Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Líf&Starf 18. desember 2018
Landbúnaðar- og menningarferð til Ísrael og Palestínu
Höfundur: Snorri Sigurðsson
Seinnipartinn í október hélt 30 manna hópur Íslendinga í landbúnaðar- og menningar-ferð til Ísrael og Palestínu, en tilgangur ferðarinnar var að kynna sér fjölþættan landbúnað á svæðinu sem og að heimsækja merka sögulega staði. Ferðin var afar vel heppnuð og fjölbreytt og hér á eftir fer stutt samantekt ferðarinnar.
Þar sem frekar stutt er síðan skrifað var nokkuð ítarlega um landbúnað í Ísrael (10. og 11. tölublöð árið 2016) verður hér fyrst og fremst farið yfir þá þætti sem ekki komu fram við þá umfjöllun. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér fyrri skrif um landbúnað í Ísrael má benda á að hægt er að lesa öll eldri blöð Bændablaðsins á vefslóðinni: www.bbl.is. sem og á vefslóðinni timarit.is.
Framleiða 1,6 milljarða lítra af mjólk
Líkt og í flestum öðrum ferðum sem greinarhöfundur hefur komið að var megin áherslan lögð á fræðslu um mjólkurframleiðslu. Þannig var m.a. farið í heimsókn í land-búnaðarráðuneytið þar sem m.a. er starfrækt ráðgjafaþjónusta fyrir landbúnað. Þar hlýddi hópurinn m.a. á erindi Dr. Gaby Adin, sem er yfirmaður búfjárdeildar land-búnaðarstofnunar ráðuneytisins. Hann greindi hópnum frá helstu tölulegu staðreyndum um mjólkurframleiðslu landsins sem sjá má hér í meðfylgjandi töflu.
Þá fór hann vandlega yfir hvernig mjólkurframleiðslunni er stýrt en í landinu er í gildi kvótakerfi og er kvótanum skipt niður á einstaka mánuði. Hvert bú þarf þó ekki að fylla sinn mánaðarlega kvóta heldur getur flutt framleiðsluna á milli mánaða. Sé það gert getur hinsvegar fengist lægra verð fyrir þá óframleiddu mjólk sem flutt er á milli mánaða sem skýrist af því að yfir vetrarmánuðina, frá nóvember og út apríl er minni eftirspurn eftir mjólk. Ef bú framleiðir minna en mánaðarlegur kvóti þess er þessa mánuði en framleiðir þeim mun meira en mánaðarlegur kvóti þess er yfir sumarmánuðina fæst greitt sérstakt álag á hvert framleitt kíló mjólkur. Tilgangurinn er augljóslega sá að reyna að halda uppi framleiðslunni þegar heitast er í veðri og klárlega erfiðast að framleiða mjólk.
Leggja mikla áherslu á rannsóknir og þróun
Í sömu heimsókn hlýddi hópurinn einnig á Daniel Werner en hann fór m.a. yfir þróun landbúnaðarins í Ísrael og hvernig stjórnvöld stuðluðu að uppbyggingu matvælafram-leiðslu landsins. Að hans sögn var lykillinn að góðum árangri í landbúnaði hve miklum opinberum fjármunum væri varið til rannsókna og þróunarstarfs. Fyrir vikið væri landið leiðandi á mörgum sviðum landbúnaðar, sérstaklega hvað varðar hátækninýtingu og sérstaklega hvað varðar tækni til nýtingar á vatni. Í Ísrael er áratuga hefð fyrir mikilli samvinnu og einn af hornsteinum góðs árangurs í landbúnaði sagði Daniel felast í samvinnu vísindafólks, matvælaiðnaðar, bænda og stjórnvalda. Allir þessir aðilar vinna saman að því að bæta árangurinn ár frá ári, sem hefur skapað landinu mikla sérstöðu innan landbúnaðar á alþjóðlegum vettvangi.
Á rannsóknabúi landbúnaðarstofnunar Ísraels þurfa kýrnar að læra að þekkja sitt átpláss svo hægt sé að fylgjast með áti þeirra. Það getur tekið sinn tíma að kenna þeim að finna þann kassa sem þeim er ætlaður og oftast gengur það vel, en það kemur þó fyrir að einstaka kýr læra aldrei að finna sinn stað og þá eru þær teknar úr fóðurathuguninni.
Kýrnar þekkja sitt pláss
Að erindinu loknu var hópnum svo boðið í heimsókn í rannsóknakúabú landbúnaðarstofnunarinnar. Þetta bú nýtist fyrst og fremst til rannsókna á fóðrun kúa en einnig eru framkvæmdar ýmsar aðrar rannsóknir. Það sem var nokkuð fróðlegt að heyra var að kýrnar sem eru í fóðrunartilraununum eru allar í lausagöngu og til þess að geta fylgst með áti einstakra gripa, þarf að nýta tölvutækni við gagnasöfnunina.
Til þess að gera rannsóknastarfið einfalt er hverri kú kennt hvar hún á að éta við fóðurganginn en allar kýrnar eru með hálsbönd með örmerki í og þetta örmerki er í raun lykill að átkassa með fóðri í. Hver kýr getur þó einungis opnað þann kassa sem er merktur henni og því þarf að kenna hverri kú að finna þann kassa sem hennar örmerki getur opnað.
Að sögn tilraunastjóra búsins gengur yfirleitt vel að kenna kúnum að finna sitt eigið átsvæði en þó getur það tekið upp í nokkra daga fyrir sumar kýr að finna svæðið sitt. Svo bætti hann því einnig við að einstaka sinnum kemur það svo fyrir að ómögulegt reynist að kenna kúnni að finna átkassann sinn og í því sambandi talaði hann um að kýrnar væru einfaldlega ekki allar jafn vel gefnar.
Stórtæk lárperu- og mangóframleiðsla
Í ferðinni var farið í heimsókn í mörg samyrkjubú sem voru í allskonar landbúnaðarframleiðslu en flest þeirra hafa nokkuð fjölbreytta framleiðslu til þess að bæði nýta landið vel, sem og að dreifa áhættunni sem fylgir því að framleiða matvæli sem eru seld á heimsmarkaði. Ísrael er nefninlega nokkuð öflugt í útflutningi á ákveðnum vörum og sérstaklega sterkt í framleiðslu á lárperum og mangó. Þegar búin voru heimsótt var búið að uppskera báðar þessar tegundir en hópurinn fékk þó fína kynningu um þessa framandi framleiðslu, sem og að sjá þétta akrana með þessum ávaxtatrjám. Bæði lárperur og mangó eru tíndar á haustin og fer mest af framleiðslunni til útflutnings. Mangó ávöxturinn er aðallega seldur í Englandi, Frakklandi og Hollandi en lárperurnar fara bæði til marga landa í Evrópu sem og til Asíu.
Að sögn heimamanna þá skilar þessi framleiðsla ágætum tekjum en vandinn er þó sá að þegar trjánum er plantað er alls óvíst hver eftirspurnin verður eftir um áratug, þegar framleiðslan er orðin mest af trénu. Það er vegna þess að ótal mismunandi afbrigði eru til bæði af lárperutrjám og mangótrjám og sögðu þeir að eftirspurnin eftir mismunandi afbrigðum sveiflaðist mikið á milli landa og neytendahópa bæði hvað varðar lit ávaxtarins, stærð og bragðgæði. Þá virtist sem ákveðnir „tískustraumar“ valdi því að ólík afbrigði ná allt í einu hylli neytenda en önnur afbrigði falla í ónáð. Bóndinn sem plantar trénu þarf því að vera afar framsýnn þegar afbrigðið er valið – nú eða heppinn.
Vökva akra með sjó
Eins og hér að framan greinir þá byggir árangurinn fyrst og fremst á því hvernig þekkingin er nýtt til framleiðslu og allur landbúnaður á þessu svæði á það sameiginlegt að búa við afar erfið ytri skilyrði vegna mikilla hita og lítillar úrkomu. Bændurnir hafa með nýtingu nútíma tækni og mikillar þekkingar náð að aðlaga framleiðsluna að erfiðum ytri aðstæðum og var sérstaklega áhugavert að kynnast því hvernig þeir ná að framleiða bæði mjólk og ávexti við þessar aðstæður. Lykillinn er vandasöm nýting á vatni, en flest búin nýta sér vatn úr Galilea vatninu, einnig með endurvinnslu á vatni frá skólpi, og með því að nýta það regnvatn sem fellur til. Þá er einnig ört vaxandi nýting á ferskvatni sem unnið er úr sjó en ferskvatnsframleiðsla úr sjó hefur aukist gríðarlega síðustu árin og mun aukast á komandi árum að sögn heimamanna.
Samyrkjubú í mjaltatækjaframleiðslu
Samyrkjubúið Afikim er nokkuð sérstakt vegna þess að það starfrækir framleiðslu á mjaltatækni! Merkið heitir Afimilk og þó það sé ekki þekkt vörumerki á Íslandi er það nokkuð útbreitt og sérstaklega meðal stærri kúabúa. Hópurinn heimsótti þetta samyrkjubú og eftir að hafa skoðað helstu framleiðslu búsins sem m.a. er í döðlufram-leiðslu, mangó og lárperum, var Afimilk heimsótt og þar var haldinn fyrirlestur um fyrirtækið og helstu nýjungar sem það er með á markaði. Sérstaða Afimilk er í raun sú að það framleiðir hefðbundna mjaltatækni en notast við fullkomna skynjara og greiningarbúnað sem gera allt hjarðeftirlit bæði einfalt og skilvirkt. Það er þó sérstaklega búnaður sem Afimilk notar til greininga á mjólk, um leið og kýrin er mjólkuð, sem er með þeim fullkomnari á markaðinum ef ekki sá fullkomnasti.
Þessi búnaður getur t.d. mælt fituinnihald mjólkurinnar um leið og kýrin er mjólkuð og m.a. flokkað mjólk búsins í tvær mjólkurlagnir allt eftir vilja bóndans. Þannig getur búið t.d. verið með tvo mjólkurtanka og í öðrum þeirra geymt fituríka mjólk og í hinum fituminni mjólk svo dæmi sé tekið. Afar áhugaverð tækni sem etv. verður eftirspurn eftir frá afurðastöðvum í framtíðinni. Þá getur greiningarbúnaður Afimilk einnig greint það hvort kýrin sem er verið að mjólka sé yxna eða ekki auk fleiri atriða sem tengjast heilsufari hennar.
3 mjólka 1.100 kýr
Af annars mörgum áhugaverðum heimsóknum til bænda í Ísrael þá var heimsóknin á samyrkjubúið Hof Hasharon einkar eftirminnileg. Þetta bú er það stærsta í Ísrael og með um 1.100 kýr og er auk þess eitt allra afurðahæsta bú landsins. Búinu er stjórnað af dýralækninum Dror Reznikov og tók hann á móti hópnum og sýndi þar allt sem við-kom búinu. Hverjum mátti strax vera ljóst að þarna er staðið afar fagmanlega að verki og mikið lagt upp úr skilvirkni bæði kúa og vinnuafls. Allir vinnuferlar eru þaulhugsaðir sem og hönnun þeirra bygginga sem eru á búinu svo nýting vinnuafls sé sem best og gönguleiðir stuttar. Þá sagði Dror frá því að þar sem búið er staðsett á vesturströnd Ísrael er oft vindur af hafi og hann sé nýttur til að kæla kýrnar með því að hliðar fjós-anna sem hýsa kýrnar snúa þannig að vindurinn getur leikið um kýrnar.
Þrátt fyrir að kýrnar væru greinilega afar vel hirtar og skiluðu miklum afurðum var þó líklega afkastagetan við mjaltirnar sem vöktu mesta athygli en mjaltabásinn var svo-kallaður hraðútgangsbás með 30 mjaltatækjum til hvorrar handar og tækin því 60 í allt. Í básnum voru þó einungis þrír við mjaltir, þ.e. hver þeirra sá um 20 mjaltatæki. Það eru afköst í lagi svo ekki sé nú meira sagt!
Hópmynd, þessi var tekin á hinum fornfræga keppnisvelli í Caesarea maritima – þar sem Rómverjar skemmtu sér við kerrureið (Ben Hur…)
Menning og saga við hvert fótmál
Þegar ferðast er um Ísrael eða Palestínu verður hverjum ferðamanni ljóst að þarna er farið um svæði þar sem sagan er við hvert fótmál. Ekki verður hér gerð djúpstæð tilraun til þess að lýsa hinum svokallaða menningarlega hluta ferðarinnar en hann náði m.a. til skoðunarferðar til Jerúsalem, að fæðingarstað Krists í Betlehem í Palestínu og til hinar gömlu borgar Jaffa við Tel Aviv. Þá var skroppið í sundferð í Dauðahafið, haldið upp á hið forna virki Masada, áð við Qasr el Yahud þar sem talið er að Kristur hafi hlotið skírn sína í ánni Jórdan, að húsinu þar sem María mey bjó í Nasaret, að landamærunum við Sýrland og til hinnar fornu hafnarborgar Rómverja Caesarea Maritima svo það helsta sé nú tínt til.