Grænlamb úr Kelduhverfi hlutskarpast
Svokallað lausnamót, Hacking Norðurland, var haldið dagana 15.–18. apríl. Um hugmyndasamkeppni var að ræða þar sem lagt var upp með að virkja sköpunarkraftana til sjálfbærrar nýtingar auðlinda út frá „orku, vatni og mat“. Vinningshugmyndin heitir Grænlamb – Keldhverfskt kjöt af algrónu landi, sem þær Salbjörg Matthíasdóttir, Guðríður Baldvinsdóttir og Berglind Ýr Ingvarsdóttir standa á bak við. Hugmyndin snýst um að búa til vörumerki fyrir sauðfjárbændur úr Kelduhverfi í Norðurþingi sem er með vottun um að féð gangi á vel grónu og sjálfbæru landi.
Með vottun um slíka sjálfbærni er ætlunin að auka verðmæti sauðfjárafurða Kelduhverfis og um leið gefa neytendum tækifæri til að kaupa kolefnishlutlausan próteingjafa. Allar stunda þær Salbjörg, Guðríður og Berglind sauðfjárbúskap í Kelduhverfi.
Frumlegasta verkefnið var valið Geothermal Ginger, sem hefur það að markmiði að rækta engifer á Íslandi með hitaveituvatni og raflýsingu.
Veflægt mót í gegnum Hugmyndaþorp
Lausnamótið var veflægt, haldið í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp sem þróuð er af sprotafyrirtækinu Austan mána í samstarfi við Hacking Hekla. Þátttaka var því ekki háð staðsetningu.
Guðríður Baldvinsdóttir, Salbjörg Matthíasdóttir og Berglind Ýr Ingvarsdóttir.
Í kynningu á verkefninu Grænlamb kom fram að markmiðið sé að stækka lambakjötsmarkaðinn, ná til nýrra viðskiptavina sem hafa hætt að kaupa lambakjöt vegna þess að ekki hefur verið í boði að kaupa kjöt eftir ástandi beitilanda eða kolefnisspori búskaparins.
Í kynningunni kom einnig fram að Kelduhverfi er talið henta vel til slíks verkefnis þar sem tæplega 90 prósent af beitilandinu er vel gróið og aðeins þrjú til fimm prósent af beitilandi í heimalöndum er framræst.
Stefnt að sambærilegum mótum í öðrum landshlutum
Tæplega 70 þátttakendur skráðu sig til leiks og sjö þátttakendur kynntu verkefni sín fyrir dómnefnd. Um helmingur þátttakenda voru af Norðurlandi og þar af átta búsettir á Norðurlandi vestra. Alls komu um 50 manns að lausnamótinu á einn eða annan hátt sem fyrirlesarar, mentorar eða dómarar.
Markmið lausnamótsins var að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum viðskiptatækifærum og verkefnum, ásamt því að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Norðurlandi.
Áður hefur sams konar lausnamót verið haldið á Suðurlandi, Hacking Suðurland, þar sem verkefni um frumuræktun ávaxta bar sigur úr býtum.
Stefnan er sett á fleiri sambærileg lausnamót í öðrum landshlutum.