Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Glíman við ofurbakteríur sem orðnar eru ónæmar fyrir flestum sýklalyfjum og mögulega öllum öðrum lyfjum líka er komin á mjög alvarlegt stig. Vitað er að milljónir manna hafa þegar látið lífið vegna slíkra sýkinga um heim allan og hugsanlega kunna þau andlát að vera mun fleiri en vitað er um. Vísindamenn kalla eftir viðbrögðum, en áhugaleysi og andvaraleysi hefur einkennt alla umræðu í fjölda ára.
Glíman við ofurbakteríur sem orðnar eru ónæmar fyrir flestum sýklalyfjum og mögulega öllum öðrum lyfjum líka er komin á mjög alvarlegt stig. Vitað er að milljónir manna hafa þegar látið lífið vegna slíkra sýkinga um heim allan og hugsanlega kunna þau andlát að vera mun fleiri en vitað er um. Vísindamenn kalla eftir viðbrögðum, en áhugaleysi og andvaraleysi hefur einkennt alla umræðu í fjölda ára.
Mynd / Monash University
Fréttaskýring 31. janúar 2022

Sýklalyfjaónæmi er nú leiðandi dánarorsök um allan heim

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Sýklalyfjaónæmi er nú leiðandi dánarorsök um allan heim að því er fram kemur í rannsókn sem birt var í læknablaðinu The Lancet nýverið. Þar er sagt að sýklalyfjaónæmi dragi um 3.500 manns til dauða á hverjum degi. Börn eru sögð vera í sérstaklega mikilli hættu, en eitt af hverjum fimm dauðsföllum barna yngri en fimm ára er rakið til smits af völdum sýklalyfjaónæmra baktería (AMR).

Í skýrslunni kemur fram að að minnsta kosti 1,27 milljónir manna hafi dáið vegna beinnar afleiðingar af sýklalyfjaónæmum bakteríusýkingum og mögulega tengist dauði á sjöundu milljón (3,62–6,57 milljónir) manna sýklalyfjaónæmum bakteríum.

Það að dauðsföll vegna AMR séu mögulega orðin um 6,6 milljónir og hugsanlega fleiri, þýðir að þróun sýkla­lyfja­­ónæmis virðist vera mun hraðari en áður hefur verið talið. Þar hefur gjarnan verið miðað við að dauðsföll vegna sýklalyfjaónæmis verði orðin 10 milljónir árið 2050.

Þetta er umfangsmesta rann­sókn sem gerð hefur verið til þessa um alþjóðleg áhrif sýklalyfja­ónæmis (Antimicrobial resistance – AMR). Hún fór fram árið 2019 og var birt í læknablaðinu The Lancet.

Börn í sérlega mikilli hættu

Þótt sýklalyfjaónæmar bakteríur séu ógn við fólk á öllum aldri, reyndust ung börn vera í sérstaklega mikilli hættu. Þar má rekja eitt af hverjum fimm dauðsföllum til AMR hjá börnum yngri en fimm ára.

Hundruð þúsunda dauðsfalla vegna algengra sýkinga

Mörg hundruð þúsund dauðsföll eiga sér stað vegna algengra og tiltölulega vægra sýkinga sem áður var hægt að meðhöndla, segir í rannsókninni. Það er vegna þess að bakteríur sem valda þeim hafa orðið ónæmar fyrir sýklalyfjameðferð.

Staðan mögulega orðin enn alvarlegri en skýrslan segir til um

Í inngangi skýrslunnar segir að á sama tíma og Covid-19 geisi í heiminum, haldi heimsfaraldur sýklalyfjaónæmis (AMR) áfram í skugga þess. Þar segir líka að sýlalyfjaónæmi kunni að vera enn algengara en fram kemur í skýrslunni. Ástæðan er að gögnin sem notuð voru í rannsókninni komu mest frá hátekjulöndum þar sem aðgengi að dýrari og sterkari sýklalyfjum er best. Því er minni vitneskja fyrirliggjandi um raunverulega stöðu og dánarorsakir í fátækari ríkjum heims.

Eru langlegusjúklingar í meiri hættu á að sýkjast?

Skýrsluhöfundar segja að sjúklingar með lengri legutíma séu líklegri til að vera með ónæma sýkla en þeir sem liggja skemur á sjúkrabeði. Þeir spyrja sig hvort það sé AMR sem valdi þá þessum lengri legutíma, eða hvort það sé bara þannig að sjúklingar sem dvelja lengur verði frekar fyrir lyfjaónæmum sýkingum en aðrir. Velta þeir fyrir sér hvort og hvernig sé hægt að greina þarna á milli.

Getur haft alvarleg áhrif á árangur í stórum aðgerðum

Í skýrslunni segir að þetta sé mjög alvarlegt þar sem nútíma læknisfræði, þar á meðal skurðaðgerðir, lyfjameðferðir, líffæraígræðslur og aðrar inngripsaðgerðir, krefjist árangursríkra sýklalyfja. Slíkar aðgerðir verði gagnslitlar ef ekki er hægt að bregðast við sýkingum sem upp kunna að koma.

Kemur sérlega illa við fátækt fólk sem hefur ekki efni á dýrari sýklalyfjum

„Sá tollur sem AMR leggur á sjúklinga og fjölskyldur þeirra, er að mestu ósýnilegur en endurspeglast í langvarandi bakteríusýkingum sem lengja sjúkrahúsdvöl og valda óþarfa dauðsföllum. Þar að auki hefur AMR óhófleg áhrif á fátæka einstaklinga sem hafa lítinn aðgang að sterkari og dýrari sýklalyfjum sem gætu virkað þegar fyrstu lyfjameðferðir mistakast,“ segir m.a. í skýrslunni.

Rannsóknin unnin úr 470 milljón gögnum

Rannsóknin áætlar dauðsföll tengd 23 sýklategundum og 88 sýklalyfjasamsetningum í 204 löndum og svæðum árið 2019. Tölfræðilíkön voru notuð til að búa til mat á áhrifum sýklalyfjaónæmis (AMR) á öllum þessum stöðum, þar með talið þeim sem höfðu engin fyrirliggjandi gögn. Var þetta gert með því að nota meira en 470 milljónir gagna sem fengin eru úr kerfisbundnum ritrýndum skýrslum, sjúkrahúskerfum, eftirlitskerfum og öðrum gagnaveitum.

Vilja knýja fram nýsköpun í baráttu gegn sýklalyfjaónæminu

„Þessi nýju gögn sýna raunverulegt umfang sýklalyfjaónæmis um allan heim og eru skýr merki um að við verðum að bregðast við strax til að berjast gegn ógninni,“ sagði Christopher Murray, prófessor við Institute for Health Metrics and Evaluation í Háskólanum í Washington, sem stýrði rannsókninni.

„Við þurfum að nýta þessi gögn til að beina aðgerðum á rétta braut og knýja fram nýsköpun ef við viljum vera á undan í kapphlaupinu gegn sýklalyfjaónæminu.“
Nýlegar áætlanir um heilsu­farsáhrif AMR hafa verið birtar fyrir nokkur lönd og svæði, og fyrir fáar sýklalyfjasamsetningar á enn fleiri stöðum. Fram til þessa hafa engin áætluð gögn náð yfir alla staði á jörðinni eða breitt úrval sýkla- og lyfjasamsetningar.

Í skýrslunni er lögð áhersla á brýna þörf á að auka aðgerðir til að berjast gegn sýklalyfjaónæmi og draga fram tafarlausar aðgerðir fyrir stefnumótendur sem myndu hjálpa til við að bjarga mannslífum og vernda heilbrigðiskerfi. Þetta felur í sér að hámarka notkun núverandi sýklalyfja, grípa til öflugri aðgerða til að fylgjast með og hafa stjórn á sýkingum og veita meira fjármagni til að þróa ný sýklalyf og meðferðir.

Orsökin rakin til ofnotkunar sýklalyfja

Fram kemur í rannsókninni að vandann megi rekja til ofnotkunar á sýklalyfjum bæði við lækningar á mönnum og við eldi dýra sem nýtt eru til fæðuframleiðslu. Við slíka ofnotkun geta sýklar smám saman myndað ónæmi gegn lyfjunum sem verða þá gagnslaus þegar á þarf að halda við meðhöndlun sjúklinga t.d. vegna lungnabólgu. Yfir tveir þriðju hlutar dauðsfalla sem rekja mátti til slíks voru vegna ónæmis fyrir fyrstu viðbragða sýklalyfjum, þar með talið flúorókínólónum og β-laktam sýklalyfjum (karbapenem, cefalósporín og penicillín).

Ástandið er verst í Vestur-Sahara

Hæst var hlutfallið í Vestur-Sahara í Afríku, 27,3 dauðsföll voru rakin beint til sýklalyfjaónæmis á hverja 100.000 íbúa. Þá eru mögulega tengd tilvik talin vera 114,8 á hverja 100.000 íbúa. Það er mjög hátt hlutfall, meira að segja þegar horft er til smita af völdum Covid-19.
Á þessu svæði er samt „bara“ verið að tala um ónæmi fyrir fyrstu viðbragða lyfjum og mögulega vegna lélegs aðgengis að sterkari lyfjum. Sýklar hafa hins vegar víða þróað með sér ónæmi fyrir mun sterkari sýklalyfjum og jafnvel sterkustu lyfjum sem til eru, eða lokaúrræðalyfjum (last-resort antibiotic). Er þá verið að tala um ofursýkla eða „Superbugs“.

Í Mið- og Austur-Evrópu og Mið-Asíu voru dauðsföll sem rekjanleg voru beint eða mögulega var hægt að tengja sýklalyfjaónæmi frá 190 til 403.000.

Um 30.000 íbúar ESB látast árlega vegna sýklalyfjaónæmis og 51.000 í allri Vestur-Evrópu

Í skýrslunni kemur fram að talið sé að um 30.000 manns látist árlega í ríkjum Evrópusambandsins beinlínis vegna ónæmis baktería fyrir 11 sýklalyfjagerðum. Þá leiði þetta til veikinda og vinnutaps einstaklinga vegna minni virkni í samfélaginu sem nemi árlega 796.000 lífsárum (Disability-adjusted life years – DALYs). Þetta er því þegar farið að hafa umtalsverð efnahagsleg áhrif í löndum ESB.

Lægst var dánartíðnin 2019 vegna sýklalyfjaofnæmis í Ástralíu og nágrannaríkjum, eða 6,5 manns á hverja 100.000 íbúa sem voru beinlínis rekjanleg til sýklalyfjaónæmis og 28 dauðsföll á hverja 100.000 íbúa sem mögulega mátti tengja slíku ónæmi.

Alvarlegra mál en Covid-19

Dauðsföll sem tengja má sýkla­lyfjaónæmi geta mögulega verið orðin fleiri en þær 5,6 milljónir manna sem látist hafa af völdum Covid-19 á heimvísu. Munurinn er sá að öll heimsbyggðin er mjög meðvituð og tekur þátt í aðgerðum gegn Covid-19, en lítið heyrist af aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu sýlalyfjaónæmra baktería. Jafnvel hefur verið gert lítið úr viðvörunum vísindamanna um þessi mál á undanförnum árum af áhrifafólki í atvinnulífinu, líka á Íslandi. Samt hafa íslenskir læknar og sérfræðingar í sýklalyfjamálum og faraldursfræðum varað við stöðunni árum saman. Haldnar hafa verið ráðstefnur hér á landi með þátttöku þessara sérfræðinga og m.a. Bændasamtaka Íslands og fengnir hafa verið erlendir sérfræðingar til að upplýsa fólk.

Þegar orðið margfalt alvarlegra en HIV og malaría

Greiningin sýnir að sýklalyfja­ónæmar bakteríur hafi beinlínis verið ábyrgar fyrir áætluðum 1,27 milljón dauðsföllum um allan heim á árinu 2019. Einnig að sýklalyfjaónæmi tengdist 4,95 milljón dauðsföllum á því ári, eða á bilinu 3,62 til 6,57 milljónum dauðsfalla. Talið er að HIV/alnæmi hafi valdið 680.000 dauðsföllum árið 2019 og malaría 627.000.

Greiningin, sem náði yfir meira en 200 lönd og svæði, var birt í Lancet, en þar segir að sýklalyfjaónæmar bakteríur séu að drepa fleiri í heiminum en HIV/alnæmi eða malaría.

Ein mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir

Sérstakur sendifulltrúi Bretlands um sýklalyfjaónæmi, Dame Sally Davies, sagði að AMR væri „ein mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir“. Hún bætti við:
„Á bak við þessar nýju tölur eru fjölskyldur og samfélög sem bera hörmulegan skaða af hinum þögla AMR heimsfaraldri. Við verðum að nota þessi gögn sem viðvörunarmerki til að hvetja til aðgerða á öllum stigum.“

Á svæðinu voru dauðsföll af völdum AMR talin vera flest í Afríku sunnan Sahara og Suður-Asíu, 24 dauðsföll á hverja 100.000 íbúa og 22 dauðsföll á hverja 100.000 íbúa í sömu röð.

Í hátekjulöndum leiddi AMR beint til 13 dauðsfalla af hverjum 100.000 og tengdist 56 dauðsföllum af hverjum 100.000. Á Vestur-Evrópu-svæðinu, að Bretlandi meðtöldu, dóu meira en 51.000 manns af beinni afleiðingu AMR.

Aðrir sérfræðingar sögðu að Covid-19 hefði sýnt fram á mikilvægi alþjóðlegra skuld­bindinga um sýkingar- og varnar­ráðstafanir, svo sem handþvott og eftirlit, og skjótar fjárfestingar í meðferðum.

Tim Jinks, yfirmaður lyfja­ónæmra sýkingaáætlunarinnar hjá Wellcome Trust, sagði:

„Covid-19 heimsfaraldurinn hefur lagt áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs. Stjórnmála­leiðtogar, heilbrigðissamfélagið, einkageirinn og almenningur vinna saman að því að takast á við þessa alþjóðlegu heilsuógn.

Eins og með Covid-19, vitum við hvað þarf að gera til að takast á við AMR, en við verðum nú að koma saman með tilfinningu um brýnt mál og alþjóðlega samstöðu ef við ætlum að ná árangri.“

Skylt efni: sýklalyfjaónæmi

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...