Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ítarlega efnagreiningu og eftirlit með lífrænum úrgangsefnum þarf stöðugt að viðhafa til að vita fyrir víst hver raunveruleg næringarefni eru í þeim áburði sem menn hyggist nota, segir Friederike Danneil.
Ítarlega efnagreiningu og eftirlit með lífrænum úrgangsefnum þarf stöðugt að viðhafa til að vita fyrir víst hver raunveruleg næringarefni eru í þeim áburði sem menn hyggist nota, segir Friederike Danneil.
Mynd / Úr safni
Í deiglunni 11. október 2023

Vaxandi meðvitund um að úrgangur er auðlind

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hvers kyns lífrænn og lífbrjótanlegur úrgangur er auðlind sem nýta og vinna má til dæmis í áburð fyrir landbúnað, til uppgræðslu og framleiðslu eldsneytis.

Mjög mikilvægt er að ná sem mestum úrgangi inn í hringrásina til að sem allra minnst fari til spillis af verðmætum. Ekki er spurning að um gríðarmikilvæga auðlind er að ræða en hins vegar ekki ljóst hverjir muni fá aðgang að henni. Verður það „fyrstur kemur – fyrstur fær“ eða þarf að setja regluverk sem jafnar aðgengi að auðlindinni?

Sigrún Ágústsdóttir.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið ætla að eiga frumkvæði að stofnun hringrásarklasa í nánu samstarfi við félög, fyrirtæki og klasa, sem mun hafa það hlutverk að fylgja eftir hringrásarverkefnum á forsendum klasahugmyndafræði. Það feli í sér að lögð verði áhersla á að koma verkefnum í framkvæmd með samstarfi hagaðila. Öll meðhöndlun úrgangs þurfi að samræmast lögum um meðhöndlun hans.

Umhverfisstofnun vinni að fjölmörgum verkefnum sem miði að því að koma verðmætum sem skilgreind hafi verið sem úrgangur í gegnum tíðina aftur inn í hringrásina, þannig að unnt sé að innleysa þau verðmæti. „Gríðarleg tækifæri eru í þessum efnum og sóknarfæri, ekki síst núna þegar verðlag er hátt, að við gætum þess að sóa ekki verðmætum,“ segir Sigrún.

Auðveldast og erfiðast

Nýlega skilaði ráðgjafarfyrirtækið Efla matvælaráðuneytinu samantekt um nýtingu lífbrjótanlegra efna í landbúnaði og landgræðslu ásamt tillögum að markmiðum og aðgerðum.

Í skýrslu Eflu er sagt brýnt að forgangsraða verkefnum sem snúa að aukinni nýtingu þeirra lífrænu efna sem ekki nýtast nógu vel í dag, og horfa til þess hvaða efni er hægt að nota í auknum mæli án mikils tilkostnaðar. Talið er auðveldast að nýta kjötmjöl, hrossatað, kjúklingaskít og Bokashi-moltu. Þetta séu efni sem eru þurrari en önnur lífræn efni og því ekki eins kostnaðarsöm í flutningum og þau sem innihalda mikið vatn. Ekki þurfi heldur að fara út í kostnaðarsama innviðauppbyggingu til að auka nýtingu þessara efna, þótt henni fylgi alltaf flutningskostnaður.

Meiri fyrirhöfn og undirbúningur eru talin vera við að auka nýtingu svínaskíts, svartvatns, seyru, hliðarafurða sláturhúsa og fiskeldismykju. Um sé að ræða efni sem í sumum tilfellum eru lítt næringarrík, t.d. seyra og svartvatn, auk þess sem notkun þeirra kalli á flóknari meðhöndlun og hreinsun til að koma í veg fyrir mengun. Eru sem dæmi nefnd seyra, svartvatn og dýrahræ. Fiskeldismykja er einnig á þessum lista þar sem um er að ræða vatnsmikið efni sem dýrt er í flutningum og fara þurfi út í mikla og kostnaðarsama innviðauppbyggingu til að hægt sé að auka nýtingu hennar. Vert sé að hafa í huga að fyrirséð er að mikið verði af fiskeldismykju í framtíðinni og því mikilvægt að huga að leiðum til að nýta það efni sem til fellur í landeldi.

Næringarefnin til spillis

Matís hefur áætlað að heildarmagn næringarefna í lífrænum efnum sem til falla árlega séu álíka og magn næringarefna sem flutt er til landsins á formi tilbúins áburðar. Lífræn efni eru þó takmarkað nýtt þó að viss efni séu töluvert notuð til túnræktar, svo sem nautgripamykja og sauðatað. Önnur efni eru minna nýtt, svo sem fiskeldismykja, kjúklinga- og hænsnaskítur og seyra úr rotþróm og skólphreinsistöðvum. Stór hluti næringarefna í lífrænum efnum sem falla til fer því til spillis.

Mest af næringarefnum er að finna í búfjárúrgangi og mikið magn í úrgangi frá eldisdýrum, t.d. í svína- og alifuglarækt. Þá eru næringarefni ríkuleg í úrgangi frá fiskeldi. Rannsóknir hafa sýnt að slóg úr bolfiski er t.d. ekki síðri jarðvegsáburður en kúamykja.

Jafnframt eru næringarefni í skólpi og seyru, ásamt matarúrgangi en nýting þeirra efna er mjög lítil. Sérfræðingar benda á að varast skyldi að draga þá ályktun að nóg sé til af næringarefnum hér á Íslandi, þar sem stór hluti næringarefna í búfjáráburði komi úr innfluttum tilbúnum áburði og kjarnfóðri. Þá ríki óvissa um hversu stór hluti sláturúrgangs og dýrahræja sé nýtanlegur út frá heilbrigðissjónarmiðum.

Kjötmjölsframleiðsla aukin

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins hefur lagt áherslu á að lífræn efni sem eru auðnýtanleg sem áburðarefni í landbúnaði verði fyrst og fremst nýtt þar og hvatar verði þá frekar í þá átt að þau efni sem innihalda minni áburðarefni verði nýtt til landgræðslu.

Tækifæri til að auka nýtingu lífræns úrgangs liggi víða og víst að með góðum vilja mætti nýta hann allan burtséð frá tegund. Vatnsinnihald, næringarinnihald og sýkingarhætta muni þó ætíð setja skorður við nýtingu hans, bæði hvað varðar umhverfisþætti og kostnað.

Ljóst er að farveg vantar víða fyrir úrgang þegar urðun er ekki lengur leyfileg og eru flutningskostnaður og vegalengdir þar ýmsum óþægur ljár í þúfu. Urðun mun enn vera einn helsti farvegur lífræns úrgangs þrátt fyrir að slíkt hafi verið bannað frá sl. áramótum.

Friederike Dima Danneil.
Áhersla á staðbundin efni

„Ég held að framtíð íslensks landbúnaðar liggi í samsettri notkun lífrænna efna, eða áburðarafurða byggðum á lífrænum efnum, og sjálfbært framleidds steinefnaáburðar, einkum köfnunarefnisáburðar,“ segir Friederike Dima Danneil, sérfræðingur í rannsóknum á sviði ræktunar og fæðu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún kom að tilraunum Matís varðandi sjálfbæra áburðargjafa sem orðið hefur hvati að frekari rannsóknum og nýjungum.

„Áherslan ætti að vera á staðbundin innlend og tiltæk lífræn úrgangsefni og orkuauðlindir, þ.e.a.s. jarðvarma eða raforku framleiddri úr jarðhita, til áburðarframleiðslu,“ heldur Friederike áfram. „Að auka áburðarverðmæti lífrænna efna er alþjóðleg áskorun þar sem áburðarkreppan heldur áfram á alþjóðavettvangi. Hún er þráður í matvælaframleiðslu margra þjóða sem allar reiða sig á steinefnaáburð fyrir nægilega matvælaframleiðslu. Það að læra af og fylgjast með öðrum í viðleitni okkar hér er viðvarandi verkefni.“

Friederike telur að prófa þurfi mismunandi aðferðir við íslenskar aðstæður fyrir hvert lífrænt efni og á þar m.a. við hráefnisframboð, orku; rafmagn eða jarðhita, ensím og kemísk efni.

„Ef það er eina aðgengilega lausnin fyrir hvert efni, einnig með tilliti til hagkvæmni, verður þetta nánast sjálfkrafa algengt hjá bændum á Íslandi, þar sem það verður ekki bara sjálfbært, heldur fyrst og fremst afkastamikið og hagkvæmt fyrir bændur,“ segir hún.

Sömuleiðis bendir Friederike á að mest af lífrænum úrgangi og aukaafurðum innihaldi ekki nægilegt magn af köfnunarefni sem er tiltækt fyrir plöntur til að vera samkeppnishæft við steinefna-köfnunarefnisáburð. Koma þurfi á fót umhverfisvænni köfnunarefnisáburðarframleiðslu með nýstárlegum aðferðum. Hugmyndir að slíku séu til staðar og einnig orkuforsendur. „Ísland gæti vel bætt við sjálfbæra áburðarnotkun í íslenskum landbúnaði,“ segir hún.

Ítarleg efnagreining og eftirlit með lífrænum úrgangsefnum séu nauðsynleg til að vita fyrir víst hver raunveruleg næringarefni eru í þeim áburði sem menn hyggist nota.

Hún bendir einnig á að niðurbrot gangi betur ef lífrænum efnum sé blandað í efsta jarðvegslagið en ekki bara lagt ofan á það. Það auðveldi ferlið við steinefnamyndun lífrænu efnasambandanna.

Þá sé vert að halda til haga að þáttur hugsanlegrar mengunar lífræns úrgangs og aukaafurða hafi lítið verið rannsakaður. Spendýr, alifuglar og fiskur séu oft fóðruð og meðhöndluð með t.d. sýklalyfjum. Aðrir óæskilegir þættir lífræns úrgangs geti verið þungmálmar, málm- og plasthlutar. Það þurfi því að taka tillit til þess hversu mikinn áburð úr lífrænum uppruna þarf á hverja landeiningu og hvað það hefur í för með sér hvað varðar hagkvæmni og mengun.

Sjálf hefur Friederike mikinn áhuga á framgangi rannsókna varðandi notkun lífkola til jarðvegsbóta. Jafnframt telur hún að sérstaklega garðyrkjan ætti að skoða framleiðslu og notkun á hornspæni og lággæðaull í lífrænan áburð vegna umtalsverðs magns af köfnunarefni.

Lífræn efni víða á teikniborðinu

Unnið er hörðum höndum á ýmsum vettvangi við að hanna lausnir til að leysa þörfina fyrir tilbúinn áburð með nýtingu lífrænna efna sem til falla. Meðal þeirra er verkefnið Terra- forming LIFE, samstarfsverkefni Landeldis hf., Bændasamtaka Íslands (BÍ), Orkídeu, Ölfuss Cluster o.fl. Verkefnið miðar að því að þróa nýja aðferð til að framleiða áburð og lífgas úr þeim lífræna úrgangi sem fellur til við fiskeldi á landi og úr landbúnaði.

Nýsköpunarfyrirtækið Atmonia hefur að markmiði að búa til ammoníak úr nitri andrúmsloftsins. Ammoníakið verði síðan notað til að framleiða áburð til landbúnaðarframleiðslu eða sem eldsneyti á skip. Atmonia er m.a. nýlega komið í samstarf við Sorpu um nýtingu afgass í köfnunarefnisáburð til frumframleiðslu áburðar.

Unnið er að hugmyndum um líforkuver á Dysnesi í Eyjafirði sem gæti m.a. nýtt dýrahræ og áhættuvefi úr afurðastöðvum til orkuvinnslu í kjötmjöl og fitu fyrir lífdísil.

Hugmynd er uppi um áburðarverksmiðju á Reyðarfirði í tengslum við verkefnið Orkugarð Austurlands og hefur nú verið samið við landeigendur 8 jarða í Fljótsdal um landleigu fyrir mögulega byggingu vindmylla til raforkuframleiðslu fyrir rafeldsneyti.

Mikil þróun mun hafa átt sér stað á sviði ræktunar eða sjálfbærrar nýtingar smá- og stórþörunga og aukaafurða úr þeim til framleiðslu lífrænna orkugjafa sem hægt væri að nýta í íslenskum landbúnaði. Resea Energy ehf., meðlimur í Samtökum þörungafélaga, vinnur að slíku verkefni hér á landi.

BÍ hvetja til að lífrænn úrgangur verði í auknum mæli notaður í kjötmjölsframleiðslu.

Lífkolaframleiðsla geti verið lausn þar sem endurnýting í formi áburðarframleiðslu sé ekki möguleg.

BÍ telja að það regluverk sem gildi í dag gangi í nokkrum veigamiklum atriðum gegn markmiðum um hringrásarhagkerfið. Þannig komi regluverkið til að mynda í veg fyrir skynsamlega nýtingu á kjötmjöli sem áburðarefni. Ljóst sé að verði regluverkið ekki uppfært í samræmi við nýja tækni á sviði úrgangsmála þá séu allar lausnir sem styðja hringrásarhagkerfið í uppnámi.

Virðist því ljóst að horft er í auknum mæli á lífrænan úrgang sem auðlind og mörg verkefni í farvatninu um nýtingu hans til áburðargerðar. Vettvangurinn er mjög lifandi og rannsakendur, stjórnvöld og hagaðilar virðast vera að taka saman höndum um að skapa verðmæti úr úrgangi og halda lífrænum efnum í hringrásinni.

Skylt efni: áburður | úrgangur

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...