Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Heimsfaraldurinn hefur aukið stórkostlega notkun á einnota vörum úr plastefnum, sérstaklega persónuvarnarbúnaði sem oftar en ekki endar í hafinu.
Heimsfaraldurinn hefur aukið stórkostlega notkun á einnota vörum úr plastefnum, sérstaklega persónuvarnarbúnaði sem oftar en ekki endar í hafinu.
Mynd / CGNT / Opération Mer Propre
Fréttaskýring 6. október 2020

Varnarbúnaður vegna COVID-19 bætist nú við hrikalega plastmengun heimshafanna

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Frá fyrstu mánuðum ársins 2020 hafa flest mál er snerta jarðarbúa drukknað í umræðu um COVID-19 heimsfaraldurinn. Staðbundin hernaðarátök, loftslagsmál og mengun hafsins hafa að mestu fallið í skuggann. Andlitsgrímur sem fólki hefur verið gert að setja upp um allan heim vegna kórónavírus, og flestar eru úr gerviefnum, bætast nú í súpuna og er nú hent í hafið í milljóna tali.

Plastmengun sjávar og lands heldur áfram að aukast af miklum hraða þrátt fyrir varnaðarorð og ýmis viðbrögð í því augnamiði að draga úr notkun á t.d. einnota plastumbúðum. Um ein billjón plastpoka er notaður í heiminum á hverju ári, eða um 160.000 á sekúndu. Af þessu fara í ruslið um ein milljón plastpoka á hverri mínútu á jörðinni. Talið er að það geti tekið plastpoka allt frá 20 og upp í 1.000 ár að eyðast í umhverfinu.

Í þeim heimsfaraldri sem skall yfir vegna COVID-19 er eins og öllum hömlum á að henda plastefnum og öðru rusli í hafið hafi verið ýtt til hliðar. Í fjörum víða í Evrópu má nú sjá andlitsgrímur í stórum stíl til viðbótar öðru plastrusli. Í Asíu virðist ástandið vera hvað hrikalegast í þessum efnum ef marka má fréttir fjölmiðla. Kínverski fjölmiðillinn CGTN fjallar m.a. um málið og segir andlitsgrímur nú fljóta um hafið í stórum stíl eins og marglyttur. Sameinuðu þjóðirnar halda ár hvert upp á 8. júní sem dag hafsins. Var dagurinn í ár m.a. helgaður hljóð-mengun í höfunum. Þykir það kaldhæðnislegt að á sama tíma skuli barátta þjóða heims gegn kórónavírus vera að leiða til stóraukinnar mengunar í höfum heimsins.

Richard Thompson, prófessor  í sjávarlíffræði við Háskólann í Plymouth í Englandi, sagði í samtali við CGTN Europe að sérfræðingar hefðu nú miklar áhyggjur af vaxandi plastmengun í höfunum vegna COVID-19. Mark Spalding, formaður The Ocean Foundation, tók í sema streng í viðtali við CGNT.

„Heimsfaraldurinn hefur aukið stórkostlega notkun á einnota vörum úr plastefnum, sérstaklega persónuvarnarbúnaði (PPE). Það er m.a. til að verja þá sem vinna við að reyna að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Við sjáum mjög mikið af þessum búnaði enda í hafinu,“ sagði Mark Spalding.

Frönsk óhagnaðardrifin stofnun sem berst gegn mengun í höfunum, Opération Mer Propre, sendi nýlega frá sér viðvörun um það sem stofnandinn Laurent Lombard kallar „COVID-úrgang“. Var sú viðvörun gefin út eftir að kafarar fundu gríðarlega mikið, eða „alarming amount“, af andlitsgrímum og öðrum sjúkdómsvarnarbúnaði í Miðjarðar-hafinu.

Elles Tukker, frá umhverfisstofnuninni „Plastic Soup Foundation“ sagði:

„Þetta er alls staðar. Á götunum okkar, í ánum og í hafinu, eins og kafarar hafa komist að. Þar eru óuppleysanlegar andlitsgrímur og hanskar fljótandi um eins og marg-lyttur og liggjandi vítt og breitt um sjávarbotninn.“

Fjallað var um málið í USA TODAY fyrir nokkru og áhyggjum lýst af því að fólk væri að losa sig við andlitsgrímur og latexhanska í hugsunarleysi út í náttúruna.

Umhverfisstofnanir í Banda-ríkjunum hafa líka lýst áhyggjum af málinu. Þannig er haft eftir aðstoðarframkvæmdastjóra Ocean Conservancy‘s Trasg Free Seas program, að óæskileg losun á lækningavörum á vatnasvæðum og í hafið hafi lengi verið áhyggjuefni.

Í breska blaðinu The Guardian var m..a sagt: „Bráðum verður meira af andlitsgrímum í Miðjarðarhafinu en marglyttum.“

Blaðið Ocean Asia í Hong Kong sagði: – „Á hundrað metra kafla á ströndinni fundum við 70 andlits-grímur. Og þetta var á ábyggðri eyju – „in the middle of nowhere“.

165 milljónir tonna af plasti í höfunum

Varnarbúnaður vegna COVID -19 er að bætast við þann gríðarlega gerviefnaúrgang sem þegar er fyrir hendi. Þegar er búið að framleiða um 320 milljón tonn af plasti í heiminum. Talið er að sú tala muni tvöfaldast fram til 2034. Samkvæmt úttektum National Geographic, Market Watch, Eartsky, World Counts, One Green Planet, Our World in Data, RD og Business Insider er talið að nú hringsóli í höfum jarðar um 165 milljónir tonna af plasti.

Heimshöfin innihalda um 97% af vatnsforða jarðarinnar. Þau eru mikilvæg til að jafna hitastig á jörðinni og tempra m.a. koltvísýring sem fer út í andrúmsloftið. Þar eru smáþörungar m.a í mikilvægu hlutverki og eru þeir enn áhrifameiri en helstu regnskógar jarðarinnar, bæði við bindingu CO2 og við framleiðslu á súrefni. Þörungar eru sagðir framleiða um 70% af súrefni jarðarinnar. Hafið er líka afar mikilvægt hvað varðar matvælaframleiðslu fyrir ört fjölgandi jarðarbúa og fyrir samgöngur og því skiptir fátt meira máli fyrir líf á jörðinni en að vel sé gengið um hafið og vötn sem í það renna.

Náttúruleg efni aldrei mikilvægari þar sem gerviefni er nú í flestum fatnaði

Af þessum sökum hefur aldrei verið mikilvægara að meira sé hugað að nýtingu náttúrulegra efna til fatagerðar, eins og ullar, loðskinna, húða af búfénaði, sjávarleðurs og efnis sem unnið er úr jurtum eins og hampi, hör og bómull. Barátta náttúruverndarfólks gegn loðdýraeldi og dýraeldi almennt virkar því dálítið sérkennilega í þessu samhengi. Slík barátta hefur m.a. leitt til aukinnar notkunar gerviefna úr plasti. Segja má að langstærsti hluti fatnaðar í dag innihaldi gerviefni að einhverjum hluta. Þar má nefna margs konar tísku- og útivistarfatnað, gerviskinn og fleira.

Minkaeldið bjargaði loðdýrastofnum frá útrýmingu

Þegar afstaða hefur verið tekin til dýrafriðunar, eins og varðandi andstöðu við minkaeldi, þá sýnir sagan að minkaeldi sem tekið var upp í Norður-Ameríku og síðan víðar um lönd, kom í veg fyrir útrýmingu loðdýrastofna. Vegna útbreiðslu á ameríska minknum og ræktunar bæði austan hafs og vestan er hann nú talinn í minnstri hættu allra tegunda samkvæmt alþjóðasamtökum um náttúruvernd, IUCN (International Union for Conservation of Nature). Þar að auki leiðir notkun minkaskinna og skinna af öðrum loðdýrum í fatnað til minni notkunar á gerviefnum.

Sturtað sem nemur úr einum sorpbíl af plasti í hafið á hverri mínútu

Um 79% af öllum plastúrgangi er skilað í landfyllingar eða sturtað í hafið. Því getur verið um að ræða um 4,8 til 12,7 milljónir tonna af plasti sem sturtað er beint í hafið á hverju ári. Það þýðir að losað er úr sem nemur einum sorpflutningabíl í hafið á hverri einustu mínútu. Einungis lítill hluti þess er sýnilegur á yfirborðinu. Plast hefur fundist í hafinu á allt að 11 kílómetra dýpi. Þá er talið að einn af hverjum þrem fiskum, sem veiðist í höfunum og fer til neyslu, innihaldi plastagnir. Þar sem ástandið er verst er talið að þeir sem borði mikið af fiski geti verið að innbyrða allt að 11 þúsund plastagnir á ári.

Hættuleg efnasambönd leynast víða

Ýmiss konar efnasambönd eru í plastinu og sum þeirra eru krabbameinsvaldandi. Þá er talið að fjöldi þessara efna geti valdið margs konar sjúkdómum og skaði ónæmiskerfið bæði í mönnum og dýrum. Um 95% fullorðinna í Bandaríkjunum er með BPA-efni í þvagi. BPA, eða bisphenol A, er efnasamband sem fundið var upp á sjöunda áratug síðustu aldar. Það er m.a. að finna í drykkjarílátum sem innihalda Polycarbonat plast eða eru húðuð með Epoxy. Rannsóknir hafa sýnt að BPA getur leyst upp í plastinu og borist í menn. Sérstaklega ætti því að forðast að setja plastílát sem innihalda BPA-efni í örbylgjuofn til að hita mat. Þess má geta að Epoxy er m.a. að finna í hitapottum úr trefjaplasti sem eru mjög vinsælir á Íslandi.

Lítill hluti af plasti fer til endurvinnslu

Talið er að einungis um 9% af plastinu fari til endurvinnslu og um 12% fer til brennslu, þar á meðal umtalsvert af plasti sem til fellur á Íslandi.

Risaeyjur úr plasti fljótandi um heimshöfin

Fljótandi plastbreiður eru sagðar þekja í heild um 1,6 milljónir ferkílómetra af yfirborði Kyrrahafsins. Ein eyjan, sem er á milli vesturstrandar Bandaríkjanna og Havaí, er talin vera á stærð við Texasríki, eða rúmlega fjórum sinnum stærri en Ísland. Þéttleiki plastsins er vissulega mismunandi í þessum eyjum.

Um 29% af plastmengun hafanna eru talin koma frá Kína, um 21% frá öðrum hlutum Asíu, um 19% frá Evrópuríkjum, um 18% frá NAFTA-ríkjum í Ameríku, um 7% frá Mið-Austurlöndum og Afríku, um 4% frá Suður-Ameríku og um 2% frá öðrum löndum.

Meðal ríkja, sem fyrrnefndar stofnanir telja meðal 10 verstu, eru auk Kína, Indónesía, Filippseyjar, Víetnam, Sri Lanka og Egyptaland. Bandaríkin voru í 20. sæti.

Fimm mestu plastmengunarlöndin eru talin bera ábyrgð á 60% af öllu plasti í heimshöfunum.

Um 90% af því plasti sem berst með vatni til sjávar kemur einungis úr tíu ám eða fljótum. Þetta eru Angtze, Yellow, Indus, Hai He, Ganges, Mekong, Amur, Pearl í Asíu auk Níl og Níger í Afríku.

Víða um lönd er plastúrgangi sturtað niður úr klósettum og skolast úr útföllum upp á strendur. Það á ekkert síður við Ísland en önnur lönd, eins og fram hefur komið í gögnum Hafrannsóknastofnunar.

Plast talið vera um 60–90% af öllu braki í heimshöfunum

Plast er um 60–90% af öllu braki sem flýtur um heimshöfin. Um 20% af plastinu í höfunum er talið koma frá sjávarútvegi, þ.e. troll og aðrar netadræsur, fiskilínur og fleira. Um 14% af plastinu eru drykkjarílát af ýmsum toga.

Allt að 60% efnis í fatnaði er plast, þ.e. nylon, polyester, acryl og fleira. Hefðbundinn fatnaður sem við göngum í daglega mun að meðaltali skila um 700.000 örplastsögnum út í hafið við þvott.

Allar sjóskjaldbökur veraldar (100%) eru taldar hafa orðið fyrir áhrifum af plastmengun, um 59% hvalastofna, um 36% selastofna og um 40% fuglastofna. Talið er að yfir ein milljón sjófugla drepist á ári hverju vegna plastmengunar og um 100.0000 sjávarspendýr.

Jarðarbúar nota um 500 milljarða af plastflöskum á ári

Um 500 milljarðar af plastflöskum eru notaðar í heiminum á hverju ári. Hefur plastflöskunotkunin aukist hröðum skrefum, en hún var um 300 milljarðar árið 2010 og um 480 milljarðar árið 2016.

Af þeim 500 milljörðum af plastflöskum sem notaðar eru í dag nota Bandaríkjamenn um 50 milljarða á ári. Nýleg rannsókn gefur til kynna að um 150 plastflöskur liggi í fjörum á hverri einustu mílu af strandlengju Bretlands.

Um tveimur milljörðum plastrakvéla er hent í ruslið í Bandaríkjunum á hverju ári og um  einum milljarða tannbursta.

Um 4,4 milljörðum plastsogröra er hent í ruslið á hverju ári í Bretlandi.

Stór hluti sogröra endar í hafinu og talið er að um 8,3 milljörðum plastsogröra hafi skolað upp á strendur landa um allan heim.  Samt eru plaströr aðeins um 1% af þeim plastúrgangi sem til fellur í heiminum. Fjöldi stórfyrirtækja, eins og McDonald‘s, hafa bannað notkun plaströra  í Bretlandi og á Írlandi. Þá hefur American Airlines bannað notkun plaströra í sínum flugvélum og fleiri stórfyrirtæki hafa fylgt þessu fordæmi. Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa verið að innleiða svipaða stefnu á liðnum misserum. Drykkjarmál úr plasti eru sem dæmi að verða sjaldséð á heimilum og á vinnustöðum og mátti líka sjá glögg merki um slíka hugsun þegar Íslendingar þyrptust í útilegur í sumar.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...