Sköpum skilyrði til samstarfs og samvinnu
Ég tel mikilvægt að heimildir íslenskra bænda til samstarfs og samvinnu í afurðasölumálum séu formfestar og að þær heimildir séu ekki lakari en tíðkast í samanburðarlöndum.
Félög bænda hafa víðtækt hlutverk víða um heim á mörkuðum með matvæli.
Þau standa víða fyrir sameiginlegri sölu og flutningum landbúnaðarvara, setja sameiginleg viðmið um gæði og eiginleika framleiðslu og með samtakamátt að vopni hafa bændur möguleika á að tryggja sanngjarnari hlutdeild í virðiskeðju landbúnaðarvara. Slíkt fyrirkomulag gagnast bæði framleiðendum og neytendum. Sé markaðsöflunum einum eftirlátið að skipuleggja virðiskeðju landbúnaðar er
samningsstaða bænda afleit.
Þess vegna tel ég mikilvægt að íslenskir framleiðendur hafi sömu heimildir og í samanburðarlöndum. Framleiðendur eru margir en milliliðir fáir. Því hafa vel flest lönd mótað ramma utan um framleiðendafélög og fært þeim heimildir til samstarfs og samvinnu. Slíkan ramma skortir hér á landi. Það gerir það að verkum að möguleikar til nútímavæðingar í krafti samvinnu og samstarfs eru minni en víða annars staðar.
Vinnandi fólk sækir kjarabætur í krafti samstöðu til atvinnurekenda. Í núverandi kerfi er framleiðendum búvara, bændum, óheimilt að nýta samstöðuna til kjarabóta. Aukin framleiðni og afurðaverð eru einu leiðirnar sem framleiðendur matvæla hafa til þess að sækja kjarabætur. Sambærilegar heimildir fyrir félög framleiðenda og í nágrannalöndum munu skapa skilyrði til að ná kjarabótum í virðiskeðju matvæla.
Tryggjum bændum sambærileg tækifæri
Markmiðsákvæði búvörulaga kveða m.a. á um það að tekjur þeirra sem stunda landbúnað séu í sem nánasta samræmi við tekjur annarra stétta. Þau markmið hafa verið nær óbreytt síðan 1947.
Enda er það forsenda fyrir því að landbúnaður þrífist að bændur séu í sama efnahagslega veruleika og aðrar stéttir landsins. Ljóst er að misjafnlega hefur gengið að uppfylla þetta markmið. Lengi vel var framkvæmdin í landbúnaðarmálum sú að ríkið ákvað verð á öllum vörum, ákvað framleiðslumagn og bætti upp tap af útflutningi með útflutningsbótum. Það kerfi var í skrefum lagt niður, enda var það orðið með öllu ósjálfbært. Þá tók við tímabil kvótakerfa og samdráttar í framleiðslu.
Verðlagning var gefin frjáls á flestum búvörum og félagasamtök bænda hafa verið beitt viðurlögum fyrir að álykta um að hækka þyrfti verð í samræmi við aukinn tilkostnað. Við þau kerfi, þó breytt séu, býr hluti landbúnaðarins við enn í dag. Lengi vel voru afurðafélög í eigu bænda í gegnum samvinnufélög en í tímans rás hefur þessi staða breyst í mismunandi búgreinum. Í dag eru afurðastöðvar í ýmsum formum og misjafnt hvort þær séu í eigu eða undir stjórn bænda.
Kjarabætur í krafti samstöðu
Samkeppnislög hafa önnur markmið en búvörulög og mikilvægt að allar undanþágur frá þeim séu skýrar og afmarkaðar enda eru markmið þeirra mikilvæg. Í ljósi þess tel ég eina forsendu þess að bændur geti fengið sanngjarnari afkomu að heimildir þeirra séu skýrar og afmarkist við félög í eigu eða stjórn bænda.
Mikilvægt er að tryggja að heimildirnar séu ekki lakari en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og að skilyrði fyrir hvaða félög teljist í eigu eða undir stjórn framleiðenda séu málefnaleg og sanngjörn. Ljóst er að greina þarf þennan þátt vel þar sem ýmis álitamál eru uppi.
Félög framleiðenda í Evrópu eru afar fjölbreytt, sum eru samþætt félög sem eiga og reka ýmsa starfsemi á meðan önnur eiga engar eignir en beita sér fyrir bættri stöðu framleiðenda í virðiskeðjunni í krafti sameiginlegrar kröfugerðar um afurðaverð. Öll þessi félög hafa sinn tilgang og sitt hlutverk.
Nýverið ákvað ég að falla frá fyrri áformum um að leggja fram frumvarp að tillögu spretthópsins um undanþágur frá samkeppnislögum í landbúnaði. Í ljósi þeirra athugasemda sem bárust taldi ég mikilvægt að vinna málið betur. Eftir stendur að hagræðingar er þörf í afurðageiranum og mikilvægt er að skapa ramma utan um samstarf og samvinnu bænda.
Þeirri vinnu verður haldið áfram enda tilefnið skýrt og í fullu gildi eftir sem áður.