Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Surtla á vegg í skrifstofu  Sigurðar Sigurðarsonar á Selfossi 2006.
Surtla á vegg í skrifstofu Sigurðar Sigurðarsonar á Selfossi 2006.
Lesendarýni 15. febrúar 2022

Herdísarvíkur Surtla

Höfundur: Sigurður Sigurðarson dýralæknir

Í bókinni ,,Sagnalandið“ segir Halldór Guðmundsson, að höfuð Surtlu hafi verið ánafnað Tilraunastöð Háskólans á Keldum og nú sé það horfið úr þessari virðulegu stofnun. Hér er gefið í skyn að höfuð af þessari eftirminnilegu kind hafi verið tekið ófrjálsri hendi frá Tilraunastöðinni. Þetta er ekki sannleikanum samkvæmt, eins og sagt verður frá hér á eftir. Hinni réttu sögu hefur þó oft verið lýst, m.a. á Internetinu og í bók minni, Sigurður dýralæknir (2) bls. 142-3 útg. 2014.

Karakúlféð

Árið 1933 voru fluttar til lands­ins 20 kara­kúl­­k­indur frá rannsóknar­stofn­un í Halle í Þýskalandi, 5 ær og 15 hrútar. Þeim fylgdu falleg heilbrigðis­vottorð, en fölsuð. Það vildi svo til að þegar ég var í framhalds­námi í Þýskalandi 1973 kynntist ég manni, Ronald Ziegler að nafni, sem hafði hirt um karakúlféð í Halle, sem fór til Íslands 1933. HANN SAGÐI MÉR, AÐ KINDUR, SEM VEIKTUST OG DRÁPUST Á STOFNUNINNI, HEFÐU VERIÐ GRAFNAR EN EKKI RANNSAKAÐAR TIL AÐ FORÐAST ÓÞÆGINDI. ÞÁ VERÐUR ÞAÐ SKILJANLEGT, að fjórir langvinnir smitsjúkdómar, áður óþekktir á Íslandi, komu með fénu: Votamæði, þurramæði, visna og garnaveiki.

Eftir langa árangurslausa baráttu var gripið til þess þrautaráðs að farga öllu fé á sýktu svæðunum, sem náðu frá Jökulsá á Fjöllum, vestur, suður og austur um land að Mýrdalssandi, og fá í staðinn fé af ósýktum svæðum eftir ár. Vestfirðir sluppu þó að mestu. Þetta bar tilætlaðan árangur, útbreiðsla sjúkdómanna var stöðvuð og þeim loks útrýmt nema garnaveikinni, sem leggst á öll jórturdýr. Byrjað var austast 1944. Árið 1951 var öllu fé fargað á svæðinu frá Hvalfirði að Ytri-Rangá, um 47.000 þúsund fullorðnum kindum auk lamba. Ein kind á þessu svæði náðist ekki, þótt ítrekaðar tilraunir væru gerðar. Það var Surtla frá bænum Herdísarvík í Selvogi. Eigandi var Hlín Johnson, sambýliskona Einars Benediktssonar skálds. Surtla var svört eins og hraunið og lék á smalamenn, lét sig hverfa aftur og aftur.

Surtla í Suðurengi á Selfossi 2019.

Surtla felld og flutt til rannsóknar

Fé var sett til höfuðs henni, þegar leið að því að nýr fjárstofn kæmi á svæðið 1952, alls 2000 kr., sem var allmikið fé þá. Margir báðu henni griða en ekki þótti hættandi á að láta Surtlu ganga lausa, þótt frískleg virtist og frá á fæti, þegar svo miklu hafði verið kostað til og mikið lagt á fólk á þessu svæði. Meðgöngutími mæðiveikinnar og garnaveikinnar getur skipt mörgum árum og sjúkdómarnir dulist lengi. Engin próf voru þekkt þá til að leita að slíkum sjúkdómum í lifandi kind. Eina leiðin til að fá fullvissu um sýkingu var krufning. Surtla var felld, skotin á færi 30. ágúst 1952. Hún var flutt til krufningar að Keldum. Halldór Vigfússon, rann­sóknar­maður á Keldum, krufði kindina.

Skýrsla hans er hnitmiðuð (H1266/52, 1 sept.). Hvorki fannst mæði­veiki né garnaveiki, kindin var að öllu leyti heilbrigð. Sonur Ólafs Blöndal, gjaldkera sauðfjársjúk­dómanefndar, fékk að hirða hausinn til að stoppa hann upp. Árið 1968 sá ég um að undirbúa og vakta Landbúnaðarsýningu fyrir rannsóknadeild sauðfjársjúk­dómanefndar og Keldur 9.–16. ágúst. Þá kom eigandinn með hausinn uppstoppaðan og bað mig um að selja hann fyrir 25.000 kr. Ég þekkti hausinn af lýsingum, reyndi að fá landbúnaðarráðuneyti, yfirdýralækni, sauðfjár­sjúkdóma­nefnd og Tilraunastöðina á Keldum til að kaupa hausinn. Enginn þessara aðila hafði peninga fyrir þann hégóma að kaupa haus af dauðri kind fyrir svo hátt verð. Ég var þá að stofna heimili og hafði ekki tiltæka peninga til kaupanna, en vildi alls ekki að hausinn lenti hjá einhverjum sem ekki þekkti sögu kindarinnar, sló lán og keypti hausinn sjálfur og hengdi fyrir ofan dyrnar á skrifstofu minni á Keldum. Þar hékk hann í mörg ár og allt samstarfsfólk mitt á Keldum hafði heyrt söguna og vissi að hausinn var mín eign. Enginn fyrrnefndra aðila tímdi að kaupa hann.

Surtla flutt á Selfoss, lánuð eitt sumar og hornbrotin

Upp úr 2000 fór ég með embætti yfirdýralæknis að Selfossi, tók hausinn með mér og festi upp á vegg í skrifstofu minni þar.

Ég lánaði hausinn eitt sumar Sauðfjársetrinu í Strandasýslu og var þeirri stund fegnastur, þegar ég heimti hann aftur og lánaði hann aldrei aftur, þótt eftir væri sótt.

Áður en ég hafði ráðrúm til að festa hausinn upp á vegg, tók samverkamaður minn á Selfossi í hornendann til að sýna gesti haus þessarar frægu kindar. Hornið brotnaði af.

Svona eiga engir menn að gera, hvorki við lifandi kindur né dauðar. Björn Jensen, mágur Ólafar konu minnar, festi hornið á hausinn snilldarvel, en þó sést eilítil skekkja á því, þegar vel er skoðað. Þegar Surtla féll vakti það sorg og reiði hjá mörgum, sem höfðu fylgst með þessari hetjulegu skepnu og beðið henni griða. Margir létu í ljósi vanþóknun sína með blaðaskrifum, aðrir ortu erfiljóð og líktu víginu við víg Snorra Sturlusonar. Enn aðrir ortu níðkvæði um sauðfjársjúkdómanefnd, sem hafði lagt fé til höfuðs Surtlu. Í vísum Gísla Ólafssonar á Eiríksstöðum er þetta meðal annars:

Morðið arma upp til fjalla
Þrautir alla þurftir líða
eykur harmana.
Surtla jarmar upp á alla
óláns garmana.

Þrautir alla þurftir líða
Þar á fjallinu.
Þú ert fallin, þurftir hlýða
heljar kallinu.

Þú í blóði þínu liggur
– þér ég óðinn syng -
Skyttan góða, þegar þiggur
þráðan blóðpening.

Þegar ég hætti störfum hjá yfirdýra­lækni tók ég hausinn á heimili mitt á Selfossi og þar er hann og horfist í augu við skrauthafur, sem ég lét stoppa upp. Þetta eru dýrgripir mínir. Höfuðið af Surtlu hefur haldið sér vel og víst er um það, að það fer á safn, en hvaða safn það verður er ekki ákveðið enn þá. Þetta myndarlega höfuð er fyrir mér merki um dugnað og vitsmuni íslensku sauðkindarinnar og frelsisást hennar.

Sigurður Sigurðarson
dýralæknir

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...