Verið að skoða möguleika á hækkunum
Meðalskilaverð til bænda fyrir dilka- og ærkjöt eftir síðustu sláturtíð er á bilinu 340 til 389,5 krónur á hvert kíló samkvæmt upplýsingum frá sláturleyfishöfum.
Talsmenn afurðastöðvanna segja að verið sé að skoða mögulega hækkun afurðaverðsins en að engin ákvörðun um slíkt hafi verið tekin.
Bændablaðið leitaði til nokkurra sláturleyfishafa um hvert meðalskilaverð til bænda hafi verið fyrir lambakjöt eftir sláturvertíðina í haust.
Samkvæmt svörunum sem blaðið fékk er meðalskilaverðið á bilinu 340 til 389,5 krónur fyrir kílóið eftir síðustu sláturvertíð. Hæst var verðið hjá Sláturfélagi Suðurlands 389,5 krónur fyrir lamba- og ærkjöt, hjá Fjallalambi hf. 375 krónur. Hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, 366,1* krónur fyrir kílóið og 340 krónur hjá Norðlenska.
Eiður Gunnlaugsson hjá Kjarnafæði sagði að ekki væri búið að reikna út meðalskilaverð hjá þeim til bænda.
Samkvæmt svörum frá öllum afurðastöðvum sem haft var samband við er í skoðun hvort grundvöllur sé fyrir því að hækka skilaverðið en að engin ákvörðun hafi verið tekin um slíkt enn.
Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs, sagði að í tengslum við möguleikann á að hækka skilagjaldið skipti mestu hvaða verð fengist fyrir vöruna innanlands og utan og Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, sagði að aðstæður til hækkana væru betri en óttast var.
*Í prentútgáfu blaðsins urðu þau mistök að gefið var upp meðalverð fyrir dilkakjöt hjá KS sem leiddi til skekkju í samanburði á meðalverðinu. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.