Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
María Björk Ingvadóttir, framkvæmda- og rekstrarstjóri á N4.
María Björk Ingvadóttir, framkvæmda- og rekstrarstjóri á N4.
Líf&Starf 9. nóvember 2015

Stöðin hefur slitið barnsskónum

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Við erum afskaplega þakklát með þær góðu viðtökur sem stöðin hefur fengið, það ríkir að sjálfsögðu mikil gleði hjá okkur starfsfólkinu yfir því hversu ánægt fólk er með það efni sem við bjóðum upp á,“ segir María Björk Ingvadóttir, framkvæmda- og rekstrarstjóri N4.
 
Við hlið hennar er Hilda Jana Gísladóttir, framkvæmda- og sjónvarpsstjóri. N4 rekur tvo miðla, N4 Dagskrá Norðurlands og N4 Sjónvarp, en einnig hönnunar- og framleiðsludeildir þar sem framleitt er innlent sjónvarpsefni, kynningar- og auglýsingaefni og grafísk hönnun. Starfsemin fer fram á annarri hæð í Amaro-húsinu í hjarta Akureyrar.
 
Mótaði mig að vera miðjubarn
 
María Björk er Akureyringur, dóttir hjónanna Sólveigar Jónsdóttur og Ingva Rafns Jóhannssonar. Hún  hefur um árabil búið á Sauðárkróki þaðan sem maður hennar, Ómar Bragi Stefánsson, er.  Þau eiga þrjú börn, Stefán Arnar stjórnmálafræðing, Ingva Hrannar, kennara með meistaragráðu í frumkvöðlafræði, og yngst er Ásthildur nemi. María Björk ólst upp í stórum systkinahópi, börnin voru átta talsins, sex systur og tveir bræður.
 
„Ég er miðjubarn, það hefur mótað mitt líf og kennt mér heilmikið að vera í miðjunni.  Fyrir eru þrjár eldri systur, tvær  yngri og svo tveir strákar yngstir og hagsmunirnir ekki alltaf þeir sömu. Ég var stundum í því að sætta mismunandi sjónarmið, finna lausnir sem allir sættu sig við og það hefur fylgt mér alla tíð.“  
María Björk hefur um tveggja ára skeið starfað hjá N4, kom þar inn sumarið 2013 þegar hún tók að sér ritstjórn þáttarins  Að norðan. Áður hafði hún gegnt stöðu frístundastjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar og sinnt m.a. æskulýðs-, íþrótta- og forvarnarmálum. Hún var svo lánuð yfir til Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra vegna verkefnis sem sveitarfélögin á svæðinu unnu að og tengdist Evrópusamstarfi, unglingum og forvörnum í víðum skilningi. 
 
Ungt fólk vill sinna skapandi störfum
 
Hún ásamt Katrínu Maríu Andrésdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna, unnu að umsókn IPA-styrks vegna verkefnisins. Tókst svo vel til að samþykkt var að styrkja verk­efnið og var styrkurinn einn fárra sem komst í gegnum nálaraugað, en sem kunnugt er voru IPA-styrkir Evrópusambandsins flestir dregnir til baka.  María Björk segir að verkefnið hafi snúist um að gera langtímaáætlun sem miðaði að því að halda ungu fólki í heimabyggð og eða fá þau til að flytja heim í hérað á ný. Gerð var könnun meðal ungs fólks, bæði á Norðurlandi vestra og eystra þar sem m.a. var spurt við hvað ungmennin vildu starfa í framtíðinni. 
 
„Það kom mörgum sveitarstjórnarmönnum á óvart að niðurstaðan var sú að meirihluti unga fólksins vildi starfa við skapandi störf.  Menn spurðu sig í forundran á hverju unga fólkið ætlaði að lifa.“
 
Í tengslum við starf sitt hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fór María Björk að velta fyrir sér hvort ekki væri hið besta mál ef þátturinn Að norðan sem sýndur hafði verið á N4 færði út kvíarnar.  Myndi sinna stærra svæði, öllu Norðurlandi og standa þannig undir nafni. 
 
„Það hafði verið draumur Hildu Jönu og Þorra framkvæmdastjóra Jónssonar, en framan af var hvorki mannskapur til að sinna verkefninu né fjármagn. Fyrir hendi var áhugi meðal sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra að svæðinu yrði sinnt, þannig að úr varð að samningar tókust og stöðin hóf að sinna þessu landsvæði,“ segir María Björk.
 
Allir reyndu sitt besta á erfiðum tíma
 
Um mitt ár 2013, þegar hún kom til starfa á sjónvarpsstöðinni, fór að halla undan fæti hvað heilsu Þorra varðar, veikindi sem hann hafði átt við að stríða ágerðust og leiddu til þess að hann lést í lok júní í fyrrasumar.
 
„Þetta var erfiður tími, allir reyndu sitt besta, við urðum að standa í lappirnar þótt staðan væri flókin,“ segir María Björk. 
 
Leit hófst að eftirmanni og ný stjórn og eigendur sem við tóku réðu einn úr hópnum til að stýra fyrirtækinu, Kristján Kristjánsson, sem var yfir framleiðsludeildinni. Hann lét af störfum í mars og var þess þá farið á leit við Maríu Björk og Hildi Jönu að þær stýrðu félaginu frá degi til dags þar til nýr framkvæmdastjóri yrði ráðinn.  Svo fóru leikar að þær stöllur voru ráðnar til að sinna verkefninu í sameiningu.
 
Lítið huggulegt kaffihús
 
María Björk, sem hefur rekstur á sinni könnu, kveðst búa að því að hafa um árabil rekið kaffihús á Sauðárkróki þar sem hún hefur búið í tæpa þrjá áratugi.
 
„Ég fékk einhverju sinni þá hugmynd að það vantaði lítið og huggulegt kaffihús á Krókinn, kaffihús þar sem gestir gætu blaðað í bókum og blöðum á neðan þeir nytu veitinga. Ómar, maðurinn minn, sagði að hugmyndin væri frábær, en spurði jafnframt hvort ég gerði mér grein fyrir hversu mikil vinna þetta væri.  Við getum þetta alveg, svaraði ég og úr varð að við tókum gamla sýslumannshúsið sem byggt var árið 1884 á leigu og gerðum það upp. Kaffi Krók rákum við svo allt þar til yngsta barnið okkar, Ásthildur, fæddist 24. maí árið 2000,“ segir María Björk.
 
Frá barnæsku í búðinni með pabba
 
Hún hlaut heilmikla reynslu af því að standa í eigin rekstri, en bjó fyrir að heilmikilli þekkingu á fyrirtækjarekstri, frá því hún barn að aldri stóð við hlið Ingva Rafns, föður síns, sem rak um árabil verslunina Raftækni hvar hann seldi bæjarbúum heimilistæki af öllum stærðum og gerðum. 
 
„Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði að aðstoða pabba í búðinni, líklega um 10 ára gömul,“ segir hún og minnist þess að sumarið sem hún var 12–13 ára í desember svo því sé til haga haldið – hafi hún séð um verslunina á meðan foreldrarnir brugðu sér í ferðalag til Ítalíu. Ignis ísskápar, þvottavélar og önnur þarfaþing sömu tegundar seldust nánast sem heitar lummur, „og í þá daga voru þeir verslunarhættir vinsælir að greiða helming kaupverðs út og helminginn með víxli. Þá þurfti að reikna út vexti og ég lærði það fljótt ásamt öðrum verkefnum sem til falla í verslunarrekstri, sinna sölumennsku, aðstoða viðskiptavini og kynna fyrir þeim kosti vörunnar, panta inn og hvaðeina. Af þessari reynslu hef ég búið alla tíð og hún kemur að góðum notum í mínu starfi nú,“ segir hún.
 
Fékk fjölmiðlabakteríuna
 
María Björk lærði félagsráðgjöf í Noregi þar sem hún bjó um skeið, síðan lá leiðin heim og fyrstu árin bjuggu þau Ómar í Reykjavík.  Byggðu þar hús og eins og af og til hendir hér á landi skall á samdráttartími með óðaverðbólgu í ofanálag. Landsmenn leita sér þá gjarnan að aukavinnu og það gerði María Björk, sem á þeim tíma starfaði sem félagsráðgjafi hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð Íslands. Hún heyrði auglýst laust starf þulu hjá Ríkissjónvarpinu, sótti um og fékk starfið.
 
„Ég sagði engum frá þessu, foreldrum mínu brá hressilega þegar ég var allt í einu mætt inn í stofu til þeirra,“ segir hún. „En það má segja að þarna hafi teningunum verið kastað, ég fékk fjölmiðlabakteríuna og hef ekki losnað við hana síðan, þótt ég hafi starfað við eitt og annað um tíðina.“
 
Fréttaritari útvarps og sjónvarps
 
María Björk og Ómar fluttu á Sauðárkrók árið 1989 og fljótlega tók hún við starfi fréttaritara, útvarps og sjónvarps, gegndi hálfri stöðu fyrir hvorn fjölmiðil. Á þeim árum voru miðlarnir reknir sem sjálfstæðar einingar og lítil samskipti þeirra á milli.
 
„Það var heilmikil samkeppni á milli miðlanna, en ég lærði fljótt að meta hvað ætti heima í útvarpi og hvað í sjónvarpi. Fréttastjórarnir, Bogi Ágústsson og Kári Jónasson, voru hvetjandi og stóðu við bakið á mér því það er ekki alltaf auðvelt að sinna fréttamennsku í litlu samfélagi sem maður býr að auki í og er aðfluttur í þokkabót.“
 
Starfinu gegndi hún í nokkur ár, en í október 2003 kom að því að öllum fréttariturum var sagt upp störfum. „Þetta var eitt pennastrik á skrifstofu í Reykjavík, heilu landssvæðin voru strikuð út úr því neti sem byggt hafði verið upp, það var hreinlega skorið á lífæðina,“ segir María Björk. 
 
„Ég fann ekki fyrir biturleika hvað mig sjálfa varðar, ég finn mér alltaf eitthvað skemmtilegt að gera.  En gagnvart íbúunum á landsbyggðinni fannst mér þetta illa gert.“
 
Eina sjónvarpsstöðin staðsett á landsbyggðinni
 
Nokkurt hlé varð á fjölmiðlaafskiptum Maríu Bjarkar, en þráðurinn tekinn upp að nýju fyrir tveimur árum þegar hún hóf störf á N4.
 
„Við erum á tímamótum. Það má segja að stöðin hafi slitið barnsskónum og sé að komast á unglingsár.  Nú þurfum við að hugleiða hvert við viljum stefna til framtíðar, hvernig við viljum sjá stöðina þróast, eflast og dafna á næstu árum. Ég legg mikið upp úr því að við vöndum þá vinnu.
 
Við erum landsbyggðarstöð, eina sjónvarpsstöðin með bækistöðvar sínar á landsbyggðinni og það eitt og sér markar okkur sérstöðu. Landshlutaþættirnir okkar, Að norðan, Að sunnan og Glettur af Austurlandi njóta vinsælda og eiga sína dyggu aðdáendur.  Með þessum þáttum miðlum við milli landshluta frásögnum af fjölbreyttu lífi fólksins á svæðunum, áhorfendum gefst færi á að fylgjast með hvað íbúar annarra landsvæða eru að fást við í sínu daglega lífi.
 
Við eigum í viðræðum vegna sams konar þáttar af Vesturlandi  og Vestfjörðum og það er ánægjulegt að geta bætt þeim landshluta við. Með því lokum við púslinu.“
 
Ást og hatur óhamingjusamra hjóna
 
María Björk segir mikilvægt að landsbyggðarfólk standi saman og ekki veiti af slíkri samstöðu þegar horft sé til þeirrar rimmu sem landsbyggð og höfuðborgarsvæði eigi stöðugt í.
 
„Þessu sambandi líki ég við sambúð óhamingjusamra hjóna, þar sem annað þeirra sýnir hinu yfirgang og frekju. Ætli ég þurfi nokkuð að nefna hvorum megin sá aðili býr? Sambandið er sjúkt og þarf nauðsynlega að laga, að mínu mati mættu íbúar höfuðborgarsvæðisins sýna okkur landsbyggðarbúum meiri skilning, vera örlítið víðsýnni og fella færri sleggjudóma,“ segir María Björk. 

Skylt efni: N4

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....