Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Frá sláturhúsi Norðlenska.
Frá sláturhúsi Norðlenska.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 25. september 2020

LS segja tækifæri til að hagræða í slátrun, vinnslu og markaðssetningu

Höfundur: smh

Í fyrstu útgáfum af verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2020, var landsmeðaltalshækkun á afurðaverði til bænda 6,4 prósent frá síðasta ári, eða reiknað meðalverð upp á 499 krónur á kíló dilka. Fljótlega eftir að allar verðskrár höfðu verið birtar bárust uppfærslur á þeim frá tveimur sláturleyfishöfum. Eftir þær hækkanir stendur reiknað meðalverð í 502 krónum, sem er hækkun um 7,1 prósent.

Byggja þeir útreikningar á útkomunni úr síðustu sláturtíð. Landssamtök sauðfjárbænda (LS) höfðu í ágúst gert kröfu um að afurðaverð til bænda færi í 600 krónur á kílóið að lágmarki í ágúst og byggði hana meðal annars á almennri verðlagsþróun í landinu.

Til samanburðar má nefna að árið 2019 var 16,7 prósent landsmeðaltalshækkun frá 2018, eftir þær uppbætur sem þá skiluðu sér í verðskrár.

Forsendur fyrir meiri hækkunum

Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður LS, segir mikil vonbrigði að það afurðaverð sem fram er komið sé ekki hærra. „Það eru, að okkar mati, forsendur fyrir meiri hækkun til sauðfjárbænda.  Ef fer sem fram horfir þá munum við áfram sjá verulegan samdrátt í greininni. Það má segja að við séum að horfa á fjórða árið í röð þar sem mörg bú munu hafa mjög takmarkaða launagreiðslugetu.  Nú er staðan sú að hjá mörgum bændum er ekki af neinu að taka og þá er ljóst hvert mun stefna,“ segir Guðfinna Harpa.

Ýmsir hafa furðað sig á því að afurðastöðvarnar geti ekki boðið betur, sérstaklega vegna þess að löngum hefur verið talað um að þær séu nú í eigu sauðfjárbændanna sjálfra og því ætti að vera til staðar skilningur á stöðu greinarinnar. Guðfinna Harpa segir málið ekki svo einfalt að sauðfjárbændur eigi afurðastöðvarnar. „Þær eru ólíkar að uppbyggingu, eigendasamsetningin ólík og sauðfjárbændur í miklum minnihluta stjórnarmanna í þessum félögum.“

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska og Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður LS. 

Kallað eftir skýringum afurðastöðvanna

Að sögn Guðfinnu Hörpu hafa LS kallað eftir því að afurðastöðvarnar komi fram og skýri stöðuna; hvers vegna ekki náist fram leiðrétting á afurðaverði. „Við vitum að á undanförnum misserum hafa orðið grundvallarbreytingar á tollvernd sem breyta miklu varðandi stöðu afurðastöðvanna gagnvart versluninni. Verðþróun lambakjöts á smásölumarkaði hefur ekki fylgt þróun vísitölu neysluverðs og ekki má síðan gleyma þeim áhrifum sem COVID-19 hefur haft með beinum hætti á rekstur afurðastöðva og ekki síður þróun á mörkuðum hér á landi og erlendis.

Við ítrekum það hins vegar að það eru fyrst og fremst stjórnendur afurðastöðvanna sem þurfa að stíga fram og skýra stöðuna og hvað þarf til, til þess að afurðaverð á lambakjöti verði það sem það þarf að vera til að rekstur sauðfjárbúa gangi upp.

Sendar voru fyrirspurnir til þriggja af stærstu sláturleyfishöfunum, þar sem óskað var eftir viðbrögðum við þessu ákalli LS. Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir í sínu svari að félagið hafi farið varlega í að segja til um framtíðina því hún sé um margt óviss. „Breyting í framboði eða verði á einni kjöttegund – sama hvort hún er innlend eða innflutt – hefur áhrif á aðrar.

Um kindakjöt gildir sama og um allar aðrar vörur. Til að hækka verð þarf að vera seljendamarkaður sem kallað er, þ.e. hóflegur skortur á vörunni.

Svo gildir það um flestar vörur að hærra verð dregur úr eftirspurn. Verðhækkun getur því minnkað innlandssölu svo mikið að auka þurfi útflutning aftur sem dregur þá niður verð,“ útskýrir Steinþór.

Rekstur afurðafyrirtækja verið þungur

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir stöðuna vera þannig að kostnaður við rekstur framleiðslufyrirtækja í kjötgeira hafi hækkað mjög mikið umfram verðlag á síðustu árum, til dæmis hafi laun og flutningar hækkað langt umfram verðlag. Þetta hafi meðal annars valdið því að rekstur afurðafyrirtækja hefur verið þungur undanfarin ár.

„Það er því alveg ljóst að þótt verð á lambakjöti til dæmis hefði haldið í við verðlag væri samt ekki um það ræða við þessar aðstæður að verð til bænda hefði getað gert það – afkoma afurðastöðva er ekki slík að þær geti tekið á sig fyrrgreindar kostnaðarhækkanir í meiri mæli en verið hefur. Það verður ekki betur séð þegar horft er heilt á geirann að afurðastöðvarnar hafi tekið á sig talsvert af þessum kostnaðarhækkunum undanfarinna ára en þol til að ganga lengra í þeim efnum er lítið sem ekkert,“ segir Ágúst Torfi. Hann bætir við, að ofan á það leggist svo að verðþróun á lambakjöti hafi ekki fylgt annarri verðlagsþróun, sem sé í raun afleiðing offramboðs á markaði. „Á árinu 2019 og fram til dagsins í dag hefur verð lambakjöts hins vegar hækkað umfram verðlag. Aðstæður hafa verið á þá lund að unnt hefur verið að þokast í átt til leiðréttingar á verði lambakjöts. Vonandi getur sú þróun haldið áfram, þó það sé því miður alls ekki auglóst á þessum óvissutímum.“

Skúli Þórðarson, sauðfjárbóndi og framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnfirðinga, telur að ekki þurfi að fækka fé meira – innanlandsmarkaðurinn sé kominn í jafnvægi. Hann telur að með því að halda framleiðslunni í samræmi við sölu, sé smám saman hægt að auka virði sauðfjárafurða svo bændur beri meira úr býtum. „Svo þarf að hækka afurðaverðið um tíu prósent á ári þar til að framleiðslukostnaði er náð. Það tekur þrjú ár í viðbót; úr 500 krónum á kílóið í 550, síðan í 610 krónur og loks 670 krónur,“ segir Skúli.

Ágústi Andréssyni, forstöðumanni Kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, var einnig send fyrirspurn en svör hafa ekki borist.

Tækifæri til hagræðingar og sóknar

Þegar Guðfinna Harpa er spurð út í sjónarmið bænda um hver vandamál greinarinnar séu – og mögulegar leiðir út úr þeim – segir hún að vandamálin séu margþætt. „Það eru flestir sammála um að það séu tækifæri til að hagræða í slátrun, vinnslu og markaðssetningu. Hluti af vandanum er sá að við höfum enga aðkomu að verðmyndun á markaði.  Eins og kerfið er uppbyggt í dag þá geta allir aðilar í virðiskeðjunni tryggt sína afkomu meðal annars með því að lækka afurðaverð til bænda. Það geta ekki talist eðlileg viðskipti.“

Verðum að tryggja viðunandi afkomu og meiri stöðugleika

„Í þessu umhverfi leita bændur nýrra leiða.  Fyrir suma eru tækifæri sem felast í því að selja beint til neytenda og jafnvel taka yfir hluta af framleiðsluferlinu frá slátrun til smásölu. Þetta mun aukast og er af hinu góða. En samt sem áður verðum við að tryggja heilt yfir að afkoma í sauðfjárrækt sé viðunandi og ekki síður að við búum við meiri stöðugleika og fyrirsjáanleika en verið hefur,“ segir Guðfinna Harpa enn fremur.

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...