Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 28. nóvember 2016
Stöðnun ríkir í lífrænum landbúnaði á Íslandi
Höfundur: smh
Ísland virðist vera að dragast verulega aftur hvað varðar framleiðslu á lífrænum landbúnaðarvörum. Í Bændablaðinu 22. september var fjallað um lífrænan landbúnað í Evrópu. Þar kom fram að flestar þjóðir, þar sem sæmileg velmegun er, bættu nokkuð við sig í lífrænum landbúnaði á árunum 2013 til 2014, ef hlutfall landnotkunar sem fer undir lífrænan landbúnað er skoðað. Á heildina litið hækkaði hlutfallið um 2,3 prósent.
Á Íslandi fækkaði framleiðendum á árunum frá 2011 til 2014, en vottað land hefur þó stækkað lítillega og taldist í fyrra vera um 1,6 prósent.
Ítalía er það land sem varði stærstum hluta af nytjalandi sínu undir lífrænan landbúnað árið 2014, eða 17,9 prósentum. Flest lönd innan Evrópusambandsins eiga það þó sameiginlegt að þar hefur hlutfall lífrænt vottaðs lands hækkað nokkuð ört enda unnið markvisst í þá átt með stefnumótun og stuðningi.
Stöðnun virðist því vera í þessum geira landbúnaðarins íslenska og ekki bólar á stefnumótun, eftir að aðgerðaáætlun um Eflingu græna hagkerfisins á Íslandi lognaðist út af á síðasta kjörtímabili. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir að 15 prósent af nytjalandi yrði lífrænt vottað árið 2020.
Í nýsamþykktum búvörusamningum er þó gert ráð fyrir meiri stuðningi við aðlögun að lífrænum landbúnaði.
Nýr ráðunautur í lífrænum landbúnaði
Lena Johanna Reiher tók við stöðu ráðunautar í lífrænum landbúnaði í janúar 2015 þegar dr. Ólafur Dýrmundsson lét af störfum. „Ég tók við hluta af starfi hans Ólafs þegar ráðgjöf til bænda í lífrænum búskap og aðstoð við aðlögun að lífrænum búskaparháttum færðist yfir til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML). Ég kann vel við mig í þessu hlutverki, enda mikil áhugamanneskja um lífrænar landbúnaðarvörur og lífræna landbúnaðarframleiðslu. Ég er með próf í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) og síðan er ég með meistarapróf í búfjárfræði frá Kiel í Þýskalandi.
Þá hef ég tekið áfangann „lífrænn landbúnaður“ við LBHÍ 2013 og setið dagsnámskeið hjá VOR og Tún um aðlögun að lífrænum búskap 2014. Síðan stendur til að mennta sig meira á sviði ræktunar á lífrænum matjurtum og tengjast erlendum ráðunautum sem sinna ráðgjöf til bænda í lífrænum búskap,“ segir Lena um sinn bakgrunn.
Ýmsir þættir þess valdandi að stöðnun ríkir
Lena segir að þótt lífrænt vottað nytjaland á Íslandi sé metið um 1,6 prósent af íslensku landbúnaðarlandi sé það að athuga að í þeirri tölu sé einnig land til jurtasöfnunar, sem geti í mörgum tilfellum verið mjög stór svæði.
Lena J. Reiher.
En hver er staða mála að hennar mati og horfur fyrir lífrænan landbúnað? „Þær tölur sem ég hef nýlega fengið frá Vottunarstofunni Túni gefa ekki tilefni til bjartsýni. Þar kemur fram að á árunum 2012 til 2016 fengu tíu framleiðendur lífræna vottun og 15 vinnsluaðilar. Á sama tíma hafa hins vegar 14 framleiðsluaðilar sagt upp vottun sinni – eða þeir misst hana – og sex vinnsluaðilar. Vinnsluaðilar eru bæði fyrirtæki sem sjá um endurpökkun innfluttra vara og fyrirtæki í matvælaframleiðslu, svo sem mjólkurvinnslufyrirtæki, bakarí, kaffibrennslufyrirtæki eða þau sem framleiða snyrtivörur.
Það bráðvantar fleiri bændur sem eru tilbúnir að stunda lífræna mjólkurframleiðslu. Fyrirtækið BioBú hefur komið sér vel fyrir á íslenskum neytendamarkaði og vantar mjólk til að sinna eftirspurn og bæta við vörum.
Misvel gengur í lífrænum sauðfjárbúskap sem tengist ýmsum þáttum; eins og almennt minnkandi eftirspurn eftir lambakjöti og byrjunarerfiðleikum í aðlögunarferlinu, en einungis hluti af aðlögunarstyrkjunum hefur verið greiddur. Þá hefur afurðastöðvarverð fyrir lífrænt ræktað lambakjöt lækkað á síðustu árum.
Það sem fyrst og fremst hefur valdið stöðnun að mínu mati er vöntun á framtíðarsýn fyrir lífrænan landbúnað hjá opinberum aðilum. Of lítil áhersla hefur verið lögð á lífrænu hlið landbúnaðarins.
Ég tel að helstu tækifærin liggi í lífrænni mjólkurframleiðslu og lífrænni framleiðslu á kjúklingakjöti. Við erum nýbúin að fá lífrænu eggin inn sem var frábært og mikilvægt skref fyrir neytendur,“ segir Lena.
Hún segir að þótt meiri áhersla sé lögð á lífræna ræktun í nýjum búvörusamningi, sé framtíðarstefnan samt óskýr. „Markmiðið er að auka vægi lífrænnar framleiðslu og aukið fjármagn er ætlað til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum, en skýr stefna er ekki fyrir hendi – hvað þá háleitar áætlanir. Það vantar svör við ýmsum spurningum; hversu mikla aukningu viljum við sjá á næstu árum og hvernig ætlum við að komast þangað?
Frá byrjun árs 2017 er gert ráð fyrir 35 milljónum króna á ári í nýjum búvörusamningum til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum, en það var áður 3,5 milljónir króna á ári. Enn er verið að ræða og móta útfærslu á styrkgreiðslum og reglum í kringum þær. Þessir fjármunir eru eingöngu ætlaðir til aðlögunar. Markmiðið er að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í vottaðri lífrænni búvöruframleiðslu og auka framboð lífrænna vara á markaði, eins og tilgreint er í búvörusamningi.“
Lítið námsframboð í lífrænum landbúnaði
Að sögn Lenu hefur námsframboð mjög lítið aukist fyrir þá sem hafa áhuga á að mennta sig í lífrænum landbúnaði. „Hjá LbhÍ á Reykjum er boðið upp á nám sem heitir lífræn ræktun matjurta, en á Hvanneyri er einungis valfag fyrir búfræðinema sem heitir lífrænn landbúnaður. Að ég best veit, er ekkert annað í kennsluskrá tengt lífrænum búskap, því miður.“
Aðeins hluti af starfi Lenu fer í að sinna lífrænum landbúnaði. „Ég er í 80 prósent starfi hjá RML og er í hópi þjónusturáðunauta á sviði rekstrar og nýsköpunar. Mín verkefni eru mörg og fjölbreytt; sinni verkefnum í hrossarækt (skýrsluhald, skráningarkerfið Sportfengur, kynbótasýningarstjórn), sauðfjárrækt (lambadómar og lambaskoðunarskipulag fyrir Vesturland), er í fóðurhópi (tek heysýni, túlka niðurstöður og vinn fóðuráætlanir fyrir kúabú með NorFor), hef lítið verið í kvíguskoðun undanfarið en hef veitt aðstoð í skýrsluhaldskerfinu Huppu. Síðan bættist lífrænn landbúnaður við og ég reyni að sinna því eftir þörfum.“