Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál
Leiðari 16. júlí 2020

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson

Frá og með 1. júlí síðastliðnum hækkuðu tollar á ákveðnar afurðir af útiræktuðu grænmeti í kjölfar breytinga á tollalögum sem gerðar voru á Alþingi í desember síðastliðnum. Gagnrýni á tollana kom fram frá Félagi atvinnurekenda á dögunum sem kvartaði undan „meingallaðri löggjöf“.

Með breytingum á lögunum var fyrirkomulagi breytt þannig að núna gilda bara ákveðnar dagsetningar, óháð því hvort varan er til á markaði eða ekki. Garðyrkjubændur bentu á við gerð frumvarpsins að það væri ekki framleiðendum til hagsbóta að það væri enginn möguleiki fyrir ráðherra að fella niður tolla ef engin innanlandsframleiðsla væri á markaði. Þar sem málaferli gagnvart ráðuneytinu, vegna heimildar um að setja á og afnema tolla við slíkar aðstæður, eru fyrir dómstólum þá er þetta niðurstaða sem menn þurfa að una við. En nú eru afurðir sem eru framleiddar úti á ökrum á Íslandi að streyma á markað, svo sem blómkál, hnúðkál, kartöflur og svo mætti lengi telja. Það er ánægjulegt þegar þessar afurðir koma á markaðinn.

Tollflokkun í skötulíki

Umræða um aukinn innflutning á alls kyns vörum sem líkja eftir hefðbundnum búvörum er nú í gangi. Bændasamtökin og fleiri hafa rýnt í það magn sem flutt er inn og um hvaða vörur er að ræða. Það sem kemur mér verulega á óvart er öll sú vara sem streymir inn í landið á engum tollum á grunni þess að um jurtavöru sé að ræða. Það er ekki langt síðan að við fengum skilgreiningu tollayfirvalda á því að svokallaðan jurtaost, sem fluttur er inn til landsins, á að meðhöndla í skilningi Evrópusambandsins sem landbúnaðarafurð og þ.a.l. með viðeigandi tollflokkun. Eftir að við fórum að skoða málin er það okkar mat að talsvert fleiri vörur eru þarna undir sem vörur úr jurtaríkinu, en eru í raun landbúnaðarvörur, og ættu að flokkast í tollskrá sem slíkar. Enn og aftur köllum við eftir að fulltrúar ríkisstjórnarinnar skoði þetta af alvöru og við fáum botn í þessi mál. Það þarf að gerast áður en samið verður við Breta á grundvelli Brexit um heimildir til að flytja inn aukið magn af búvörum. Það er ótækt að þær viðræður séu byggðar á innflutningstölum sem erfitt er að henda reiður á. Við sem þjóð verðum að standa vörð um eigin hag og þá ekki síst þegar kemur að heilnæmum matvælum.

Bændasamtökin hafa óskað eftir fundi með ráðamönnum til þess að ræða um tollamálin og áhrif samninganna við ESB sem gerðir voru 2015 og kváðu á um stóraukinn innflutning á búvörum til landsins. Það er nú að rætast sem bændur vöruðu við – að tollasamningurinn hefur stórskaðleg áhrif á matvælaframleiðslu hér á landi. Nú þurfa stjórnvöld einfaldlega að grípa í taumana og standa með íslenskum hagsmunum.

Hvaðan kemur maturinn?

Við höfum lengi kallað eftir skýrari reglum um merkingu matvæla og við sem neytendur þurfum ekki að vera bæði með gleraugu og stækkunargler til að sjá upprunaland vörunnar sem við neytum. Það hefur sýnt sig að íslenskir neytendur sýna íslenskri framleiðslu mikla tryggð en þeir þurfa þá líka að sjá upprunann.

Þar sem uppruni er ekki sýnilegur neytendum, t.d. í veitingahúsum og mötuneytum og í fullunnum vörum, sem oft eru unnar úr erlendu hráefni, hefur neytandinn ekki sama val. Óhætt er að fullyrða að á þessum markaði sé mikið um innfluttar kjöt- og mjólkurvörur og því mikilvægt að hvetja neytendur til þess að spyrja um upprunann þegar svo ber undir.

Bjargráðasjóður bætir kaltjón

Heyannir eru nú í sveitum landsins. Eins og gengur er tíðin misjöfn en víðast virðist vera ansi góð spretta og öflun fóðurs með ágætum. En svo eru önnur svæði landsins þar sem bændur hafa þurft að endurrækta tún vegna mikils kals í túnum. Samkvæmt fyrstu gögnum sem borist hafa til Bjargráðasjóðs lítur út fyrir að um 1.900 hektarar hafi kalið í vor, ýmist sem altjón eða að hluta. Meira á eftir að bætast við. Búið er að senda erindi til atvinnuvegaráðuneytisins þar sem gerð er grein fyrir stöðunni og áætluðu tjóni á þessu ári.

Að öllu jöfnu hefur verið bætt fjármunum inn í Bjargráðasjóð þegar heildartjón liggur fyrir. Mikilvægt er að bændur haldi vel utan um skýrsluhald vegna þessa tjóns og upplýsi um stöðu svo fljótt sem verða má á haustdögum þegar uppskerutölur liggja fyrir. Frekari upplýsingar um hvernig tilkynna ber tjón má finna á bondi.is.

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...

Að fletta blaðinu
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más H...

Sérmerktar svínavörur
Leiðari 24. apríl 2024

Sérmerktar svínavörur

Neytendur eru alltaf að verða meðvitaðri og ábyrgari við vöruval. Þó að verðmiði...

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...