Neytandinn þarf að vita hvaðan kjötið kemur
Ingvi Stefánsson, formaður deildar svínabænda hjá Bændasamtökunum og svínabóndi í Teigi í Eyjafjarðarsveit, telur mikil tækifæri liggja í því að innleiða upprunamerkingar.
Þá getur neytandinn tekið upplýst val hvort keypt sé innlend eða erlend matvara. Heilnæmi afurða og dýravelferð segir hann vera tvennt af því sem geri íslenskt svínakjöt að samkeppnishæfri vöru. Varðandi fyrrnefnda atriðið, þá er það takmörkuð sýklalyfjanotkun sem skiptir máli. Síðarnefnda atriðið snýr annars vegar að sérstöðu Íslands varðandi geldingar og hins vegar aðbúnað gripanna þegar öllum húsum hefur verið breytt samkvæmt nýrri reglugerð.
„Það er örstutt í það að aðbúnaðurinn okkar verði mjög góður þegar kemur að dýravelferð – og þá betri en gengur og gerist í Evrópu,“ segir Ingvi.
Ísland er sérlega heppið þegar kemur að litlu sjúkdómaálagi. Fjölónæmu bakteríurnar MSRA, einnig nefndar MÓSA bakteríur, eru landlægar í svínarækt í mörgum af þeim löndum sem við berum okkur saman við, á meðan þær hafa ekki náð fótfestu á Íslandi. MÓSA getur borist yfir í fólk og valdið miklum skaða. „Sem dæmi má taka að kollegum okkar í Danmörku ber að tilkynna að þeir umgangist svín ef þeir þurfa að leita inn á heilbrigðisstofnanir,“ segir Ingvi.
Breytingar miklar
Eins og komið hefur fram, þá tekur ný aðbúnaðarreglugerð gildi eftir tvö ár. „Þetta eru það miklar breytingar að oft borgar sig ekki að taka eldri hús og uppfæra þau,“ segir Ingvi.
Hann og fleiri hafa því brugðið á það ráð að byggja ný hús, og hafa sumir viljað byggja á nýjum stað. Það hefur valdið miklum töfum vegna skipulagsmála og andstöðu nágranna. „Það held ég að hafi verið okkar stærsti flöskuháls og maður hefur áhyggjur af því hvort greinin verði búin að ná þessu [í tæka tíð] þar sem þetta er ekki byggt á einum degi,“ segir Ingvi.
Hvað lyktarmengun varðar, þá segir Ingvi að hún sé algjörlega óhjákvæmileg. Hins vegar sé margt hægt að gera til að halda henni í lágmarki. Með réttum aðferðum getur lyktarmengunin verið sambærileg því sem fylgir almennum búrekstri.
Fóðurkostnaður vegur þungt
Fóðurkostnaðurinn er langstærsti útgjaldaliður íslenskra svínabænda. „Þar sem fóðrið hjá okkur er að mestu leyti innflutt þá er búinn að bætast mikill flutningskostnaður ofan á hráefnisverðið þegar það er komið í sílóið okkar.“ Þetta atriði segir Ingvi að veiki samkeppnisstöðu íslenskra svínabænda gagnvart innflutningi á kjöti. Hann kallar því eftir því að aukin áhersla verði lögð í að efla kornrækt. Eins og staðan er í dag segir Ingvi að ræktunarstyrkir frá hinu opinbera séu minni en erlendis og við það bætist að uppskerumagnið á hvern hektara er mun minna.
„Ég hef mjög mikla trú á framtíð svínaræktarinnar hérna innanlands. Þrátt fyrir allar áskoranirnar þá á framtíðin að geta verið björt,“ segir Ingvi. „Maður er búinn að fara mikið utan og maður sér hvað stjórnvöld þar eru að þrengja að bændum. Ekki síst vegna þess hvað jarðvegur víða er orðinn mettaður af lífrænum áburði og einingarnar orðnar gríðarlega stórar. Við erum svo ótrúlega lánsöm að hafa allt þetta landrými og hreinu orkuna – svo ekki sé nú talað um hvað hún er orðin ódýr í samanburði við útlönd
Mér dettur ekki í hug að halda því fram að það sé allt í volli í svínarækt erlendis og allt vont sem þaðan kemur, en það er samt staðreynd að við höfum ákveðna hluti sem við erum að gera með betri hætti,“ segir Ingvi.