Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Fiskistofa lét sig hafa það að birta myndband af því þegar fjórum lófastórum tindabikkjum var fleygt aftur úr dragnótabát.
Fiskistofa lét sig hafa það að birta myndband af því þegar fjórum lófastórum tindabikkjum var fleygt aftur úr dragnótabát.
Mynd / VH
Í deiglunni 28. október 2022

Um nauðsyn þess að hafa opinn glugga

Höfundur: Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda.

Í febrúarmánuði 1984 urðu tímamót í sögu okkar Íslendinga. Kvótakerfinu í sjávarútvegi var ýtt úr vör undir því yfirskini að um bráðabirgðaráðstöfun væri að ræða til að bjarga fiskistofnunum við landið frá bráðri útrýmingarhættu.

Arthúr Bogason.

Auðvitað vissu þeir sem um véluðu betur. Þeir vissu mætavel að með því að marka mönnum hlutdeild í takmörkuðum gæðum myndi snjóa fljótlega yfir meinta björgunarstarfsemi. Þeir vissu mætavel að fiskistofnarnir við landið voru í „heppilegri lægð“ fyrir gjörninginn. Slíkar lægðir voru vel þekktar úr fortíðinni.

Höfundunum yfirsást hins vegar algert grundvallaratriði. Almenningur þá, sem nú, taldi og telur sig eiga fiskimiðin og fiskistofnana kringum Ísland.

Ákafi höfundanna bar þá ofurliði. Reglurnar sem blöstu við smábátaflotanum árið 1984, og hvað þá ári síðar, kom upp um hvert hugur þeirra stefndi. Loka skyldi sem snarast fyrir aðgengi almennings að sjávarútvegsauðlindinni. Aðgengið var og er útgerð smábáta.

Sjálfsagður réttur hvers einasta Íslendings

Það er pínlegt, 39 árum síðar, að upplifa þá staðreynd að baráttan fyrir sjálfsögðum rétti hvers einasta Íslendings til að sækja í fiskveiðiauðlindina á litlum bátum, með afkastaminnsta veiðarfærið sem notað er við atvinnufiskveiðar hérlendis, er keimlík því sem á gekk í upphafi kerfisins. Nú er flogist á um strandveiðar. Veiðar minnstu bátanna með handfæri að vopni. Þessi hluti flotans er sem sagt stöðugt til vandræða

Nú ætlast ég ekki til að lesendur almennt hafi þekkingu á þessu. Ég vona reyndar að einhverjir þeirra hafi ekki einu sinni verið fæddir árið 1984.

Ég ætla að gera mitt besta til að útskýra þetta á sem einfaldastan hátt.

Á árinu 1984 var smábátaútgerðinni ætlað eftirfarandi:

  1. Landinu var skipt í 4 svæði og 3 mánaða tímabil.
  2. Heildarkvóti fyrir öll svæðin (890 bátum ætluð 8.300 tonn – rúm 9 tonn af þorski að meðaltali á bát og ekkert af öðrum tegundum). Skömmu síðar kom í ljós að Fiskifélag Íslands (forveri Fiskistofu) hafði gróflega van- reiknað afla smábátaflotans á því tímabili sem notað var til viðmiðunar – eða um rúmlega helming og gott betur. Sem þýddi að á árinu 1984 hefði átt að marka þeim u.þ.b. 20.000 tonn – eða 22,5 tonn á bát.
  3. Um leið og heildarkvótinn væri uppurinn yrðu veiðarnar stöðvaðar á öllu landinu.
Á fiskveiðiárinu 2021/2022 voru reglur um strandveiðar m.a. svona:
  1. Landinu skipt í 4 svæði.
  2. Heildarkvóti fyrir öll svæðin (Árið 2022: 732 bátum ætluð 10.000 tonn af þorski – 13,7 tonn á bát.)
  3. Um leið og heildarkvótinn kláraðist yrðu veiðarnar stöðvaðar á öllu landinu.

Heilt Bændablað myndi duga skammt til að telja upp það sem á gekk á áratugunum þarna á milli. Það er verkefni sagnfræðinga að grúska í þessum kafla íslenskrar sjávarútvegssögu.

Stóra yfirsjónin í upphafi var þessi: að skilja ekki eftir opinn glugga, aðgengi fyrir alla eigendur auðlindarinnar, aðgengi takmörkum háð, en samkvæmt almennum skilningi innan skynsemismarka og meðalhófs – (haffær bátur, skipstjórnarréttindi o.s.frv.)

Meirihluti þjóðarinnar er ósáttur

Ég hef áður skrifað um óttann við frelsið. Einstaka stjórnmálamenn urðu uppfullir af því að miðin myndu fyllast af smábátum. Auðvitað gerðist það aldrei.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að skoðanakannanir meðal almennings sýna enn í dag, tæpum fjórum áratugum síðar, að mikill meirihluti þjóðarinnar er ósáttur við núverandi stjórnkerfi fiskveiða/ sjávarútvegsstefnu. Þeir sem halda dauðahaldi í þá skýringu að þetta sé fyrst og fremst blóðþorsti almennings eftir hærri veiðigjöldum en útgerðin borgar í dag ættu að hugsa sinn gang. Ég hef átt mörg samtöl við fólk sem ekkert hefur unnið í sjávarútvegi, en vill að það hafi aðgang að hinni sameiginlegu auðlind.

Meirihluti þjóðarinnar er ósáttur við núverandi stjórnkerfi fiskveiða.

Mikið brottkast

Það er nátengt þessu að á furðu stuttum tíma hefur opinberast hvað stofnanir ríkisins leggja áherslu á hvað varðar eftirlit með sjávarútveginum.

Fiskistofa eignaðist nokkra dróna fyrir ekki svo löngu og í kjölfarið hefur stofnunin skorið upp úr um það sem greinarhöfundur hefur fullyrt til margra ára, að brottkast á Íslandsmiðum sé margfalt umfangsmeira en talið hefur verið. Hvað þá það sem Hafrannsóknastofnun hefur áætlað inn í sín stofnstærðarlíkön. Þar á bæ hefur brottkast verið metið harla lítið og stöðugt minnkandi, jafnvel svo lítið að það skipti ekki máli. Hver einasti kjaftur á vettvangi veit betur. Í því samhengi er vert að rifja upp að matvælaráðuneytið (þá sjávarútvegsráðuneyti) sendi Hafró fyrirspurn um hvaða áhrif það hefði á þorskstofninn ef strandveiðibátum yrði leyft að veiða 1.000 tonnum meira af þorski er gert hafði verið ráð fyrir. Þá stóð ekki á svarinu: Það hefði neikvæð áhrif! Miðað við að þorskstofninn sé rétt mældur af Hafró – í kringum 1 milljón tonn, er um að ræða einn þúsundasta þar af. Mikill er máttur vísindanna!

Til að bæta gráu ofan á svart kom fram í kynningu Hafró á aflaráðgjöf stofnunarinnar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár, að rúmum 13 þúsund tonnum af þorski hafi verið bætt við vísindaráðgjöfina í nafni þess sem kallast „sveiflujöfnun“. Hvaðan í skrattanum skaut þessu fyrirbrigði upp í vísindalíkönunum? Er það hugsanlegur möguleiki að hér sé um sambræðing pólitíkur og vísinda að ræða? Taka vísindamenn þátt í þvílíku rugli? Einhver?

Fyrir stuttu fannst Fiskistofu tilhlýðilegt að gera opinbert að smábátasjómenn á strandveiðum hefðu verið staðnir að því að kasta fyrir borð blóðguðum fiski. Þetta er að sjálfsögðu óþolandi athæfi og ekki nokkur leið að afsaka það.

Á sama tíma gaf Fiskistofa út að hún hefði „ekki mannskap“ til að fylgjast með togaraflotanum. Einmitt það já. Smábátarnir veiða u.þ.b. 10% af botnfiskaflanum. Datt Fiskistofu ekki í eitt augnablik í hug að setja t.d. helming mannaflans í að fylgjast með þeim hluta flotans sem veiðir 90% botnfiskaflans og hinn helminginn á litlu bátana?

Ég hef ítrekað spurt Fiskistofu hvernig hún hyggist standa að fiskveiðieftirliti þannig að jafnræði og meðalhóf ríki hvað varðar stóra sem smáa. Svörin hafa verið á þá leið að þetta sé allt að koma.

Drónaeftirlit Fiskistofu með togaraflotanum verður í besta falli aumk­ unarvert. Mynd / breakingdefense.com/

Hakka og dæla út

Sagan segir að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi, en ég tek áhættuna: Drónaeftirlit Fiskistofu með togaraflotanum verður í besta falli aumkunarvert. Hvers vegna? Stóran hluta ársins er myrkur og oft hvasst á miðunum. Drónar Fiskistofu ráða illa og ekkert við slíkar aðstæður. Til að bæta gráu ofan á svart veit Fiskistofa mætavel að stóru togararnir eru margir hverjir með sérstakan vélbúnað um borð til að hakka og dæla út því sem er óæskilegt til vinnslu.

Ég spurði Fiskistofu fyrir skömmu hversu mörg stóru togskipanna væru með slíkan vélbúnað. Svarið var að Fiskistofa hefði ekki hugmynd um það. Í alvöru! Sama stofnunin og lét sig hafa það að birta myndband af því þegar fjórum lófastórum tindabikkjum var fleygt aftur úr dragnótabát! Það mun engu skipta hvað drónar Fiskistofu ljóstra upp um. Ekki heldur hagnaðarfréttir og tilkynningar til Kauphallar Íslands. Sú tilfinning almennings að hann eigi sjálfsagðan rétt til að sækja í hina sameiginlegu auðlind, að uppfylltum eðlilegum skilyrðum, haggast ekki.

Því fyrr sem ráðamenn átta sig á þessari staðreynd, því betra.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...