölumaður íslenskra afurða og þekkingar. Ég er stolt af uppruna mínum og mér finnst gaman að tala um landið mitt og menningu og gefa góð dæmi frá Íslandi. Við erum leiðandi á mörgum sviðum og mér finnst svo ánægjulegt hve Íslandsáhuginn er mikill,“ segir Guðrún og bætir við:
 
„Til gamans get ég sagt frá því að í innsetningarræðunni minni benti ég á að það væri margt í fyrsta sinn núna. Til dæmis væri ég „fyrsti Íslendingurinn“ til að verða alþjóðaforseti Lions, en allir áttu von á því að ég nefndi að ég væri „fyrsta konan“ svo það var hátt hlegið í höllinni. Þess vegna er ég oftast kynnt sem „fyrsti Íslendingurinn“ og það vekur alltaf kátínu. Það hafa aðeins verið 7 alþjóðaforsetar frá Evrópu á undan mér, frá 4 stórum löndum, svo þetta eru tíðindi. Ísland er ótrúlega stórt land.“
 
Mikilvægt að hlusta og hvetja til dáða
 
Starf Guðrúnar er viðamikið enda er Lions-hreyfingin með eina og hálfa milljón félaga í 210 löndum og eru höfuðstöðvarnar í Chicago í Bandaríkjunum með um 300 manna starfslið.
 
„Þetta er full vinna og rúmlega það, starfið er viðamikið og flókið. Forsetinn er bæði stjórnandi „margmilljón dollara fyrirtækis“ og leiðtogi stærstu þjónustuhreyfingar í heimi. Forsetinn ber ábyrgð á rekstrinum og þarf að taka stórar ákvarðanir. Auk þess að vinna með starfsfólki á skrifstofunni við þróun verkefna þarf að stjórna fundum alþjóðastjórnar og ýmissa nefnda. Forsetinn er aðalgestur á Lionsþingum sem eru haldin í hverri heimsálfu og þarf að tala og svara fyrirspurnum á 4–5 fundum á dag (í 3–4 daga), svo það liggur mikil vinna í undirbúningi og að setja sig inn í stöðu mála á hverjum stað. Svo er bara haldið áfram til næsta lands. Við erum heima um 2–3 daga í mánuði,“ segir Guðrún sem leggur áherslu á mikilvægi þess að heimsækja sem flest Lionslönd og að hitta sem flesta félaga í samtökunum.
 
„Það er nauðsynlegt að veita upplýsingar, hlusta og hvetja til dáða. Lionsklúbbar sinna þjóðþrifamálum í sinni heimabyggð. Ég tek þátt í mikilvægum viðburðum með Lions og fagna sigrum með þeim. Í þessum heimsóknum hitti ég þjóðarleiðtoga, ráðherra og borgarstjóra og ráðamenn í atvinnu- og viðskiptalífi. Síðan eru haldnir margir blaðamannafundir og sjónvarpsviðtöl, þannig að viðfangsefnin eru ansi fjölbreytt.“
 
Hálfgerðir Lions-skógarbændur á Íslandi
 
Þar að auki eru ýmsir viðburðir sem þarf að sinna með samstarfsaðilum, svo sem Sameinuðu þjóðunum, ýmsum nefndum og stofnunum SÞ og fleirum, svo sem Special Olympics. Alþjóðlegi Hjálparsjóður Lions veitir árlega yfir 50 milljónir dollara í styrki á verkefnum á sviði mannúðar- og menningarmála og vegna náttúruhamfara. 
 
„Lions hefur marga snertifleti við landbúnað, bæði beint og óbeint. Það fer eftir hverjum klúbbi eða hverju landi, eða jafnvel heimsálfu hvernig það birtist, Lions er starfrækt í 210 löndum í öllum heimsálfum. Á alþjóðavísu erum við í samstarfi við FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar eigum við fulltrúa sem tekur þátt fyrir hönd Lions að móta stefnu og vinna að markmiðum SÞ, meðal annars að sjálfbærni, umhverfis- og loftslagsmálum, baráttu gegn hungri, bættri heilsu og heilbrigðum lífsstíl,“ útskýrir Guðrún.
 
Aðalverkefni Lions eru Barátta gegn sykursýki. Umhverfismál. Barátta gegn hungri. Sjónvernd og Barnakrabbamein. Fyrstu þrír flokkarnir tengjast innbyrðis á margan hátt, m.a. í gegnum landbúnaðinn.
„Lions í Evrópu hefur beint sjónum sínum að betri nýtingu landbúnaðarafurða, vinnur gegn matarsóun, að fækka kolefnissporum og betri nýtingu afurða úr heimabyggð; við bendum á hollustuna og efnahagslegan ábata. Mörg Lions-umdæmi í Evrópu vinna að verkefnum í þróunarlöndunum, metta hungraða með aðstoð við ræktun grænmetis og ávaxta eða gefa húsdýr (geitur, hænur o.fl.) til fæðuframleiðslu. Lions á Íslandi eru þátttakendur í ofanskráðu með einum eða öðrum hætti. En mig langar að nefna sérstaklega umhverfisverkefnin okkar sem eru heimsþekkt hjá Lions. Kvikmyndatökulið kom sérstaklega til Íslands til að gera myndband um verkefni okkar á þessu sviði. Allir Lionsklúbbar á Íslandi sinna ýmsum umhverfisverkefnum, til dæmis trjáplöntun, landgræðslu, vinnu gegn uppblæstri, við að hreinsa strendur og náttúru. Lionsfélagar á Íslandi eru hálfgerðir skógarbændur.“

5 myndir:

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...