Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Te – milljón bollar á mínútu
Á faglegum nótum 7. desember 2015

Te – milljón bollar á mínútu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Te er annar vinsælasti drykkur í heiminum á eftir vatni. Fjöldi plantna er notaður til að búa til te eins og minta og blóðberg. Að þessu sinni skal athyglinni beint að terunnanum Camellia sinensis og ræktun á honum.

Heildarframleiðsla á te af terunnum árið 2014 var rúm 5 milljón tonn. Talið er að ríflega milljón bollar af tei séu drukknir í heiminum á hverri mínútu allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Framleiðslan í Kína var tæp tvö milljón tonn eða um 40% heimsframleiðslunnar og Kína það land sem ræktar mest af tei í heiminum. Indland er í öðru sæti og framleiddi tæplega 1,2 milljónir tonna, Kenía er í þriðja sæti með 445 þúsund tonn, Sri Lanka er í fjórða sæti með tæplega 340 þúsund tonn og Tyrkland í því fimmta og framleiddi 175 þúsund tonn árið 2014. Löndin í sjötta til tíunda sæti eru Indónesía, Víetnam, Japan, Íran og Argentína sem framleiddu frá 157 og niður í 70 þúsund tonn.

Tyrkir drekka mest af tei

Kenía er það land í heiminum sem flutti út mest af tei árið 2014, eða rétt tæp 423 þúsund tonn, Sri Lanka er næstöflugasti útflytjandinn, 318 þúsund tonn. Útflutningstekjur þessara landa byggja að stórum hluta á tei. Kína er í þriðja sæti með rúm 301 þúsund tonn, Indland í fjórða sæti, 208 þúsund og í fimmta sæti er Indónesía sem flutti út 68 þúsund tonn af tei árið 2014.

Neysla á mann af tei í heiminum ári 2014 var mest í Tyrklandi um 7,5 kíló, næstmest er hún í Marokkó, 4,3 kíló, síðan á Írlandi 3,2 kíló. Íbúar á eyjunni Máritíus eru þokkalegir tesvelgir og neyta um 3,2 kíló og slá Bretum við sem miðað við höfðatölu eru í fimmta sæti þegar kemur að teneyslu, 2,7 kíló á mann. Þrátt fyrir að Kínverjar framleiði allra þjóða mest af tei og stærstur hluti þess neyttur innanlands eru þeir í 33. sæti þegar kemur að neyslu miðað við höfðatölu og neyta þeir um 82 gramma á mann. Samkvæmt sama lista er meðalneysla Íslendinga 19 grömm af tei á ári og þjóð í 92. sæti þegar kemur að tedrykkju og á milli Moldavíu og Namibíu hvað varðar magn.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru flutt til landsins 97,2 tonn af tei árið 2014. Í tölum Hagstofunnar er ekki gerður greinarmunur á mismunandi tei og því ólíklegt að eingöngu sé um að ræða þurrkað lauf terunnans.

Grasafræði og ræktun

Teplantan, Camellia sinensis, er sígrænt turnlaga tré eða þéttvaxin og runni með dökkbrúnan eða gráleitan börk. Getur náð 17 metra hæð en í ræktun er plöntunni haldið í rúmlega eins metra hæð með klippingu.
Te er með eftir aðstæðum stólparót eða öfluga trefjarót sem leitar allt að þrjá metra niður í jarðveginn.

Laufið leðurkennt og stakstætt, ljósgræn og smáhærð á neðraborði. Lensu- eða egglaga og smátennt. Milli 4 og 15 sentímetrar á lengd og 2 til 5 á breidd eftir yrkju. Blómstra við blaðöxl. Blómin tvíkynja, ilmandi, hvít og gul með 7 eða 8 krónublöðum, 2 til 4 sentímetrar í þvermál. Hvert blóm ber allt að 200 frævla en eina frævu. Sérstæð eða tvö og fjögur saman í hnapp. Frjóvgast með vindi eða skordýrum.

Það tekur plöntuna um átta ár að vaxa upp af fræi þar til hún blómstrar og myndar aldin. Aldinið, brúnt, með þunnri en harðri skurn og inni í því eitt til fjögur fræ. Fræ terunnans eru 0,8 til 1,6 sentímetri í ummál, svipuð Ora-baun að stærð. Þau eru fitu- og trefjarík og með hátt sykurinnihald.

Dafnar best í kaldtempraða- og hitabeltinu þar sem meðalúrkoma er ríflega 1000 millimetrar á ári. Við þannig aðstæður getur plantan vaxið upp í 3.000 metra hæð. Mest framleiðsla á te er milli 40° norðlægrar og 33° suðlægrar breiddar. Sum yrki þola allt að mínus 5° áður en þær drepast.

Talsvert af pöddum, sveppum, bakteríum og vírusum sækja á terunna og í stórræktun er blanda af varnarefnum notuð til að halda þeim óværum niðri.

Hægt er að hefja nytjar á terunnum tveimur til fimm árum eftir sáningu og hámarks uppskera fæst eftir sjö til tíu ár. Runninn getur hæglega náð rúmlega 100 ára aldri en nytjar af honum eru mestar til fertugs eða sextugs eftir aðstæðum. Vex vel í beinni sól og hálfskugga skóglendis. Kýs rakan, vel framræstan, eilítið sendinn og súran moldarjarðveg.

Við tínslu á tei eru einungis tvö til þrjú efstu blöðin tínd og við góðar aðstæður er hægt að safna laufinu á tveggja vikna fresti. Til að varðveita bragðgæði telaufanna eru þau þurrkuð strax eftir tínslu.

Auk þess sem telauf eru notuð í te er unnið úr þeim bragðefni sem nýtt eru til að bragðbæta áfenga drykki, mjólkurdeserta, sælgæti, kökur og búðinga.

Uppruni og saga

Ættkvíslin Camellia telur eitthvað á þriðja hundrað tegundir sem vaxa víða um heim. C. sinensis skiptist í fjögur kvæmi C. sinensis var. sinensis, C. sinensis var. assamica, C. sinensis var. pubilimba og C. sinensis var. dehungensis.

Tvær af þeim eru C. sinensis var. sinensis og C. sinensis var. assamica, mest ræktaðar til teframleiðslu. Sú fyrri í Kína en sú seinni á Sri Lanka og Indlandi.

Ekki er vitað fyrir víst hvaðan terunninn er upprunninn og plantan þekkist ekki villt í náttúrunni og því um ræktunartegund að ræða. Ýmislegt bendir til að Camellia sinensis var. sinensis reki uppruna sinn til Yunnan-héraðs í Kína og C. sinensis var. assamica til Assna á Indland og landanna í Suðaustur-Asíu. Í dag er plantan ræktuð á hitabeltissvæðum allt í kringum jörðina. Auk þess sem hún er skrautjurt í görðum á norðlægari slóðum.

Nafnið Camellia er í höfuðið á moldóvíska jesúítaprestinum Georg Kamel sem stundaði trúboð og rannsóknir á plöntum á Filippseyjum í lok 17. aldar.

Ræktunaryrki af C. sinensis skipta hundruðum en þau helstu kallast benifuuki, fushun, kanayamidori, meiryoku, saemidori, okumidori og yabukita.

Talið er að neysla á seyði te­runnans hafi fyrst átt sér stað í Yunnan-héraði í Kína og það drukkið í lækningaskyni. Elstu  heimildir í Kína benda til að te hafi verið þekkt þar í landi í allt að þrjú þúsund ár fyrir upphaf okkar tímatals. Elstu rituðu heimildir um ræktun terunnans eru aftur á móti mun yngri eða frá því um 40 fyrir Krist.

Tedrykkja var orðin almenn í Kína um miðja áttundu öld og þaðan breiddist hún til nágranna landanna, Kóreu, Japan og Víetnam. Þrátt fyrir að te hafi verið drukkið í Himalayafjöllum Indlands varð drykkja þess ekki almenn í landinu fyrr en við hernám Breta og stórræktun þeirra á terunnum þar.

Fyrstu Evrópumenn til að kynnast tei voru portúgalskir trúboðar og kaupmenn sem heimsóttu Kína í byrjun sextándu aldar og kölluðu þeir það chá. Hollenska Austur-Indíafélagið flutti fyrsta tefarminn frá Japan til Evrópu árið 1609. Tedrykkja náði fljótlega vinsældum í hollensku borginni Haag og barst þaðan til Þýskalands, Frakklands og fljótlega með kaupmönnum verstur yfir Atlantshafsála til New York.

Te var í boði á kaffihúsum í London 1657 og þegar hefðarmærin Katrín frá Bragansa í Portúgal giftist Karli II Englandskonungi árið 1662 hófst innreið tedrykkju við ensku hirðina. Vegna þess hvað te var dýrt var það ekki fyrr en í upphafi 18. aldar sem drykkurinn náði verulegri útbreiðslu á Englandi og það voru Englendingar sem fyrstir settu sykur og mjólk út í teið sitt.

Árið 1770 birti framkvæmdastjóri Twining, sem var stórinnflytjandi tes til Englands, grein þar sem hann hélt því fram að íbúar smáþorps skammt frá London lifðu á því að falsa te. Að sögn greinarhöfundar framleiddu þorpsbúar yfir 20 tonn á ári af telíki sem samanstóð af muldu og ristuðu laufi asktrjáa og sauðfjárskít og í sumum tilfellum blómum yllis til að bæta bragðgæðin.

Te átti sinn þátt í sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna. Árið 1773 klæddust nokkrir sjálfstæðissinnar indíánaklæðum og fóru um borð í flutningaskip sem var að flytja te. Mennirnir hentu farminum í höfnina í Boston og segir sagan að hún hafi litið út eins og þykk teleðja. Aðgerðin var til að mótmæla háum skatti Breta á tei til Bandaríkjanna og leiddi að lokum til stríðs milli ríkjanna.

Smygl á tei frá Kína framhjá einkaleyfi breska Austur-Indíafélagsins leiddi einnig til tveggja stríða milli Breta og Kínverja á nítjándu öld sem kallast ópíumstríðin.

Skelfilegar aðstæður teverkafólks

Reglulega berast fregnir af börnum allt niður í sjö ára aldur sem vinna myrkranna á milli við tetínslu hvort sem það er í Kína, Sri Lanka eða Kenía. Árið 2015 birti BBC úttekt á aðstæðum verkafólks sem starfar við tetínslu og tevinnslu á Indlandi. Teið sem umræðir er notað af mörgum af helstu teframleiðendum í heimi.

Aðstæður fólksins eru víða mjög slæmar, launin undir lögbundnum lágmarkslaunum og svo lág að í fæstum tilfellum nægja þau fyrir nauðþurftum. Börn og fullorðnir úða skordýraeitri og öðrum varnarefnum án hlífðarbúnaðar og eitranir af þeirra völdum tíðar.

Algengt er að fjölskyldur teverkafólksins búi á jörðunum þar sem teið er ræktað. Oft og tíðum er bústaður þess kofaræksni með hripleku þaki og þar er hvorki rafmagn, rennandi vatn né salernisaðstaða. Á einu býlanna voru 464 sameiginleg salerni fyrir 740 heimili, með allt að tíu í heimili, og flest stífluð. Fólkið gerir því þarfir sínar utandyra í opin ræsi eða á milli terunnanna.

Bragðbætt og styrkt te

Misjafnt er milli þjóða hvort fólk kýs að drekka sitt te með eða án bragðefna. Auk þess sem er hægt að fá grænt og svart te. Munurinn á svörtu og grænu tei felst aðallega í þurrkunartíma laufanna. Svart te er þurrkað lengur en grænt og er um 60% heimsframleiðslunnar af tei af terunnum.

Hægt er að fá te með sítrónu-, piparmintu- eða ávaxtabragði. Jasmín, Darjaeeling og Earl Grey te sem er bragðbætt með bergamótappelsínum sem er súr og perulaga ávöxtur af sítrusætt. Á Sri Lanka þykir gott að krydda te með kanil. Víða í Evrópu er te styrkt með viskíi eða koníaki. Öðrum finnst skipta máli hvort er sett á undan í bollann, teið eða mjólkin.

Hægt er að fá te í lausu eða pressað í kökur. Árið 1907 sendi bandarískur tesölumaður út teprufur í litlum pokum sem hengu á spotta. Viðtakendur prufanna komust fljótlega upp á lag með að stinga pokunum í heitt vatn. Það var þó ekki fyrr en eftir heimsstyrjöldina seinni að te í tepokum varð söluvara.

Te á Íslandi

Danskir embættismenn voru fyrstir til að flytja te til Íslands á fyrri hluta 18. aldar. Vinsældir drykkjarins virðast snemma hafa orðið talsverðar og heldri Íslendingar voru fljótir að koma sér upp tekönnu, bollum og kötlum.

Framan af var fágætt að almenningur ætti slíkt fínerí en í  ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, sem kom fyrst út 1772, segir: „Te og sykur eru nú orðin svo algengar vörur, að næstum því hver góður bóndi á nú teáhöld.“

Bjarni Pálsson landlæknir, annar höfundur ferðabókarinnar, átti teketil þegar hann lést í Nesi við Seltjörn árið 1779. Hjónin Þorkell og Guðrún í Ketu á Skaga, sem létust árið 1785, áttu teketil, svarta tekönnu úr leir og aðra með tréloki, þrjú bollapör og þrjár teskeiðar. Í eignauppgjöri sextugs bónda á Melrakkasléttu, sem lést sama ár, segir að hann hafi átt stóran teketil úr eir, annan lítinn og tekönnu úr tini.

Í dag er slíkur munaður á hverju heimili og sumir drekka aldrei neitt annað en grænt te úr örþunnum postulínsbollum með litla fingur út í loftið. 

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...