Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Bútasaumur – hvað er það?
Líf&Starf 31. mars 2017

Bútasaumur – hvað er það?

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bútasaumur er gamall, reyndar svo gamall að enginn veit upprunann, en fundist hafa stykki allt frá rúmlega 3000 árum fyrir Krist. Bútasaumsstykki hafa fundist í mörgum löndum og má nefna sem dæmi Japan, Evrópu, Ameríku, Afríku, Ítalíu og Arabíu.

Talið er að hægt sé að rekja til 17. aldar þann bútasaum sem við þekkjum nú. Vert er að geta þess að bútasaumur var, líkt og nú, bæði til nytja og skrauts.

En hvað er þá þessi bútasaumur? Jú, eins og nafnið bendir til, felst hann í því að sauma saman búta svo úr verði heilt stykki með einhverju mynstri. Kannski má segja að það að gera við föt með bótum hafi og sé ein tegund bútasaums. Rúmteppi, bæði til að sofa undir og sofa ofan á, voru gerð með bútasaumi eða bótasaumi, þ.e. bútar voru saumaðir saman til að mynda heild.

Nytjalist

Landnemar í Bandaríkjunum komu með bútasaum með sér og blómstraði hann þar mest sem nytjalist. Gaman er að geta þess að á tímum þrælastríðsins voru ýmis mynstur bútasaums notuð til að vísa þeim sem leituðu frelsis veginn. Það var gert á þann hátt að teppi með viðkomandi mynstri var hengt út á girðingu eða þvottasnúru. Þá vissi viðkomandi að hann ætti til dæmis að fara með veginum, beygja eða að fram undan væri öruggt skýli. Þetta var auðvitað alveg frábær leið til að koma skilaboðum á framfæri því hvern grunar að saklaust rúmteppi feli í sér leiðbeiningar?

En aftur að bútasaumi. Enska heitið „patchwork“ á við um allan saumaskapinn á meðan lagið er einfalt, þ.e. verið er að sauma saman bútana. Við notum hugtakið bútasaumur við allan ferilinn. Langoftast er saumaður beinn saumur svo ekki á það að fæla fólk frá því að prófa.

„Quilting“, eða stunga, er svo notað þegar verkið hefur verið sett saman, þ.e. í efra lag sem eru bútarnir, miðlag sem er yfirleitt einhvers konar vatt úr ull eða gerviefnum og bak. Stundum er vattinu sleppt. Stungan felst í því að stinga gegnum lögin þrjú til að festa þau saman. Hægt er að stinga í höndum eða í saumavél og er stungan misjöfn eftir notkun verksins og listformi.

Bútapest

Það hefur stundum verið sagt til gamans að sá sem byrjar á því að sauma bútasaum smitist af því sem kallað er bútapest eða „quilting bug“. Það má til sanns vegar færa að bútasaumur nær ansi góðum tökum á þeim sem hann stundar og eru mýmörg dæmi um andvökunætur þegar ekki var hægt að hætta að sauma.

Handverk heilar líkama og sál

Handverk af öllu tagi er talið heilandi og gott fyrir heilsuna. Ekki bara vinnan sjálf heldur einnig félagsskapurinn sem getur fylgt ef fólk vill. Að sökkva sér ofan í handverk er nefnilega ein tegund núvitundar. Það er því engin tilviljun að handverk er stundað alls staðar þar sem unnið er að endurhæfingu fólks sem hefur orðið fyrir líkamlegum eða andlegum áföllum. Það að sjá tilbúinn hlut sem maður sjálfur hefur búið til styrkir sjálfsmyndina og eykur vellíðan.

Hvað þarf til?

Tækin eru einföld. Saumavél eða bara nál og tvinni. Hnífur, stika og motta til að skera efnin – eða bara skæri ef ekki vill betur til.

Bútasaumsfélagið

Á Íslandi er starfandi félag bútasaumara. Það heitir Íslenska bútasaumsfélagið og er hægt að finna m.a. á www.butasaumur.is. Öllum er frjálst að hafa samband við félagið og mæta á fundi. Sá eða sú sem vill læra bútasaum getur fundið gott byrjendanámskeið eða bara einhvern sem kann bútasaum og vill aðstoða. Það er enginn skortur á slíku fólki.

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....