Auður, kvóti, mjólk og skuld
Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera í skuldasambandi við samvinnufélagið sitt veldur það ugg meðal þeirra sem ekki tilheyra hópnum. Staðan er sér í lagi athyglisverð þegar samvinnufélag þetta er gríðarlega fjársterkt veldi í atvinnulífinu.
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins gagnrýndi Baldur Helgi Benjamínsson, kúabóndi á Ytri- Tjörnum í Eyjafirði, aðkomu samvinnufélagsins Kaupfélags Skagfirðinga að viðskiptum með greiðslumark mjólkur. Í aðsendri grein sagði hann afskiptin skapa hróplegan aðstöðumun sem stuðli að sundrung innan atvinnugreinarinnar.
Markaður með greiðslumark í mjólk var haldinn í nóvember sl. Þar fóru fram viðskipti á framleiðslurétti á 1.048.500 lítrum af mjólk. Niðurstöður viðskiptanna urðu þau að 92,5% af því greiðslumarki sem skipti um eigendur fóru á bú staðsett á Norðvesturlandi. Þessir 970.000 lítrar skiptust niður á 24 bæi. Jafnvægisverðið reyndist 300 kr/ ltr. og námu heildarviðskiptin því nær 315 milljónum króna, þar af kom 291 milljón króna frá Norðvesturlandi. Fjórtán búanna keyptu hámarksmagn, 50.000 lítra, og greiddu framleiðendurnir fyrir það 15 milljónir króna hver.
Fjárhæðir sóttu bændur á svæðinu til Kaupfélags Skagfirðinga sem lánaði þeim fyrir kaupunum með vaxtalausri, óverðtryggðri fyrirgreiðslu – sem samkvæmt heimildum Bændablaðsins eru þess eðlis að bændurnir þurfa jafnvel ekki að byrja að borga til baka fyrr en eftir nokkur ár.
Baldur segir í grein sinni að það sé ekki vafi að þessi fyrirgreiðsla KS hafi veruleg áhrif á verðmyndun og umfang viðskipta með greiðslumark á mjólk á tilboðsmarkaði. Hann mælir fyrir því að viðskipti með stuðningsgreiðslur hætti.
„Bændur og ríkisvaldið þurfa í sameiningu að varða leiðina út úr núverandi öngstræti í átt að farsælla fyrirkomulagi mjólkurframleiðslunnar,“ segir Baldur Helgi meðal annars undir lok greinar sinnar sem lesa má með því að smella hér.
Umfang kaupfélagsins
Kaupfélag Skagfirðinga var stofnað árið 1889 og á því 135 ára starfsafmæli í ár. Félagsmenn voru 1.277 talsins árið 2022 samkvæmt ársreikningi og starfsmenn þess voru þá 233 talsins. Þórólfur Gíslason er kaupfélagsstjóri og hefur gegnt því starfi frá árinu 1988.
Tilgangur félagsins, samkvæmt samþykktum þess, er að annast á sem hagfelldastan hátt hvers konar viðskipti og þjónustu fyrir félagsmenn og aðra, að efla atvinnulíf í héraðinu með beinni og óbeinni þátttöku félagsins, að styrkja framtíð félagsins með því að treysta fjárhag þess og að viðhalda og útbreiða þekkingu almennings á samvinnustefnu og aðferðum hennar við að leysa félagsleg viðfangsefni.
KS heldur úti mikilli atvinnu- starfsemi í Skagafirði. Helstu rekstrareiningar móðurfélagsins eru mjólkurafurðastöð, kjötafurðastöð, bifreiðaverkstæði, vélaverkstæði, dagvöruverslun og byggingavöruverslun ásamt rekstrarvöruverslun.
Eiginfjárstaða KS er mjög sterk og stóð í 49,6 milljörðum króna árið 2022 samkvæmt ársreikningi. Hagnaður félagsins hefur verið viðvarandi og náði hann t.a.m. sögulegum hæðum árið 2021 þegar hann nam rúmum 5,4 milljörðum króna. KS og styrkur þess fyrir félagsmenn og héraðið er óumdeilt. Félagið byggir á gömlum grunni og styrkum stoðum og hefur tekist að aðlagast breytingum í efnahagsumhverfinu gegnum árin, m.a. með ýmsum fjárfestingum. Enda nær umfang KS í íslensku atvinnulífi langt út fyrir héraðið.
Samvinnufélagið á eignarhluti í 23 dótturfélögum og eiga þessi dótturfélög einnig dótturfélög sem eiga svo mörg eignarhluti og hlutabréf á hinum ýmsu sviðum í atvinnulífinu.
KS á einnig eignarhluti í að minnsta kosti tuttugu hlutdeildarfélögum og hlutafélögum, sem eiga svo jafnvel hlutdeild í fleiri félögum á einn eða annan hátt. Á þessum lista eru félög með milljarðaveltu og umsvifamiklir einstaklingar í atvinnulífinu þeim tengd.
Framleiðslugeta umfram kvóta
Kaupfélag Skagfirðinga hefur um árabil aðstoðað félagsmenn sína við uppbyggingu og eflingu reksturs og atvinnulífs enda einn tilgangur samvinnufélagsins.
Stuðningurinn getur m.a. falist í því þegar bændur leggja í stórar fjárfestingar, til dæmis byggingu á fjósi. Þá geta þeir, samkvæmt heimildum Bændablaðsins, sótt ákveðinn stuðning til að brúa bil í fjármögnun til KS á góðum kjörum.
Stuðningurinn getur einnig falist í kjaragóðum fyrirgreiðslum fyrir kaupum á greiðslumarki. Í ársreikningum búa í Skagafirði má finna þónokkur dæmi þess að skuldir við Kaupfélag Skagfirðinga séu skráðar sem óverðtryggð og vaxtalaus langtímalán.
Uppbygging á innviðum í mjólkuriðnaði hefur enda verið mikil á félagssvæði KS undanfarin ár. Samkvæmt tölum frá matvælaráðuneytinu nam fjárfestingastuðningur í nautgriparækt til Skagafjarðar um 418 milljónum króna fyrir fjárfestingar upp á 7,3 milljarða króna á árunum 2017–2023.
Það blasir við að vegna þessarar miklu uppbyggingar er framleiðslu geta fjósa í Skagafirði orðin mun meiri en framleiðsluréttur innan svæðisins. Því kemur ekki á óvart að bændur með framleiðslugetu umfram kvóta sækist eftir kaupum á greiðslumarki.
Skuldasamband og tryggðabönd
Heildarendurskoðun á styrkjakerfi í landbúnaði er í farvatninu og þegar er hafin vinna við að skoða núverandi styrkjaumhverfi í samanburði við styrkjakerfi annarra landa.
Styrkjakerfi í mjólkurframleiðslu byggir á framleiðslustýringu með kvóta sem er framseljanlegur á miðlægum markaði.
Mjólkurframleiðendur sem eiga bakland í Kaupfélagi Skagfirðinga eru í góðri stöðu í núverandi kerfi.
Með myndarlegri uppbyggingu framleiðslueininga á þessu rótgróna landbúnaðarsvæði er samvinnufélagið að gera það sem því er ætlað að gera; að efla atvinnulíf í héraðinu með því að aðstoða félagsmenn sína við að sækja framleiðsluréttinn.
Á meðan Skagfirðingar tala um öfund Eyfirðinga gagnvart hinni stöndugu aðstöðu sinni, er ekki nema von að spurt sé hvort ekki þurfi að skoða þann aðstöðumun sem liggur í því að framleiða mjólk utan eða innan hins svokallaða skagfirska efnahagssvæðis.
Enda er þessi söfnun framleiðsluréttar að verða til þess að afar fjársterkur aðili í atvinnulífinu, Kaupfélag Skagfirðinga, heldur á stórum hluta mjólkurkvóta landsins með lánum til félagsmanna sinna og þar með áskrift að opinberu stuðningsfé. Aðferðir og nálgun samvinnufélagsins eru að einhverju leyti ágæt, að minnsta kosti fyrir þá bændur sem eru félagsmenn KS. En svo er stóra spurningin hvort það sé gott eða slæmt, rétt eða rangt í stærra samhengi.
Ógjarnan vildu menn tjá sig undir nafni þótt margir væru reiðubúnir að ræða málin við vinnslu þessarar greinar. Einn kúabóndi orðaði það svo að bændur hefðu lítið val. Veruleiki þeirra lægi í því að ákveða hvort þeir vildu heldur skulda bankanum eða kaupfélaginu, og taka svo því sem fylgdi þeim samningum.
Því tengt nefndu sumir bændur að með því að vera í viðskiptasambandi við samvinnufélagið fylgdu ákveðin tryggðarbindandi skilyrði, sem gætu verið þess eðlis að KS hefði vald til að láta lán á tafarlausan uppgreiðslugjalddaga af ýmsum orsökum. Því væri bóndi bundinn á klafa um leið og hann nyti fyrirgreiðslu félagsins.
Aðrir sögðu að svo væri alls ekki raunin. Menn hefðu frjálsar hendur í sínum búskap, enda þyrftu bændur að hafa alla anga úti til þess eins að láta reksturinn ganga upp.