Jólamarkaður á Elliðavatni
Það er einstaklega jólalegt við bæinn Elliðavatn á aðventunni þegar snjór er yfir öllu og vatnið ísilagt.
Inni í bænum er sjálfur jólamarkaðurinn þar sem ýmislegt fallegt má finna fyrir jólin, til að mynda jólaskraut og handverk hönnuða.
Í kjallara Elliðavatnsbæjarins er notaleg kaffistofa þar sem fjölskyldan getur fengið sér hressingu og hlustað á tónlistarfólk leika tónlist sína eða rithöfunda lesa úr verkum sínum.
Úti við er gott mannlíf, þar sem fólk getur keypt sér nýhöggvin íslensk jólatré úr Heiðmörk, auk þess sem þar er mikið úrval að finna af svokölluðum tröpputrjám, eldiviði og viðarkyndlum.