Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Líf&Starf 3. janúar 2019
Vörur þróaðar úr ærkjöti, smjöri og kartöflum
Höfundur: smh
Nokkrir matarfrumkvöðlar sameinuðust í vinnslusmiðjunni Nordic Kitchen á Íslandi nýverið til að þróa vörur sínar og fá leiðsögn frá reyndu fagfólki. Áhugaverðar matvörur eru í þróun og má nefna snakk úr berjalegnu ærkjöti og kartöflu-knish, vegan-ost og smjörvörur.
Á dögunum var í Bændablaðinu sagt frá Facebook-hópnum Eldstæðinu, sem Eva Michelsen eigandi Michelsen Konfekt á Íslandi stofnaði. Hún hugsar sér Eldstæðið sem samstarfsvettvang fyrir matarfrumkvöðla og spratt vinnusmiðjan Nordic Kitchen á Íslandi úr þeim jarðvegi.
Eva hafði kynnst rekstri vinnslueldhúsa í Washington í Bandaríkjunum og sótti í kjölfarið um styrk í Rising North sjóðinn til að setja upp smækkaða mynd hér á Íslandi, af því sem hún sá í Washington. Íslenska smiðjan var þannig hluti af vinnslumiðjuseríu sem haldin var í Helsinki og Stokkhólmi, auk Reykjavíkur.
Vörur á mismunandi þróunarstigi
Að sögn Evu fór fyrri dagur smiðjunnar fram í Húsi Sjávarklasans en sá seinni í nemaeldhúsi Menntaskólans í Kópavogi. Þátttakendur í smiðjunni voru 15 með 12 vörutegundir, en matarfrumkvöðlarnir eru á mismunandi stigum framleiðslu, sölu og markaðssetningu á sínum vörum; ýmist á algjöru frumstigi, þróunarstigi, á leið í verslanir eða komnar nú þegar í hillur verslana.
Um fjölþjóðlegan hóp af fólki var að ræða sem tók þátt, sem á það þó sameiginlegt að hafa hug á því að markaðssetja vörur sínar hér á Íslandi. Þátttakendur í vinnusmiðjunni fengu leiðsögn í framleiðslu, umgjörð og umbúðum, markaðssetningu og öðru sem lýtur að því að koma nýrri matartengdri hugmynd á markað.
Í leit að húsnæði fyrir Eldstæðið
Eva segir að leitað sé að hentugu húsnæði fyrir Eldstæðið, hún finni að mikill áhugi sé meðal matarfrumkvöðlanna að hafa fasta sameiginlega góða aðstöðu. „Ef einhverjir geta bent mér á húsnæði eða eiga slíkt – sem ekki er of dýrt – mega þeir endilega hafa samband við mig.
Ég finn að það er mikill áhugi hjá fólki og margir hafa verið að missa húsnæði að undanförnu svo ég held að þörfin hafi jafnvel aukist.“
Ærberjasnakk. Bóndinn Guðný Harðardóttir vinnur með sitt eigið lambakjöt frá Breiðdalsvík á Austfjörðum.
Vörurnar sem unnið var með í vinnslumiðunni
Jökla, fyrsti íslenski rjómalíkjörinn. Frumkvöðlar eru Pétur Pétursson og Sigríður Sigurðardóttir.
Handgerð lífræn rabarbarasulta unnin eftir gamalli aðferð í ýmsum tilbrigðum. Fengin frá íslenskum bónda og til í takmörkuðu upplagi. Frumkvöðull er Auður B. Ólafsdóttir. Fáanlegt í Jólaþorpi Hafnarfjarðar, fyrstu og síðustu helgina í desember.
Nýtt Pestó sinnep frá Sælkerasinnepi Svövu (www.sinnep.is). Frumkvöðullinn er Svava Hrönn Guðmundsdóttir.
Nýtt deluxe pizza deig og pizzasósa. Pizza deig af nýjum staðli en sést nú þegar í verslunum um land allt. Verkefnið er enn á frumstigi, en frumkvöðull er Guðmundur Már Einarsson.
Handgerður vegan-ostur, vara sem er í þróun þar sem nýttar eru cashew-hnetur í framleiðsluna. Frumkvöðullinn er Erlendur Eiríksson, matreiðslumeistari og framkvæmdastjóri Skyrgerðarinnar í Hveragerði.
Artisan handunnið smjör.
Ærberjasnakk. Bóndinn Guðný Harðardóttir vinnur með sitt eigið lambakjöt frá Breiðdalsvík á Austfjörðum, tínir ber og jurtir úr eigin landi og notar sem marineringu/krydd. Stuðlað er að fullnýtingu afurða þar á bæ. Þetta verður ný vara á markaði og er hún í þróun.
VÅRK vill auka úrvalið af góðum sveppum á Íslandi. Frumkvöðlar eru Malthe Gaarden og Davið Erik Mollberg. Þeir hafa þróað keramikpott sem selst með sveppagróum og eina sem þarf að bæta út í pottinn er notaður kaffikorgur og Íslendingar geta fengið heimaræktaða ostrusveppi á eldhúsborðinu hjá sér.
Sykurlausar orkustangir. Dröfn Svavarsdóttir hefur verið að þróa sykurlausar orkustangir, þ.e.a.s. engin aukaefni, enginn sykur og engin sætuefni. Allt gert með náttúrulegum hráefnum.
Nýting á aukaafurðum af ilmkjarnaolíuframleiðslu. Elín Hrund Þorgeirsdóttir vinnur með ilmkjarnaolíur undir heitinu Nordic Angan og af framleiðslunni myndast aukaafurð sem nefnist Hydrosol og er hún að leita leiða til að nýta þessa afurð í stað þess að henda.
Knish úr kartöflum: götumatur sem gerður er úr kartöflum og hægt er að fylla með ýmsu. Frumkvöðull bakvið vöruna er Michelle Goldberg sem tekur áhrif með sér frá Bandaríkjunum. Þessi hugmynd er á frumstigi hér á landi.
Bone & Marrow voru með skírt smjör (ghee/clarified butter). Fyrirtækið er þegar með tvær gerðir af beinaseiði á markaði. Frumkvöðull er Björk Harðardóttir.
Leiðbeinendur og fyrirlesarar:
Björn Bragi Bragason, forseti Klúbbs matreiðslumeistara og meðlimur Íslenska kokkalandsliðsins.
Ragnheiður Axel Eyjólfsdóttir annar stofnenda Lady Brewery.
Ingi Björn Sigurðsson, verkefnastjóri og mataráhugamaður hjá Icelandic startups.
Eva Michelsen, eigandi Michelsen Konfekt og stofnandi Nordic Kitchen Vinnusmiðjunnar.
Federico Ronca, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Sweden Foodtech.
Óskar Þórðarson, einn af stofnendum Omnom Súkkulaði.
Jóhanna A. Gunnarsdóttir, Gæðastjóri framleiðslusviðs hjá Nóa Síríus.