Solis vinsælustu dráttarvélarnar
Á vef Samgöngustofu má sjá að 852 nýjar dráttarvélar voru nýskráðar á landinu á árinu 2023.
Af þeim ganga 152 tæki fyrir dísil og má reikna með að á bak við þær tölur séu hefðbundnar dráttarvélar, á meðan restin séu dráttarvélaskráð fjórhjól.
Þegar flokkurinn er skoðaður þá trónir tegundin Can-Am hæst með 219 tæki, en það er kanadískur framleiðandi fjórhjóla. Séu hin hefðbundnu vörumerki landbúnaðartækja skoðuð er Solis, hinn indverski framleiðandi á smáum dráttarvélum, á toppnum með 34 traktora. Þar fyrir neðan eru gamalgróin merki eins og Massey Ferguson, Kubota og Valtra. Samanborið við árið 2022 er þetta fækkun um tólf ný dráttarvélaskráð tæki sem ganga fyrir dísil. Þá voru fluttar inn 42 Solis-dráttarvélar, samanborið við 34 árið 2023.
Í fyrra voru 79 notaðar dráttarvélar nýskráðar á landinu og var Massey Ferguson vinsælasta tegundin með 23 eintök.
Sé fjöldi nýskráninga eftir undirtegund skoðaður sést að fjórar notaðar dráttarvélar af gerðinni Farmall voru fluttar til landsins.