Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Áhættumatið og fjárhagslegur ávinningur
Lesendarýni 11. september 2023

Áhættumatið og fjárhagslegur ávinningur

Höfundur: Valdimar Ingi Gunnarsson sjávarútvegsfræðingur

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og grein Ragnars Jóhannssonar, rannsóknastjóra fiskeldis hjá stofnuninni, í Bændablaðinu hinn 9. mars kemur m.a. eftirfarandi fram: ,,Valdimar sakar meðal annars Hafrannsóknastofnun um að ganga erinda erlendra fyrirtækja í þeim tilgangi að tryggja íslenskum fulltrúum þeirra mikinn fjárhagslegan ávinning.“

Í þessu samhengi er eitt víst að öll vinna er tengist undirbúningi og breytingum á lögum um fiskeldi og útgáfu reglugerða hefur gengið út á að vinna að sérhagsmunum laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila:

  • Koma á tæknilegum hindrunum til að halda eldissvæðum
  • Lágmarka umhverfiskostnað
  • Hámarka framleiðsluheimildir
  • Hámarka arðinn.

Þannig ná miklum fjárhagslegum ávinningi á kostnað íslenskra hagsmuna og umhverfismála eins og tekið hefur verið fyrir í fjölmörgum skýrslum og greinum höfundar sem hægt er að sækja á lagareldi.is og sjavarutvegur.is.

Halda svæðum

Þáverandi stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða, sem voru búnir að koma leyfisveitingarkerfinu í uppnám, með um 70% eldissvæða, létu skipa sig í starfshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fékk það verkefni að gera opinbera stefnumótun fyrir fiskeldi á árinu 2017. Áhættumat erfðablöndunar setti takmarkanir á eldi á frjóum laxi. Eitt af verkefnum þeirra var því að koma á tæknilegum hindrunum sem fólst í eldi á ófrjóum laxi til að tryggja að þeir gætu haldið eldissvæðum jafnvel án þess að nýta þau í fjölmörg ár eða greiða af þeim auðlindagjald.

Fjölmargir aðilar gerðu athugasemdir við fiskeldisfrumvarpið á árunum 2018 og 2019, m.a. Matvælastofnun, og bentu á að eldi á ófrjóum laxi væri ekki tímabært. Það hefur vakið athygli að Hafrannsóknastofnun gerði enga athugasemd /ábendingar við meðferð málsins á Alþingi Íslendinga. Nú, sex árum seinna, er eldi á frjóum laxi á tilraunastigi. Í skýrslu starfshóps um strok úr sjókvíum, sem var skipaður af matvælaráðherra, sem gefin var út í júní á þessu ári, kemur m.a. fram að líkur eru taldar á að eldi á ófrjóum laxi verði raunhæfar innan ca 10 ára.

Hafrannsóknastofnun hafði fulltrúa í þessum starfshópi en stofnunin var áður búin að benda á í sinni áhættumatsskýrslu frá 2017 að unnt væri að ala ófrjóan lax þegar heimildir til eldis á ófrjóum laxi skorti. Það geta því liðið rúm fimmtán ár frá því að Hafrannsóknastofnun lagði til eldi á ófrjóum laxi þar til það getur hugsanlega raungerst.

Óraunhæft eldi á ófrjóum laxi var alltaf ætlað til þess að laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila gætu haldið sínum eldissvæðum og breytt úr eldi á ófrjóum laxi yfir í eldi á frjóum laxi eftir því sem áhættumat erfðablöndunar eykur framleiðsluheimildirnar.

Lágmarka umhverfiskostnað

Málið hefur snúist um að halda umhverfiskostnaði í lágmarki og ná þannig sem mestum fjárhagslegum ávinningi fyrir laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila:

Slysasleppingar: Í Noregi þarf atvinnugreinin að greiða kostnað við að fjarlægja eldislax úr veiðiám. Hafrannsóknastofnun hefur unnið á móti því að þessi leið verði farin á Íslandi, þannig lagt til að lög um umhverfisábyrgð verði brotin sem hefur dregið úr kostnaði laxeldisfyrirtækja. Nú er þetta mál í endurskoðun og hefur komið fram vilji hjá sumum stjórnmálamönnum að fylgja norsku leiðinni.

Laxalús: Í Noregi eru miklar kröfur um að vakta og halda tíðni laxalúsar á villtum laxfiskum í lágmarki. Hafrannsóknastofnun lagði samskonar aðgerðir ekki til þegar stefnumótunin í fiskeldi átti sér stað og við meðferð málsins á Alþingi Íslendinga en þessi mál eru nú til endurskoðunar.

Heilbrigðismál: Í Noregi er búið að koma á framleiðslusvæðum, með takmörkuðum flutningi á eldisfiski á milli strandsvæða og þar eru einnig meiri kröfur um flutningsbúnað fyrir lifandi fisk með tilheyrandi kostnaði til að draga úr líkum á dreifingu sjúkdóma. Hafrannsóknastofnun kom ekki með neinar tillögur um mótvægisaðgerðir við meðferð málsins á Alþingi Íslendinga.

Niðurstaðan er að heilbrigðismál laxeldis þurfa verulegrar endurskoðunar sem nú er í vinnslu.

Allar þessar tillögur kom íslenskt laxeldisfyrirtæki með í sínu umhverfismati á árinu 2016 að norskri fyrirmynd með höfund sem ráðgefandi aðila. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar veittu umsögn í umhverfismatinu en tóku ekki undir tillögurnar.

Hámarka framleiðsluheimildirnar

Við endurskoðun á áhættumatinu á árinu 2020 voru gerðar nokkrar breytingar á forsendum til að hægt væri að auka framleiðsluheimildir á frjóum laxi enda var mikil pressa á að það væri gert og miklir fjárhagslegir hagsmunir undir í formi verðmætari eldisleyfa.

Í reiknilíkani áhættumats erfða- blöndunar voru m.a. notaðar rangar forsendur við umbreytingu úr framleiðslu í hámarks heimilaðs lífmassa. Við það jukust framleiðslu- heimildirnar á frjóum laxi u.þ.b. 30%.

Forsendur í líkani áhættumats erfðablöndunar eru ekki byggðar á traustum grunni og í skýrslu Ríkisendurskoðunar er m.a. bent á að ,,þrátt fyrir að Hafrannsókna- stofnun hafi talið að nákvæmari gögn þyrfti þá breyttist áhættumatið töluvert til aukningar við endurskoðun þess árið 2020“.

Hámarka arðinn

Stefnumótun í fiskeldi á árinu 2017 sem áhættumat erfðablöndunar var hluti af því sem snerist fyrst og fremst um að hámarka arðinn hjá erlendum fjárfestum og íslenskum fulltrúum þeirra. Eldisleyfin eru og hafa alltaf verið verðmætin sem arðurinn byggist að mestu á.

Að vísu hefur markaðsverð á laxi verið í hæstu hæðum sem hefur einnig gefið mikinn ávinning og markaðssérfræðingar telja að þannig geti það verið áfram á allra næstu árum.

Gróft mat á verðmætum eldisleyfa hjá Arnarlaxi í lok síðasta árs voru rúmir 30 milljarða króna, tæpir 20 milljarða hjá Arctic Fish og mun lægra hjá Fiskeldi Austfjarða, en gengið hafði lækkað mikið í kjölfarið á miklu tjóni vegna sjúkdóma.

Að lokum

Í grein rannsóknastjórans kemur fram að „með því að gera ekki ráð fyrir litlu veiðiánum í áhættumati erfðablöndunar var hægt að úthluta Kjartani Ólafssyni, stjórnarformanni Arnarlax og fulltrúa í stefnumótunarhópunum, nægilegum framleiðsluheimildum á sunnanverðum Vestfjörðum“.

Það er athyglisvert að Ragnar Jóhannsson, opinber starfsmaður, nefnir Kjartan á nafn en hann var einn af þeim sem voru í starfshópi sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra um stefnumótun í fiskeldi þar sem leiðin var vörðuð í opinberri stefnumótun, sjálfum sér og sínu fyrirtæki til fjárhagslegs ávinnings á kostnað annarra. Það sem átti að vera stefnumótun stjórnvalda varð að stefnumótun sérhagsmuna laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila.

Af fræðimönnum kallast þessi aðferðafræði að ,,fanga ríkisvaldið“. Kjartan fékk m.a. lán frá SalMar, meirihlutaeiganda í Arnarlaxi, til kaupa á hlutabréfum félagsins og hefur hagnast um milljarða króna. Þar hafa framleiðsluheimildirnar á frjóum laxi, sem m.a rannsóknastjórinn hefur lagt til að verði úthlutað í gegnum áhættumat erfðablöndunar, gegnt stóru hlutverki.

Höfundur hefur allt frá árinu 2019 farið fram á að gerð verði opinber rannsókn vegna vinnubragða sem voru viðhöfð við undirbúning og gerð laga um fiskeldi og því hefur verið svarað með því að svara engu.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...