Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þessi mynd sýnir væntanlegt rafknúið gámaflutningaskip YARA Birkeland sem ráðgert er að sigli mannlaust milli hafna í Noregi.
Þessi mynd sýnir væntanlegt rafknúið gámaflutningaskip YARA Birkeland sem ráðgert er að sigli mannlaust milli hafna í Noregi.
Mynd / Kongsberg Maritime
Fréttaskýring 14. maí 2018

YARA lætur smíða fjarstýrt, rafknúið og ómannað gámaflutningaskip

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Norðmenn, Finnar, Kínverjar ásamt fragtskipaútgerðum í Singapúr eru nú að huga að smíði ómannaðra flutningaskipa eða eins konar „siglingadróna“. Mun fljótlega hefjast smíði hjá norskri skipasmíðastöð á rúmlega 72 metra (237 feta) rafknúnu skipi sem mun líklega sigla mannlaust 2020. 
 
Þessi siglingadróni Norð­manna, sem verður fyrsta sjálf­stýrða flutningaskip heims, er smíðað í samvinnu áburðar­fyrirtækjasamsteypunnar YARA, sem íslenskir bændur þekkja vel, og Kongsberg Maritime, sem er afleiða varnarmálastarfsemi í Noregi. Konsberg er líka vel þekktur vopnaframleiðandi.  
 
Mun létta flutningum af þjóðvegakerfinu
 
Skipið, sem eins og áður sagði hefur verið kallað YARA Birkeland, á að geta borið 120 feta gáma. Er því m.a. ætlað að létta flutningum af norska þjóðvegakerfinu. 
 
„Skipið mun koma í stað flutninga 40.000 trukka á ári í akstri þeirra frá framleiðendum til tveggja helstu útskipunarhafnanna,“ segir Peter Due, yfirmaður sjálfvirknimála hjá Kongsberg Maritime.  
 
Áburðarverksmiðja YARA er í Heroya. Er siglingadrónanum m.a. ætlað að flytja áburð frá verksmiðjunni um þéttskipaða 30 sjómílna siglingaleið til útskipunarhafna í Brevik og Larvik. Það mun létta flutningum af vegunum og þá þurfa trukkar ekki lengur að aka um þéttbýl  svæði með skólum og íbúðabyggð með tilheyrandi mengun og hættu í umferðinni.  
 
Þar sem þetta skip mun einungis sigla í norskri landhelgi þurfa menn ekki að glíma við alþjóðlegt reglugerðarverk varðandi slíkar siglingar.
 
Hrönn verður ómannað  þjónustuskip fyrir olíubransann
 
Auk flutningaskipsins YARA Birkeland er Konsberg þegar með á prjónunum smíði á öðru ómönnuðu skipi sem nefnt hefur verið Hronn. Er því ætlað að verða þjónustuskip fyrir olíuborpalla á Norðursjónum.  
 
„Það sem hjálpar Noregi að vera í fararbroddi í þessum málum er sú staðreynd að við erum lítil þjóð með aðeins 5,3 milljónir íbúa. Það gerir alla ákvörðunartöku mun auðveldari. Við getum verið í beinum tengslum við okkar forsætisráðherra,“ segir Peter Due.
 
Fleiri þjóðir að íhuga mannlaus skip
 
Auk Norðmanna eru Finnar að skoða frumgerð sjálfstýrðrar ferju. Þá hafa Kínverjar tekið frá 225 fermílna hafsvæði til að gera tilraunir með mannlaus fjarstýrð skip. Japönsk skipafélög hafa verið að móta stefnu að því markmiði að taka í notkun 250 fjarstýrð skip fyrir 2025. 
 
Bandaríkjamenn virðast vera algerlega úti á túni í þessum málum erf marka má frétta Msn news í síðustu viku. Þar segir Sean T. Pribyl, lögfræðingur hjá Blank Rome í Washington, að þetta sé eins konar geimkapphlaup. Vísar hann þar til kapphlaups Bandaríkjamanna og Rússa um geimskot og að koma á loft mönnuðum geimförum, þar sem Rússar höfðu lengi vel forystuna. 
 
„Þetta hefur komið „öllum“ í greininni í opna skjöldu. Bandarísk skipafélög eru ekki einu sinni þátttakendur í þessum leik.“
 
Richard Balzano hjá siglingamálaskrifstofu bandaríska samgönguráðuneytisins segir að Bandaríkin séu þarna á eftir öðrum þjóðum. Hann segir jafnframt að bandarísk skipaflutningafyrirtæki séu illa haldin og „í öndunarvél“.
 
Við erum ekki lengur eins samkeppnishæfir í sjóflutningum eins og t.d. Kínverjar. Okkar skattakerfi, okkar lífsmáti, kauphækkanir og aukinn kostnaður við starfsmannahald gerir okkur ekki eins samkeppnishæf,“ segir Balzano. 
 
Í samkeppni við erlend skipafélög eru nú 81 bandarískt flutningaskip í rekstri í millilandasiglingum. Það er minnsti flutningaskipafloti Bandaríkjamanna á seinni tímum.
 
Það sem helst er talið hindra siglingar ómannaðra skipa á úthöfunum er skortur á staðsetningarkerfum til að hægt sé að fylgja eftir tilraunum. Einnig eru ekki til reglur um siglingar fjarstýrðra skipa.  
 
Þótt Bandaríkjamenn hafi lítt eða ekki tekið þátt í þróun fjarstýrðra flutningaskipa hingað til er ekki hægt að segja að þeir hafi þar með misst af lestinni hvað varðar tæknigetu og þekkingu. Þessi mál hafa þó einkum verið í höndum bandaríska flotans en almennra fyrirtækja. Fyrr á þessu ári gerði flotinn t.d. tilraunir með 132 feta (um 40 metra) ómannað sjálfvirkt skip sem kallað er Sea Hunter. Það á að geta siglt um höfin mánuðum saman án þess að koma í höfn. Þá mun sjálfvirkur kafbátaskelfir (anti-submarin robot) vera í pöntun. 
 
Sean T. Pribyl, lögfræðingur hjá Blank Rome, áætlar að bandarísku kaupskipafyrirtækin séu í að minnsta kosti fimm árum á eftir erlendum keppinautum sínum hvað varðar áætlanir í innleiðingu ómannaðra sjálfvirkra skipa. Segir Pribyl að íhaldssemi sé mikil í bandarískum skiparekstri og að þar á bæ vilji menn frekar bíða og sjá hvað gerist hjá evrópskum kollegum þeirra. 
 
Google, Rolls-Royce og Finnar í samstarf
 
Bandaríkjamenn virðast þó ekki alveg standa utan við þessa sjálfvirkniþróun í skipum. Hefur áhugi fyrirtækja í Silicondal vaknað varðandi samvinnu við evrópsk fyrirtæki á því sviði. Þannig hóf Google samstarf við breska vélaframleiðandann Rolls-Royce fyrir sex mánuðum um þróun á hugbúnaði fyrir sjálfvirk skip. Opnaði Rolls-Royce t.d. fullkomna rannsóknaraðstöðu í þessum tilgangi í Turku í Finnlandi í janúar síðastliðnum. 
 
Talsmenn ómannaðra siglinga segja að sjálfvirk skip geti verið öruggari og umhverfisvænni en hefðbundin skip með fullri áhöfn. Tim Barto, yfirverkfræðingur hjá Leidos í Bandaríkjunum, segir að eftir fimm til tíu ár verði byrjað að draga mannskapinn af skipunum.  
 
„Stærsti kostnaðurinn við útgerð skipa er mannskapurinn,“ segir Barto. „Það þarf að þjálfa hann. Einnig að vera með aðstöðu fyrir menn. Allt kosti þetta mikla peninga. Án áhafnar, þá þarf ekki að vera með eldhús í skipunum, svefnklefa, sjúkrastofu, afþreyingaraðstöðu, lagnakerfi og annað: Það skapar meira rými fyrir flutning,“ segir Barto, en Leidos, fyrirtækið sem hann starfar hjá, er á vegum varnarmálayfirvalda og kom m.a. að hönnun fjarstýrða skipsins Sea Hunter.
 
Blessun eða bölvun?
 
Margir þættir hafa verið nefndir ómönnuðum skipum í hag. Þau séu ódýrari í framleiðslu, ekki eins orkufrek og sjóræningjar geti ekki tekið áhafnir þeirra í gíslingu. Þau hafa þó líka sína stóru galla. Ef skyndilega koma upp bilanir sem gera þarf við þá er enginn maður tiltækur til að sinna slíku. Bilað sjálfvirkt skip úti á rúmsjó eða í siglingu inni á fjörðum getur því hæglega orðið að tifandi tímasprengju fyrir aðra sjófarendur.  
 
Skipsdrónarnir vekja áhuga tryggingarfélaga
 
Ómönnuð fjarstýrð eða sjálfvirk skip geta haft marga kosti að mati sérfræðinga. Þó enginn sé um borð til að bregðast við ef eitthvað óvænt kemur skyndilega upp, þá ættu mannleg mistök við stjórn þeirra að vera hverfandi. Fyrirtækið Allianz Global Corporate & Specialty áætlar að um 75–90% slysa á hafinu megi rekja til mannlegra mistaka. 
 
Það er gríðarlega mikilvægt ef hægt verður að útiloka þennan mannlega áhættuþátt í rekstri skipa, að mati lögfræðistofunnar Reed Smith í London. Þarna sjá tryggingafélögin mikla möguleika. 
 
Munu ekki leysa risaskipin af hólmi í bráð
 
Þótt Norðmenn og fleiri þjóðir séu nú að hefja þróun og innleiðingu sjálfvirkra skipa, þá eru þessar hugmyndir enn langt frá rekstri risastóru gámaflutningaskipanna sem sigla um heimshöfin. Þar eru þegar mjög fámennar áhafnir um borð og mannakostnaðurinn hlutfallslega mjög lítill miða við hefðbundin minni fragtskip. Ekki er því víst að menn verði óþarfir um borð í risaskipunum á næstunni. 
 
„Við munum því ekki sjá ómönnuð risa tankskip í náinni framtíð,“ segir Jan Hagen Andersen, þróunarstjóri hjá ráðgjafarfyrirtækinu DNV Gl í Houston. Hann segir þó að það muni verða bylting í þessa veru á jaðri stórflutninganna. 
 
„Ef ég hefði verið spurður um sjálfvirkni skipa fyrir fimm árum, hefði ég sagt að það væri aðeins vísindaskáldsaga,“ sagði Andersen. „Í dag held ég að við séum að sjá raunveruleg verkefni í þessa veru í þróun.“
 
Richard Balzano segir að útgerðarmenn geti ekki lengur barist gegn þróun ómannaðra skipa. „Þau eru að koma og þeir vita það.“
 
Í ekki svo fjarlægri framtíð munum við því sjá skipstjórnendur í stjórnstöðvum skipafélaga uppi á þurru landi stýra ómönnuðum fragtskipum í þúsundum mílna fjarlægð.
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...