Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fjallableikja ehf. á Hallkelshólum er í byggingum sem reistar voru 1986 til að framleiða laxaseiði fyrir norskar fiskeldisstöðvar.
Fjallableikja ehf. á Hallkelshólum er í byggingum sem reistar voru 1986 til að framleiða laxaseiði fyrir norskar fiskeldisstöðvar.
Mynd / HKr.
Líf&Starf 6. apríl 2018

Hefur náð góðum árangri í gæðum og fóðurnýtingu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Fiskeldisstöðin Fjallableikja ehf. hefur verið starfandi á Hallkelshólum í Grímsnesi síðan 2009.
 
Reksturinn er í eigu Guðmundar Adólfssonar og Jónasar Stefánssonar, en byggingarnar eru í eigu Gísla Hendrikssonar bónda á Hallkelshólum og eiginkonu hans Rannveigar B. Albertsdóttur. Stöðin hefur náð mjög góðum árangri í bleikjueldi og er framleiðslan stöðug í um 100 tonnum af bleikju á ári. 
 
Guðmundur, sem flestir þekkja trúlega sem smið og eiganda Trésmiðjunnar Gosa í Hafnarfirði, segir gott gengi byggja á mikilli vinnu og þrautseigju. Þá hafi reksturinn verið byggður upp á eigin fé og mikilli vinnu, en enginn opinber stuðningur sé þarna á bak við. Því sé staðan góð í dag og fyrirtækið hafi skapað sér gott orð fyrir vönduð vinnubrögð og mikil gæði. 
 
Fjallableikja ehf. á Hallkelshólum er í byggingum sem reistar voru 1986 til að framleiða laxaseiði fyrir norskar fiskeldisstöðvar. 
 
Stöðin á Hallkelshólum var upphaflega byggð 1986 sem seiðaeldisstöð fyrir lax og þótti mjög fullkomin. Fyrirtækið á bak við þann rekstur hét Fjallalax og var komið á fót í samvinnu við Norðmenn, sem áttu þá 49% hlut í stöðinni á móti Gísla Hendrikssyni. Var meiningin að ala laxaseiði upp í stöðinni til áframeldis í Noregi. Deilur milli eldisfyrirtækja í Noregi leiddu þó til þess að slíkur innflutningur var bannaður með lögum. Var skipi með fyrsta seiðafarminn þá meinað að koma að landi í Noregi. Það kippti fótunum snarlega undan rekstri Fjallalax, sem varð gjaldþrota. Tilraun var gerð til að endurreisa reksturinn en hann fór aftur í þrot nokkrum árum seinna. Stofnfiskur var svo með seiðaeldi á Hallkelshólum um tíma en síðan stóð stöðin tóm í tvö ár, þar til Fjallableikja hóf þar rekstur 2009. 
 
Alið frá grunni af hrognum frá Hólum
 
Um 300 þúsund seiði eru að jafnaði í stöðinni sem alin eru upp af hrognum sem keypt eru frá Hólum í Hjaltadal. Er þar um að ræða bleikjustofn sem er íslenskur að uppruna. Auk þess að rækta bleikjuna upp í sláturstærð hefur Fjallableikja selt seiði til áframeldis til annarra fiskeldisfyrirtækja. Annað er alið upp í sláturstærð samkvæmt kröfum markaðarins. Tekur um tvo til þrjú ár að ala hana upp í þá sláturþyngd sem óskað er eftir. 
 
Ágúst Friðmar Backman er starfsmaður í eldisstöð Fjallableikju. Hann er garðyrkjufræðingur að mennt auk þess sem hann nam fiskeldisfræðin í fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum.
 
Hann segir að sjúkdómar hafi verið til lítilla vandræða hjá þeim í Fjallableikju. Telur hann að ein skýringin á því sé að þeir ali fiskinn upp við frekar lágt hitastig, 4-6 gráður. Það þýði að þeir losni við ýmsa óværu sem lifi í heitara vatni og hefur oft skapað alvarlegan vanda í fiskeldi. Á móti komi að vöxturinn verði heldur hægari. 
 
Bleikja sem er 2 kg að þyngd þykir mjög ákjósanleg til slátrunar og segir Ágúst að tveggja kílóa fiskur sé mjög flottur og í uppáhaldi hjá sér. 
 
Aukinn áhugi á stærri bleikju
 
„Mér finnst samt hafa verið aukinn áhugi fyrir sífellt stærri bleikju á markaðnum undanfarin ár. Jafnvel mjög stórri bleikju, en okkur hefur tekist að ala einstaka fiska allt upp í 4 kíló að þyngd.“ 
 
Skýringuna á áhuga markaðarins fyrir stærri bleikju telur Ágúst vera þá að hún sé auðveldari og fljótlegri í vinnslu en minni bleikjan. Hann segist þó ekki vita nákvæmlega hvar skynsamleg mörk liggi varðandi mögulega eldisstærð bleikjunnar. Þá útheimti slíkt mikið eftirlit og vandvirkni við fóðrun.
 
Mjög góð nýting á fóðrinu frá Fóðurblöndunni
 
Á undanförnum árum hefur Fjallableikja náð miklum árangri í fóðurnýtingu. Er nú svo komið að rétt rúm 1.000 grömm af fóðri eru að skila einu kílói af fiski í stöðinni, sem þykir mjög gott, ekki síst í ljósi þess að fóðurstuðull Atlantshafslax er talinn vera 1,3 eða 1.300 grömm af fóðri á móti hverju kg sem framleitt er af laxi. Guðmundur Adólfsson segir að þennan árangur megi ekki síst þakka mjög góðu fóðri með hentugri efnasamsetningu. 
 
„Við kaupum allt fóður hjá Fóðurblöndunni, sem hefur staðið sig afar vel,“ segir Guðmundur. 
Bleikjunni er slátrað og hún slægð í stöðinni á Hallkelshólum. Þaðan er bleikjan flutt í fullkomið vinnsluhús Fjallableikju að Eyrartröð í Hafnarfirði. Þar er hún flökuð, snyrt og beinhreinsuð og síðan flutt ýmist til íslenskra kaupenda eða beint í flug til útlanda. 
 
Stærsti hluti matfisksins frá stöðinni fer á innanlandsmarkað, til dæmis til Fjarðarkaupa, Bónusverslana, fiskbúðarinnar Vegamóta Seltjarnarnesi, Fisk­búðarinnar Sundlaugavegi og Fiskbúð Hólmgeirs Mjódd. Einnig fer drjúgur hluti til Opal Sjávarfangs ehf., Matvex í Hafnarfirði, Reykhóla og fleiri matvælafyrirtækja. Þau selja bleikjuna síðan frá sér í neytendaumbúðum í ýmsu formi sem ferska, reykta eða grafna. Þá er einnig selt til betri veitingastaða sem eru í föstum viðskiptum.
 
Matvex hlaut gullverðlaun fyrir grafna og reykgrafna Fjallableikju
 
Sem dæmi um góðan árangur má nefna gott samstarf Fjallableikju við matvælafyrirtækið Matvex í Dalshrauni 14 í Hafnarfirði. Það fyrirtæki er í eigu feðganna Páls Aðalsteinssonar, margverðlaunaðs kjötiðnaðarmanns, og sonar hans Aðalsteins Sesars sem er framkvæmdastjórinn. Páll, sem státar af heilum vegg af viðurkenningarskjölum og verð­launagripum fyrir afurðir sem hann hefur framleitt, segir að þeir hafi til gamans sent grafna og reykgrafna bleikju úr fiski frá Fjallableikju inn í fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna (MFK) sem haldin var 8. og 9. mars. Þar fengu báðir vöruflokkarnir gullverðlaun sem afbragðsvara. 
 
Aðalsteinn stofnaði Matvex ehf. í ágúst 2012, þá aðeins 19 ára gamall nemandi í Verslunarskóla Íslands.
„Ég fór að selja bleikju frá Fjallableikju og það hlóð smám saman utan á sig,“ segir Aðalsteinn.
 
 „Við fórum svo að framleiða ýmsa rétti, þar á meðal kjúklinga­lasagna, tortillur, pastarétti og fleira. Árið 2015 var ákvörðun tekin um að Páll faðir minn hætti í Kjötbankanum þar sem hann hafði starfað og kæmi alfarið inn í þennan rekstur með mér. Þá breyttist starfsemin á þann hátt að við fórum að selja hráefni og fullunnar samsettar vörur í mötuneyti og skóla. Það er alls konar matur.“
 
Nú er Matvex að þjónusta mörg af stærstu fyrirtækjum landsins og marga af stærstu skólunum líka. 
„Við leggjum mikið upp úr vandvirkni og að geta afhent vöruna á réttum tíma. Einnig að varan sé þá nákvæmlega í því ástandi sem beðið er um. Héðan fara bílar frá okkur með vörur klukkan sjö á morgnana og eru komnir á áfangastaði á höfuðborgarsvæðinu áður en mesta umferðin byrjar. Þetta kunna viðskiptavinir okkar vel að meta,“ segir Aðalsteinn. 
 
Afskaplega stoltir af bleikjunni
 
„Við erum afskaplega stoltir af bleikjunni sem við erum að framleiða, sem er eingöngu frá Fjallbleikju. Það er auðvelt að framleiða góða vöru úr svo frábæru hráefni sem við fáum frá þaðan,“ segir Páll. 
 
Aðalsteinn tekur undir það og segir að nú séu grafna og reykta bleikjan einhverjir alvinsælustu réttirnir í jólakörfunum sem þeir útbúi á hverju ári í stórum stíl. 
 
„Við getum því verið mjög stoltir af þessu hráefni sem við erum að vinna með,“ segir Páll. 
 
Rétt er að halda því til haga að þótt þessar vörur Matvex hafi þarna fengið mikinn gullgæðastimpil hjá dómurum MFK urðu þær samt ekki hlutskarpastar þegar gert var upp á milli gullverðlaunahafanna í flokki þeirra sem skiluðu inn afurðum sem unnar voru úr silungi. Eins og fram kemur í umfjöllun um keppnina á öðrum stað í blaðinu varð Hjörtur Jóhannesson í Kjarnafæði þar hlutskarpastur með sinn reykta silung. 
Þó umfangið sé mikið hjá Matvex er yfirbyggingin ekki mikil og dags daglega eru þeir feðgar oftar en ekki aðeins tveir að störfum. Segja þeir að aðrir fjölskyldumeðlimir séu einfaldlega kallaðir til þegar mikið liggur við og aukafólk að auki þegar mest er að gera.
 
Hafa þeir komið sér upp mjög góðri aðstöðu í Dalshrauninu og hafa meistarakokkar m.a. fengið að nýta sér hana við að undirbúa keppnisþátttöku úti í heimi. Vegna vaxandi umfangs telja þeir þó að það styttist í að þeir þurfi að stækka við sig. Eru þeir því farnir að líta hýru auga á sambyggt húsnæði Trésmiðjunar Gosa. 
 
Kælingin lykilatriði í vinnslunni
 
Þegar Bændablaðið leitt inn hjá fiskvinnslu Fjallableikju í Hafnarfirði var Jónas Stefánsson með hinum fasta starfsmannakjarna að ljúka við snyrtingu og beinhreinsun á bleikjuflökum sem voru á leið til viðskiptavina. Sagði Jónas að þótt leyfi væri fyrir vinnslu á hvers konar fiskafurðum í húsinu sinntu þeir þar eingöngu vinnslu á bleikju. 
 
„Frá því að við hófum þessa starfsemi hér á Eyrartröð í Hafnarfirði 2016 hefur það verið grundvallaratriði hjá okkur að vera með kælinguna eins neðarlega og mögulegt er. Ég hafði það þá strax sem markmið að kælirinn færi aldrei yfir 2 gráður. Það var síðan tekið upp í reglugerð Matvælastofnunar ári seinna, en áður var leyfilegt að vera með hitastigið á bilinu 0 til 4 gráður. Þetta lága hitastig hjá okkur er stór þáttur í því hvað afurðirnar okkar eru ferskar og eru oftast einungis tveggja daga gamlar þegar þær eru komnar á áfangastað til kaupenda. Hiti og súrefni er það sem veldur mesta vandanum við meðhöndlun á fiski. Gerlaflóran vex hratt með auknum hita. 
 
Þetta er lítil vinnsla og við erum ekki að keppast við að koma miklu magni í gegn, heldur leggjum við ofuráherslu á að halda gæðunum á bleikjunni ávallt í hámarki,“ segir Jónas.

10 myndir:

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....