Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Sæði tekið úr hrútnum Hreini frá Þernunesi.
Sæði tekið úr hrútnum Hreini frá Þernunesi.
Mynd / MHH
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að þátttakan í sæðingum hafi verið mun meiri í ár samanborið við árin þar á undan. Fara þurfi aftur til ársins 2012 til að finna álíka aðsókn, en þá hafi líka verið mun fleira fé í landinu. Mest aðsókn var í hrúta með erfðaefni sem veitir mótstöðu gegn riðu.

Eyþór Einarsson.

Nokkur atriði hafa gert það að verkum að áhugi á erfðaefni hefur verið mikill. Fyrst nefnir Eyþór Einarsson vilja bænda til að rækta gegn riðu, en mjög hátt hlutfall hrútanna á hrútastöðvunum í ár voru með arfgerðir sem geta veitt vernd gegn sjúkdómnum. Það sé nýmæli, en í fyrra hafi bændum fyrst staðið til boða að velja verndandi eða mögulega verndandi erfðaefni úr örfáum hrútum.

„Svo eru þetta miklu meira spennandi hrútar en mann hefði órað fyrir að hægt yrði að bjóða upp á og þessir ARR hrútar eru að standa sig frábærlega vel,“ segir Eyþór. Það er eina arfgerðin sem er alþjóðlega viðurkennt að veiti vernd gegn riðuveiki, en svo eru nokkrar sem eru skilgreindar sem mögulega verndandi.

Þá bætist við að ríkið hafi stigið inn með myndarlegan stuðning. Hver sæðing með sæði úr hrútum sem bera ARR genasamsætuna verði styrkt um allt að 1.030 krónur. Þá geti bændur fengið niðurgreiðslu allt að 515 krónum ef sætt var með erfðaefni úr hrútum sem beri mögulega verndandi arfgerðir. Samkvæmt verðskrá hrútaskrárinnar borga bændur á bilinu 1.030 til 1.520 krónur fyrir hvern sæðisskammt út frá því hversu margar ær eru sæddar. Eyþór nefnir jafnframt að farnar hafi verið tvær kynningarferðir um landið í haust, annars vegar undir yfirskriftinni „Ræktun gegn riðu“ og hins vegar hinir árlegu hrútafundir. Þá hafi komið upp nýtt riðutilfelli í haust sem hafi hugsanlega ýtt enn frekar við bændum.

Teikning / Hlynur Gauti

Verndandi arfgerðir eftirsóttar

Á fengitíðinni núna voru hrútar með verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir langvinsælastir. Eyþór segir að það muni hafa jákvæða þýðingu á innleiðingu þessara afgerða. „Það er greinilegt að bændur eru til í að taka þátt í þessu verkefni. Ég held að þessir ARR hrútar sem voru á stöðvunum núna hafi verið fullnýttir og rúmlega það,“ segir Eyþór.

Bændur hafi ekki þurft að gefa mikinn afslátt á almennum kynbótaeiginleikum til að koma upp mótstöðu gegn riðu í sínar hjarðir, því hrútarnir með þessar eftirsóttu arfgerðir séu öflugir kynbótagripir. Til að mynda hafi Gullmoli frá Þernunesi, sem kom inn á sæðingastöð haustið 2022 vegna þess að hann ber ARR erfðabreytileikann, reynst besti lambafaðirinn í fyrra. Flestir hrútarnir með ARR arfgerðina hafi verið lambhrútar og eru þeir ekki með fulla afkastagetu til sæðisframleiðslu, þó nokkrir þeirra hafi ekki staðið fullorðnu hrútunum langt að baki. Eyþór segir það hafa verið áskorun fyrir hrútastöðvarnar að anna eftirspurninni og var stundum ekki hægt að afgreiða pantanir eins og þær komu. Þá hafi eldri ARR hrútar hlaupið undir bagga með þeim yngri.

Lambhrútarnir lofi góðu

„Þetta eru spennandi gripir en auðvitað höfum við ekki verið að velja lambhrúta hingað til á stöðvarnar, því við höfum viljað vera örugg á því að þetta séu gripir sem séu að skila einhverju,“ segir Eyþór og vísar til að venjan sé að framkvæma afkvæmarannsóknir á gripum áður en þeir eru teknir inn á hrútastöðvarnar. „Þetta eru allt kandídatar í að verða spennandi og góðir hrútar, en auðvitað verður það þannig að einhverjir þeirra munu reynast eitthvað síðri en væntingar standa til, eins og alltaf gerist með lambhrúta.“

Þá sé mjög misjafnt milli hrúta hvort þeir ráði við þessa miklu eftirspurn. Reiknar Eyþór með að það sé ákveðin kúnst að halda þeim þannig að þeir virki, sérstaklega þegar kemur að lambhrútum. „Einhverjir voru komnir í hvíld á tímabili og komu svo inn aftur.“

Sæðingarhrútar fá tugguna sína.

Vanda þarf til verka

„Það sem breyttist núna er að við getum farið víðar og tekið hrúta af svæðum sem voru áður lokuð,“ segir Eyþór. Skilyrðið sé þó að viðkomandi hrútar beri verndandi arfgerðir. Landið sé hólfaskipt í sauðfjárveikivarnarhólf og þau hólf þar sem hefur greinst riða á undanförnum tuttugu árum hafi verið utan seilingar fyrir hrútastöðvarnar.

Mikilvægt er að vanda til verka þegar kemur að innleiðingu á ARR erfðabreytileikanum, því hrútarnir eiga allir ættir að rekja til sama bæjarins, eða Þernuness í Reyðarfirði.

Sauðfjárhjörðin á þeim bæ er sú fyrsta á landinu sem vitað var til að byggi yfir ARR arfgerðinni, sem er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi gegn riðuveiki. Gimsteinn frá Þernunesi var fyrsti hrúturinn sem staðfest var að bæri ARR.

Hann, ásamt Hornsteini og Gullmola frá sama bæ, voru teknir til notkunar á hrútastöðvunum veturinn 2022–23. Nutu þessir hrútar vinsælda og fór erfðaefni úr þeim víða.

Þegar nýjasta hrútaskráin er skoðuð sést að bæst hefur nokkuð í fjölda þeirra hrúta sem bera ARR arfgerðina, en þeir eru ýmist frá Þernunesi eða undan hrútum þaðan. Þá eru einnig margir alveg óskyldir hrútar með aðrar genasamsætur sem eru skilgreindar sem „mögulega verndandi“ eða „lítið næmar“. Sá hrútur sem var langmest pantaður var Hreinn frá Þernunesi, en hann er fyrsti arfhreini ARR hrúturinn sem hefur komið á hrútastöð og því gulltryggt að afkvæmi hans beri erfðabreytileikann.

„Við erum búin að herma áhrifin sem gætu orðið af innleiðingu ARR til að leiðbeina okkur hvernig er best að standa að þessu. Eitt af því sem skiptir mjög miklu máli í því er að skipta ört út hrútum fyrstu árin,“ segir Eyþór. Stefnt verði að því að taka inn stærri hóp af lambhrútum næsta vetur og skipta sem mest út þeim hrútum sem nú voru í boði.

Jón Hjalti Eiríksson.
Bændur viljugir til þátttöku

Jón Hjalti Eiríksson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), segir ánægjulegt hversu mikill áhugi var á erfðaefni úr hrútum með verndandi eiginleika og hversu hratt ræktun gegn riðu fari af stað. Hann kom að vinnu verkefnisins „Ræktun gegn riðu – Áhrif mismunandi leiða við innleiðingu verndandi arfgerða metin með slembihermunum.“ Þar hafi áhugi bænda á þátttöku verið stærsti óvissuþátturinn í öllum áætlunum sem voru gerðar á dreifingu genanna. „Ég held að miðað við áhugann núna verði það alls ekki takmarkandi þáttur,“ segir Jón Hjalti.

Bændur innleiði verndandi arfgerðir í sauðfjárstofninn á eigin forsendum og hvíli engin kvöð á þeim frá stjórnvöldum, fyrir utan ný ákvæði sem eigi við um bæi sem lendi í riðuniðurskurði. „Stjórnvöld treysta bændum í að fara í þetta, en styðja við það fjárhagslega með því að borga niður sæðingar, og vonandi líka arfgerðagreiningar,“ segir Jón Hjalti.

Notkun lambhrúta lykilatriði

Þar sem áhuginn hafi verið svona mikill hefði verið heppilegra að hafa fleiri ARR lambhrúta á stöðvunum. Þeir önnuðu ekki eftirspurn og þurfti því að grípa til eldri hrúta.

Í áætlunum við innleiðingu ARR í íslenska sauðfjárstofninn sé mælt með að nota hrútana sem bera þann erfðafjölbreytileika ekki í meira en eitt ár, en vanalegt sé að nota hrúta í upp undir fjögur ár. „Ef það næst að koma ARR arfgerðinni út um allt land, sem stefnir í, þá verða allar kindur á einhvern hátt undan þessum Þernuneskindum,“ segir Jón Hjalti. Það geti verið allt í lagi, en ef það gerist mjög hratt þá sé mikilvægt að það sé ný kynslóð af hrútum í notkun á hverju ári. Reikna megi með mörgum arfhreinum ARR hrútum eftir tvö til þrjú ár og þá sé betra að fyrstu ARR hrútarnir séu langafar þeirra frekar en afar þeirra. Stefna skuli að því að ná sem flestum kynslóðum á sem skemmstum tíma.

Jón Hjalti segir almennt talið að með skyldleikarækt geti komið í ljós neikvæðir víkjandi eiginleikar í búfé. Það hafi gerst víða þó ekki séu sterkar vísbendingar um að það sé vandamál í íslenska sauðfjárstofninum. Með innleiðingu ARR sé skyldleikarækt ekki mesta áhyggjuefnið, heldur annað nátengt hugtak – erfðafjölbreytni. Mikilvægt sé að halda sem fjölbreyttustum genum í stofninum til að geta haldið kynbótastarfinu áfram til framtíðar.

Anton Torfi Bergsson.
Meira álag á hrútastöðvunum

Á landinu eru tvær hrútastöðvar, ein á Vesturlandi og önnur á Suður- landi, og eru þær reknar af búnaðarsamböndunum á hvorum stað. Framkvæmdastjórar þeirra beggja eru sammála um að sæðingar hafi heilt yfir gengið mjög vel. Hrútastöðin í Borgarnesi er í umsjá Antons Torfa Bergssonar og sú sem er í Þorleifskoti í útjaðri Selfoss er stjórnað af Sveini Sigurmundssyni.

Anton Torfi vildi ekki fullyrða hvort það hafi orðið mikil aukning á bændum sem nýta sér þessa þjónustu eða hvort sömu bændurnir hafi keypt meira en vanalega. Hann tók þó sérstaklega eftir því að Húnvetningar hafi verið duglegir við sæðingar. Þeir hrútar sem ekki báru verndandi arfgerðir voru mun minna notaðir en hefði annars verið.

Eins og áður segir var mikil ásókn í hrútinn Hrein frá Þernunesi og tók Anton Torfi eftir því að bændur sem rækti hyrnt fé hafi ekki sett fyrir sig að nota sæði úr honum, þótt hann sé kollóttur. Mótstaðan sem hann gefi gegn riðu skipti þá bændur meira máli en útlit fjárins.

Sveinn Sigurmundsson.
Fræði á bak við gæðasæði

Sveinn segir að á hrútastöðinni við Selfoss hefjist starfsfólkið handa við sæðistöku klukkan fimm á morgnana. Dýralæknir meti svo gæði sæðisins og þynni út með sérstökum vökva með tilliti til þéttleika sæðisfrumanna. Þá sé sæðið sett í strá sem innihaldi hvert fimm skammta. Þessu er svo dreift út til bænda í litlum hitabrúsum, ýmist með flugi eða bílum, en Sveinn segir bændur á Norðurlandi geta verið komnir með sæðisskammta um hádegisbil.

Flestir bændur fari á sæðingarnámskeið og sæði sínar kindur sjálfir sama dag og þeir fá sæðið í hendurnar.

Hægt sé að frysta sæðið, en bestur árangur náist sé það ferskt. Mikilvægt sé að halda réttu hitastigi og segir Sveinn ferskt sæði lifa í vel rúman sólarhring og að árangurinn geti verið allgóður sé það notað daginn eftir.

Fanghlutfallið á því sæði sem fór til bænda frá kynbótastöð Suðurlands á fengitíðinni 2022 var samkvæmt Sveini sjötíu og fimm prósent. Þá sé merkjanlegur munur á frammistöðu á milli bæja og þar sem mesta reynslan er heppnist sæðingar oft í áttatíu prósent tilfella.

„Ef menn vanda sig við að leita og finna blæsma ær og eru með rólegheit við sæðingar þá er árangur góður.“ Mjög misjafnt sé milli búa hversu margir sæðisskammtar séu teknir, en nokkur bú sæði yfir hundrað ær á meðan önnur sæði færri en fimm.

Dökkgræn flögg standa fyrir verndandi arfgerð og ljósgræn fyrir mögulega verndandi.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...