Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Líf&Starf 14. ágúst 2024
Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Höfundur: Helga Jónsdóttir
Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún var mikill Íslandsvinur og hestakona og átti hér fjölmarga vini og kunningja, ekki síst meðal hestafólks.
Foreldrar hennar voru Knut Helkås, fæddur og uppalinn á Hørte í Sauheradsveit, og Hilda Wærstad, fædd og uppalin í sveitinni Helgja, einnig nefnd Helgen, í Telemark. Knut var bóndi en Hilda tók kennarapróf og kenndi lengi í barnaskólanum í Helgja.
Þau hjón keyptu bæinn Storebø í Helgja árið 1928 og þar ólst Ingebjørg upp með systrum sínum, Aslaugu og Signe, en tvö systkina hennar létust í æsku. Á Storebø voru brúkunarhestar og Ingebjørg hóf ung að fást við aktygi og hesta og taka í tauma við hin ýmsu verk á bænum. Það var ýmist við heyskap eða þreskingu korns og tilheyrandi verk, ásamt flutningum aðfanga heim og heiman og stöku fólksflutningum. Svo skrapp hún ein í reiðtúr á sunnudögum ef færi gafst, í gömlum lánshnakki eða bara berbakt. Neistinn var vakinn.
Ingebjørg flutti í heimavist í Bø í Telemark þar sem hún lauk gagnfræðaprófi. Síðar gekk hún í Valle hagebruksskole í Lena og vann nokkur ár á Dømmesmoen við Grimstad.
Ingebjørg lést á Sjukheimen í Vinje, Telemark, hinn 22. september 2016. Þar höfðu þau hjón, hún og Jon Vaa, dvalið nokkur ár eftir að heilsan brást. Árið 1974 fæddist einkadóttir þeirra sem hlaut nafn móðurömmu sinnar, Hilda.
Var fyrst til þess að flytja íslenska hesta til Noregs á seinni tímum
Ingebjørg Helkås var, eins og fyrr segir, mikill Íslandsvinur og hestakona og átti hér fjölmarga vini og kunningja, ekki síst meðal hestafólks. Hún varð fyrst til þess að flytja íslenska hesta til Noregs á seinni tímum, og eru til af því skemmtilegar sögur í norskum blöðum og tímaritum.
Áhugi hennar á Íslandi var vakinn þegar hún var í barnaskóla, eins og hún segir sjálf frá:
„Ég var ekki neinn afburðanemandi sem barn. En ein mynd, úr Landafræði barnaskóla eftir Horn, sat í mér. Hún var af íslenskum hestum á opnu svæði með eldfjallið Heklu í baksýn. Kannski tekin á Kirkjubæ í Rangárvallasýslu?“
Vera má að þessi mynd hafi markað upphafið að hestadellu Ingebjargar og Íslandsdraumi. Hún kom hingað til lands í fyrsta sinn 1952 nítján ára gömul; þá sem sjálfboðaliði í skógræktarvinnu. Hún komst á hestbak og þar með varð ekki aftur snúið.
Árið 1958 kom hún aftur og vann nokkra mánuði í garðyrkjunni hjá Ásgeiri Bjarnasyni og Titiu Bjarnason, konu hans, á Suður-Reykjum 2 í Mosfellssveit. Síðar flutti hún sig um set á lóðinni og hóf störf hjá frænda Ásgeirs að Suður-Reykjum 1, Jóni M. Guðmundssyni, og konu hans, Málfríði Bjarnadóttur. Þar var meiri möguleiki á að sinna aðaláhugamálinu; hestamennsku. Hún vann sem fjósamaður og hænsnahirðir þann vetur ásamt dönsku vinnufólki, sem urðu góðir vinir hennar.
Keypti tvær skjóttar hryssur
Ingebjørg keypti 2 skjóttar hryssur, Skjónu frá Hofsstöðum og Skjónu frá Valdastöðum í Kjós – sem hún gaf nafnið Trinsa. Hjónin á Blikastöðum, Helga og Sigsteinn, veittu hryssunum ókeypis vist hjá stóðhesti og þær voru báðar fylfullar þegar Ingebjørg áformaði að flytja þær á skipi til Noregs.
Erfiðlega tókst henni þó að fá pláss fyrir hrossin. Það var ekki fyrr en nafna hennar og velgjörðarkona, Ingibjörg Pétursdóttir, móðir Jóns á Reykjum, klæddi sig upp á íslenskan búning, eins og hún var vön þegar hún fór í kaupstaðinn, mætti hjá skipafyrirtækinu og lét sig ekki fyrr en samningar höfðu tekist.
Eða eins og Ingebjørg segir í viðtali:
Það var eiginlega ómögulegt að koma þeim [hestunum] heim. Ekkert flug var og engin skip vildu taka hesta til flutnings, nema til Þýskalands. Að lokum tókst gamla frúin á bænum á hendur ferðalag til skipafyrirtækisins í Reykjavík og þar sat hún þar til þeir lofuðu að taka hestana mína með. Hún var ákveðin kona. Þannig komu fyrstu íslensku hestarnir til Noregs eftir stríð, árið 1959.
Með Heklunni til Noregs
Strandferðaskipið Hekla lagði af stað 13. júní með fylfullar hryssurnar um borð ásamt eigandanum; Ingebjørg Helkås. 55 árum síðar eru rúmlega 10.000 íslenskir hestar í Noregi og umfangsmikil starfsemi kringum þá; hestamannafélög um allt landið, ræktun, tamningar og mót.
Hekla kom að landi í Bergen. Þar voru gerðar kröfur um tollgreiðslur og sóttkví. Hestarnir voru því fluttir á bát til Stavanger og voru í sóttkví á prestssetrinu Sola, en þar átti Ingibjørg ættingja. Hún fékk gistingu og vinnu hjá ráðsmanninum á meðan hún beið. Þegar dýralæknar gáfu grænt ljós reið hún einsömul alla leið heim um heiðar og dali til Storebø í Helgja. Ferðin tók 14 daga og var söguleg á allan hátt. Hestarnir og hún vöktu mikla athygli hvar sem hún kom, því skjóttir hestar voru ekki algeng sjón í Noregi á þeim tíma. Hún mætti m.a. mæðginum á götu, og gall í stráknum:
„Sjáðu mamma þarna er kellíng ríðandi á kú!“
Þegar hún kom í hlað heima á Storebø voru liðnir 2 mánuðir frá því hún og hestarnir stigu á land í Bergen. Í dag er ekkert vandamál að flytja hesta til Noregs, engir tollar og engin sóttkví.
Hryssurnar köstuðu báðar hryssum. Ingibjørg vann á ýmsum stöðum og alltaf fékk hún að hafa hestana með. En það var eitt vandamál; nálægasti íslenski stóðhestur var í Þýskalandi. „Jón á Reykjum gaf mér ársgamlan stóðhest og frú Ingibjörg heimsótti skipaútgerðina í annað sinn. Nú sagðist hún lofa því að koma aldrei aftur, ef þeir lofuðu að taka þennan hest með til Noregs. Það gekk eftir, en flutningskostnaður var ekki lítill, og enn var krafist sóttkvíar.“ Svo segist Ingebjørgu frá í minningablöðum sínum.
Síðan þá hefur Ingebjørg Helkås Vaa átt íslenska hesta; keppt á þeim og notað þá til reiðar og undaneldis, en ekki síður til dráttar og landbúnaðarvinnu. Ingebjørg var eins lengi og heilsan leyfði á fullu í hestamennskunni og mætti á öll mót sem hún hafði tök á að sækja, var ýmist dómari eða keppandi og vann þá oft til verðlauna. Meðal annars vann hún þrívegis til verðlauna á Glettu sinni í skeiði og fékk í öll skiptin forláta svipu sem gefin var af íslenska landbúnaðarráðuneytinu.
Keppti í Norgesmesterskap 77 ára
Hún var 77 ára þegar hún keppti á hesti sínum Salka í Norgesmesterskap i brukshestridning og -kjöring árið 2010 í Hove rétt hjá Arendal, og var elsti keppandinn.
Ein af stofnfélögum Norsk Islandshestforening
Ingebjørg var brautryðjandi og ein af stofnfélögum Norsk Islandshestforening árið 1970. Hún hefur skrifað greinargott yfirlit um innflutning hesta frá Íslandi til Noregs fyrstu áratugina eftir að hún kom heim með sína hesta. Hún vildi hafa allar staðreyndir á hreinu og færði m.a. ættbók um íslenska hesta í meira en 30 ár. Í bréfi segist hún vakna snemma á morgnana til að sinna ættbókarfærslum áður en hún fer í fjósið – það var hennar prívat tími. Ingebjørg var heiðursfélagi í Norsk Islandshestforening og Telemark hesteavlslag – og kölluð upp á norsku „mor islandshest“ (sbr. heftið „På tur med islandshest“). Hún hafði það að markmiði að stuðla að ræktun og varðveislu eldri kynja húsdýra. Hún hafði óbilandi áhuga á varðveislu kúastofnsins Telemarks-kyri, og er sú barátta hennar skjalfest. Hún vildi einnig sýna og sanna að íslenskir hestar væru ekki síðri brúkunarhestar en norskir – og að auki væru þeir prýðis reiðhestar; betri en þeir norsku. Henni tókst þetta.
Með sex Telemarkskýr og íslenska hesta
Á sjöunda áratugnum tók Ingebjørg við ráðsmennsku á litlu býli í Eidsbygda við Ulefoss, Kåsa. Eigendur bjuggu í bænum Skien, ráku þar gosdrykkjaverksmiðjuna Trio og notuðu Kåsa sem sumarhús, en býlið hafði verið eign fjölskyldu þeirra.
Þarna fékk Ingebjørg tækifæri til að vera bóndi í níu ár, með sex Telemarkskýr og íslenska hesta. Hún notaði hestana við dagleg störf; plægja akra, hirða hey, draga kerrur og hvað eina annað sem til féll. Einnig var skroppið ríðandi í búðina að sækja vistir og aðrar nauðsynjar; um 20 km leið, eða bara í venjulegan útreiðartúr. Hún var reyndar með dráttarvél líka, en notaði hestana frekar.
Fékk til sín íslenska hjálparkonu á sumrin
Meðan hún var á Kåsa fékk hún til sín íslenska hjálparkonu á sumrin, og var undirrituð ein af þeim árið 1969, á fimmtánda ári. Við vorum bara tvær í heimili – nema um helgar þegar fjölskyldan frá Skien kom til dvalar.
Ingebjørg var að eðlisfari afskaplega nægjusöm manneskja að öllu leyti og praktísk. Hún eldaði einu sinni í viku og síðan var sami maturinn alla vikuna. Hún bakaði allt brauð, mikið hollustubrauð með alls konar kornum, og var ekki að bruðla mikið með aðkeypt álegg annað en ost. Hana dreymdi um að búa til skyr – en það lukkaðist einhvern veginn ekki, þrátt fyrir margar tilraunir.
Þveginn var stórþvottur í suðupotti einu sinni í mánuði og þvotturinn fluttur drjúga leið að Nome-ánni til skolunar. Hún fékk enga utanaðkomandi hjálp nema ef til vill til að laga vélar. Mjólkað var í höndum og engin sjálfvirkni eða verksmiðjubúskapur þar á ferðinni. Ekki var mikið verið að fara í bað og ekki var þarna vatnsklósett, heldur útikamar með dagblöðum til lestrar og þerrunar.
Gott samband var við alla nágranna, enda Ingebjørg rækileg, hjálpsöm og heiðarleg og aldrei neitt vesen. Hún var auk þess mannasættir. Svo hafði hún gaman af að syngja og dansa; spjalla og spekúlera.
Þarna lærðum við unglingsstelpurnar ótrúlega mikið – um leið og við vorum hjálparhönd við búskapinn. Við lærðum að mjólka, keyra traktor, bakka með kerru, hirða hey upp á norsku, kalla á kýrnar, girða, róa báti; við lærðum á nýjar plöntur og tré; við kynntumst góðu fólki og síðast en ekki síst lærðum við norsku. Frá fyrsta degi talaði Ingebjørg norsku og það enga venjulega ríkisnorsku. En þegar skilningurinn var enginn þá nefndi hún íslenska orðið – sem hún kunni auðvitað.
Ég á Ingebjørg margt að þakka, og ekki síst þolinmæðina sem hún sýndi unglingi sem vildi frekar fara á útidansleik í næstu sveit heldur en á fyrirlestur hjá byggðasögufélaginu, og frekar skreppa 20 km í sjoppuna en fara á bæi að spjalla og þiggja kaffiveitingar. Fyrir mína parta þá lagði dvölin á Kåsa hjá Ingebjørgu grundvöll að ástfóstri og áhuga á norrænum nágrönnum okkar og hafa leiðir mínar margsinnis legið á fornar slóðir í Eidsbygda, Ulefoss, Lunde og Skien. Þar á ég hjartkæra vini.
Ingebjørg hitti sinn tilvonandi eiginmann, Jon Vaa frá Vinje, giftist honum og fluttist þangað. Ingibjörg og Jon voru fyrstu 11 búskaparárin ráðsmenn á bænum Øye í Vinje, en tóku þá við búskap á Vehus, æskuheimili Jons. Dóttir þeirra, Hilda, hefur nú tekið við búinu ásamt manni sínum, Hans Martin Huse, og tveimur sonum, Hilmari og Jon Toralv. Hún heldur uppi merki móður sinnar, enda umgengist hesta og verið með í félagsskap eigenda íslenskra hesta frá því hún fæddist.
Hélt tryggð við íslenska vini
Ingebjørg kom oftsinnis til Íslands og hélt mikilli tryggð og vináttu við sína gömlu húsbændur á Reykjum og þeirra fjölskyldur, sem og fjölmarga aðra vini. Síðast komu þau Jon árið 2013, og þá var með þeim í för annar dóttursonurinn.
Ingebjørg Helkås er kvödd með virðingu og þakklæti fyrir vináttu og tryggð. Ævistarf hennar snerist um íslenska hestinn og hefur skilað ríkulegum árangri.
Helga Jónsdóttir