Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Matvælaframleiðsla íslensks landbúnaðar, en sérstök áhersla er lögð á að skrá næringargildi þeirra í ÍSGEM- grunninn.
Matvælaframleiðsla íslensks landbúnaðar, en sérstök áhersla er lögð á að skrá næringargildi þeirra í ÍSGEM- grunninn.
Í deiglunni 15. mars 2023

Uppfærsla á gagnagrunni um efnainnihald matvæla

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

ÍSGEM er íslenskur gagnagrunnur um efnainnihald matvæla sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) setti á stofn fyrir 40 árum.

Hjá Matís er nú unnið að heildarendurskoðun hans með stuðningi Matvælasjóðs, en efnainnihald matvæla getur tekið breytingum í samræmi við breyttar framleiðsluaðferðir.

Ólafur Reykdal.

Að sögn Ólafs Reykdal, verkefnastjóra hjá Matís, mun þeim verkþætti sem styrktur er af Matvælasjóði ljúka seinnipart þessa árs. „Verkefnið heitir Næringargögn – Lykill að lýðheilsu landsmanna og nýsköpun matvælaiðnaðarins og þar er fjallað um næringarefnin í matvælum og unnið verður að því að gera allar upplýsingarnar um þessi efni öllum aðgengilegar á sérstökum vef sem hýstur er hjá okkur á Matís. Styrkurinn gerir mögulegt að vinna vel afmarkaðar endurbætur á gagnagrunninum. Fáanleg gögn verða skráð og gerð aðgengileg, gæðakerfið verður endurbætt og vefhandbók fyrir notendur verður tekin saman,“ segir Ólafur.

Næringargildi matvæla frá íslenskum landbúnaði

„RALA rannsakaði í fyrsta skipti næringargildi margra matvæla frá íslenskum landbúnaði. Útbúinn var gagnagrunnur til að halda utan um niðurstöðurnar og miðla þeim. Mikið gagn var af norrænu samstarfi þegar niðurstöðurnar voru skráðar á skipulagðan hátt. Fæðudeild RALA var sameinuð Matís þegar það var stofnað árið 2007 og fylgdi þá ÍSGEM gagnagrunnurinn með. Á Matís var fljótlega ráðist í að gera næringargildi matvæla aðgengilegt á vef Matís,“ segir Ólafur.

Hann segir að einhverjum gögnum hafi á undanförnum árum verið bætt við ÍSGEM úr styrkverkefnum Matís en hin seinni ár hafði ekki fengist opinbert fé til fullnægjandi uppfærslna. „Því var góð hjálp að fá eins árs styrk úr Matvælasjóði til vinnu við gagnagrunninn. Nú hafa einnig þau ánægjulegu tíðindi borist að matvælaráðuneytið muni í framhaldinu bæta vinnu við ÍSGEM gagnagrunninn í þjónustusamning sinn við Matís.“

45 næringarefni og fjögur óæskileg

Í gagnagrunninum eru birtar fáanlegar upplýsingar um 45 efni í um 1.200 fæðutegundum, meðal annars prótein, fitu, kolvetni, vatn, vítamín, steinefni og fjögur óæskileg efni; kvikasilfur, blý, kadmíum og arsen.

Flest matvæli koma frá landbúnaði með einum eða öðrum hætti og er sérstök áhersla lögð á matvæli frá íslenskum landbúnaði. Ólafur segir að mikilvægt sé að næringargildi landbúnaðarafurða liggi fyrir svo matvælaframleiðendur geti veitt neytendum áreiðanlegar upplýsingar um næringargildi og hollustu. „Vöruþróun í fyrirtækjum og sölustarf innanlands og utan byggir á þessum upplýsingum. Næringarráðgjöf byggir á upplýsingum um næringargildi og ýmsir hópar sjúklinga þurfa að sníða mataræði sitt eftir innihaldi matvæla.

Efnainnihald matvæla er breytingum undirorpið. Framleiðendur matvæla breyta uppskriftum sínum, samsetning fóðursins skiptir máli og umhverfisþættir geta hafa áhrif á næringarefnin. Landbúnaður á Íslandi býr við sérstök skilyrði, svo sem langan birtutíma á sumrin og svalt loftslag. Efnainnihald landbúnaðarafurða ber þess merki hvar þær eru framleiddar. Því er um að gera að draga fram það sem gerir efnainnihald íslenskra landbúnaðarafurða sérstakt. Nauðsynlegt er að réttar upplýsingar um næringarefni og óæskileg efni séu aðgengilegar til að styðja fullyrðingar um hollustu íslenskra matvæl og ímynd landsins.“

Skylt efni: ÍSGEM

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...