Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kolefnisspor sauðfjárræktarinnar
Mynd / Bbl
Skoðun 20. janúar 2021

Kolefnisspor sauðfjárræktarinnar

Höfundur: Unnsteinn Snorri Snorrason

Nýlega kom út skýrsla á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands sem ber heitið Loftslag, kolefni og mold. Þar hafa starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands lagst í það viðamikla verkefni að meta losun kolefnis vegna landnotkunar og hvernig sú losun tengist framleiðsluferlum í landbúnaði. Það er góðra gjalda vert að Landbúnaðarháskóli Íslands gefi út slíka skýrslu og ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að starfsmenn Landbúnaðarháskólans hafi við vinnslu skýrslunnar lagt áherslu á fagleg vinnubrögð, gagnrýna hugsun og málefnalegan rökstuðning.

Ekki er ætlunin að fjalla um efnistök skýrslunnar að svo stöddu. Það er hlutverk fræðasamfélagsins að rýna þessa skýrsluna til gagns. En full þörf er á því að ræða forsendur og framsetningu niðurstaðna við betra tækifæri. Sannleikurinn er sá að sauðfjárbændur hafa fullan skilning á sínu hlutverki þegar kemur að loftslagsmálum. Þeir hafa nú þegar náð umtalsverðum árangri og ætla sér að gera enn betur á komandi árum.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárrækt hefur minnkað um 25% síðustu 30 árin

Árið 2017 gáfu Landssamtök sauð­fjárbænda út skýrslu þar sem gerð var úttekt á losun gróðurhúsalofttegunda vegna sauðfjárræktar á Íslandi. Með skýrslunni var í fyrsta sinn lagt mat á losun vegna framleiðslu á kindakjöti á Íslandi.

Í skýrslunni er m.a. borin saman heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna búfjár og áburðarnotkunar frá sauðfjárrækt á Íslandi frá árinu 1990 til ársins 2015. Á tímabilinu dróst losunin saman um 40.000 tonn CO2-ígilda. Miðað við búfjártölur og framleiðslu ársins 2020 má áætla að þessi samdráttur sé nú orðinn mun meiri, eða um 70.000 tonn, og hefur því losun minnkað um 25% á tímabilinu 1990-2020. Á sama tímabili hefur framleiðsla aukist um 300 tonn af kindakjöti.

Stefnt er að kolefnisjöfnun

Sauðfjárbændur hafa fullan vilja til að gera enn betur þegar kemur að loftslagsmálum og hafa nú þegar komið af stað verkefni í samstarfi við stjórnvöld, sem kallast Loftslagsvænn landbúnaður. Verkefninu, sem er stýrt af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, felur í sér fræðslu og ráðgjöf til bænda um hvernig má draga úr losun frá búrekstri og vegna landnýtingar. Þá vinna bændur aðgerðaráætlun fyrir sinn búrekstur sem á að skila samdrætti í losun og aukinni bindingu með það að markmiði að kolefnisjafna búreksturinn.

Hefjum aðgerðir og eflum rannsóknir

Fyrir liggur að sauðfjárbændur þurfa að leggja mat á þá losun kolefnis sem verður frá landi sem nýtt er til sauðfjárræktar. Þetta hefur legið fyrir lengi og er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Til að meta losun sauðfjárræktarinnar vegna landnotkunar þurfa að liggja fyrir ákveðnar forsendur. Fyrir það fyrsta þarf að meta losun frá landi. Hægt er að styðjast við ákveðnar grunnupplýsingar til að meta þessa losun en full þörf er á því að efla enn frekar rannsóknir á þessu sviði. Í annan stað þarf að meta hvaða land er nýtt til sauðfjárbeitar og hvernig sú losun sem tilheyrir sauðfjárræktinni er metin. Tökum dæmi:
Á landi sem er 100 ha ganga 10 kindur og framleiðir hver þeirra 28 kg af kjöti. Gefum okkur að heildarlosun landsins sé 70 kg CO2-ígilda/ha, eða í heildina 7.000 kg CO2-ígilda. Ef sauðfjárræktin er gerð ábyrg fyrir allri losun af þessu landi þá væri hún um 25 kg CO2-ígilda/kg kjöt.

Einnig mætti beita þeirri aðferð að meta losun vegna sauðfjárræktar með því að tengja losun landsins við uppskeru og meta síðan þann hluta uppskerunnar sem sauðfjárræktin nýtir. Höldum áfram með dæmið hér að ofan og gefum okkur að úthagi myndi skila að jafnaði uppskeru sem nemur 750 kg þurrefnis/ha og heildaruppskera landsins væri þannig 75.000 kg þurrefnis. Miðað við 90 beitardaga og hver kind (ásamt lömbum) þurfi 4 kg þurrefnis/dag þá væri heildaruppskera nýtt sem beit 3.600 kg þ.e. eða 4,8% af heildaruppskeru. Ef þessi aðferð væri nýtt til að meta hlut sauðfjárræktarinnar væri kolefnissporið 1,20 kg CO2-ígilda/kg kjöt.

Hér eru settar fram mjög einfaldar forsendur til þess að leggja áherslu á að sú aðferðafræði sem er valin, þegar losun sauðfjárræktar vegna landnýtingar er metin, skiptir ekki síður máli þær forsendur sem þurfa að liggja fyrir við útreikninga.

Sauðfjárbændur leggja til hundruð milljóna í landbætur á hverju ári

Sauðfjárbændur hafa um áratuga skeið gert sér fulla grein fyrir því að því fylgir ábyrgð að nýta auðlindir landsins enda leggja sauðfjárbændur til hundruð milljóna til landgræðsluaðgerða á hverju ári. Þetta gera þeir ýmist á eigin vegum og fyrir eigin kostnað eða í samstarfi við Landgræðsluna í gegnum verkefnið Bændur græða landið eða Landbótaáætlanir sem eru hluti af mótvægisaðgerðum sem eru skilgreindar í Landnýtingarþætti gæðastýrðrar sauðfjárræktar. Bændur eru tilbúnir að vinna að enn meiri krafti að landbótum og nýta landið þannig að aðgerðir skili sem mestum árangri. Þá hafa sauðfjárbændur lagt ríka áherslu á bætta stjórnun beitarnýtingar með því að kortleggja sauðfjárbeit og efla verulega vöktun á gróðurfari. Þetta er gert í verkefninu Grólind sem Landgræðslan stýrir en er að stærstum hluta fjármagnaður í gegnum búvörusamninga. Niður­stöður verkefnisins munu verða öflugt verkfæri í þeirri vinnu sem er fram undan. Sauðfjárbændur hafa nú þegar lagt mikið af mörkum til að draga úr kolefnislosun og hafa metnaðarfull áform um að gera enn betur. Til þess þurfum við stuðning víða úr samfélaginu. Við köllum eftir sanngjarnri og uppbyggilegri umræðu sem leiðir okkur áfram veginn. Þeir sem hjakka í gömlum hjólförum komast lítið áleiðis.

Unnsteinn Snorri Snorrason
framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...