Ört vaxandi fjárfestingar í nýrri hátækni í landbúnaði þrátt fyrir COVID-19
Hátækni í landbúnaði, sem ýmist er kölluð „Agtech“ eða „Agritech“ er tiltölulega ný skilgreining. Hún snýst um að auka skilvirkni og sjálfbærni í landbúnaði með innleiðingu á nýjustu tækni, ekki síst í líftækni og jafnvel gervigreind. Þessi geiri hefur vaxið gríðarlega á síðustu fimm árum. Undir þessari skilgreiningu hefur sprottið upp fjöldi sprotafyrirtækja um allan heim og er vöxtur þeirra mjög hraður þrátt fyrir COVID-19.
Samkvæmt fjármálariti Forbes jókst veltan í greininni um 40% á árinu 2018, eða í 17 milljarða dollara. Í júní síðastliðnum var búið að fjárfesta fyrir 8,8 milljarða dollara í greininni í 798 samningum í Bandaríkjunum á fyrstu sex mánuðum ársins. Enda er talið að hátæknilandbúnaður geti skipt sköpum við að brauðfæða ört vaxandi mannfjölda á jörðinni.
Um 130 milljarðar dollara í hátæknilandbúnað á heimsvísu
Agtech-skilgreiningin nær yfir nánast alla þætti tækniinnleiðinga, allt frá hugbúnaði til jarðvegsrannsókna, plöntuþróunar, gróðureftirlits, vaxtarstýringa og nýtingu gervihnatta í þágu landbúnaðar og gervigreind. Forbes hefur eftir stjórnanda hjá Better Food Ventures að í ágúst síðastliðnum hafi verið áætlað að um 130 milljarðar dollara væru í stýringu fjárfestingasjóða í Agtech-iðnaði á heimsvísu. Undir þessa skilgreiningu fellur líka innleiðing sjálfvirkni í ýmsum greinum landbúnaðar.
Hátækni innleidd í hamprækt
Á Íslandi hefur mikið farið fyrir ræktun á iðnaðarhampi á undanförnum misserum. Þessi grein er ekki undanskilin í umræðum um innleiðingu á hátækni til að auka enn meira á skilvirkni í ræktun á þessari hraðvaxta jurt. Það er þó ekki bara á Íslandi sem áhuginn á ræktun iðnaðarhamps er mikil. Sem dæmi þá varð 600% aukning í ræktun á iðnaðarhampi í Evrópu frá 1993 til 2018, einkum vegna áhuga á CBD-olíu og að nýta hamp í matvælaframleiðslu og margvíslegar iðnaðarvörur. Ræktun iðnaðarhams hefur verið viðurkennd lengi í bandarískum lögum og nú einnig víða á ræktun kannabis sem inniheldur virka efnið THC. Sömu sögu er ekki að segja frá Evrópu þó líkt og á Íslandi hafi verið slakað á löggjöf um ræktun á iðnaðarhampi í mörgum Evrópuríkjum.
Gríðarlegur vöxtur
Vegna gríðarlegs vaxtar í greininni hafa fjárfestar verið að sýna hampræktinni einstaklega mikinn áhuga. Kannski ekki skrítið ef litið er til þess að markaður fyrir CBD-vörur hefur vaxið úr 0,3 milljörðum dollara árið 2017 í 5,7 milljarða dollara árið 2019. Á þessu ári er talið að veltan verði 11,2 milljarðar dollara og vaxi í 22,9 milljarða dollara á árinu 2022.
Meðal fyrirtækja sem fengið hafa stór viðskiptalán vegna hátækniinnleiðingar í hampræktinni er AgTech Scientific sem fékk 30 milljónir dollara í lok síðasta árs. Fyrirtækið var stofnað 2015 en rekur nú 2 milljóna ferfeta hátæknigróðurhús í París í Kentucky í Bandaríkjunum, eða um um 667 þúsund fermetra. Fyrirtækið er sagt leiðandi í rannsóknum og tilraunum í hamprækt.
Líftæknigeirinn á kafi í hátæknilandbúnaði
Meðal fyrirtækja sem hafa verið að fjárfesta í hátæknilandbúnaðarlausnum er Sound Agricultural sem er líftæknidrifið efna- og plöntuþróunarfyrirtæki sem setti 22 milljónir dollara í slíka tækni í maí. Fyrsta vara fyrirtækisins er kölluð SOURCE og virkjar örverur í jarðvegi til að framleiða meira af köfnunarefni og fosfór. Þannig er ætlunin að draga úr notkun á tilbúnum áburði. Fyrirtækið Pivot Bio hafði áður kynnt um 100 milljóna dollara fjárfestingu í apríl, en fyrirtækið sérhæfir sig, líkt og Sopund Agricultural, í tækni til að draga úr notkun tilbúins áburðar. Hafa rannsóknir Pivot Bio í um 50 ára skeið þróað hvata til að auka köfnunarefni í jarðvegi. Er þessi tækni sögð eiga að auka uppskeru og tekjur bænda.
Fleiri fyrirtæki, eins og Geltor í Bandaríkjunum, safnaði um 91 milljón dollara fjármögnun í gegnum CPT Capital inn í þennan geira í júlí. Þarna er um að ræða líftæknifyrirtæki sem vinnur að þróun í sjálfbærri ræktun án tilbúins áburðar, bæði fyrir matvæla- og snyrtivöruiðnaðinn og framleiðslu bætiefna. Þar er m.a. um að ræða framleiðslu á próteinum eins og collagen og elastin, en eingöngu úr jurtaríkinu. Collagen er þó oftast framleitt úr fiski, fiskroði, eggjum og nautgripabeinum, enda má segja að collagen sé límið sem heldur bandvef, húð og brjóski saman og er um þriðjungur alls próteins í mannslíkamanum. Orðið collagen er meira að segja dregið af gríska orðinu kólla (κόλλα) sem þýðir lím.
Fyrirtækið iFarm er líka nefnt í þessu sambandi, en það er með höfuðstöðvar í Finnlandi og sérhæfir sig í gróðurhúsatækni. Það var stofnað 2017, en fyrir skömmu var tilkynnt um 4 milljóna dollara innspýtingu í það fyrirtæki í gegnum fjárfestingasjóði. Fyrirtækið er með um 50 vörur í framleiðslu fyrir viðskiptavini í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Það hefur verið að gera tilraunir með ræktun á jarðarberjum, cherry-tómötum, papriku, radísum og fleiru.
Nefna má enn eitt fyrirtækið í hátæknigeiranum. Það er Unfold sem sérhæfir sig í tækni er varðar lóðrétta ræktun (vertical farming). Fjárfestingaarmur Bayer kom núverið með 30 milljónir dollara inn í þetta fyrirtæki. Þessi tegund ræktunar er stöðugt að aukast, ekki síst í þéttbýli.
Náttúruvæn varnarefni
Kanadíska líftæknifyrirtækið MustGrow Biologic er líka dæmi um nýja hugsun í þróun varnarefna í stað eiturefna í landbúnaði. Eiturefnageirinn er sagður velta 65 milljörðum dollara á ári og því eftir miklu að slægjast ef hægt er að þróa efni sem valda ekki skaða á náttúrunni. Í því augnamiði hefur MustGrow Biologic verið að þróa náttúruvænt varnarefni sem unnið eru úr fræjum sinnepsjurtarinnar.
Hátæknin er líka í dýraeldi
Hátæknin er líka að ryðja sér til rúms í dýraeldi, kjöt- og mjólkurframleiðslu. Verið er m.a. að innleiða tölvutækni sem fylgist með fóðrun, vaxtarhraða og líðan nautgripa í fjósum. Vaxandi áhersla er líka lögð á innleiðingu á tækni til að auka dýraheilbrigði. Genatækninni er þar líka beitt til að fá fram hagkvæmari gripi. Markaðsvirði nautgriparæktarinnar í Bandaríkjunum einum er metið á 30 milljarða dollara á ári, en þar eru um 9 milljónir mjólkurkúa. Fjárfestar eru nú farnir að sýna þessari grein verulegan áhuga.
Þá hefur verið bent á að um 12% kúabúa í heiminum noti nú sjálfvirka mjaltaþjóna. Búist er við að sú tala hækki í 20% á næstu fimm árum. Þar standa íslenskir bændur einna fremstir á heimsvísu.
Hátækni í vélbúnaði
Margvísleg þjónustufyrirtæki eru að spretta upp í kringum landbúnaðinn og allt snýst þetta um að auka skilvirkni og spara dýrmætan tíma. Eru sum fyrirtæki eins og dráttarvélaframleiðandi John Deere farin að tala um að bændur muni í æ ríkara mæli stíla á miðlægar þjónustumiðstöðvar og fylgjast með öllum búnaði í rauntíma í gegnum tölvur. Þar með t.d. samtengingu á mannlausum dráttarvélum úti á akrinum og allan mælaaflestur t.d. varðandi eldsneytiseyðslu yfir netið, þráðlausa bilanagreiningu og jafnvel viðgerðir í gegnum tölvur frá sér-stökum þjónustumiðstöðvum. Flestir framleiðendur dráttarvéla og annarra landbúnaðartækja hafa líkt og John Deere verið að tileinka sér hátæknina í þróun á sínum búnaði.