Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Gísli Gíslason, sem tók við verðlaunum og Brynja Amble Gísladóttir, dóttir hans, eftir afhendingu verðlauna á hrossaræktarráðstefnu Fagráðs í Víðidal í Reykjavík.
Gísli Gíslason, sem tók við verðlaunum og Brynja Amble Gísladóttir, dóttir hans, eftir afhendingu verðlauna á hrossaræktarráðstefnu Fagráðs í Víðidal í Reykjavík.
Mynd / hf
Í deiglunni 28. desember 2023

Vilja rækta næm og léttstíg hross

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Í fyrsta sinn voru útnefnd tvö ræktunarbú ársins en bæði búin voru hnífjöfn að stigum. Þetta eru hrossaræktarbúin Fákshólar og Þúfur. Ræktendur í Fákshólum eru þau Jakob Svavar Sigurðsson og Helga Una Björnsdóttir en það eru þau Mette Mannseth og Gísli Gíslason sem kenna sína hrossarækt við Þúfur í Skagafirði. Þetta er í annað sinn sem Þúfur hljóta þennan eftirsótta titil en síðast var það árið 2020.

Ræktunarbú ársins er titill sem margir ræktendur stefna, leynt eða ljóst, að enda mikill heiður að fá viðurkenningu fyrir margra ára vinnu sem býr oft að baki hrossaræktinni.

„Þetta er fyrst og fremst viðurkenning á því að ræktunin og sýningarárið hafi gengið vel. Mér finnst þetta sérstaklega gaman núna því þetta voru eiginlega allt ný hross sem við vorum að sýna. Tvö voru áður sýnd en annars voru þetta átta hross sem við vorum að sýna í fyrsta skiptið og megnið fjögurra og fimm vetra,“ segir Gísli. Það að verða ræktunarbú ársins var ekki eitthvað sem þau stefndu beint að, enda erfitt að fylgjast með hvað önnur bú eru að gera og segja þau útnefninguna hafa komið sér ánægjulega á óvart þar sem svo mörg bú voru með frábæran árangur. „Hins vegar eru verðlaunin afar hvetjandi og maður hefur þau stundum bak við eyrað þegar sýningar byrja.“

Lygna og Hróður fyrirferðarmikil í þeirra ræktun

Fyrstu hrossin sem þau Mette og Gísli kenna við Þúfur eru Friður og Lotning en þau eru fædd árið 2001 sem markar því upphafið að hrossaræktinni þeirra þar. Á undan því var ræktunin kennd við Stangarholt en úr þeirri ræktun hafa komið mörg merk hross, m.a. Baldvin, Kyrrð, Happadís og Lygna en allar þessar hryssur settu þau í ræktunina hjá sér

„Lygna frá Stangarholti er ein af stofnhryssunum okkar og er hún á bak við mjög margt hjá okkur. Hún eignaðist átta hryssur og fóru sjö af þeim í ræktun hjá okkur. Tvær dætur hennar hafa nú þegar hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, þær Kyrrð og Grýla,“ segir Gísli en þau hafa ræktað fjórar heiðursverðlaunahryssur í gegnum tíðina, þær Kyrrð frá Stangarholti (2020), Happadís frá Stangarholti (2020), Lýsingu frá Þúfum (2022) og Grýlu frá Þúfum (2022). Lýsing og Happadís eru undan Hróðri frá Refsstöðum sem er einnig áberandi í ræktun þeirra Gísla og Mette.

Þau Gísli og Mette búa að því að hafa mjög svipaðan smekk á hrossum og eru því mjög sammála um hvernig hross þau vilja rækta en þar skiptir gangrými og geðslag mestu máli.

„Við erum bæði hrifin af léttleika í allri merkingu þess orðs. Við leitumst við að rækta hross sem við höfum gaman af að ríða sjálf. Hross sem eru létt, næm og léttstíg og eiga auðvelt með að bera sig. Þau eru ekki öll þannig okkar hross en það er samt markmiðið,“ segir Gísli.

Það að þekkja hrossin sem þú ræktar undan getur skipt sköpum þegar kemur að því að para þau saman og eru margir hrossaræktendur á því að það veiti þeim oft ákveðið forskot fram yfir aðra. Þar eru Gísli og Mette engin undantekning en þau reyna að kynnast sínum hryssum sem best áður en þær eru settar í ræktun og eru því oftast ekki að halda þeim fyrr en þær eru orðnar sjö til átta vetra, þó eru undantekningar þar á.

„Við viljum fá að kynnast þeim vel og vita hvaða kostum þær búa yfir. Ekki er verra að geta komist í eins og eina hestaferð með þær til að kynnast þeim við alvöru aðstæður. Það er eins með stóðhestana.

Við notum sjaldan stóðhesta sem við höfum ekki prófað og aldrei hesta sem við höfum ekki séð með eigin augum. Það er líka þægilegt að þekkja foreldrana vel þegar maður fer að temja afkvæmin. Þú færð til dæmis eitthvað svipað vandamál og þegar þú varst að temja mömmuna. Þú hefur þá lært af mistökunum sem þú gerðir kannski þá og reynir að gera betur. Ekki síst kann maður að vinna úr styrkleikunum sem skiptir eiginlega mestu máli. Það styttist í að við þekkjum fjóra og jafnvel fimm ættliði aftur í tímann og sú vitneskja kemur vonandi til með að fleyta okkur fram á veginn,“ segir Gísli.

Strengur hæst dæmda fjögurra vetra hrossið

Frá Þúfum voru sýnd 10 hross í kynbótadómi og var meðalaldur þeirra 4,9 ár. Fremstan í flokki má nefna stóðhestinn Streng frá Þúfum en hann er hæst dæmdi fjögurra vetra hesturinn í ár og næsthæst dæmdi fjögurra vetra hesturinn frá upphafi dóma með 8,65 í aðaleinkunn.

Á hrossaræktarráðstefnu Fagráðs hlaut Strengur viðurkenningu fyrir hæstu aldursleiðréttu aðaleinkunn ársins. Strengur er undan Trymbilssyninum Sóloni frá Þúfum og Kiljansdótturinni Hörpu frá Þúfum. „Strengur er með ofsalega skemmtilegt geðslag, mjög næmur en yfirvegaður og fljótur að læra. Hann var strax efnilegur og tömdum við Mette hann til skiptist í vetur og sumar. Ég vildi að Mette myndi sýna hann en hún samþykkti það með því skilyrði að ég riði honum á yfirlitinu. Frábær hestur sem gaman verður að halda áfram með,“ segir Gísli.

Gísli sýnir hér stóðhestinn Streng frá Þúfum, hæst dæmda fjögurra vetra hross ársins. Mynd / KollaGr.

Áhugi og vinna á bak við árangurinn

Það er mikið starf að reka hrossaræktarbú og árangur búsins ekki tilviljun. Að baki liggur mikil vinna og áhugi en þau hafa, ásamt starfsfólki, séð alfarið um tamningu hrossanna sem þau hafa verið að sýna undanfarin ár.

„Að baki svona árangri eins og í ár liggur mikill áhugi og vinna. Ég tel mjög mikilvægt að passa upp á það að klára verkefnin. Ef maður hefur séð eitthvað í trippi einhvern tímann í uppeldinu, þá leitast maður við að ná því fram. Ekki gefast upp einhvers staðar á miðri leið.

Það eru heldur ekki alltaf hrossin sem virðast mest spennandi í byrjun sem verða best. Allt í einu getur eitthvert hross sem þér leist minna á tekið fram úr öðrum á leiðinni ef þú gefur þeim sama tækifæri. Ekki afskrifa eitthvað eftir tvo mánuði þó það sé ekki farið að sýna þér eitthvað virkilega spennandi. Þau gætu orðið mikið betri en hin þegar upp er staðið.“

Mikill fjöldi ræktenda með góð hross

Það er ekki hægt að setjast niður með hrossaræktendum ársins án þess að spyrja þau hvernig þeim líst á ræktunarstarfið í dag. „Kerfið er að verða betra að finna bestu hrossin. Hrossin í heild hafa stórbatnað og það er fjöldi ræktenda með góð hross. Eins og öll þessi bú sem voru tilnefnd núna og fleiri sem komust ekki á þann lista.

Þetta er orðinn svo breiður hópur góðra hrossa og ef maður lítur til baka þá hefur svo margt breyst til batnaðar síðustu árin. Ég efast ekki um að það haldi bara áfram,“ segir Gísli að lokum.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...