Nýtt hlaðvarp: Konur í nýsköpun
Glænýtt hlaðvarp, Konur í nýsköpun, hefur hafið göngu sína á Hlöðunni, hlaðvarpi Bændablaðsins.
Í þáttunum tekur Alma Dóra Ríkarðsdóttir, viðskiptafræðingur og meistaranemi í kynjafræði, viðtöl við áhrifakonur úr nýsköpunarumhverfinu á Íslandi.
Viðtölin eru hluti af rannsókn sem Alma Dóra hefur unnið í sumar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Efni rannsóknarinnar er staða og valdefling kvenna til nýsköpunar út frá styrkja úthlutunum úr nýsköpunarsjóðum ráðuneytisins. Í kjölfarið vildi Alma Dóra skoða betur reynsluheim, vegferðir og þarfir kvenna sem lifa og hrærast í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi. Kynningarþátt má nálgast hér.
„Ég hafði því samband við 16 konur sem allar tengjast nýsköpun á einn eða annan hátt og bauð þeim í viðtöl. Þetta hefur verið skemmtilegt ferli og gaman að kynnast þessum framúrskarandi konum. Þeirra innsýn í nýsköpunarumhverfið á Íslandi hefur verið ómetanlegt fyrir rannsóknina mína. Mig grunaði þó líka að þetta væri áhugavert efni fyrir fólk sem hefur áhrif á nýsköpun, fjölbreytni og jöfnum tækifærum kynjanna. Ég ákvað því að taka viðtölin upp og gefa þau út sem hlaðvarpið Konur í nýsköpun,“ segir Alma Dóra í fréttatilkynningu.
Meðal viðmælenda Ölmu Dóru eru; Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Kara Connect, Stefanía Bjarney Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Avo, Jenný Ruth Hrafnsdóttir meðstofnandi og vísisfjárfestir hjá Crowberry capital, Salóme Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Icelandic startups, fulltrúar nýsköpunarsjóða ráðuneytisins og háskólanna.
Fyrsti viðmælandi Ölmu Dóru er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þáttinn má nálgast hér.
Í viðtalinu ræða þær um vegferð Þórdísar sem leiddu hana í ráðherrastól, yngst kvenna og næstyngst í sögunni. Þórdís talaði um mikilvægi þess að bæði sækjast eftir tækifærunum og grípa þau þegar þau gefast og hvernig sýn hennar er á nýsköpunarlandið Ísland til framtíðar.
Þegar nýsköpunarlandið 2030 barst í tal hafði Þórdís þetta að segja:
„Það væri fjölbreytt samfélag þar sem fólk getur búið hvar sem er, þar sem að við leggjum áherslu á þekkingargreinar, þar sem er öll flóran af frumkvöðlafyrirtækjum, sprotum, meðalstórum og stórum fyrirtækjum. Fólk er óhrætt við að skipta um starfsvettvang og nýsköpun er miklu meiri hjá hinu opinbera en hún er í dag.“
Hlaðvarpið Konur í nýsköpun mun koma út einu sinni í viku á mánudögum. Þættirnir eru um 30 mínútur að lengd og verður nýr viðmælandi í hverjum þætti. Hægt verður að nálgast hlaðvarpið undir Konur í nýsköpun á helstu streymisveitum, á vefsíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, hjá Flóru útgáfu og í Hlöðunni, hlaðvarpsstreymi Bændablaðsins. Einnig mun Alma Dóra birta áhugavert efni tengt rannsókninni á Instagram reikningi sínum, @almadora.