Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hluti af starfsmannahópi Ístex við nýju dokkuvélina.
Hluti af starfsmannahópi Ístex við nýju dokkuvélina.
Mynd / smh
Í deiglunni 3. febrúar 2023

Annar ekki eftirspurn eftir prjónabandi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Starfsemi Ístex hefur nú stóraukist eftir lægð á tímum faraldursins og annar fyrirtækið ekki lengur eftirspurn eftir Lopa – prjónabandi sínu. Þó svo að ullarinnlegg hafi dregist saman um 25 prósent á síðustu fimm árum er til næg ull með bættri ullarflokkun þannig að hún nýtist betur í handprjónaband og aðrar ullarvörur.

Á þessu sama tímabili, samhliða samdrætti í ullarmagni, hafa tekjur fyrirtækisins aukist verulega.

Jón Haraldsson og Sigurður framkvæmdastjóri við kembivélina.
Aukin eftirspurn í Lopaprjónaband

Sigurður Sævar Gunnarsson, fram­kvæmdastjóri Ístex, er afar þakklátur fyrir góðar viðtökur við lopavörum Ístex. „Prjónarar eru að leita meira og meira í náttúruleg og sjálfbær efni, eins og lopa. Ístex og Lopi hafa jafnframt spennandi sögu þar sem bændur og Ísland spila stórt hlutverk. Það er ekki á mörgum stöðum í heiminum þar sem bændur eiga þvottastöð og spunaverksmiðju. Til þess að tryggja aukna bandvinnslu og mæta eftirspurn er þörf á frekari fjárfestingum á vélbúnaði,“ segir Sigurður, sem kom til starfa hjá Ístex árið 2017 þegar draga fór úr ullarinnleggi bænda inn í fyrirtækið.

„Það hefur háð okkur talsvert að hafa ekki undan í bandframleiðslu, sem hefur valdið skorti á hand­prjónabandi og værðarvoðum. Við höfum aukið framleiðsluna eins og unnt er miðað við tæki og tól. Hún gekk í raun ágætlega á síðastliðnu ári, þrátt fyrir svolítið af bilunum. Starfsfólki hefur fjölgað, en um 70 manns starfa nú hjá Ístex. Ljóst er að fjölga þarf enn meira starfsfólki og bæta við tækjabúnaði,“ segir hann.

Sigurður með grænlitaða ull, en fyrirtækið er með meira en 4.000 uppskriftir
Prjónaskapur jókst í faraldrinum

Rebekka Kristjánsdóttir, sölustjóri Ístex, segir að hjá fyrirtækinu sé úrval af fjölbreyttri hönnun og vönduðum uppskriftum fyrir prjónara, hún telur að árleg útgáfa Lopa prjónabókanna ásamt Lopidesign.is styðji við þennan mikla prjónaáhuga. Covid­ 19 hafði mikil áhrif og margir tóku upp prjónaskap.

„Það var sérstakt gleðiefni að ekki bara jókst prjónaáhugi, heldur tóku yngri prjónarar sérlega vel við sér. Lopinn er heppilegur að mörgu leyti fyrir byrjendur, hann fyrirgefur og uppskriftir Lopa eru skýrar og aðgengilegar.

Reynsla okkar er, að þegar fólk byrjar að prjóna, líkt og í efnahagshruninu, þá heldur það áfram. Ég tel frekari fjárfestingar sem geta hjálpað til við að auka framleiðslu mjög mikilvægar í ljósi síaukins áhuga á hráefninu um allan heim. Einnig má nefna að ferðamannaiðnaðurinn hefur tekið við sér sem hefur áhrif á enn meiri eftirspurn.“

Eftir erfið ár í faraldrinum hefur rekstur Ístex verið sterkur síðustu tvö ár. Að sögn Sigurðar hefur salan á vörum Ístex numið meira en 1.200 milljónum og skilað góðum hagnaði. Á síðustu fimm árum hefur ullarmagnið sem Ístex hefur úr að spila minnkað um 25 prósent en sala aukist um 50 prósent, þökk sé handprjónabandinu og þróunarvinnu.

Vinsældir víða

,,Vinsældir Lopa teygja sig víða út fyrir landsteinana. Af erlendum prjónurum er mest sótt í það frá Norður­Evrópu, Norður­ löndunum, Þýskalandi, Hollandi og Bandaríkjunum. Ísland er í forgangi, en til að ná að framleiða sem mest band eru teknar stærri lotur með tiltekna vöru og því líður lengri tími á milli einstakra lita og tegunda í framleiðslunni,“ segir Sigurður, en Léttlopi er langvinsælasta vara Ístex.

Svo koma Álafosslopi og Plötulopi. Aðrar mikilvægar vörur í vörulínu Ístex eru sængurull og Lopiloft sem einangrun í úlpur.

„Í Finnlandi er mikill áhugi á okkar Lopavörum og sem dæmi um það má nefna að fimm lopaprjónabækur voru gefnar þar út á síðasta ári af finnskum útgefendum, þar af voru tvær frá okkur; Lopi 40 og afmælisbókin 41 eftir Védís Jónsdóttir,“ segir hann.

Öll ull í gegnum ullarþvottastöðina

Allri ull er safnað saman á Blönduósi þar sem hún fer í gegnum ullarþvottastöðina. „Um 50­60 prósent fer í spunaverksmiðju okkar í Mosfellsbæ, annað fer í sængurullarframleiðslu eða til aðila í gólfteppabandsvinnslu.

Af bandvinnslu í Mosfellsbæ fer um 60 prósent í útflutning. Við höfum engar bandverslanir og seljum bara til umboðsaðila. Hins vegar seljum við ullarsængurnar á vefnum Lopidraumur.is og uppskriftir á Lopidesign.is beint til neytenda.

Sala á ull í gólfteppabandsvinnslu hefur minnkað verulega. Áður fyrr skipti þessi sala Ístex og bændur miklu máli og var um 25 prósent af tekjum fyrir nokkrum árum. Nú erum við að nota mest af þessari ull í annað, til dæmis sængurull, Lopaloft og fleira. Þannig að í dag er þetta aðeins um 6,5 prósent af sölu og vöxtur ólíklegur. Magn af íslenskri ull hefur minnkað og við þurfum að fá sem mest fyrir hvert kíló. Þannig fá ullarinnleggjendur mest fyrir sitt. Í dag skiptir meira máli hversu áhugasamir prjónarar eru,“ segir Sigurður.

Ásgeir Þór Ingason er hér að hnýta hespur.
Talsverðar fjárfestingar

Að sögn Sigurðar hefur Ístex á undanförnum misserum ráðist í talsverðar fjárfestingar í tæknibúnaði til að reyna að mæta hluta þeirrar eftirspurnar sem hefur verið umfram afkastagetu þess.

„Við settum upp dokkuvél og mötunarkerfi fyrir kembivélar í Mosfellsbæ. Ný spunavél er nú í smíðum á Ítalíu. Það er áætlað að hún verði tilbúin í haust. Næsta verkefni er svo ný kembilína sem gæfi þann möguleika að auka framleiðslu um þriðjung. Þá er handprjónabandið að fá OEKOTEX 100-viðurkenningu, sem þýðir að það inniheldur engin hættuleg efni.

Umhverfismál og sjálfbærni eru að verða sífellt mikilvægari. Allt kostar þetta sitt, en tækifærin eru til staðar til að sækja á.“

Á Blönduósi er líklega stærsti örbylgjuofn landsins

Ístex er að langmestu leyti í eigu íslenskra sauðfjárbænda. Það tekur við um 98–99 prósentum af allri íslenskri ull, frá bændum um allt land til að standa straum af sinni vöruframleiðslu og -þróun.

Í Ullarþvottastöðinni á Blönduósi, sem er í eigu Ístex, hefur einnig verið ráðist í fjárfestingar.

„Þar var skipt um þurrkkerfi í haust, þegar við skiptum út olíuofni fyrir þeytivindu og líklega stærsta örbylgjuofni á Íslandi. Orkusjóður styrkti þetta verkefni upp á 15 milljónir. Við þessa breytingu á Blönduósi sparast bæði rafmagn og tæplega 100 tonn af olíu á ári. Því miður tapaðist mikilvægur tími við uppsetningu á örbylgjuofninum vegna Covid-19 – bæði í vor og síðan aftur í haust. Við erum með góðan hóp á Blönduósi og bjartsýn á framhaldið þegar allt verður komið á sinn stað,“ segir Sigurður.

Sunna Jökulsdóttir gæða- og þróunarstjóri og Rebekka Kristjánsdóttir sölustjóri. Mynd / Ístex
Engin ull seldist í byrjun Covid-19

„Fyrir þremur árum, þegar faraldurinn byrjaði, seldist nánast engin ull og suma ull hefðum við ekki getað gefið. Þess vegna var verð lækkað til bænda á þeirri ull sem seld var beint erlendis. Hins vegar héldum við verði á þeirri ull sem notuð var í handprjónabandi óbreyttu, líkt og lambsull, hvítum fyrsta flokks og sauðalitum.

Í Noregi voru til dæmis öll þessi verð sett í núll krónu flokkinn. Verðið hefur hækkað síðan þá sem betur fer. Við reynum alltaf að greiða eins hátt verð til bænda og hægt er,“ segir Sigurður. Hann segir að sem fyrr sé langmest greitt fyrir hvíta ull, þar sem hún hafi mun meira notagildi. „Það er auðveldara að lita hana, en mislitu ullina. Ef þú færð of mikið af einhverju hráefni sem þú hefur ekki not fyrir þá lækkar afurðaverðið fyrir það.“

Að sögn Sunnu Jökulsdóttur, þróunar- og gæðastjóra Ístex, þá hefur stór hluti af vöruþróun undanfarin ár snúist um að auka notagildi og verðmæti á annars flokks ull. „Hér hefur margt áunnist en aðallega höfum við einbeitt okkur að mislitum öðrum flokki. Nýlega bættum við við flokkum fyrir annars flokks sauðaliti. Þannig geta bændur flokkað frá sauðaliti sem standast ekki fyrsta flokks kröfur frá, en áður fór þessi ull í mislitan annan flokk. Bændur fá betur greitt fyrir og við fáum meira af því hráefni sem við þurfum í okkar framleiðslu. Þetta þarf allt að haldast í hendur.“

Eignarhald Ístex að stærstum hluta hjá LS

Fyrir um einu ári síðan varð ákveðin breyting á eignarhaldi Ístex. „Boðið var upp á að bændur gætu keypt hluti í gegnum ullarkaup. Þá hefur félagið haft hlutabréf til sölu til áhugasamra. Það er margt fram undan hjá félaginu sem mikilvægt er að styðja og því ekki ólíklegt að frekari eignarhaldsbreytingar muni eiga sér stað til að tryggja fjármagn í frekari fjárfestingar,“ segir Sigurður spurður um eigendahópinn.

Sigurður segir að eignarhlutir í félaginu séu mjög dreifðir. Í dag séu alls 2.473 hluthafar skráðir í félaginu, þar af eru Landssamtök sauðfjárbænda með stærsta einstaka hlutann, en síðan einstaklingar eða félög tengd einstaklingum.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...