Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Í Kína eru borðaðir hundar en ekki ostar!
Á faglegum nótum 23. janúar 2015

Í Kína eru borðaðir hundar en ekki ostar!

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Þeir sem fylgjast með þróun heimsverslunar með mjólkurafurðir vita að kínverski markaðurinn hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir helstu útflutningslönd mjólkurafurða og verður það væntanlega áfram.

Það sem er þó allsérstakt fyrir þennan markað er að hann tekur við óhemju miklu af mjólkur- og undanrennudufti en raunar sáralitlu af ostum. Reyndar er það svo að mörg af þeim löndum Asíu og Afríku, sem halda uppi eftirspurninni eftir mjólkurafurðum, eiga það sameiginlegt að hafa litla eftirspurn eftir ostum. Skýringin felst fyrst og fremst í hefðum og þar sem hefð fyrir brauðáti er lítil er beint samhengi við ostaneyslu, en engum dylst að brauð og ostar tengjast miklum böndum. Þar sem ostamarkaðir heimsins eru svo til mettaðir keppast því afurðafélögin sem eru í útflutningi við að koma inn hefð fyrir ostaáti í löndum eins og Kína.

Mettaður ostamarkaður

Með stóraukinni mjólkur­framleiðslu í heiminum undanfarin misseri, og raunar fyrirsjáanlega töluverða aukningu í löndum Evrópusambandsins á þessu ári, eykst þrýstingurinn nánast dag frá degi á markaðsdeildir afurðafélaganna. Afar vel gekk að afsetja mjólkurvörur framan af árinu 2014 en svo lokuðust markaðirnir hver af öðrum og heimsmarkaðsverð mjólkurvara byrjaði að falla jafnt og þétt. Segja má að kínverskir innkaupasérfræðingar hafi náð að leika svolítið á markaðinn með því að kaupa jafnt og þétt upp mjólkur- og undanrennuduft framan af árinu og byggja með því töluvert mikla spennu. Svo gerðist það, nánast með engum fyrirvara, að duft steinhætti að seljast til Kína. Í ljós kom að einhverjir höfðu fengið fyrirmæli um að kaupa inn duft til þess að byggja upp sterka birgðastöðu en þar sem markaðurinn er afar lokaður, var ekki hægt að sjá þetta nógu vel fyrir.

Rússland lokaði einnig

Ekki bætti úr skák að rússneski markaðurinn lokaðist einnig um mitt síðasta ár og hefur sú lokun haft þau áhrif að ostar og aðrar mjólkurvörur, sem áður runnu inn á þann stóra markað, hefur nú verið þrengt inn á aðra markaði með tilheyrandi verðfalli. Lokun rússneska markaðarins, samhliða minni innkaupum á dufti í Kína, hefur því ýtt á enn frekari verðlækkanir á öðrum mörkuðum þar sem sam-keppnin þar hefur aukist. Rússneski markaðurinn var langstærsti markaður heimsins fyrir osta og kom um helmingur magnsins inn á þann markað frá afurðafélögum í Evrópu. Nefna má sem dæmi um mikilvægi hins rússneska markaðar að árið 2013 voru flutt inn til landsins um 440 þúsund tonn af ostum en til samanburðar má geta þess að innflutningurinn til Kína nam ekki nema um 80 þúsund tonnum.

Snarlækkandi afurðastöðvaverð

Verðfall á mjólkurafurðum hefur svo auðvitað haft þau áhrif að afurðastöðvaverð til kúabænda hefur snarlækkað. Þannig fær t.d. kúabóndi sem leggur inn mjólk hjá Fonterra í Nýja-Sjálandi nú ekki nema um 33 krónur fyrir lítrann og bóndinn sem leggur inn hjá norður-evrópska risanum Arla fær nú rétt um 45 krónur. Verðfallið á afurðastöðaverðinu hefur verið gríðarlega mikið á einungis 12 mánuðum eða sem nemur um þriðjungi. Til þess að setja þriðjungs verðlækkun í samhengi má geta þess að meðalframleiðsla þeirra kúabænda í Danmörku sem leggja inn hjá Arla er um 1,5 milljónir lítra eða sem svarar til um 125 þúsund lítrum á mánuði. Fyrir þá mánaðarframleiðslu fær hinn danski kúabóndi nú 2,2 milljónum króna minna heldur en á sama tíma í fyrra.

Erfitt hjá mörgum

Þessi alvarlega staða á heimsmarkaði hefur e.t.v. ekki haft stór áhrif hér á landi en kúabændur á hinum Norðurlöndunum hafa ekki farið varhluta af stöðunni, þó hefur ástandið hitt kúabændurna misjafn-lega fyrir. Líklega hafa enn sem komið er hinir sænsku og dönsku kúabændur farið verst út úr þessu ástandi. Nýverið birtist t.d. skýrsla um sænska mjólkurframleiðslu þar sem fram kom að meðal kúabúið þar í landi væri nú rekið með tapi og hið lága afurðaverð hefði einnig gert það að verkum að verst reknu búin næðu ekki einu sinni að fá tekjur til þess að standa undir breytilegum kostnaði, hvað þá öðru. Þrengingarnar á sænska markaðinum hafa einnig komið fram í afurðastöðvageiranum, en þar hefur verið töluvert um uppsagnir undanfarið til þess að mæta minnkandi tekjum.

Dönsku búin stór

Líklega má heimfæra sænsku stöðuna beint upp á danska mjólkurframleiðslu, sem þó hefur það fram yfir að vera mun betur rekin að jafnaði og ættu kúabúin þar að geta þolað lengur lágt afurðastöðvaverð. Þar er þó skuldastaða margra kúabúa afar erfið en þó all misjöfn. Undanfarin ár hefur bústærð í landinu aukist óhemju mikið og er nú meðalbúið með um 165 mjólkurkýr og eru dönsku kúabúin þau langstærstu í Evrópu og telja raunar margir að enn frekari og hraðari breytingar í átt að aukinni stækkun verði á næstu örfáu árum í landinu. Hvort það þýði að kúabúin þar verði betur í stakk búin til þess að takast á við sveiflur á afurðaverði á svo eftir að koma í ljós.

Norðmenn í vörn

Í Noregi hefur þessi breytta staða á heimsmarkaði ekki haft mjög mikil áhrif en Tine, stærsta afurða-félag landsins, missti þó allstóran ostamarkað frá sér þegar rússneski markaðurinn lokaðist. Stjórn félagsins hefur því farið í ákveðnar varúðaraðgerðir til þess að draga úr kostnaði svo mæta megi lágu afurðaverði. Félagið mun á þessu ári fara í víðtækar sparnaðaraðgerðir sem felast í lokunum afurðastöðva og uppsögnum starfsmanna. Alls stendur til að spara 750 milljónir norskra króna, eða sem nemur um 13 milljörðum íslenskra króna.

Finnska Valio í mestum vanda?

Sömu sögu er í raun að segja frá Valio í Finnlandi, en þar hafði lokunin á rússneska markaðinum þó langmest áhrif sé horft til áhrifanna á Norðurlöndin. Alls þýddi lokunin samdrátt í sölu sem nam fimmtungi tekna auk þess sem þær vörur sem áður fóru til Rússlands voru framlegðarháar vörur og því þýddi lokun markaðarins um þriðjungs samdrátt í rauntekjum. Þetta hefur leitt til þess að Valio hefur farið í gegnum verulega miklar og íþyngjandi aðgerðir eins og fjöldauppsagnir starfsmanna, en alls hafa þær snert hundruð Finna.

Mikil heimsframleiðsla mjólkur

Þrátt fyrir hið lága heimsmarkaðsverð mjólkur hefur það þó ekki haft teljandi áhrif á mjólkurfram-leiðsluna og er raunar útlit fyrir framleiðsluaukningu á komandi mánuðum. Skýringin er margþætt, kvótakerfið í mjólkurframleiðslu Evrópusambandsins verður lagt niður 1. apríl næstkomandi, og þá hefur viðrað einkar vel til mjólkurframleiðslu í Nýja-Sjálandi undanfarið og framleiðslan þar aukist um 10–12% á 12 mánuðum. Þá hefur framleiðslan í Bandaríkjunum einnig aukist undanfarið svo allt í allt hefur framleiðslan verið í töluvert miklum vexti þrátt fyrir lágt verð. Líklega vona allir að um tímabundið ástand sé að ræða og því eigi þeir von um bætta afkomu þegar fram líða stundir.

Skyndibitinn hjálpar!

Í ljósi þess sem hér að framan greinir hefur þrýstingurinn á markaðssérfræðinga helstu afurðafyrirtækjanna í heiminum vaxið mjög mikið og nú kann að vera að lausnin sé fundin! Tilfellið er nefnilega að samhliða auknum hagvexti og bættum hag fólks hefur áhugi neytendanna í Kína á skyndibita vaxið jafnt og þétt. Margir telja að breyttar neysluvenjur Kínverja í þessa veru muni vekja áhuga þeirra á ostum. Pítsur með ostum og ostahamborgarar gætu því gegnt mikilvægu markaðssetningarhlutverki fyrir osta í Kína og hlúa því öll helstu afurðafélög heimsins að skyndibitasölustöðunum og hvetja þau fyrirtæki til dáða!

Drykkjarjógúrt lausnin?

Önnur möguleg lausn gæti einnig falist í því að auka framboð og nýjungar á drykkjarjógúrti en tölu-verð hefð er fyrir því að drekka sk. hrísgrjónadrykki í Kína og hjálpar sú hefð því að koma með nýjungar inn á markaðinn. Drykkjarjógúrt, og raunar hefðbundin drykkjarmjólk einnig, virðist hafa náð góðri fótfestu í Kína og er jafnvel talið að neyslulínur hrísgrjónadrykkja og mjólkurdrykkja muni skarast á næsta ári þannig að neysla á mjólkurdrykkjum verði meiri en á hrísgrjónadrykkjum. Í raun er um hreint ótrúlega mikla breytingu á neysluhegðun Kínverja á stuttum tíma. Það veit bara á gott og gæti gagnast við markaðssetningu á ostum, sem er jú sú vara sem einna hæstu framlegðina ber.

Ostaneysla Kínverja mun aukast

Heildarneyslan á ostum á hinum kínverska markaði árið 2012 var rétt um 120 þúsund tonn og var einungis um þriðjungur þess magns framleitt í Kína sem skýrir áhuga erlendra afurðafélaga á þessum markaði. Auk þess vegur þungt í áhuga félaganna á Kína að neytendum í svokallaðri millistétt landsins hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og er talið að til þess hóps muni heyra um 3–400 milljónir Kínverja á næstu örfáu árum. Þessi hópur neytenda er einmitt sá sem hefur næg fjárráð til þess að kaupa sér heldur dýrari matvörur og áhrifin eru mikil. Helstu neysluspár gera t.d. ráð fyrir því að ostaneyslan aukist verulega á komandi árum og að árið 2020 verði hún komin í um 350 þúsund tonn. Hvað sem gerist á þessum áhugaverða markaði, þá verður spennandi að fylgjast áfram með þróun mála og þá jafnframt hvort takist að kenna Kínverjum að borða osta.

 

Skylt efni: Matvæli | Kína

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...