Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Yfirlitskort yfir þjóðlendur á meginlandi Íslands. Lituð svæði eru skilgreind sem þjóðlenda samkvæmt úrskurðum óbyggðanefndar og niðurstöðum dómstóla. Nánari upplýsingar um kortið má nálgast á obyggdanefnd.is
Yfirlitskort yfir þjóðlendur á meginlandi Íslands. Lituð svæði eru skilgreind sem þjóðlenda samkvæmt úrskurðum óbyggðanefndar og niðurstöðum dómstóla. Nánari upplýsingar um kortið má nálgast á obyggdanefnd.is
Í deiglunni 19. desember 2023

Þjóðlendur tæpur helmingur landsins

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Óbyggðanefnd hefur lokið málsmeðferð á 95% af meginlandi Íslands. Af því svæði telst um 39,2% til þjóðlendna og 60,8% eru eignarlönd, að teknu tilliti til dómsniðurstaðna. Yfir hundrað dómar hafa fallið um réttarsviðið. Nýlega var lokið við að kveða upp úrskurði um þjóðlendur í Ísafjarðarsýslum.

Óbyggðanefnd er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem sett var á fót árið 1998. Henni er falið það hlutverk að skera úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda á landinu öllu en einnig að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur sem og að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

Við vinnu óbyggðanefndar var landinu skipt niður í svæði og tók hún fyrir eitt þeirra hverju sinni. Svæðin eru sextán talsins á meginlandinu en eyjar og sker umhverfis landið er skilgreint sem sautjánda svæðið og á nefndin eftir að fjalla um þau. Nefndin hefur nú til meðferðar ágreiningsmál á Austfjörðum. Með úrlausn þeirra mála lýkur reglubundinni málsmeðferð nefndarinnar á meginlandinu.

Lögbundin gjafsókn

Á vef óbyggðanefndar er málsmeðferðinni lýst:

„Málsmeðferð hefst með því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka tiltekið landsvæði til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum þess um þjóðlendur á svæðinu. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir gefur óbyggðanefnd út tilkynningu og skorar á þá er telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á því svæði sem ríkið gerir kröfu til, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan tiltekins frests. Að lokinni opinberri kynningu á öllum þeim kröfum sem borist hafa á viðkomandi svæði er tekin ákvörðun um skiptingu svæðisins í mál og boðað til fyrstu fyrirtöku. Málin eru síðan tekin fyrir eins oft og þörf er á, frekari gögn lögð fram og leitast við að skýra þau að öðru leyti. Mikilvægur liður í málsmeðferðinni er kerfisbundin öflun gagna um ágreiningssvæðin, sem sérfræðingar á Þjóðskjalasafni Íslands annast að verulegu leyti.

Meðal annarra mikilvægra liða í málsmeðferðinni eru vettvangsferð og svonefnd aðalmeðferð. Það felur í sér að farið er á vettvang undir leiðsögn heimamanna, aðilar og vitni gefa skýrslur og að því búnu eru málin flutt munnlega. Almennt er aðalmeðferð hagað þannig að hún fari fram nærri þeim svæðum sem deilt er um, bæði til þess að óbyggðanefnd geti notið aðstoðar heimamanna við að upplýsa málin og til þess að heimamenn eigi þess kost að fylgjast með því sem fram fer. Eftir að gagnaöflun lýkur og fram komin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar eru úrskurðir kveðnir upp. Vegna umfangs mála líða gjarnan 1‒2 ár frá því að málsmeðferð hefst og þar til úrskurðir eru kveðnir upp.“

Skriflegar heimildir hafa mest vægi við málsmeðferð óbyggðanefndar og eru landamerkjabréfin og Landnáma þar mikilvæg gögn. Nokkuð einstakt þykir meðal þjóða að til sé 900 ára gömul eignaskrá sem enn hafa slíka þýðingu í lögum. Staðhættir, gróðurfar og lega landsvæða skipta líka máli í málsmeðferð.

Meginreglan er sú að land sem tilheyrt hefur jörð sé skilgreint eignarland. Staða afrétta getur verið mismunandi eftir því hvort þeir hafa tilheyrt einstökum jörðum eða verið nýttir sameiginlega.

Við sönnun um hvort land teljist til jarðar og sé eignarland á þeim grundvelli hafa landamerkjabréf jarða reynst vera langmikilvægustu sönnunargögnin en þau voru flest gerð í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi árið 1882 og yngri lög um sama efni árið 1919. Í svonefndum Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, sem birtar eru á vefsíðu nefndarinnar, er lýst almennri afstöðu nefndarinnar til ýmissa sönnunaratriða, m.a. með vísan til niðurstaðna Hæstaréttar í einstökum þjóðlendumálum. Fram kemur að nefndin telji almennt að leggja verði til grundvallar að jörð, svo sem hún er afmörkuð í landamerkjabréfi, sé beinum eignarrétti háð. Hvert og eitt bréf sé þó metið sérstaklega.

Nokkur dæmi eru um að landsvæði innan lýstra merkja samkvæmt landamerkjabréfum jarða hafi talist þjóðlendur vegna þess að eldri heimildir hafa verið taldar mæla gegn lýsingum landamerkjabréfanna. Eitt dæmi um slíkt er mál sem varðaði landsvæði sem tengist jörðinni Stafafelli í Lóni en Hæstiréttur fjallaði um það í dómi 28. september 2006 í máli nr. 498/2005.

Fjöldi mála vegna ágreinings við landeigendur hafa komið upp en alls hafa 69 dómar fallið í Hæstarétti, átta í Landsrétti og 110 héraðsdómar. Hægt er að skoða úrskurði og dóma á vefsíðu óbyggðanefndar en niðurstöður óbyggðanefndar hafa verið staðfestar í miklum meirihluta þeirra. Nauðsynlegur málskostnaður landeigenda fyrir óbyggðanefnd og dómstólum er greiddur af ríkissjóði.

Þjóðlendukröfum í Ísafjarðarsýslum að mestu hafnað

Af 45 svæðum sem ríkið gerði kröfur til við málsmeðferð óbyggðanefndar í Ísafjarðarsýslum teljast einungis níu svæði til þjóðlendna, að hluta eða heild, samkvæmt úrskurðum sem kveðnir voru upp í lok ágúst. Að öðru leyti hafnaði nefndin kröfum ríkisins á þeim grundvelli að um eignarlönd væri að ræða.

Í úrskurðunum kemur fram að ágreiningur milli ríkisins og landeigenda hafi í mörgum tilvikum snúið að því hvort efstu hlutar fjalla væru þjóðlendur, þ.e. svæði utan eignarlanda, eða hvort eignarlönd jarða beggja vegna næðu saman uppi á fjöllum.

Ríkið hafi að miklu leyti byggt á því að fjallsbrúnir sem mynda skörp skil í landslagi, t.d. við frambrún kletta og fjalla, réðu merkjum eignarlanda gagnvart þjóðlendum. Nefndin hafi því tekið til sérstakrar skoðunar hvernig eignarréttindum væri háttað efst á fjöllum. Hvað það snertir komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kröfugerð ríkisins gengi í veigamiklum atriðum gegn fyrri réttarframkvæmd á sviði þjóðlendumála.

Í úrskurðum nefndarinnar segir að með þessu hafi fjöldi jarðeigenda að ófyrirsynju þurft að sæta málsmeðferð sem hafi reynst tímafrek og þannig íþyngjandi fyrir viðkomandi málsaðila. Í því sambandi vísaði nefndin m.a. til þess að sú venja sé útbreidd víða um land að eignarlönd nái saman efst á fjöllum eða á vatnaskilum, sérstaklega þar sem staðhættir séu þannig að fremur mjó fjöll eða víðáttulítið fjalllendi skilji milli dala og fjarða. Séu merkjalýsingar landamerkjabréfa og annarra heimilda um merki óljósar séu þær jafnan túlkaðar með hliðsjón af atriðum á borð við staðhætti,
gróðurfar og fjarlægð frá byggð.

Minni kröfur en ella hafi verið gerðar til skýrleika merkjalýsinga ef merki teljist glögg frá náttúrunnar hendi. Í þeim tilvikum sem ríkið byggði kröfur sínar á áðurnefndum sjónarmiðum voru niðurstöður nefndarinnar þær að eignarlönd jarða næðu saman á fjöllum og því væru ekki þjóðlendur þar.

Allir jöklar þjóðlendur, nema einn

Umfang mála í Ísafjarðarsýslum var mun meira en í öðrum landshlutum sem óbyggðanefnd hefur úrskurðað um undanfarin ár. Síðustu úrskurðir nefndarinnar á undan voru kveðnir upp árið 2020 og varða annars vegar landsvæði í Strandasýslu og hins vegar Barðastrandarsýslum.

Við hina reglubundnu málsmeðferð nefndarinnar í Strandasýslu var einungis deilt um þann hluta Drangjökuls sem tilheyrir sýslunni og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hann væri þjóðlenda.

Jöklar hafa nær alltaf talist til þjóðlendna samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar og dómstóla. Eiríksjökull er þó undantekning frá því en nefndin úrskurðaði árið 2016, við meðferð mála í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, að hann væri innan eignarlands. Í Barðastrandarsýslum gerði ríkið kröfur til fimm aðgreindra svæða.

Nefndin komst að niðurstöðum um að eitt þeirra og hluti annars þeirra væru þjóðlendur en að öðru leyti væri um eignarlönd að ræða.

Fyrirhuguð verklok óbyggðanefndar

Á vefsíðu nefndarinnar kemur fram að hún hafi veitt fjármála- og efnahagsráðherra frest til 1. febrúar 2024 til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur á landsvæðum utan strandlengju meginlandsins. Loks hefur sérstök óbyggðanefnd nú til meðferðar tiltekin svæði á austan-, norðan- og vestanverðu landinu, þar sem málsmeðferð nefndarinnar var annars lokið.

Í samráðsgátt Stjórnarráðsins voru nýlega birt drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna þjóðlendna (mál nr. 241/2023, birt 22. nóvember 2023). Þar er gert ráð fyrir að óbyggðanefnd verði lögð niður í núverandi mynd 1. janúar 2026. Eftir þann tíma verði þó unnt að skipa nefnd til að fást við beiðnir um endurupptöku úrskurða óbyggðanefndar, í allt að þrjú ár frá uppkvaðningu þeirra.

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...