Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Roberto Azevêdo, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO, segir að ekki sé hægt að komast hjá því að spár og tölur um framvindu heimsviðskipta séu ansi ljótar um þessar mundir.
Roberto Azevêdo, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO, segir að ekki sé hægt að komast hjá því að spár og tölur um framvindu heimsviðskipta séu ansi ljótar um þessar mundir.
Mynd / WTO
Fréttaskýring 12. maí 2020

Jafnvel svartsýnustu spár WTO gætu reynst full bjartsýnar þegar upp verður staðið

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Alþjóðaviðskiptastofnunin [World Trade Organization – WTO] spáði þann 8. apríl allt að 32% sam­drætti í heimsviðskiptum vegna COVID-19 faraldursins. Samt er þar trúlega um mjög varfærna spá að ræða af hálfu hagfræðinga WTO. 
 
Svartsýn spá WTO um lækkun skýrist af fordæmalausu eðli þessarar heilbrigðiskreppu og óvissunnar um nákvæm efnahagsleg áhrif hennar. Hagfræðingar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar telja að lækkunin muni líklega vera meiri en samdrátturinn sem varð í viðskiptum sem stafaði af alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008–09.
 
Allir sérfræðingarnir höfðu rangt fyrir sér í byrjun árs 2020
 
Þetta er mikið bakslag, sér í lagi ef horft er á spár fjármálasérfræðinga eins og hjá Alþjóðabankanum í upphafi árs sem spáði 2,5% efnahagsvexti á árinu 2020, síðan 2,6% 2021 og 2,7% 2022. Mestum hagvexti var spáð í Kína á þessu ári, eða 5,9%, en hann var 6,1%  árið 2019. Síðan hefur allt farið á verri veg vegna heimsfaraldurs COVID-19, meira að segja viðskipti með olíu á heimsmarkaði hafa hrunið nær algjörlega. Á þeim markaði var reyndar búið að spá 5,4% samdrætti, en samt ekki algjöru hruni. Allir sprenglærðu sérfræðingarnir sáu þessa þróun ekki fyrir og enginn þeirra virðist hafa haft ímyndunarafl til að spá fyrir um þá framvindu sem nú er staðreynd.  
 
Eins og sjá má á þessu grafi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar stefnir í hrikalegan samdrátt í vöruviðskiptum í heiminum á þessu ári með tilheyrandi áhrifum á þjóðarframleiðslu. 
 
Óvissan er vond en samt óþarft að endurtaka fyrri mistök
 
Áætlanir um endurheimt á árinu 2021 eru jafn óvissar og niðurstöður ráðast að miklu leyti af lengd faraldursins og skilvirkni viðbragða við þessari heilsufarsvá. Það er einmitt óvissan sem er verst í öllu þessu dæmi. Ríkisstjórnir um allan heim eru ekki öfundsverðar af að þurfa að taka mjög stórar efnahagslegar ákvarðanir þessar vikurnar, án þess að hafa í raun nokkurn skapaðan hlut í höndunum til að byggja sínar spár á um líklega niðurstöðu. Þess vegna er nær öruggt að þegar efnahagskerfi heimsins fara að komast í gang aftur þá muni verða næsta auðvelt að benda á ótal mistök sem örugglega er verið að gera um þessar mundir. 
 
Að vísu búa menn að reynslu frá efnahagskreppunni 2008 um þau mistök sem þá voru gerð og óþarfi að endurtaka þau nú. Í þessu ástandi er þó trúlega það eina sem hægt er að segja með fullri vissu, að ef ekkert er gert, þá muni fara illa. Aðgerðir einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og ríkisstjórna snýst því um að hafa kjark og áræði til að takmarka óhjákvæmilegt tjón eins og kostur er. 
 
Heilbrigðiskreppan hefur neytt stjórnvöld til að grípa til fordæmalausra ráðstafana
 
„Þessi kreppa er fyrst og fremst heilbrigðiskreppa sem hefur neytt stjórnvöld til að grípa til fordæmalausra ráðstafana til að vernda líf fólks,“ sagði framkvæmdastjóri WTO, Roberto Azevêdo á ráðstefnu í byrjun apríl. 
 
„Óhjákvæmileg samdráttur í viðskiptum og framleiðslu mun hafa sársaukafullar afleiðingar fyrir heimilin og fyrirtæki, ofan á þá þjáningu sem stafar af sjúkdómnum sjálfum.“
 
Sagði hann mikilvægt að halda faraldrinum í skefjum og draga úr efnahagslegu tjóni hjá fólki, fyrirtækjum og ríkjum heims. Þá yrðu stefnumótendur að byrja strax að skipuleggja framhaldið í kjölfar faraldursins.
 
Ljótar tölur
 
„Þessar tölur eru ljótar – það er ekki hægt að komast í kringum það. Hröð og öflug uppbygging er samt möguleg. 
 
Ákvarðanir sem nú eru teknar munu ákvarða framtíðarform bata og hagvaxtarhorfur í heiminum. Við verðum að leggja grunn að sterkum, viðvarandi og félagslega innifalinn bata. 
 
Verslun mun verða mikilvægur liður í þessu ásamt ríkisfjármálum og peningamálum almennt. Að halda markaði opnum og fyrirsjáanlegum, svo og hlúa að hagstæðara viðskiptaumhverfi, er mikilvægt til að örva endurnýjun í fjárfestingu sem nauðsynleg er. Ef lönd vinna saman munum við sjá mun hraðari bata en ef hvert land kemur fram eitt og sér, “ sagði Roberto Azevêdo.
 
Verulegur samdrátur hefur orðið í vöruflutningum með skipum vegna útbreiðslu COVID-19. Mynd / Port of Hamborg
 
Meirihluti farþegaflugs liggur niðri vegna heimsfaraldursins og þúsundir flugvéla með gríðarlega fragtflugsgetu hafa verið kyrrsettar. Mynd / PIE
 
Samdráttur var hafinn fyrir COVID-19
 
Þegar var farið að hægja á viðskipti árið 2019, áður en COVID-19 skall á. Þá var þegar orðin mikil  spenna í viðskiptum og hægt hafði á hagvexti. Heimsviðskipti voru farin að sýna lítils háttar samdrátt á árinu 2019, eða um 0,1% miðað við að hafa aukist um 2,9% árið áður. Á sama tíma lækkaði verðmæti vöruútflutnings heimsins árið 2019 í dollurum talið um 3%, eða í 18,89 billjónir Bandaríkjadala.
 
Þjónustuliðurinn var á góðri siglingu
 
Aftur á móti jukust viðskipti í formi seldrar þjónustu árið 2019 og útflutningur í þeim lið jókst í dollurum talið um 2% og fór í 6,03 billjónir Bandaríkjadala. Þensluhraðinn var samt hægari en árið 2018 þegar þjónustuviðskipti jukust um 9%. 
 
Horfur fyrir viðskipti árin 2020 og 2021
 
Efnahagslegt áfall vegna COVID-19 heimsfaraldurs býður óhjá­kvæmilega upp á saman­burð á alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008–09. Þessum kreppum svipar að vissu leyti saman að mati sérfræðinga WTO, en eru samt í eðli sínu ólíkar.
 
Spár byggðar á ágiskunum
 
Líkt og á árunum 2008–09 hafa stjórnvöld gripið inn í peningastefnu og ríkisfjármál til að sporna við niðursveiflu og veita fyrirtækjum og heimilum tímabundna tekjutryggingu. Útgöngubann, ásamt takmörkunum á hreyfingu og félagslegri nálægð manna á milli til að hægja á útbreiðslu sjúkdómsins, hafa haft mikil áhrif á framboð, flutninga og ferðir vinnuafls á þann hátt sem ekki varð vart í fjármálakreppunni 2008. Lokað hefur verið fyrir heilu atvinnugreinarnar, þar með talið hótel, veitingastaði og smásöluverslun sem ekki er beinlínis nauðsynlegt að halda gangandi. Ferðaþjónusta og umtalsverður hluti af framleiðslukeðju ríkja hefur stöðvast. Undir þessum kringumstæðum krefst spá um efnahagshorfur þess að forsendur um framvindu sjúkdómsins séu mjög sterkar og meira verður að treysta á áætluð gögn og ágiskanir frekar en staðreyndir vegna skorts á öruggum heimildum. 
 
Jafnvel svartsýnasta spá WTO gæti reynst full bjartsýn
 
Samkvæmt bjartsýnu atburðarásinni í spám WTO verður viðskiptabati búinn að jafna stöðuna sem var við upphaf COVID-19 þegar undir lok þessa árs. Fáir telja slíka niðurstöðu þó raunhæfa, ekki síst ef tillit er tekið til breyttrar hegðunar fólks vegna heimsfaraldursins, ferðatakmarkana og hruns í ferðaþjónustu og flugi. Meira að segja má telja líklegt að svartsýna spá WTO um atburðarásina sé full bjartsýn. Þar er gert ráð fyrir að viðskipti verði komin í sama horf á heimsvísu í árslok 2022 og þau voru á árunum 2013 til 2014. 
 
Langt frá því að þróuninni fyrir 2008 hafi verið náð áður en COVID-19 braust út
 
Eftir fjármálakreppuna 2008–09 voru viðskiptin í heiminum langt frá því að vera búin að ná fyrri þróun þegar COVID-19 skall á. Að mati sérfræðinga Alþjóða-viðskiptastofnunarinnar er sterk uppsveifla líklegri ef fyrirtæki og neytendur líta á heimsfaraldurinn sem tímabundið áfall. Í þessu tilfelli gætu útgjöld vegna fjárfestingarvöru og varanlegra hluta haldið áfram á næsta stigi þegar kreppan fer að líða. Á hinn bóginn, ef óvissa verður langvarandi, er líklegt að heimilin og viðskipti fari enn varlegar en áður í að hefja eyðslu á ný.
 

Fátt er svo með öllu illt

Þrátt fyrir þá skelfingu sem COVID-19 hefur skapað í heiminum með tilheyrandi mannfalli, þá sjá menn líka möguleika í að byggja upp jákvæða þætti í kjölfar faraldursins. 
 
Vaxandi fylgi er við þá hugmyndafræði að augljósasta leiðin út úr ógöngunum sé að nýta sem best alla þætti sem nærumhverfið hefur upp á að bjóða í stað þess að kaupa allar nauðsynjar frá öðrum ríkjum með tilheyrandi sóun. Þar er fæðuöryggi mjög ofarlega á blaði ásamt aðgengi að hreinu neysluvatni og sjálfbærri nýtingu orkulinda. Það getur oft haft í för með sér mun meiri ávinning en flestir gera sér í hugarlund. 
 
Í Bandaríkjunum hafa menn vaknað við þá staðreynd að um leið og veitingastaðir og verslanir lokuðu, þá misstu bændur mikilvæga viðskiptavini. Þá hefur lokun sláturhúsa og kjötvinnslustöðva vegna kórónasmits hjá starfsmönnum gert illt verra. Nú er farin af stað þar í landi hvatningarbylgja þar sem skorað er á fólk að sækja veitingahús í því augnamiði að styrkja með því frumframleiðendur matvæla. Mikill ótti er nefnilega kominn upp um að ef bændur gefist upp, þá geti Bandaríkjamenn verið að horfa fram á fæðuskort á næstu misserum.
 
Á eylandinu Íslandi er ávinningur af nýtingu matvæla úr nærumhverfinu jafnvel enn augljósari og meiri en í flestum öðrum ríkjum. 
 
Kosturinn við að nýta verslanir og veitingahús sem höndla með íslensk matvæli er margþættur. Nýting á innlendum náttúrugæðum og fæðu sem náttúran gefur af sér, hefur sömu áhrif á nærsamfélagið og efnahagskerfið hér og gerist í öðrum ríkjum:
 
  • Það skapar hringrás peningaveltu í samfélaginu á Íslandi sem annars færi í að skapa sams konar hringrás og styrkja samfélög í öðrum löndum. 
  • Það sparar m.a. dýrmætan gjaldeyri sem hægt er að nýta til að styrkja okkar eigin innviði.
  • Það sparar gríðarlegan kostnað við flutninga.
  • Það dregur stórlega úr mengun vegna flutninga um langan veg.
  • Það skapar fólki vinnu sem skilar sköttum og gjöldum til að taka þátt í kostnaði af rekstri samfélagsins á Íslandi.
  • Það styrkir byggð í dreifbýli sem auðveldar öllum Íslend­ingum og gestum þeirra að nýta gæði náttúru landsins.
  • Það styrkir framleiðslu á heilsusamlegum matvælum þar sem lítt eða ekki eru notuð skaðleg hjálparefni við framleiðsluna.
  • Það styrkir framleiðslu á matvælum þar sem lítt eða ekki eru notuð sýklalyf sem skapað geta sýklalyfjaónæmi.
  • Það styrkir þróunarvinnu og rannsóknir í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og við nýtingu náttúrugæða af öllum toga.
  • Það styrkir vísindarannsóknir og tækniþekkingu við framleiðslu tækja og búnaðar fyrir sjávarútveg, landbúnað og margvíslegan iðnað.
  • Það styrkir þróunarvinnu og rannsóknir á matvælasviði, líftækniiðnaði og fleiri greinum.
  • Það styrkir iðngreinar sem nauðsynlegar eru til uppbyggingar og viðhalds at­vinnu­lífinu í landinu. 
  • Það gerir Ísland enn ákjósanlegra land til búsetu.

Efnahagsútlit Evrópu er allt annað en gott vegna COVID-19

Innan Evrópuráðsins, sem er samtök 47 ríkja í Evrópu, gætir vaxandi svartsýni vegna áhrifa af COVID-19 faraldrinum.  Þar ríkti samt talsverð bjartsýni þann 13. febrúar síðastliðinn þegar því var spáð að vöruframleiðsla í Evrópusambandsríkjunum yrði í um 1,2% stöðugum vexti út árið 2020 og 2021. 
Evrópuráðið spáði því líka í febrúar að heildarhagvöxtur innan ESB færi úr 1,5% af vergri þjóðarframleiðslu á árinu 2019 í 1,4% á árinu 2020. Þá var spáð 1,3% verðbólgu á árinu 2020 og 1,4% á árinu 2021. 
 
Tiltölulega bjartsýn efnahagsheimsmynd hefur hrunið
 
Nú er kominn maí og ljóst að þessi áhyggjulitla sýn Evrópuráðsins á stöðu efnahagsmála er algjörlega hrunin vegna COVID-19 faraldursins. Allt annað hljóð var komið í strokkinn í skýrslu Evrópuráðsins þann 17. apríl og talað um harkalegan samdrátt. Vísað er í spá Deutsche bank og í samanburð við fyrri spár og áætlað að verg þjóðarframleiðsla í evru-ríkjunum geti orðið -4,9% vegna COVID-19 í staðinn fyrir +1,2%. Þá er vísað í innanhússspá teymis yfirhagfræðings DG Trade sem gerir ráð fyrir 9,7% samdrætti í viðskiptum á heimsvísu á árinu 2020. Þar er líka spáð 9,2% samdrætti á útflutningi á vörum og þjónustu hjá ESB ríkjunum 27 sem nemur um 285 milljörðum evra samdrætti. Þá verði um 8,8% samdráttur í innflutningi allra Evrópuríkja, eða sem nemur 240 milljörðum evra. 
 
Dekkri spár hjá WTO
 
Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO virðist byggja á aðeins öðrum forsendum. Þar er gert ráð fyrir því að neikvæð áhrif COVID-19 að samdráttur í heimsviðskiptum geti numið allt frá 13 til 32% á árinu 2020. Er það byggt á gögnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF, Alþjóðabankans og OECD.  Tekið er fram í þessum spám að mikil vafaatriði séu enn í spilunum varðandi framhaldið. Evrópuráðið hugðist birta nýja spá í dag, 7. maí. 
 
Flestum leikmönnum virðist ljóst að þegar skrúfað er nær algjörlega fyrir tekjuinnstreymi í fjölmörgum atvinnugreinum, þá þýði það hreina skelfingu fyrir viðkomandi ríki. Ef fjárhagstaðan hefur verið veik fyrir eins og í mörgum Evrópusambandsríkjunum, þá má líkja stöðunni við efnahagslegar hamfarir. Akkerin í efnahagskerfi ESB landanna hafa verið Þýskaland, Frakkland og Bretland. Nú er Bretland á útleið, svo ríkjasamsteypa ESB verður að reiða sig á mátt Þjóðverja og Frakka til að bjarga málum þar sem ljóst er að bæði Ítalía og Spánn voru fyrir COVID-19 nánast í efnahagslegri gjörgæslu.  
 
Fyrir tveimur mánuðum voru ekki miklar áhyggjur af einhverjum vírus
 
Paolo Gentiloni, framkvæmda­stjóri fjármálasviðs hjá Evrópu­sambandinu, var bjartsýnn í febrúar við upphaf heimsfaraldursins þegar hann sagði: 
 
Paolo Gentiloni.
„Horfur í efnahagslífi Evrópu eru fyrir stöðugan, að vísu léttvöxt á næstu tveimur árum. Þetta mun lengja lengsta tímabil vaxtar frá því að evran var tekin upp árið 1999, með samsvarandi góðum fréttum á atvinnumarkaðnum. Við höfum einnig séð hvetjandi þróun hvað varðar minni spennu í viðskiptum og ótta við að Brexit gangi í gegn án samninga. En við stöndum enn frammi fyrir verulegri óvissu sem varpar skugga á framleiðslu. Hvað varðar kórónavírusinn er of fljótt að meta umfang neikvæðra efnahagslegra áhrifa af völdum hans.“
 
Evrópusambandið hafði á þessum tímapunkti meiri áhyggjur af viðskiptastríði milli Bandaríkjanna og Kína og útgöngu Breta úr ESB en einhverri veirusýkingu. Nú hefur COVID-19 sýnt að kórónaveiran er mun meiri áhrifavaldur á heimsviðskiptin er deilur ráðamanna í Bandaríkjunum og Kína. 
 
Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...