Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Epli – súr, sæt og forboðin
Á faglegum nótum 22. desember 2015

Epli – súr, sæt og forboðin

Höfundur: Vilmundur Hansen

Epli eru fjölbreytt og harðgerð og sá ávöxtur sem mest er ræktaður á norðurhveli jarðar. Eplayrki skipta þúsundum og hvert þeirra hefur sitt sérstaka bragð og nokkur þeirra hafa reynst ágætlega í ræktun hér á landi.

Árið 2013 var skráð heims­framleiðsla á eplum rúm 60 milljón tonn. Kínverjar rækta allra þjóða mest eða tæp 40 milljón tonn og kemur rúmlega helmingur allra epla á markaði frá Kína. Helmingur allra epla í Kína er svo ræktaður í þremur héruðum; Shandong, Shanxi og Hennan. Bandaríkin eru í öðru sæti þegar kemur að ræktun epla, rétt rúm 4 milljón tonn, Tyrkland er í þriðja sæti með 3,1 milljón tonn, Pólland var í fjórða sæti árið 2013 með rúm þrjú milljón tonn og Ítalía í því fimmta og framleiddi 2,2 milljón tonn. Í sjötta til fimmtánda sæti eru Indland, Frakkland, Síle, Íran, Rússland, Argentína, Brasilía, Úkraína, Úsbekistan og Mexíkó sem framleiða frá tæpum tveimur milljónum tonna niður í 858 þúsund tonn.

Rauð epli vinsælust

Innflutningur á eplum til Íslands nam um 4000 tonn árið 2014 og mest er flutt inni frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Argentínu, Kína, Hollandi og Ítalíu. Samkvæmt upplýsingum frá Bönunum ehf. eru rauð epli vinsælust. Red Deliciuos, sem kemur upprunalega frá Bandríkjunum, seljast best en yrkið Granny Smith, sem er grænt og frá Ástralíu, hefur verið að sækja á. Auk þess sem vinsældir Jonagold og Pink Lady hafa verið að aukast.

Eplið á skilningstrénu

Frægasta epli sögunnar er án efa eplið sem Adam og Eva eiga að hafa borðað af og er kennt við skilningstréð og þau gerð brottræk úr Paradís fyrir. Ólíklegt er þó að um sé að ræða epli því litlar líkur eru á að eplatré hafi vaxið á söguslóðum Biblíunnar. Aftur á móti er erfitt að segja fyrir víst hvað óx í Paradís sköpunarsögunnar. Sé sagan um aldingarðinn Eden tekin trúanlega hefur Guð gróðursett fyrsta eplatréð.

Siðbreytingamaðurinn Marteinn Lúter var gallharður ræktandi eplatrjáa og sagði að þrátt fyrir að hann vissi að heimsendir yrði daginn eftir mundi hann samt planta eplatré. Epli koma líka fyrir í vísindum því þar sem Isaac Newton sat undir tré einn góðviðrisdag sá hann epli falla til jarðar af trjágrein. Í framhaldinu velti hann fyrir sér af hverju eplið féll í stað þess að svífa upp í loftið og til varð hugmyndin um aðdráttarafl jarðar.

Annað frægt epli er það sem stóð í stúlkunni í ævintýrinu um Mjallhvíti og ekki má gleyma þrætueplinu súra sem dafnar víða svo vel.

Grasfræði og ræktun

Epli, Malus domestica, eru lauf- fellandi tré af rósaætt. Eins og nafnið domestica gefur til kynna er um ræktaða tegund að ræða sem aftur skiptist í hátt í sjö þúsund yrki matar- og skrautepla.

Í náttúrulegum heimkynnum sínum geta eplatré náð tólf metra hæð og þau eru með trefjarót sem liggur grunnt í jarðvegi. Blöðin ljósgræn, stakstæð, einföld egglaga með oddi í endann og smásagtennt, 5 til 12 sentímetra löng og 3 til 6 á breidd. Blómin 2 til 3,5 sentímetrar í þvermál, hvít eða fölbleik og með fimm krónublöðum. Tvíkynja og frjóvgast í náttúrunni með býflugum. Aldinið eru epli sem eru misjöfn að stærð og lögun. Hýðið breytilegt að lit, rauð, rauðblá, gul, bleik, græn eða marglit en aldinholdið fölgulhvítt. Misjafnlega mörg fræ í hverju aldini. Fræin oft tárlaga og innihalda smávægilegt magn að blásýru og geta því verið eitruð í miklu magni.

Eplatrjám er yfirleitt fjölgað með ágræðslu og því allir einstaklingar sem bera sama yrkisheiti eins og Red Deliciuos eða Granny Smith sami einstaklingurinn sem kom af fræi en búið er að fjölga með græðlingum og því klónar. Genamengi eplatrjáa er fjölbreytt og geta tré sem vaxa upp af fræjum sama aldins verið mjög ólík þrátt fyrir að öll yrki eigi sér sameiginlegan forföður.

Ávaxtatré eru sjálffrjóvgandi eða ekki og sum eru það sem kallað er hálfsjálffrjóvgandi. Ef um er að ræða tré sem ekki frjóvga sig sjálf verður að hafa að minnsta kosti tvö tré af ólíkum yrkjum til að frjóvgun geti átt sér stað. Þetta stafar af því að tré sem eru af sama yrki eru í raun sama planta sem fjölgað hefur verið kynlaust.

Ræktuð eplatré eru undantekningarlaust ágrædd á rót sérræktaðra rótaryrkja því rætur yrkja sem gefa mikinn ávöxt eru yfirleitt með lélega rót. Rótarstofnar eplatrjáa eru fjölmargir og ákvarða þeir hæð trésins.

Eplatré kjósa næringarríkan, sandblendinn og velframræstan moldarjarðveg með sýrustigi frá pH 5,8 til 7. Uppskera af eplatrjám fer eftir ræktunarskilyrðum og er mismunandi milli yrkja og getur verið allt upp í 200 kíló á ári.

Epli og varnarefni

Fjöldi skordýra, vírusa, sveppa og baktería geta reynst ræktendum og framleiðendum epla erfiðir og mikið um notkun varnarefna í stórræktun. Auk þess sem epli eru stundum úðuð með efnum áður en þau eru sett í geymslu sem gerir framleiðendum kleift að geyma þau í allt að ár áður en þau eru sett á markað.

Mest af eplum eru borðuð hrá en þau sem ekki þykja nógu góð til átu eru meðal annars notuð í eplasafa, síder og calvados.

Úttekt stjórnvalda í Kína árið 2014 sýndi að 1/5 af ræktarlandi þar er mengaður af skordýra- og örgresisefnum og þungamálmum eins og arseniki, kadmíum og nikkel.

Notkun á skordýraeitri á vissum svæðum í Kína hefur leitt til hruns býflugnastofna en flugurnar sjá meðal annars um að frjóvga eplatrén. Ástandið er sums staðar svo slæmt að gripið hefur verið til þess ráðs að láta þúsundir fólks bera frjó milli frævils og frævu með hænsnafjöðrum og frjóvga eplatrén þannig vegna skorts á býflugum. Fullorðnir bera frjóið milli neðstu blómanna en börn klifra upp í trén og frjóvga blómin efst.

Í stórræktun eru epli oft úðuð með varnarefnum eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi en ekki endilega vegna þess að það þurfi og kallast það forvarnir. Framleiðsla á lífrænum eplum er mest í Bandaríkjunum.

Uppruni og útbreiðsla

Uppruni ræktaðra epla er rakinn til villi- eða skógartegundar sem kallast Malus sieversii og finnst villt í fjalllendi Mið-Asíu, Kasakstan, Kyrgyzstan og Tien Shan-héraði í Kína.

Forfeður og -mæður nútíma epla voru mun minni en þau epli sem við þekkjum í dag, súr, hörð undir tönn og mörg óæt. Í gegnum árþúsundin hafa menn og skepnur, eins og til dæmis skógarbirnir, valið bestu aldinin til átu og dreift fræjum þeirra í gegnum metingarfærin. Á þann hátt hefur smám saman trjám með aldinum með eftirsóknarverðu bragði og sætumagni fjölgað áður en skipulagðar kynbætur hófust. Talið er að skipuleg ræktun epla hafi hafist í Kasakstan.

Frá Mið-Asíu breiddust epli út til austurs og vesturs. Kínverjar og Rómverjar komust snemma upp á lagið með að græða greinar af trjám með eftirsóknarverða ávexti á rætur trjáa sem báru ekki eins góð aldin og þannig hófst skipleg ræktun á eplum.

Epli alls staðar

Til er steintafla frá Mesópótamíu frá um 1500 fyrir Krist þar sem sagt er frá viðskiptum með eplatrjáalund og var verðið þrjár úrvals kindur. Tvö hundruð árum síðar skipaði Ramses faraó í Egyptalandi fyrir um að epli skyldu ræktuð við ósa Nílarfljóts.

Rómverjar fluttu með sér epli, sem þeir nefndu melónur, og fræ í landvinningahernaði sínum um Evrópu norðanverða og með tímanum voru eplatré ræktuð um stóran hluta álfunnar, á sunnanverðum Bretlandseyjum og Skandinavíu.

Frá Evrópu bárust svo ræktuð epli til nýja heimsins með evrópskum landnemum. Einn af þeim sem átti þátt í útbreiðslu epla frá Evrópu um austanverð miðríki Bandaríkjanna var Swedenborgartrúboðinn John Chapman sem var kallaður Johnny Appleseed. Ástæðan var sú að hann var iðinn við að sá eplafræjum hvar sem hann fór. Auk þess var hann útsjónarsamur í viðskiptum og langt frá því að hann sáði fræjunum tvist og bast. Hann valdi ræktunarstaðina gætilega og helst þar sem von var á að landnemar settust að á næstu árum. Eftir að byggð fór að rísa seld Johnny landnemunum tré og áfengan síder sem hann bruggaði úr eplunum. Jonni Eplasteinn var ekki bara duglegur garðyrkjumaður, hann var líka útsmoginn sprúttsali.

Villi- eða skógarepli

Fyrir tíma ræktaðra epla í Evrópu uxu þar, og reyndar í Bandaríkjunum og Asíu líka, aðrar tegundir trjáa af ættkvíslinni Malus sem eru kölluð villi- eða skógarepli og þykja engan veginn eins bragðgóð og ræktuð epli.

Dæmi um slíkar tegundir eru kínverskt skrautepli M. spectabilis og M. baccata sem vex í Síberíu. Japanir framræktuðu villieplið M. floribunda í fallegt skrauttré. Í Norður-Ameríku vaxa tegundir eins og M. coronaria, M. fusca, M. ioensis og M. angustifolia á mismunandi stöðum í álfunni.

Fornleifar sem fundust í helli í Sviss benda til að fólk á járnöld hafi safnað og geymt villiepli til neyslu og að um M. sieversii hafi verið að ræða.

Epli í goðsögnum

Epli eru víða nefnd í goðsögnum, grískum og norrænum, og fornum bókmenntum en bent hefur verið á að orðið epli var lengi notað sem heiti á margs konar framandi ávöxtum.

Í norrænni goðafræði segir frá því að goðin þurfi reglulega að fá bita af eplum Iðunnar til að eldast ekki. Í Skáldskaparmálum í Eddu Snorra Sturlusonar segir frá því þegar eplunum var stolið. Frásögnin er nokkurn veginn á þá leið að Loki og Hænir voru á ferðalagi og að steikja kjöt en gekk það illa. Í tré ofan við þá sat jötunninn Þjassi í gervi arnar og bauðst til að hjálpa þeim fengi hann hluta af kjötinu. Örninn sveik þá aftur á móti og flaug burt með allt kjötið þegar það var steikt. Loki sætti sig ekki við athæfið og sló til arnarins með stórum staf sem festist við fætur hans og dróst Loki langa leið þar sem hann sleppti ekki stafnum. Þjassi hafði þannig Loka í kló sinni og neitaði að sleppa honum nema hann afhenti sér bæði Iðunni og gulleplin.

Loki gekk að skilmálunum og þegar hann kom aftur í Ásgarð tældi hann Iðunni með eplin sín út í skóg þar sem Þjassi í arnarlíki læsti klónum í Iðunni og eplin og fór með til Jötunheima.

Goðin tók umsvifalaust að eldast eins og dauðlegir menn þar sem þau fengu ekki eplabitann sinn. Fljótlega komst upp um ráðabrugg Loka og honum gert að ná í Iðunni og eplin hið bráðasta. Til þess fékk Loki lánaðan valsham Freyju og flaug til Jötunheima þar sem hann fann Iðunni í höll Þjassa. Breytti hann Iðunni, sem enn var með eplin, í hnetu og flaug með hana aftur í Ásgarð. Þjassi var að vonum ekki sáttur og elti Loka í arnarlíki inn í Ásgarð. Í sömu mund kveiktu æsirnir eld í spónahrúgu og þegar Þjassi flaug yfir hana sviðnuðu vængirnir þannig að hann féll til jarðar þar sem þeir drápu hann. Æsir endurheimtu þannig epli, fengu sér bita og tryggðu sér eilífa æsku.

Trébalar með leifum af nokkrum villieplum voru meðal þess sem fannst við uppgröft á haugnum sem geymdi Oseberg-skipið í Noregi. Samkvæmt aldursgreiningu var skipið heygt árið 834.

Í grískri goðafræði gerðu þrjár gyðjur, Hera, Aþena og Afródíta, tilkall til eplis sem sagt væri handa þeirri fallegustu. Prinsinn París frá Troju var fenginn til að dæma um fegurð gyðjanna. Helena og Aþena mútuðu honum með gulli en Afródíta bauð honum fegurstu konu í heimi, Helenu fögru. París steinféll fyrir Helenu og Afródíta hlaut eplið en afleiðing fegurðarsamkeppninnar enduðu í umsátri Spörtumanna um Trójuborg sem kallað er Trójustríðið.

Rök hafa verið færð fyrir því að sá siður að skreyta tré um jólin sé kominn frá Keltum sem hengdu epli á sígræn tré um vetrarsólstöður til að tryggja uppskeru komandi árs.

Epli á Íslandi

Áhugi garðeigenda á ræktun ávaxtatrjáa og sérstaklega epla hefur aukist mikið undanfarin ár og margir náð góðum árangri. Fyrsta eplatréð sem sögur fara af hér var ræktað upp af fræi á Akureyri skömmu eftir 1880.

Fyrir ekki svo mörgum áratugum voru epli keypt um jólin og gefin í skóinn og stundum sagt að það væri eplalykt í húsinu. Lykt af búðareplum, þessum sirka 10 yrkjum sem eru um 90% allra epla á markaði, er eitthvað sem hefur horfið með nútíma geymsluaðferðum sem felast í því að stöðva útgufun ávaxtanna með efnablöndu sem úðað er á þau.

Epli voru á boðstólum sem nýlenduvara í verslunum í Reykjavík í lok nítjándu aldar eins og sjá má á eftirfarandi auglýsingu sem birtist í 56. tölublaði Ísafoldar 1888.

„Meðan verið er að koma í lag sölubúð í íbúðarhúsi mínu, verzla jeg í hinu nýja húsi hr. kaupmanns G. Zoéga („Liverpool“) og hef jeg þessar vörur á boðatólum.

Mysuost, Sveitserost, Kaffi, Exportkaffi. Kandís, Hvítt sykur höggvinn og í toppum, Púðursykur, tvær tegundir, „strau“sykur, Hrísgrjón heil og hálf, Sagógrjón stór og smá, Semoulle, Hrísmjöl, Flórmjöl, Rúsínur, Sveskjur, Fíkjur, Epli, Chokolade, Rjól, Munntóbak, Vindla, Brennivín, Sápu, Sóda, Fínt brauð bæði laust og í máluðum dósum, margar tegundir af ýmsu niðursoðnu, meðal annars íslenzkan Lax í 1 pd. dósum á 65 aura og Rjúpur á 85 aura. M. Johannessen.“

Eplayrki á Íslandi

Dæmi um yrki sem hafa reynst vel hér á landi eru Sävstaholm, Carroll, Haugmann, Melba, Quinte og Huvitus. Epli eru yfirleitt ekki sjálffrjóvgandi en undantekningar eru á því. Dæmi um sjálffrjóvgandi yrki eru Sunset og Scrumptious. Auk þess eru til yrki sem eru hálfsjálffrjóvgandi sem þýðir að þau geta frjóvgað sig sjálf en eru betri með öðrum tegundum. Dæmi um það eru Transparente Blanche og James Grieve. Einnig eru til yrki með þrjá litninga en þau eru ónothæf til að frjóvga með. Þar má nefna Close, Gravenstein og Jonagold.

Á svokölluðum fjölskyldutrjám eru mörg yrki grædd á einn stofn og þannig næst uppskera yfir lengri tíma og fjölbreytni í bragði og lit. Gallinn við fjölskyldutré er að ef eitt yrkið er mjög kraftmikið getur það vaxið fram úr öðrum og orðið ráðandi.

Munið að skræla epli fyrir neyslu.

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...